Verkalýðsforysta á Villigötum: Myntkörfulán og Úrræðin góðu!

Heimilin í sjálfskuldarábyrgð!

Við skoruðum á stjórnarmeirihluta VR að beita sér fyrir:

Raunverulegum úrræðum vegna myntkörfulána og stökkbreyttum höfuðstól húsnæðislána og hafni því úrræðaleysi sem í boði er.

Sjá svör mín með bláu en svör meirihlutans með rauðu. 

Hér er fullyrt að öll núverandi úrræði séu "óraunveruleg". Ekki er hægt að taka undir það þó þau henti fólki misjafnlega.  Úrræði af þessi tagi verða að vera efnahagslega og samfélagslega framkvæmanleg og gæta þarf jafnræðis og réttlætis. Stjórnvöld, í samráði við aðila vinnumarkaðarins - og þar með VR - eru að vinna og þróa frekari úrræði í gegnum stöðugleikasáttmálann. Vonandi kemur afrakstur þeirrar vinnu bráðlega í ljós.

Þarf að gæta jafnræðis og réttlætis? Ætli úrræðin verði tilbúin þegar dómstólar verða búnir að dæma þau ólögleg? Það er ekki seinna vænna að afraksturinn fari að skila sér 1 1/2 ári eftir hrun.Hvað hafa margar fjölskyldur gefist upp nú þegar eða þvingaðar til að afsala sér fjárhagslegu sjálfstæði sínu.

Þegar Lýsing og Kaupþing voru að ráðleggja fólki að taka myntkörfulán sem ÖRUGGA fjármögnun, voru eigendurnir, Exista og Kjalar að taka stórkostlega stöðu gegn íslensku krónunni og fara nú fram á yfir 300 milljarða eða umþb. 1/2 Icesave í uppgjör á slíkum samningum sem þeir gerðu við lífeyrissjóðina og fólkið í landinu í gegnum Kaupþing og Lýsingu, félög í þeirra eigu. 

Þeir settu heimilin í sjálfskuldarábyrgð fyrir gegndarlausu fjármálasukkinu.

Það er með ólíkindum að hugsa sér að þessir skrúðkrimmar komi jafnvel út í plús með því einu að skuldajafna framvirkum gjaldmiðlasamningum á móti botnlausri skuldsetningu félaga í þeirra eigu.

Ég fullyrði hér með að úrræðaleysið sem stendur fólki til boða á ekkert skylt við raunverulegt siðferðislegt réttlæti.

Af hverju í ósköpunum tekur verkalýðsforystan, sem er að velta yfir 10 milljörðum á ári, ekki af skarið og ályktar gegn myntkörfulánunum sem eru að sliga fjölskyldur fjölda félagsmanna okkar.

Við höfum markaðslaunakerfi og þurfum að semja um launin okkar sjálf. Forsendubrestur verð- og gengistryggðra lána kemur verkalýðshreyfingunni ekki við og þeir sem vilja sækja rétt sinn borga það úr eigin vasa.

Fyrir hverja er meirihluti stjórnar VR að vinna? Í dag er lánskjarabaráttan ein eftir. Því sami meirihluti samþykkti án fyrirvara eina mestu kaupmáttarrýrnun í sögu félagsins með síðustu kjarasamningum. 

Ég fullyrði hér með að núverandi úrræði eru til háborinnar skammar.

Hvernig er hægt að ætlast til að fólk taki á sig þann griðarlega skuldabagga sem hangir yfir okkur, í formi hærri lána, hærri skatta, skertari heilbrigðisþjónustu, hærra vöruverði þar sem yfirskuldsett eignarhaldsfélög þurfa að hækka vöruverð til að geta borgað skuldir eigenda sinna.

Myntkörfulánin eru að öllum líkindum ólögleg, Kaupmáttur er í frjálsu falli, verðbætur og gengistryggingar eru að sliga heimilin og sundra fjölskyldum en Verkalýðsforystan telur launafólk í ágætis málum??

Hvernig er hægt að réttlæta þessar klifjar í ljósi þess að ábyrgðamenn hrunsins eru enn við samningaborðið og eru að ná til baka þeim verðmætum sem þeir byrjuðu með.

Það er algerlega siðlaust að ætla almenningi að borga brúsann eftir útrásar sukkið á meðan gerendurnir hafa samningsstöðu innan bankanna.

Það er með öllu siðlaust og óskiljanlegt að þessir menn hafi samningsstöðu yfir höfuð.  

Hverjir eru að gæta hagsmuna launafólks?

Formaður VR telur launafólk vera í ágætis málum. Ég tel formann VR vera á rangri hillu.

Ragnar Þór Ingólfsson 

Stjórnarmaður í VR.

Næsta færsla er um launaþak forstjóra lífeyrissjóðsins sem ég lagði fram, hvernig formaður og stjórnarmeirihlutinn hafnaði sjálfsagðri skoðun á miljarða lánveitingum LV, án ábyrgða til Existu, Skipta og Bakkavarar en sjóðurinn hefur neitað að gefa upp hversu mikið þeir lánuðu þessum félögum. Mun ég birta yfirlit yfir skuldabréfaútgáfurnar, álit sem ég fékk frá FME um málið ásamt tölvupóstsamskiptum við framkv.stjóra og stjórnarmenn VR og LV vegna málsins. Einnig mun ég fjalla um kröfur LV á Kaupþing í þessu samhengi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verkalýðsforystan krefst að lánum á íbúðarhúsnæði til eigin nota sé hægt að breyta þannig að gengistrygging falli niður, gjalddögum fjölgi og lánstími lengist.

Í sumum tilvikum getur verið nauðsynlegt samhliða niðurfærslu skulda niður að markaðsverðmæti fasteignar, að breyta skilmálum lána þannig að þau verði gerð greiðanleg. ASÍ vill þannig að allt sem hægt sé að gera verði gert til þess að standa vörð um heimilin og fjölskyldurnar í landinu og vill að stjórnvöld teygi sig eins langt og þurfa þykir til þess að ná því markmiði. Sá fyrirvari er gerður að til skuldanna má hvorki hafa verið stofnað á óheiðarlegan hátt né að breytingarnar geti talist óhæfilegar þegar litið er til annarra skuldara eða hagsmuna almennings almennt.

Verkalýðsforystan krefst að ef banki sættir sig ekki við eðlilegar afskriftir á veðskuldum vegna íbúðarhúsnæðis, þá skal honum skylt að leysa til sín húseignina – og taka um leið yfir allar veðskuldbindingar.*

* Á við hæfilegt íbúðarhúsnæði, sem skuldari býr sjálfur í.

Við greiðsluaðlögun getur risið ágreiningur um hvert markaðsvirði íbúðarhúsnæðis er. Lánveitandi hefur mikilla hagsmuna að gæta í því að markaðsverð verði metið sem hæst. Hindri hann greiðsluaðlögun eða sé hann ósáttur við mat sérfróðra matsmanna taki hann einfaldlega eignina yfir eða með öðrum orðum, skuldari skili honum lyklunum að henni.

Verkalýðsforystan krefst að ef veðskuldir eru afskrifaðar af íbúðarhúsnæði hjá fólki í greiðsluaðlögun og húsnæðið er síðan selt með hagnaði innan 5 ára, þá skuli hagnaðinum skipt jafnt milli skuldara og kröfuhafa.


Greiðsluaðlögun er blanda af félagslegu- og réttarfarslegu úrræði og enginn á að hagnast á henni. Verð á íbúðarhúsnæði hefur farið lækkandi og mun líklega gera það áfram. Það mun hins vegar hækka að nýju og ef söluhagnaður verður af því er bæði sanngjarnt og eðlilegt að honum sé skipt auk þess sem nauðsynlegt er að hvati sé til staðar til þess að húsnæðinu sé vel við haldið og það ekki látið drabbast niður.

KJ (IP-tala skráð) 16.2.2010 kl. 10:26

2 identicon

gjalddögum fjölgi og lánstími lengist..... hvað er að þessum mönnum?

 þá skal honum skylt að leysa til sín húseignina ..... Guð hjálpi okkur öllum

þá skuli hagnaðinum skipt jafnt milli skuldara og kröfuhafa.  Hvaða bull er þetta?

Það þarf að endurskoða verkalýðsforystuna alvarlega!

haltu áfram á þessari braut Ragnar..... þú átt minn stuðning. 

Irena (IP-tala skráð) 16.2.2010 kl. 10:53

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Leggja á minnið hverjir KRÖFÐUST að útlendingum, væru gefnir bankarnir!!

Nú eru ,,útlendingarnir" að semja við sjálfa sig í formi Tortula og aflandsfélaga se, ,,keyptu" kröfurnar á tombóluverði í aðdraganda afhendingarinnar.

Nú virðast skúrkarnir geta farið að sínum vilja algerlega úr takt við almenningsálitið og það sem menn héldu að væri löglegt.

Það flögrar að mér, að þó svo að Davíð hafi staðist 300 milljóna mútu tilboð, hafi það ekki allir gert.

Var svona að hugsa upphátt.

Mibbó

Bjarni Kjartansson, 16.2.2010 kl. 10:57

4 identicon

Flottur Raggi! Ekki hætta að koma með staðreyndir eins og þetta. Almenningurinn þarf að vita sannleikann.

kv,

Óli

Ólafur (IP-tala skráð) 16.2.2010 kl. 10:57

5 identicon

Takk fyrir þennan pistil Ragnar. Ég ætla að benda fólki á að lesa þetta. 

p.s. Er þessi KJ sem skrifar hér að ofan að vinna hjá ASÍ?

Odda (IP-tala skráð) 16.2.2010 kl. 11:10

6 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

KJ

Sæll Kristinn Örn

Þessi úrræði eru í skötulíki.Allt minnir þetta á helstu úrræði verkalýðsforystunnar í málefnum atvinnulausra. þ.e. við hjálpum þér að sætta þig við orðin hlut.

Verkalýðsforystan krefst að lánum á íbúðarhúsnæði til eigin nota sé hægt að breyta þannig að gengistrygging falli niður, gjalddögum fjölgi og lánstími lengist.

Hvað með forsendubrestin? Þeir sem tóku stöðu gegn krónunni og þar með gegn heimilum landsins, með hækkun gengis og verðtryggðra lána, eru nú að semja við verkalýðsforystuna í gegnum lífeyrissjóðina um nauðasamninga til halda eftir þeim eignum sem þeir byrjuðu með. Almenningi í landinu er gjörsamlega misboðið.

Þetta hafið þið stjórnarmeirihlutin samþykkt.

Eignatilfærslan frá almenningi yfir á lífeyrissjóðina vegna forsendufrests húsnæðislána er um 100 milljarðar í formi verðbóta sem lífeyrissjóðirnir nota svo til að laga eignastöðu sína eftir að hafa mokað fjármagni til þeirra sem bera ábyrgð á því ástandi sem launafólk stendur frami fyrir í dag. Við eigum svo að kingja þessari eignaupptöku með því að lengja í lánum eða skuldbreyta höfuðstólslækkun á móti hærri vöxtum en borgum það sama þegar upp er staðið. Bankarnir/Gerendurnir hafa haft fleiri hundruð milljarða af heimilum landsmanna vegna verðbótaog gengistryggingar.

Ragnar Þór Ingólfsson, 16.2.2010 kl. 11:17

7 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Aftur

Kristinn Örn Jóhannesson

Verkalýðsforystan krefst að ef banki sættir sig ekki við eðlilegar afskriftir á veðskuldum vegna íbúðarhúsnæðis, þá skal honum skylt að leysa til sín húseignina – og taka um leið yfir allar veðskuldbindingar.*

* Á við hæfilegt íbúðarhúsnæði, sem skuldari býr sjálfur í.

Já gott að sjá ykkur forsvarsmenn verkalýðsins berjast fyrir því að fólk sem hefur misst allt, vegna lögvarins þjófnaðar, geti skilað inn lyklunum.

Bankarnir geta svo hundellt "skuldara" sem ég vil frekar kalla fórnarlömb fyrir lífstíð.

Svo var búin til ný greiðslujöfnunar lánavísitala þar sem lánin voru tengd launaþróun. Þið hljótið að vera afar stolltir.

Ragnar Þór Ingólfsson, 16.2.2010 kl. 11:25

8 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll aftur Kristinn

Verkalýðsforystan krefst að ef veðskuldir eru afskrifaðar af íbúðarhúsnæði hjá fólki í greiðsluaðlögun og húsnæðið er síðan selt með hagnaði innan 5 ára, þá skuli hagnaðinum skipt jafnt milli skuldara og kröfuhafa.

Stundum velti ég fyrir mér hvað þið verkalýðsforingjarnir gerið í vinnunni frá 9:00 til 17:00.

Skaðin vegna aðgerðarleysis og sinnuleysis stjórnvalda og verkalýðsforystunnar er staðreynd. Hvað er til ráða?

Launafólk og heimilin þurfa að gera þetta sjálf, það hjálpar þeim engin. Það eru hverstagshetjur sem eru með málarekstur fyrir dómstólum vegna ólögmætra myntkörfulána á meðan verkalýðshreyfingin virðist eins fjarlæg okkur og karlinn í tunglinu. 

Farði nú að toga upp um þig brækurnar Kristinn og stattu í lappirnar. Farðu að vinna fyrir félagsmenn og stattu við það sem þú lofaðir þeim að gera, dustaðu rykið af kosningaloforðunum.

Ragnar Þór Ingólfsson, 16.2.2010 kl. 11:43

9 Smámynd: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir

Merkilegt hvað það virðist vera erfitt að fá verkalýðshreyfinguna til að vinna fyrir launamanninn þessa dagana.

Það verður bara að halda baráttunni áfram.

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, 16.2.2010 kl. 17:10

10 Smámynd: Hannes

Hvaða verkalýðsforystu? Ég hef ekki séð neina sem eru í verkalýðsforustunni vinna fyrir venjulegt fólk með einni og einni undantekningu. Þessi skítseiði hugsa bara um eigin hagsmuni og að blóðmjólka allmening stela aleiguni af félagsmönnum.

Hannes, 16.2.2010 kl. 21:28

11 identicon

Minni lesendur á að Flugvallar vindpokinn=Kristinn Örn talaði um verðtryggingu sem krabbamein. Alveg eins og vindpoki hagar sér eftir vindstefnu og vindstyrk er Kristinn Örn=Flugvallar vindpokinn kominn í hlutverk sitt að kóa með klaninu.

Maðurinn er búinn að bindast böndum með verðtryggingunni að því að einhver sagði honum að gera það. Þá yrði allt í góðu hjá honum í VR.

Kristinn Örn er einhver slakasti verkalýðsformaður í sögu Evrópu.

Er Kristinn Örn nógu greindur til að átta sig á því að það vilja allir hann burt úr formansstóli VR, reyndar er einn maður sem vill það ekki og það er hann sjálfur. Þá meina ég þeir sem eru í stjórn og starfsmenn VR.

Sveinbjörn Árnason (IP-tala skráð) 16.2.2010 kl. 23:38

12 Smámynd: Lúðvík Lúðvíksson

Vonandi fer almenningur að átta sig á takmarkalausri spillingu sem viðgengst innan VR .

Það er öllum hollt að hlusta á þessar fréttir hér að neðan.

Þetta sagði Sigrún Davíðsdóttir í pistli í þættinum Speglinum í Ríkisútvarpinu.

http://visir.is/article/20100202/FRETTIR01/278596521

Lúðvík Lúðvíksson, 17.2.2010 kl. 13:29

13 Smámynd: Valmundur Valmundsson

Ekki setja alla skuldara undir sama hatt. Sumir fóru mjög óvarlega í skuldsetningu og ég er ekki tilbúinn að borga skuldir ,,óreiðumanna''.

Svo er þetta með VR, ef málstaðurinn er nógu góður þá hljótið þið að ná völdum. En ekki fara alltaf í fýlu ef þið tapið í kosningum. Meirihlutinn ræður eða?

Valmundur Valmundsson, 26.2.2010 kl. 08:00

14 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Valmundur

Gæti ekki verið meira sammála þér. Þau úrræði sem ég vil handa þeim sem tóku myntkörfulán henta ekki þeim sem yfirskuldsettu sig og voru komnir í bullandi vandræði fyrir hrun. En núverandi úrræði henta þeim hópi fólks mjög vel.

Það sem ég er að benda á að þeir sem lánuðu í gengistryggðum lánum bera sjálfir mestu abyrgðina á þeim forsendubresti sem varð og hef ég verið talsmaður þess að færa stöðu lána verð og gengistryggðra aftur til ársbyrjun 2008. Það ætti ekki að kosta mikið meira en Ríkið mokaði í peningamarkaðssjóðina til að bjarga sparifjáreigendum. 

Kröfur okkar eru því í versta falli sanngjarnar.

Að fara í fílu yfir því að tapa,, ég hef ekki tapað einu eða neinu. Ég set hinsvegar spurningamerki þegar kosningar félagsins gefa skýra mynd af vilja félagsmanna og hverju þeir Kjósa að breyta. Og meirihluti stjórnar vinnur svo kerfisbundið gegn þeim vilja. Þar hljóta annarlegir hagsmunir að liggja að baki.

Ragnar Þór Ingólfsson, 26.2.2010 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband