Verkalýðshreyfing á Villigötum: Verðtryggingin og lífeyrissjóðirnir.

Stjórnarmeirihluti VR endurspeglar brenglaðar hugmyndir ASÍ um hagsmunagæslu launþega á Íslandi. Til marks um það mun ég birta með tveggja til þriggja daga millibili úttekt á störfum stjórnarmeirihluta VR og verkalýðsforystunnar í heild sinni, séð með augum stjórnarmanns sem er sakaður um niðurrif og aðgerðarleysi.

Þetta er fyrsta færslan af 13 um þau mál sem ég hef lagt fram til stjórnar VR og hvernig meirihluti stjórnarinnar hefur kerfisbundið unnið gegn þeim málum og hagsmunum félagsmanna okkar.

Ég mun svo í lokin fara yfir það hverjir mynda þennan meirihluta, hvaðan þeir koma og hvað þeir lofuðu að gera fyrir félagsmenn sína en gerðu ekki.

Ég mun aldrei sætta mig við það að vera kallaður helsta vandamál launþegahreyfingarinnar fyrir það eitt að fylgja þeim málum eftir sem ég lofaði félagsmönnum VR að berjast fyrir.

Fyrst tökum við fyrir áskorun minnihutans til meirihluta stjórnar þann 13.Janúar síðastliðinn. Eftir að hafa gefist upp á aðgerðaleysi sama meirihluta í sama máli.

Formaður VR telur launafólk vera í ágætis málum. Ég tel formann VR vera á rangri hillu.

Verkalýðshreyfingin er að velta yfir 10 milljörðum á ári og uppsker ríflegan hluta launa okkar um hver mánaðarmót. Ég er líklega ekki sá eini sem kvartar yfir uppskerubresti.

Sjá svör mín með bláu en svör meirihlutans með rauðu.

Við skoruðum á stjórnarmeirihluta VR að beita sér fyrir: 

1.Afnámi verðtryggingar tafarlaust og þak verði sett á vexti.

Í frjálsum markaðskerfum ákvarðast vextir og lánakjör á markaði og grundvallast á lánasamningum á milli lántaka og lánaveitanda. Það eru kostir og gallar við verðtryggð lán. Fyrir suma er kosturinn sá að afborganir eru lægri í upphafi en fara svo hækkandi út lánstímann. Til lengri tíma litið getur slíkt hentað lántökum vel.

Fyrir aðra henta hefðbundin nafnvaxtalán, en greiðslubyrði þeirra er þyngri í upphafi öfugt við verðtryggð lán og er greitt af höfuðstól frá upphafi.

Af þessu má dæma að meirihluti stjórnar VR styðji verðtrygginguna sem að mínu mati jafngildir vanhæfi viðkomandi aðila í stjórn stærstu hagsmunasamtaka launafólks á íslandi.

Skilja má kröfu þremenninganna þannig að þeir krefjist neikvæðra raunvaxta enda ekki ljóst hvar þeir vilja að vaxtaþakið liggi. Hvernig neikvæð ávöxtun getur samrýmst hagsmunum efnahagslífsins og t.d. sjóðfélaga í lífeyrissjóðum er vandséð. Er það virkilega ásetningur þremenningana að rýra eignir lífeyrissjóðsfélaga enn frekar sem myndi hafa í för með sér lækkun  á greiðslum til elli- og örorkulífeyrisþega núna  og í framtíðinni? Vilja þeir jafnvel  ganga enn lengra og afnema verðtryggð afkomuréttindi þeirra líka? Lítil er samúð þeirra og samkennd með öldruðum og öryrkjum.

Í dag eru lífeyrissjóðir og bankar að stórlaga eignastöðu sína eftir útrásarsukkið, með stórfelldri eignaupptöku í fasteignum fólks í formi verðtryggingar og myntkörfulána. Þetta er ekkert annað en lögvarinn þjófnaður sem verkalýðsforystan á að beita sér fyrir að verði stöðvaður TAFARLAUST!

Það er til marks um fádæma þekkingaleysi meirihlutans á málefnum lífeyrissjóða um að afnám verðtryggingar rýri eignir sjóðsfélaga.

Er eignaupptaka í fasteignum framtíðarlífeyrisþega, til að borga þeim nokkrar krónur í lífeyri, að rýra framtíðarlífeyri þeirra?

Fasteignir okkar eru okkar mikilvægasti lífeyrir.

Heimilin eru okkar mikilvægasti lífeyrir og öryggisnet. Ef sjóðirnir tapa á braski sínu þá eiga fasteignir okkar að vera öryggisnetið sem grípur okkur í ellinni. OKKUR en ekki banka og lífeyrissjóði.

Hvað kostar það samfélagið þegar stórskuldugir árgangar fara á lífeyri, þegar lágmarks framfærsla fer að mestu leiti í afborganir af húsnæði?

Við hljótum að vilja skuld litla eða skuld lausa lífeyrisþega sem verða svo virkir neytendur í samfélaginu, atvinnulífinu til hagsbóta. 

Hversu mikil var eign lífeyrissjóða í verðtryggðum eignum fyrir hrun? Rúm 20% voru í innlendum hlutabréfum (verðlaus í dag) rúmlega 40% voru í erlendum verðbréfum um 15% í skuldabréfum útrásarfyrirtækja og banka (að mestu verðlaus en voru verðtryggð) og 25 % sjóðsfélagalán og íbúðabréf ásamt öðrum verðtryggðum verðbréfum.

Lífeyrisréttindi eru EKKI verðtryggð. Hinsvegar er lífeyrissjóðum skylt samkv. lögum að ávaxta lífeyri að lágmarki 3,5% verðtryggt.

Lífeyrissjóðir hafa heimild til að skerða lífeyrisréttindi eða auka eftir því hvernig þeim gengur að ávaxta sig.

Þeim er skylt að reikna niður áunnin réttindi lífeyrisþega ef tryggingafræðileg staða þeirra er neikvæð sem nemur 10% eða meira. Lögunum var svo breytt í desember 2008 í 15% tímabundið.

Þetta þýðir að ef skuldbindingar lífeyrissjóðanna að núvirði og til framtíðar fara yfir neikvæð tryggingafræðileg mörk ber sjóðunum skylda að skerða lífeyrisréttindi.

Þetta þýðir að lífeyriréttindi á almennum vinnumarkaði eru ekki verðtryggð. Þau eru hinsvegar verðtryggð hjá ríkisstarfsmönnum sem hafa ríkistryggðan lífeyri. T.d. tap LSR (lifeyrissjóðs starfsmanna ríkis) þarf að bæta upp að stórum hluta með skatttekjum almennings.

Nú eru fyrstu lífeyrisþegarnir sem greitt hafa í lífeyrissjóði í 40 ár eða meira byrjaðir að taka út lífeyri. Í fæstum tilfellum stendur sá lífeyrir undir lágmarks framfærslu og þurfa lífeyrisþegar að stóla á greiðslur frá tryggingastofnun ofan á lífeyri frá stéttarfélagssjóðum. Ef lífeyrir skerðist,aukast greiðlur frá ríkinu þar sem lágmarks framfærslu er ekki náð. Til gamans má geta að þeir sem aldrei hafa greitt í lífeyrisjóði síðsatliðin 40 ár fá það sama og hinir nema að öllu leiti frá tryggingastofnun. Um þetta eru til fjölmörg dæmi.

Notkun verðtryggingar hér er alltof víðtæk  og hefur skapað vítahring sjálfvirkra verðhækkana. Alþekkt er að fyrirtæki og stofnanir hafi réttlætt gjaldskrárhækkanir með vísan í vísitöluhækkanir án þess þó að þær hafi haft nokkur áhrif á rekstrargjöld þeirra. Þennan vítahring þarf að rjúfa.  Sömuleiðis er það þjóðþrifamál að berjast fyrir niðurfellingu opinberra gjalda eins og stimpilgjalda sem hamla samkeppni á lána- og bankamarkaði.

Þessi vítahringur verður aldrei rofin nema með afnámi verðtryggingar. Þegar Ólafslögin voru sett árið 79'  áttu þau að tryggja fjármagnseigendur gegn eignabruna sem myndaðist við óstjórn peningamála hér á landi. Þegar verðtrygging launa var svo afnumin 1982 en verðtrygging lána var látin halda, tala margir af okkar færustu hagfræðingum um mestu hagstjórnarmistök íslandssögunnar. Ég er sammála þeim.

Verkalýðsforystan lofaði launafólki afnámi verðtryggingar fljótlega í kjölfar afnáms verðtryggingar launa. 28 árum síðar hefur ekkert gerst. Það er komin tími til að efna gamalt loforð. 

Hann er sorglegur og grunnur málflutningur pólitískra evrópusinna að evran sé EINA lausnin frá verðtryggingunni.

Á að nota verðtrygginguna sem skiptimynt fyrir atkvæði inn í evrópusambandið og reka þannig launafólk til atkvæða með byssusting í bakinu?

Þeir sem góla hvað hæst í gospelkór evrópusinna telja fólki trú um að vextir verði lægri,lánakjör betri og verðbólga lítil með upptöku Evru og að skuldastaða okkar hafi ekkert með það að gera.

Það eina sem breytir þeim kjörum sem í boði eru hverju sinni er greiðsluhæfni þess sem lánið tekur.

Ef kjör okkar verða betri innan ESB miðað við sömu skuldastöðu Íslands, hvað þurfum við þá að gefa eftir af sjálfstæði okkar og auðlindum til að fá betri lána kjör ? Ekki batnar skuldastaðan svo mikið er víst.

Krónan er hvorki betri né verri en hver annar gjaldmiðill – hún er hugtak en ekki hlutur sem endurspeglast að langstærstum hluta í innistæðum í bankakerfinu sem verða til úr engu líkt og færslur í bókhaldskerfi.

Krónur verða til við “kaup” banka á skuldaviðurkenningum lántakenda sem fá andvirði þeirra yfirfært á bankareikinga sína með tölvufærslu.

Krónan er einkum frábrugðin matadorpeningum í því einu að hún er lögboðinn gjaldmiðill í viðskiptum innanlands og til kaupa á gjaldeyri.

Lausnin felst í því að stjórna hér peningamálum með því hugarfari að eyða ekki meir en að þjóðarbúið aflar í gjaldeyri fyrir það sem við framleiðum og skapa samfélagslegan hvata fyrir stöðugleika.

Lausnin felst ekki í því að stjórna hér peningamálum með rassgatinu í þágu útvaldra eins og gert hefur verið síðustu áratugi.

Ragnar Þór Ingólfsson 

Stjórnarmaður í VR.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Sammála þér í flestu hér að ofan.

Hef verið óþreytandi að halda svona ræður á Landsfundum Íhaldsins.

Nú er uppi furðulegir tímar.  Ágúst Einarsson, sem er í foprsvari Framtakssjóðs Íslands, ætlar að nota stóran hlut auranna sem lífeyrissjóðir brauðstritarana, til að púkka undir Bónusfeðgana sem búnir eru að kosta sömu sjóðsfélagaa offjár vegna glataðra fjárfestinga og lánafyrirgreiðslu svo nemur milljörðum og það ekkert fáum.

Ágúst talar um, að auðvitað sé rétt að fjárfesta í Högum og nota til þess enn frekari fjármuni frá launþegum.

Við þetta er ekki búandi.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 9.2.2010 kl. 11:27

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Í Grikklandi boða verkalýðsfélög til verkfalla vegna áforma um niðurskurð á velferðakerfinu.  Hér á landi leggur verkalýðshreyfingin blessun sína yfir, niðurskurð á velferðakerfinu, lækkun launa, hækkun skatta og stökkbreyttan höfuðstól skulda.  Þess í stað efnir hún til stöðugleikasáttmála um að fjármagna hrunaliðið og stórauka útgjöld á æðstu stöðum innan stjórnsýslunnar.

Magnús Sigurðsson, 9.2.2010 kl. 11:58

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

    Innlitskvitt, (-:

Helga Kristjánsdóttir, 9.2.2010 kl. 13:29

4 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Þetta er nákvæmlega mín sýn á þessi mál.

það er sorglegt þegar starfsmenn verkalýðsfélaga telja sig vera að verja lífeyrisréttindi gamallar konu með því að viðhalda verðtryggingu, á húsnæðislánum, sem er vanþroskandi hækja fyrir sjóði og bankakerfi. Auk þess að vera eilífðar verðbólguvél. 

Frábær samantekt. 

Ég var langt kominn með greiningu á þessari orðsendingu sem lýsir tvískinnungshætti og hagsmunagæslu. hugmyndafræðilegu þroti og haldlausum ásökunum um þekkingarleysi.

Vilhjálmur Árnason, 9.2.2010 kl. 15:00

5 identicon

14. gr. Lífeyrissjóður skal hefja útborgun ellilífeyris samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum þegar sjóðfélagi hefur náð 65–70 ára aldri. [Lífeyrissjóði er heimilt að gefa sjóðfélögum kost á að fresta eða flýta töku lífeyris enda hefjist taka lífeyris ekki fyrr en sjóðfélagi verður 60 ára.]1) Í samþykktum skal kveðið á um hvernig frestun eða flýting lífeyristöku hefur áhrif á fjárhæð lífeyris.
Ellilífeyrir skal borgaður út mánaðarlega með jöfnum greiðslum til æviloka. Mánaðarlegur lífeyrir skal verðtryggður og breytast til samræmis við breytingu á vístitölu neysluverðs. Nánar skal kveðið á um fjárhæð ellilífeyris, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans í samþykktum.

KJ (IP-tala skráð) 9.2.2010 kl. 15:15

6 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

KJ (IP-tala skráð) 9.2.2010 kl. 15:15

Ef þú heldur að þetta séu rök með verðtryggingu ertu í sömu grifju og allir hinir.

Til að tryggja lífeyrisréttindi geta þau verið tengd hlutfalli af núverandi launataxta. Þurfa ekki að vera tengd verði á bensíni og tómötum.
Það er enginn sem vill afnema verðtryggingu á móti því að lífeyrisréttindi séu varinn á einhvern hátt.

En að telja það að lífeyrisréttindi geti eingöngu verið varinn með verðtrygginguer þröngsýni.

Vilhjálmur Árnason, 9.2.2010 kl. 15:25

7 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Og að blanda þessu saman er skrumskæling og tilraun til þess að afvegaleiða umræðuna og það hefur tekist í 25 ár. Nú er mál að linni.

Vilhjálmur Árnason, 9.2.2010 kl. 15:27

8 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Verðtryggingarvandinn er löngu leystur.

Raunveruleg verðtrygging  er engöngu mögulegu með meira gagnsæi í bankakerfinu. Vandaðri útlánum, réttum hvötum í bankakerfinu og minna og skilvirkara bankakerfi. Betur reknum sjóðum. Góðum og vel völdum fjárfestingum. Fjárfestingum í minni og meðalstórum iðnaði ,nýsköpun og fyrirtækjum sem skapa flest störf.

Fjárfesting sem kostar ekki stórtækar erlendar lántökur og innflutt vinnuafl.

Verðtrygging hefur aldrey virkað mun ekki virka getur ekki verið talin lausn á einu né neinu.

Verðtrygging er óttablönduð tilraun til aðverja sjóði. Með samstilltu  átaki er þessi tilraun er brátt á enda.

Vilhjálmur Árnason, 9.2.2010 kl. 15:36

9 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Þakka öllum innlit og athugasemdir.

Bjarni, Var það ekki Ágúst Einarsson sem hélt eignarhaldsfélgi sem hann sjálfur stýrði í gíslingu vegna vangoldinnar leigu sem hann sjálfur leigði út til nemenda, tapaði svo öllu fyrir hæstarétti, allt að öllum líkindum út af þrjósku og veruleikafyrru.

Kemur á óvart að þessu almannafé verði varið í einhvern ósómann.

Þakka innlit, ævinlega Helga.

Sæll Vilhjálmur, hefði gaman af að lesa þá greiningu.

Sæll Kristinn 

Ég þekki þennan lagabókstaf mætavel sem og lögin í heild sinni.

Myndir þú kalla húsnæðislán sem og önnur verðtryggð neyslulán landsmanna verðtryggð lán ef ég sem skuldari gæti skert greiðslur til lánveitandans ef ég hef ekki efni á að borga þeim það sem ég hafði skuldbundið mig til að greiða. Jafnvel þó ég hafi tekið allt of mikla áhættu.

39. gr. Hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skal vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Áætlun um framtíðariðgjöld og væntanlegan lífeyri skal miðuð við sjóðfélaga á þeim tíma sem tryggingafræðileg athugun tekur mið af. Hrein eign til greiðslu lífeyris skal á hverjum tíma metin í samræmi við ákvæði 24. gr.
Leiði tryggingafræðileg athugun skv. 24. gr. í ljós að meira en 10% munur er á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga skv. 1. mgr. er hlutaðeigandi lífeyrissjóði skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Sama gildir ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár.
Stjórn lífeyrissjóðs er skylt að fá álit tryggingafræðings á áhrifum breytinga á samþykktum lífeyrissjóðs á getu hans til þess að greiða lífeyri. Tryggingafræðingi lífeyrissjóðs er skylt að skýra stjórn sjóðsins þegar í stað frá því ef tryggingafræðileg úttekt leiðir í ljós að sjóðurinn stendur ekki við skuldbindingar sínar. Hann skal skila tillögum til úrbóta til stjórnar og gera [Fjármálaeftirlitinu]1) viðvart.

Þetta auka ákvæði sem hér segir gerði lífeyrissjóðum kleyft að viðhalda því misrétti sem sjóðsfélagar eru beittir. þ.e. að lífeyrisgreiðslur þeirra sem nú eru að safna sér lífeyri er notaður í að greiða núverandi lífeyrisþegum.   

[VI. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 39. gr. skal lífeyrissjóði vera heimilt að hafa allt að 15% mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga vegna lífeyris miðað við tryggingafræðilega athugun fyrir árið [2009],1) án þess að honum sé skylt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins. Ákvæði 1. mgr. 39. gr. um að hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skuli vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda á ekki við um tryggingafræðilega athugun fyrir árið [2009].1)
Þegar metið er hvort lífeyrissjóður falli undir 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. skal miða við 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga árið [2009].1)]2)

Alltaf velkomin á Bloggið mitt Kristinn Örn Jóhannesson.

Ragnar Þór Ingólfsson, 9.2.2010 kl. 15:37

11 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Takk fyrir þetta Kristinn. Mér sýnist þetta í fljótu bragði vera umbeðnar greiningar krefisins á eigin ágæti.

Ég ætla nú samt að lesa þetta yfir í góðu tómi. Hef lesið margar svona halelúja greiningar eftir vinstri sinnaða viðskiptafræðinga og samfylkingarhagfræðinga eins og Ólaf Ísleifs sem var pantaður í úttekt af landsambandi lífeyrissjóða. Vel þekkt aðferð hjá þeim sem kerfinu stjórna að panta álit á eigin ágæti fyrir landsfundi og hverskyns krísur.

Hvað finnst þér.

Varðandi það að lífeyrissjóðirnir geta ekki greitt út séreignasparnað nema með afborgunum vegna þess að eignir þeirra verða verðlausar ef þeir reyna að koma þeim í verð. Hvers virði eru þá eignir lífeyrissjóðanna.

hvernig verður staðan þegar risaárgangar taka út lífeyri og sjóðirnir þurfa að losa eignir í stórum stíl til að standa undir þeim miklu skuldbindingum. Hverjir geta tekið við svo gríðarlega miklu magni bréfa eigna annar en Ríkið?

Hvet þig til að lesa doktorsritgerð dr.Herdísar Drafnar Baldvinsdóttur um tengslanet valda á íslandi: Verkalýðshreyfingin og Lífeyrissjóðir.

http://www.networksofpower.net/

Skyldulesning fyrir alla og sérstaklega þig Kristinn til að þú áttir þig á hlutverki þínu í tengslanetinu sem þú ert að verja.

Hver veit nema við snúumst báðir við þessar lesningar.

Þakka innlit.

Kveðja

Ragnar 

Ragnar Þór Ingólfsson, 9.2.2010 kl. 17:00

12 identicon

Helstu rök þeirra sem sem verja vertrygginguna er að annars væru vextir svo háir að ekki væri nokkur leið að taka lán, ég blæs á þessi rök því með vertryggingu höfum við líka banka og lánastofnanir sem kerfisbundið reynir að halda verðbólgu í botni svo lánin bólgni nú svolítið.

Ég tel að án vertryggingar muni lánsfé vissulega vera dýrt um sinn... en þá verður það líka hagsmunamál lánastofnana að halda stöðugleika og halda verðbólgu niðri, þegar sá stöðugleiki er kominn munu stofnanir þora að bjóða bærilega vexti

Steinn Sig (IP-tala skráð) 9.2.2010 kl. 17:56

13 identicon

Góður Ragnar

Er það ekki kaldhæðið að verkalýðsforustan skuli komast upp með það að spara okkur krónu meðan hún lokar blinda auganu við því að stjórnvöld og viðskiptalífið beita okkur eignanámi með klækjum? Þetta gerir hún möglunarlaust og hjálpar til sbr. yfirlýsingar frá forustunni sem flestar ef ekki allar eru dulbúnar stuðningsyfirlýsingar með ráðandi ríkisstjórn hvers tíma, aðgerðum hennar og aðgerðaleysi.

Burt með verðtrygginguna!

Birgir Már (IP-tala skráð) 9.2.2010 kl. 18:06

14 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Skýrslan hanns gylfa er góð og hann nefnir hvernig sjóðir geta skilað betri ávöxtun. 

Glærurnar frá Ólafi eru frekar þunnar. 

En ástæðan fyrir straum vinnuafls á örorku er að hluta til skýrð með þeim þrældómi sem á sér stað á vinnumarkaði þegar laun lækka á meðan greiðsla af húsnæði hækkar. Fólk fær hamsturstilfinnngu og hugsar um sjúkrarúm eða frí eftir að hafa verið á íslenskum vinnumarkaði sem keyrir fólk út á allt of löngum vinnutíma. Sem það verður að inna af hendi til að ná endum saman.

Þessi meðferð á launafólki veldur kostnaði sem lendir á sjóðunum.

Þessi kostnaður mundi minka við afnám verðtryggingar.

Alveg eins og afköst jukust þegar þrælahald var afnumið.

Vilhjálmur Árnason, 9.2.2010 kl. 18:10

15 Smámynd: Hannes

Það er ótrúlegt hvernig verkalýðsforustan vinnur gegn hagsmunum almennings hvað eftir annað í hinum ýmsu málum.

Það skiptir vinnandi fólk mun meira máli að eignast húsnæði og geta treyst því að eignin í því brenni ekki upp en hver er staða lífeyrissjóðsins sem það er þvingað til að borga í gegn sínum vilja.

Hannes, 9.2.2010 kl. 20:20

16 Smámynd: Björn Bjarnason

Ég hef velt því fyrir mér hvort verkalýðshreyfingin sé of upptekin við að gæta hagsmuna lífeyrissjóðanna til að gæta hagsmuna launþeganna.

Eignir lífeyrissjóðanna eru u.þ.b. 1.800 milljarðar kr. Þeir eru stærstu eigendur á fjármagni í landinu.   Þessa fjármuni þarf að ávaxta og sitja stjórnarmenn verkalýshreyfingarinnar í stjórnum lífeyrssjóðanna.  

En eins og þessi grein þín sýnir virðist þessi hagsmunagæsla við lífeyrissjóðina bitna á öðrum hagsmunum launþeganna, þ.e. þeirra sem enn eru á vinnumarkaði og kjósa þá til að gæta hagsmuna sinna.

Gæti það verið til hagsbóta fyrir almenning að verkalýðshreyfingin kæmi ekki nálægt rekstri lífeyrissjóðanna?

Björn Bjarnason, 9.2.2010 kl. 22:33

17 identicon

Heill og sæll Ragnar Þór; sem og, þið önnur - hér á síðu hans !

Það er rétt; hjá þér Ragnar, að ekki er möguleiki á endurskipulagningu okkar efnahags kerfis, nema að verðtryggingin (hver; átti jú, að vera tímabundin), verði afnumin með öllu.

Moldarköggla kast; forystu VR, framan í ykkur VRinga, sem og aðra landsmenn er með öllu óásættanlegt.

Vonum; að Hagmunasamtök heimilanna, auk annarra þjóðfrelsissinna, herði nú róðurinn fyrir því - að mánaðar greiðslur, af lánum fólks, verði hunzaðar, í enn lengri tíma, en verið hefir, fram til þessa.

Með beztu kveðjum; sem áður og fyrri /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.2.2010 kl. 22:40

18 identicon

Sæll Ragnar og takk fyrir þetta innlegg. Hér sést að formaður eitt stæðsta verkalýðsfélag landsins (VR) er greinilega búinn að taka u-beygju á skoðun sinni á verðtryggingunni, bara við það að fá nýtt starf. Ég man þegar hann var í kosningabaráttu þá talaði hann um verðtryggingu sem krabbamein á þjoðfélaginu. Hvað veldur að hægt sé að taka upp nýja trú um leið og launatékinn fittnar? Er þessi maður hæfur í starfið?

Irena (IP-tala skráð) 9.2.2010 kl. 23:48

19 identicon

Af hverju þarf leiðin að réttlæti ætíð að vera svona þyrnum stráð ??

Ég met þína baráttu, Ragnar, framar flestu öðru. En spillingin hér er svo rík að meira að segja mér er nóg boðið !!

Sorinn hefur verið tengdur færibandi Íslands í fleiri ár, réttlætisvitund mín hefur sín takmörk, einnig er hún því miður ekki véldrifin.

Er ekki tilgangur.. uppgötvun, Nóaflóðsins eða kjarnorkusprengjunnar, til að fela/eyða svona viðbjóði mannkyns ??

Ef svo er, þá er ég tilbúinn, í fyrsta skipti, að vera nytsamur sakleysingur....

runar (IP-tala skráð) 10.2.2010 kl. 00:16

20 Smámynd: Júlíus Björnsson

Þegar einokun á verðtryggingu 80% miðað við hækkun á heildar innflutningsverði [neysla og nýbyggingarkostnaði] [Ekki hækkun á sömu vöru] [ekkert val: í anda USSR kommúnista] var innleidd í lög þá nægði að láta það gilda um minnst einn innlánsreikning í hverjum banka.

Til að byrja með voru laun líka verðtryggð á þennan hátt. Því hætt vegna þess að verðbólga myndi aldrei fara böndum í ljósi þess að 80% lána launþega væru með veði í híbýlum þeirra.  Aðallega til að lækka 4/5 hluta launþega og færa hina upp mismunandi mikið, meðallaun myndu þá sýna að allir hækkuðu jafnt.

Þetta er ekki lengur grunnsemdir heldur töluleg staðreynd.

Fasteignaverði varð leyft að rjúka upp fyrir nýbyggingarkostnað frá 1998 til 2004 um 20% og síðan stigvaxandi upp í 50% 2007.

Fasteignahækkunin jók eignir sem var fært sem sem bullandi tekjur til að réttlæta launahækkanir og Bónusa sumra.

Auknar eignir [eldri og nýbyggðra]og [gervi tekjur] juku veðin og lánshæfið. 2004 sameinuðust fasteignaveðssjóðir Innlands um endurfjármögnum undir forystu þessa stærsta íbúðalánasjóð. Varið var að selja bréf fyrir reiðufé á alþjóða höfuð stólsmörkuðum. Byggt var til að ná í reiðufé. Þetta má lesa úr þjóðarskýrslum starfsmanna IMF fyrir meðlim sinn Ísland. Fólk var flutt til að auka eftirspurn eftir lánum enn frekar og slakað á námskröfum til að fylla nýbyggða skóla.

Skýring 2004 á labour innflutning var að til að halda verðbólgu í niðri vegna mikils framboðs þyrfti að fjölgum um 800 einstaklingum erlendum á ári.

Þetta er nú dæmi um hvað þríhliða aðilar [Ríkið, ASÍ og VSÍ] eru að gera í myrkri Seðlabanka.     

Íbúðalán: hornsteina þjóðfélags á aldrei að tengja neysluverðsvísitölu alþjóðakaupahallar markaða vegna þess að sveiflu eru miklar milli mánaða en þessi lán eru til 30 ára. Engin þjóð gerir þetta utan Íslands tengir þennan lánaflokk í skjóli einokunar. Sem er ekki ekki hægt að túlka öðruvísi en aðrar þjóðir séu þroskaðri en ráðmenn hér hingað til. Þau eiga að fylgja verðlagi á grunninum það er hýbýlum.

2005 er varað við spennuvaldinum og þessi reiðufjár reddingar nýbreytni [óbeint veð í hornsteinum] til að fjármagna allar byggingar geti hæglega endað frá 2005 með reiðufjárskorti.  Fyrrihluti lánanna eru eintómar tekjur vextir. Sem gerið byggingar þörf til að viðhald þeim óstöðvandi. Neyslubólgutengingin freistar aðila til að auka verðólgu með að fella gengið.

Þá hækka gervi höfuðstólarnir en frekar. Það er mjög líklegt miðað við Mat starfsmanna IMF á hættum að lykil aðilar hafi strax eftir skýrsluna 2005 byrjað að tryggja sig fyrir hruni. Þetta hentar líka þeim sem telja að EU sé félagsmálastofnum stjórnmálatengdra aðila, hagstjórnar og stjórnmálfræðinga m.a. svo allt í lagi er að sofa á verðinum. 

Það væri gaman að fá að vit hvað lægstu taxtar VR hafa hækkað frá hruni. Meðallaun hafa hækkað um 7%.

Einhliða stýring að ofan má kalla kommúnisma í framkvæmd. Kína byggir heilu borgirnar í staðbundinni kapítalisma væðingu sinni og fólkið kemur svo á eftir.

Hér var byggt til að fá lánað miklu meira en þurfti að eyða í byggingarnar.

Svipað og þegar hringt var í fólk og því boðið að endurnýja húsnæðislánin.

Það má líka segja að þegar sömu aðilar eru í byggingar og fasteigna  fjárfestingu eru líka í neysluvöru sem var 18% af heildarpakka heimilanna, þá græði þeir á því að halda neysluverðlagi niðri.

Þegar lánakostnaður og húsnæðiskostnaður vex í körfunni og matur helst óbreyttur á lækkar hann hlutfallslega í körfunni.

Lámarks laun er mælikvarði sem ekki er hægt að blekkja með eins og meðallaun. Kostar minni hagstjórnarútreikninga að miða við hann eingöngu.

Millarður í fasteignir sem klárast á einu ári skila 500 milljónum í tekjum þegar spennan var mest. 

Júlíus Björnsson, 10.2.2010 kl. 04:48

21 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Þakka innlit.

Steinn 

Sammála. Það er útilokað að vaxtastig muni nokkurn tíma lækka með verðtryggingunni. Vaxtastig verður hátt fyrst um sinn en Kerfið leiðréttir sig rétt eins og náttúran.

Birgir 

Sammála, verkalýðsforystan á ekki að hanga í pilsfaldi ráðandi stjórnar heldur veita henni NAUÐSYNLEGT aðhald og krefjast leiðréttingar á stöðu heimila og launafólks með miklu grimmari hætti.

Það er siðlaust að ætla þegnum þessa lands slíkar byrgðar á meðan bankarnir semja við hrungerendur um áframhaldandi eignarhald á gjaldþrota eignum sínum/okkar.

Voru heimilin í persónulegri ábyrgð fyrir óráðsíu bankanna ?

Köllum eftir siðbót.

Villi

Góðir punktar hjá þér. Fannst þér ekki skrítið þegar aðilar vinnumarkaðarins gerðu með sér stöðugleikasáttmála sem átti að tryggja stöðugleika á meðan þeir sem völdin hafa í samfélaginu hafa beinan hag af óstöðugleika í gegnum verðtrygginguna og myntkörfulánin.

Það er ekki heil brú í þessu liði. 

Ragnar Þór Ingólfsson, 10.2.2010 kl. 09:55

22 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Hannes

Sammála! 

Saga lífeyrissjóða er þyrnum stráð þó þeir keppist sjálfir um að tala upp kerfið.

Björn

Tel að stór hluti þeirra 1.800 milljarða sem sjóðirnir segjast eiga séu í handónýtum verðlausum og verðlitlum verð og skuldabréfum. Það eru ennþá gríðarlega margir óvissuþættir varðandi stöðu þeirra og mikið eftir að færa niður.

Tel að verkalýðsforystan eigi ekki að koma nálægt lífeyrissjóðunum sem eru orðnir ekkert annað en skattur til að minnka framtíðarbyrgði ríkisins vegna öryrkja og ellilífeyrisþega. Það eru 37 lífeyrissjóðir sem taka við Lögbundnu iðgjaldi og engin þeirra stendur vel. 

Stéttarfélags Lífeyrissjóðir hafa aldrei verið notaðir gegn ráðandi öflum í kjarabaráttu þó að atvinnurekendur hafi hótað þeim með hægri og vinstri. 

Ekki þurfa Norðmenn marga olíusjóði.

Sæll vertu og Ævinlega Óskar Helgi

Innlegg þín eru algerlega ómissandi á blogginu hjá mér.

Ég á sæti í greiðsluverkfallsstjórn HH  og erum við að boða til greiðsluverkfalls 19 febrúar næstkomandi. Vona að sem flestir taki þátt.

Ragnar Þór Ingólfsson, 10.2.2010 kl. 10:09

23 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Þakka innlit

Sæl Irena 

Ég man vel eftir því þegar Kristinn talaði um verðtrygginguna sem krabbamein á samfélaginu. Hann skrifaði heilmikla grein um málið á sínum tíma og hefur snúist í hringi hvað þetta varðar sem og í mörgum öðrum málum. Hann talaði fyrir breytingum í lífeyrissjóðnum en hefur svo barist hvað harðast gegn allri skoðun. Telur VR ekkert með LV að gera.

Það má orðið lesa skoðanir hans úr glærusýningum og bæklingum frá ASÍ.

Hann hlýtur að vera orðin ringlaður á þessu öllu saman. Hann er ekki sá eini sem hefur skipt algerlega um gír af nýja fólkinu sem kom inn í stjórnina.

Því miður fyrir félagsmenn VR.

Takk fyrir það Rúnar

Ég mun reyna til þrautar að berjast fyrir málstað sem verður ALDREI keyptur með gylliboðum þeirra sem stjórna.

Umburðarlyndi þjóðarinnar fyrir þessu bulli er ekki takmarkalaus. Ég er þeirrar skoðunnar að almenningur er komin á ystu Þolmörk hvað það varðar. Ég vona svo sannarlega að ég þurfi ekki að sjá blóðuga byltingu, það virðist því miður allt stefna í að fólk taki hreinlega málin í sínar hendur. Það er ekkert verið að gera og það hefur sannarlega EKKERT breyst í þessu sjúka samfélagi okkar. 

Ég mun sjálfur hinsvegar láta sprengjurnar vera,   :) Varpa frekar nokkrum fílubombum sem þessum á þá sem þiggja milljón á mánuði við að kóa með ástandinu.

Sæll Júlíus

Alltaf fróðlegt og gaman að lesa þessa vinkla þína sýn á hlutina.

Ávalt velkomin á mitt blogg með þökk fyrir öll skrifin og marga frábæra punkta. 

Ragnar Þór Ingólfsson, 10.2.2010 kl. 10:26

24 Smámynd: Júlíus Björnsson

Mér finnst líka þjóðþrifa mál að allir 18 ára og eldri borgi borgi fast lífeyrissjóðsgjald um 20 þúsund á mánuði í sameiginlega samtíma útgreiðslu sjóðs allra Íslenskra ríkisborgara með búsetu hér fyrir upptöku lágmarks grunn framfærslulífeyris. 

Heildarupphæðinn skiptist svo á milli þeirra sem hafa náði tilskildum aldri.

Í framhaldi hættir launagreiðandi bakgreiðslum prósentum hluta lífeyris þannig að ráðstöfunar tekjur langflestra hækka strax.

Þeir sem vilja svo tryggja sér viðbótar lífeyris tekjur velja sér ávöxtunarleið að eiginvali.

Þetta eyðileggur ekki rök núverandi kerfa hver kynslóða tryggir sinn eigin lífeyris auka, heldur tryggir öllum brask-frían grunn lífeyrir óháð greindarvísitölu hagsmuna.

N.B. þetta gjald leggst líka á þá sem þiggja grunnlífeyrir. Menn geta haft aðrar tekjur til dauðadags í friði. 

Leggst á allar bætur sjúkra og atvinnuleysis.

Grunnlífeyrir hættir að vera samningatæki.

Um þá sem eru ekki á launskrá verður þetta gjald innheimt á þeirra kostnað mánaðarlega.

Allir geta séð að þetta einfaldar allt kerfið sem nú ríkir og minnkar græðgi og freistingar á eðlilegum grunn hluta lífeyris.

Hugmyndin á að skila ellilífeyrisþegum upphæð sem samsvarar  um 90.000 kr af heildarþjóðartekjum. Eða með sköttum beinum og óbeinum og fasta grunngjaldinu sjálfum um 240.000 kr.   

Júlíus Björnsson, 10.2.2010 kl. 14:04

25 Smámynd: Hannes

Ragnar. Þegar verkalýðsforustan fer að hugsa um hag allmenings þá mun ég ganga aftur í VR en ég get ekki hugsað mér að vera í félagi sem gerir allt sem það getur til að ræna mig.

Var áður í VR en fékk nóg þegar að það var í öllum málum hugsað um allt aðra hagsmuni en mína.

Hannes, 10.2.2010 kl. 21:02

26 Smámynd: Lúðvík Lúðvíksson

Nú rúmu ári eftir hrun er ekkert að gerast, það er ljótt að sjá hvernig verkalýðsforustan hefur yfirgefið félagsmenn.

Getur verið að spilling sé alsráðandi ?

Tók þetta af vísi.is

Lykilstarfsmenn eyddu sjö milljónum með greiðslukortum VR

Helga Arnardóttir skrifar:

Fjórtán yfirmenn hjá VR sem höfðu greiðslukort á vegum félagsins eyddu samtals rúmlega sjö milljónum króna árið 2008. Vísbendingar eru um að þeir hafi notað kortin í einkaneyslu en formaður VR fullyrðir að slík neysla hafi verið dregin af launum viðkomandi starfsmanna.

Fjórtán starfsmenn VR höfðu greiðslukort á vegum félagsins fyrir tveimur árum. Þetta voru þáverandi formaður VR, þáverandi varaformaður stjórnar félagsins, formaður Landsambands íslenskra verslunarmanna, 7 sviðsstjórar félagsins bæði fyrrverandi og núverandi starfsmenn, fyrrverandi starfsmannastjóri VR og þrír yfirmenn VR á Egilsstöðum, Akranesi og í Eyjum. Fréttastofa hefur undir höndum yfirlit yfir kortanotkun þessara starfsmanna allt árið 2008.

Heildarfjárhæð sem tekin var út á öll kortin er rúmlega 7 milljónir króna.

Fjöldi færslna sýnir kaup á flugfargjöldum innan-og utanlands fyrir hundruð þúsunda og hótelgistingu hérlendis og erlendis. Þetta eru allt ferðir sem starfsmenn hafa farið í á vegum VR. Þá eru einnig tugir færslna yfir kaup á mat á hinum ýmsu veitingastöðum, allt frá ódýrum skyndibitastöðum til dýrra veitingastaða í borginni. Auk þess eru færslur yfir kaup á eldsneyti og leigubílaferðum.

Það sem vekur hins vegar athygli er að svo virðist sem nokkrir starfsmenn hafi notað kortin að einhverju leyti í einkaneyslu. Færslur þess efnis skipta tugum.

Dæmi um það eru:

Úttekt í Marco O Polo fyrir tæpar ellefu þúsund krónur.

Í Skífunni fyrir tæpar fjögur þúsund krónur.

í Bræðrunum Ormsson fyrir sex þúsund krónur.

Úttekt í Hagkaupum í Kringlunni fyrir fimm þúsund krónur.

Úttekt í Vínbúðinni Kringlunni uppá tæpar tvö þúsund og fimm hundruð krónur.

Matarkaup á Ruby Tuesdays fyrir tæpar tvö þúsund krónur.

Úttekt á Vitabar fyrir 1000 krónur.

Þessar útttektir voru fyrir tíð Kristins Arnar Jóhannessonar núverandi formanns VR. Hann segir allar úttektir eiga sér skýringar. Fjármálastjóri, bókari og formaður félagins þurfi að samþykkja þær áður en reikningurinn sé greiddur.

Kristinn segir að kortin séu ekki til einkaneyslu og eingöngu hugsuð til að mæta útgjöldum fyrir félagið.

„Það eru tveir aðskildir aðilar og stundum þrír innan félagsins sem þurfa að samþykkja hverja færslu. Á bakvið hverja einustu færslu get ég fullyrt að það séu til reikningar með réttlætanlegum útgjöldum fyrir félagið. Ef svo er ekki er það dregið af launum starfsmanna."

Kristinn segist líta það mjög alvarlegum augum að persónugreinanleg gögn af þessu tagi hafi lekið til fjölmiðla. Augljóst sé að trúnaðarbrestur hafi orðið innan stjórnar félagsins.

„Ég fullyrði að þarna er ekkert óeðlilegt að finna. Til þess að sannreyna það þá hef ég falið endurskoðanda félagsins að fara yfir færslur síðustu þriggja ára. Ég mun leggja þá skýrslu fyrir stjórn og gera hana opinbera fyrir félagsmenn VR," segir Kristinn og bætir við.

„Hafi persónulegar úttektir starfsmanna ekki verið dregnar af launum þeirra árið 2008 þá er um fjárdrátt að ræða og það er mjög alvarlegt mál. Ég veit ekki til þess að það hafi komið upp hér innan félagsins. Það er bara eðlilegt að við fáum endurskoðendur til að fara yfir málin. Hér er allt uppi á borðum."

Sjálfur segist Kristinn hafa greiðslukort frá VR sem hann hafi notað í um tíu skipti frá því í haust, eingöngu í þágu félagsins.

Gunnar Páll Pálsson fyrrverandi formaður VR baðst undan viðtali vegna málsins.

Lúðvík Lúðvíksson, 11.2.2010 kl. 08:56

27 identicon

Vona að félagsmenn VR fái alvöru leiðtoga einn góðan veðurdag.

Sveinbjörn Árnason (IP-tala skráð) 16.2.2010 kl. 23:42

28 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Vildi aðallega þakka þér þína endulausu þolinmæði og seiglu að standa í þessu stríði við meira og minna siðblinda eiginhagsmunaklíku. Ég bið þess heitt og innilega að hún eigi eftir að bera tilætlaðan árangur!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.2.2010 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband