Séreignastefnan og asninn ég.

Ef hugsunin nær ekki út fyrir sjúkan lagaramma sérhagsmuna er lítið um lausnir og úrræði. Eru valdhafar að vinna stríðið við almúgann?

Það mikilvægasta fyrir framtíðina er að byrði á framtíðarskattkerfið, sem afkomendur okkar koma til með að halda uppi, verði sem minnst.

Við rekum lífeyriskerfi sem byggist á þenslu, skuldaþrælkun og eignamyndun af stærðargráðu sem vonlaust er að geyma í svo litlu hagkerfi, hvað þá að losa þær. Er ekki kominn tími til að byggja upp nýtt kerfi á grunni þess gamla sem gerir ungu fólki kleift að koma þaki yfir höfuðið og safna lífeyri á sínum eigin forsendum?

Ástæða bágrar stöðu lífeyrisþega í dag er ekki eingöngu sú að eignir sjóðanna brunnu upp á einhverju ímynduðu verðbólgubáli heldur að stjórnendur sjóðanna, sem voru um 90 talsins þegar mest var, stóðu ekki undir væntingum um að geyma peningana sem nú á að nota.

Það er ekki einfalt að brauðfæða í framtíðinni með þessum hætti og virðist ekkert auðveldara að geyma peninga en mat. Er því ekki að undra að sveltandi lýðurinn horfir spyrjandi á troðfullar matarkistur lífeyrissjóðanna sem telja okkur trú að um ferskmeti sé að ræða og alls ekki megi nota. Er farið að rotna í matarkistunum nú þegar og í hvaða ástandi verður innihaldið eftir 20 ár?

Þeir lífeyrisþegar sem standa best í dag eiga skuldlausar eða skuldlitlar eignir og hafa jafnvel náð að spara lítilræði með því að leggja til hliðar framhjá lögbundna kerfinu. Þessi hópur fer á lífeyri sem virkur neytandi til mikilla hagsbóta fyrir hagkerfið. Þetta vitum við, en við vitum ekki hvernig ástand skapast þegar afkomendur okkar verða skattpíndir til að halda uppi félagslegu húsnæðiskerfi og lágmarksframfærslu þegar skuldaþrælar nútímans fara eignalausir á lífeyri.

Stjórnvöld tala um að séreignastefnan sé liðin undir lok.

Ég tel að séreignastefnan hafi kennt okkur hið gagnstæða og hversu mikilvægt er að við bindum lífeyri okkar og framtíð í séreign.

Rekstrarkostnaður lífeyriskerfisins með innlendum fjárfestingagjöldum er ekki undir 3,3 milljörðum á ári sem jafngildir því að iðgjöld 11.458 einstaklinga með 200.000 kr. á mánuði fara í ekkert annað en að standa undir rekstrarkostnaði sjóðanna. Við þennan kostnað bætast svo erlend fjárfestingagjöld.

Hvað verða sjóðirnir búnir að tapa lífeyri okkar mörgum sinnum áður en við þurfum á honum að halda?

Það verður að hugsa kerfið upp á nýtt, jafna réttindi og fækka sjóðunum. Umræðan undanfarnar vikur um lýðskrum og rangláta mótmælendur er það versta sem ég hef orðið vitni að frá hruni. Sorglegast af öllu þykir mér hvernig áróðursvélar valdhafa virðast ná heljartökum á samfélaginu.

Mikið er í húfi fyrir valdhafa þessa lands að vinna stríðið við almúgann og troða á öllu sem heitir réttlæti og almenn skynsemi.

Ef hugsunin nær ekki út fyrir sjúkan lagaramma sérhagsmuna er lítið um lausnir og úrræði. Það væri óskandi að forystusveit verkalýðsins mótmælti óréttlætinu eins kröftuglega og hún mótmælir lýðskrumi þeirra sem vilja raunverulegar breytingar í stað endurreisnar sömu kerfisvillunnar og hrundi, og mun hrynja kerfisbundið um ókomna tíð.

En vissulega þurfum við að vera raunsæ alveg eins og pistlahöfundur hugsar með raunsæislegum hætti um framtíð sína og fjölskyldu.

Ef ég á að koma með raunsæislegar lausnir verð ég að hugsa út fyrir rammann, út fyrir lagaramma sérhagsmuna, út fyrir regluverk græðgisvæðingar, út fyrir samtryggingu valda, út fyrir pólitíska hagsmuni og út fyrir raunsæi þeirra sem allt þykjast vita um raunsæi.

Hugtök eins og kjölfestufjárfestar hljóma óþægilega kunnuglega nú þegar hrægammarnir sem græddu, og bera ábyrgð á óförum þjóðar, eru komnir heim með þýfið og spila sig saklausa bjargvætti í gervi fagfjárfesta.

Þjófur er sá kallaður sem stelur sér til matar en þeir sem stela milljörðum á kostnað heillar þjóðar,fagfjárfestar.  

Raunsæi ríkisstjórnarinnar í skattamálum má líkja við klyfjaðan asna. Í stað þess að létta honum byrðina svo hann komist lengra og léttari inn í framtíðina, verði duglegur, framleiðinn, jákvæður og vinnusamur asni, er lausn ráðamanna á vandanum að skella meiri byrðum á asnann. Asninn fer hægar yfir með hverju pundi sem á hann er lagt, alveg þangað til hann örmagnast og allir hinir asnarnir sem eftir eru þurfa að taka við því sem sá örmagna réði ekki við.

Er skrýtið að manni líði stundum eins og asna við að hlusta á ropið í pakksöddum ráðamönnum.

Yfirfullt hagkerfi heimsins af bréfaeignum og pappírsskuldum þarf stöðugt að leiðrétta sig með gríðarlegum eignatilfærslum sem stjórnað er af öflum sem hafa sjálfskipaðan einkarétt á að framleiða peninga úr þunnu lofti á kostnað allra hinna sem fyrir eru. Spákaupmenn og braskarar sem veðja á allt frá nauðsynjavörum sveltandi ríkja til ríkisgjaldmiðla hinna ríku, maka svo krókinn á öllu saman í skjóli laga og leyndarhyggju.

Allt er þetta gert á kostnað alþýðu allra landa. Að réttkjörnir gæslumenn okkar skuli verja þetta sjúka kerfi sem verið er að reisa á sömu brauðfótum og það síðasta sem hrundi er ömurlegt og ólíðandi.

Hver er lausnin á vandamálum samfélags sem uppfullt er af réttmætri vantrú og reiði? Vandamálin eru í rituðu máli, orðum og tölum.

Það vantar sárlega til valda, kjarkmikið hugsjónafólk sem er tilbúið að breyta forsendum á blöðum með penna að vopni, tilbúið að strika út óréttlæti og skrifa inn réttlæti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Góðir punktar hjá þér eins og undanfarið.

Einu haldbæru rökin sem ég hef heyrt um ágæti söfnunarsjóða í stað gegnumstreymissjóða er langtímaþróun á aldursdreifingu þjóðarinnar. Eftir ákveðið marga áratugi verður dreifingin jafnari á milli kynslóða. Færri yngri munu halda uppi fleiri eldri.

En eins og þú bendir réttilega á, þá virðast peningar hér á landi skemmast jafn hratt og matur. Við svo bættist innbyggð spilling og ábyrgðarleysi stjórnenda lífeyrissjóða. Þetta er svo samofið spilltu stjórnmálakerfi og tiltölulega fámennri valdaklíku hér á landi.

Óöryggi til langs tíma hér á landi er það mikið út af ofangreindu að við megum ekki við ytri áföllum eins og nálægu stríði, umhverfisslysi, náttúruhamförum eða byltingu. Á meðal mannsævi er líklegt að eitthvað af þessu gerist.

Fólk, sem ákvað núverandi fyrirkomulag á lífeyrissjóðsmálum varðandi innheimtu og ráðstöfun, hefur greinilega ekki kynnt sér mannkynsöguna. Það varir ekkert óbreytt að eilífu. Í besta falli hefur það ekki hugmynd um hvernig nútíma peningakerfi virka.

Sumarliði Einar Daðason, 24.11.2010 kl. 10:38

2 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Sumarliði

Mjög góðir punktar hjá þér.  Fólk, sem ákvað núverandi fyrirkomulag á lífeyrissjóðsmálum varðandi innheimtu og ráðstöfun, hefur greinilega ekki kynnt sér mannkynsöguna. Nákvæmlega!

Ég hef einfaldlega verið að benda á að best sé að binda framtíðarlífeyri í formi eigin eignamyndunnar en ekki að því stjórnlausa skrímsli sem lífeyrissjóðakerfið er orðið að. Einhvers konar sjálfskipað einka-Ríki í Ríki. 

Ragnar Þór Ingólfsson, 24.11.2010 kl. 11:15

3 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Fer fólk ekki að hætta að borga í sjóði sem fjárglæframenn stjórna ?

Til hvers ?

 Erla Magna

Erla Magna Alexandersdóttir, 24.11.2010 kl. 11:15

4 Smámynd: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir

Verst þykir mér að vera bundin samkvæmt lögum að borga í þessa sjóði en fá ekkert um það að segja hverjir stjórna þeim. Þetta virðist vera lenskan í þessu þjóðfélagi sem við búum í. Við borgum og þeir eyða. Ég er hætt að vera asni, segi því starfi hér með lausu.

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, 24.11.2010 kl. 11:43

5 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Guðrún, það er nefnilega málið. Það er ekki hægt að segja sig úr sjóðunum. Það er búið að festa það í landslög. Það er ekkert þak á innheimtukostnaði hjá þeim samkvæmt lögum. Þeir innheimta ávallt kostnað áður en þeir taka við innborgun í sjóðinn. Ef þú vilt ennþá ekki greiða þá mega þeir ganga á húsnæði þitt og selja það ofan af þér - sem þeir hika ekki við að gera. Það sama gildir um aðrar eignir þínar. Sem sagt, það má eyðileggja þinn eigin sparnað svo sjóðirnir geti sparað fyrir þig!

Sumarliði Einar Daðason, 24.11.2010 kl. 12:20

6 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Þakka innlit og athugasemdir.

Lykilatriði í þessu öllu saman er að sjóðsfélagar kjósi í sjórnir lífeyrissjóða.

Gegnsæi á að vera krafa í því sambandi. Í skjóli leyndarhyggju hafa stórnendur sjóðanna farið afar frjálslega með almannafé.

Sú hugmyndafræði sem sjóðirnir starfa eftir gengur ekki upp nema að litlum hluta. Við verðum að aftengja aðila vinnumarkaðarins úr stjórnum sjóðanna hið allra fyrsta.

Ragnar Þór Ingólfsson, 24.11.2010 kl. 13:49

7 identicon

Heill og sæll Ragnar Þór; jafnan - og þið önnur, gesta hans, hér á síðu !

Þakka þér fyrir; þessa tölu, Ragnar Þór.

En; hefir þú leitt hugann að því, að með óbreyttu stjórnarfari, á landi hér, munu Lífeyrissjóðirnir halda áfram; að rýrna og gliðna - og upp étast, í höndum æfiráðinna stjóra þeirra ?

Er það ekki; fólksins sjálfs, sem staðfastlega hefir greitt iðgjöld sín, til þessarra köngulóar vefjuðu sukkstofnana, sem fengið hafa að dafna óáreittar, að það; þ.e. fólkið sjálft, taki frumkvæðið, og fletti ofan af óskapnaðinum - með illu; eða þá, í skársta falli, góðu ?

Með kveðjum góðum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi    

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 24.11.2010 kl. 15:37

8 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Óskar, kæri vinur.

Það er hárrétt.Við fólkið getum gert nokkurn veginn það sem við viljum. Það virðist hinsvegar vera andskotanum erfiðara að rífa sveltandi lýðinn frá sjónvarpstækjunum og taka af skarið.

Eftir nýjustu fréttir af afskriftum og svo lánveitingum til einhverja kvótakónga úti á landi á eignum sem teknar voru af öðrum sem ekki þóknaðist elítunni á meðan lýðnum eru réttar lausnir á borð við yfirveðsett okurvaxtaskuldafangelsi með sjálfskuldarábyrgð, hlýtur að fara að draga til tíðinda.

Ég skrifaði þennan pistil fyrir um tveimur vikum síðan, hefði endað hann allt öðruvísi ef ég hefði skrifað hann í dag.

Ég sé bara ekki orðið aðra lausn en byltingu. Stjórnvöld eru á annarri pláhnetu. Umboð þeirra virðist hafa fokið úr höndunum á þeim á leiðinni inn í stjórnarráðið eftir síðustu kosningar.

Er að komast í byltingarham...

Ragnar Þór Ingólfsson, 24.11.2010 kl. 16:53

9 Smámynd: Júlíus Björnsson

Regluverkið sem við innleiddum hér er hluti skýringarinnar á óstöðvandi almennum lífskjarasamdrætti  af meiri hraði en en hjá flestum ríkjum heims.

Regluverk á grunn skorthagfræði, orku og hráefna.   Regluverk þríhliða samningaviðræðna og sérvalins fyrirfólks. Alþjóðafarandverkmanna og almennrar leiguliðavæðingar.  

Erlendir lánadrottnafjárfestar greiða ekki gamlar skuldir stjórnmálastéttarinnar í í fjárfestinga efnahagslögsögunni.   Þeir hámarka sinn eigin hagnað, til heimfærslu á langtíma forsendum.

Nýja stéttin það er að mínu mati stjórnmálasérhagsmunastéttin sem er sameiginlegur óvinur allra annarra Íslenskra vinnuaflstétta.

Hér mun vísitala meðatekna hafa hækkað um 6,0% síðustu 12 mánuði, vístala neysluvarnings [án húsnæðis þáttar] um 4,75% og fasteignaverð um 3,0%. 

Einkaneysla fárra? Nei.  Hærri laun vegna hærri skattprósentu, tel ég.

Hagvöxtur miðað við UK og Þýskaland verður áfram neikvæður. Ekki sá sami eða hærri.

Áhættu lífeyrissjóðakerfið hér heldur áfram að afskrifa.

Júlíus Björnsson, 24.11.2010 kl. 19:17

10 identicon

Sæll Raggi. Frábært að heyra í þér hjá Guðmundi Franklín á Útvarpi Sögu í morgun. Hvað segir frænkan þín núna?

Kveðja CanSwen.

Sveinbjörn Árnason (IP-tala skráð) 27.11.2010 kl. 23:36

11 identicon

EF þú manst ekki eftir mé þá er ég tvíburabróðir S.Ragnars.

sveinbjörn Árnason (IP-tala skráð) 27.11.2010 kl. 23:37

12 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Sveinbjörn

Jú hvort ég man. Við Vilhjálmur Birgis vorum hjá Guðmundi að ræða ýmislegt, þar á meðal lýðræðislegar hugmyndir Kristinns VR formanns sem reynir nú með öllum ráðum að loka félaginu eftir að hafa notið kjörgengis í fyrstu lýðræðislegu kosningunum í félaginu.

Hvað er annars að frétta af bróður þínum? það hefur ekkert heyrst frá honum í langan tíma. 

Ragnar Þór Ingólfsson, 29.11.2010 kl. 10:24

13 Smámynd: Júlíus Björnsson

http://ragnar73.blog.is/blog/ragnar73/entry/1119236/

Hér er efnhagstöðuleikagrunninn úr stóborgum meginlandsins. Jagngreiðslu sjóðirnir sem verðtryggja og afskrifa með lánum miðað við 30 ára til 45 ára starfsaldur : Allar greiðslur jafn háar að krónu tölu allan lánstíman enn mestar verðbætur=afskriftir er greiddar fyrst. Síðustu greiðslum fylgir jafnmikil verðbólgu afsláttur. 80% lána í USA eru hreinar jafngreiðlur. Þjóðverjar er með sama sjóðsgrunn en breytilega vexti til að afskrifa hundrað prósent. USA lántakar treysta ekki bönkum fyrir breytilegum nema um 20% þeirra.

Íslenska langtíma negam íbúðalánformið með falskri verðtryggingu er ólöglegt í flestum ríkjum USA.  

Júlíus Björnsson, 30.11.2010 kl. 06:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband