6.5.2011 | 08:58
Nú verður launafólk að standa í lappirnar!
Nú verður launafólk að standa í lappirnar! Vegna þess að verkalýðsforystunni virðist fyrirmunað að gera það. Sá óskapnaður sem birtist launafólki í formi kjarasamninga sem undirritaðir voru í gær eru engu skárri en úrræðaleysið á skuldavanda heimilanna.
Þetta minnir óneytanlega á 110% leið bankanna sem verður orðin að minnsta kosti 130% á samningstímanum.
Þessi rúmlega 11% leið SAASÍ gerir ekkert nema að gulltryggja, til 3 ára, ömurlega stöðu launafólks í landinu og veita þeim sem með réttu áttu að gæta hagsmuna okkar eftir hrun syndaaflausn. Samningarnir undirstrika gríðarlega eignatilfærslu frá alþýðunni til fjármálastofnanna sem fá uppreisn æru með endanlegri uppgjöf launþegahreyfingarinnar gagnvart grímulausu óréttlætinu.
Það skiptir í raun engu hvort launahækkanir verði 5, 10 eða 15% ef launafólki verður ekki tryggður einhver stöðugleiki á þeim gríðarlega skuldavanda sem heimilin berjast við. Það er í raun ótrúlegt að SA skuli ekki taka á skuldamálum alþýðunnar, því eina lífæð margra fyrirtækja er aukin neysla.
Hvað er til ráða og hvað á að gera?
Það á að hafna þessum samningum og krefjast þess að samhliða launahækkunum verði launafólki tryggður stöðugleiki vegna húsnæðisskulda í formi breytinga á neysluvísitölugrunni eða þaki á vexti og verðbætur.
Hvernig náum við slíku fram?
Ein af lífæðum fyrirtækja er aðgangur að eftirlaunasjóðum launafólks. Við getum hæglega réttlætt það að launþegahreyfingin komi í veg fyrir frekari fjárfestingar lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu þar til framtíð launafólks og heimila verði tryggð. Það er með öllu óábyrgt að fjárfesta í atvinnulífi eða á markaði þar sem óstöðugleiki og verkföll eru yfirvofandi.
Nú er ljóst að forystusveit ASÍ ætlar að nota verðtrygginguna sem skiptimynt fyrir atkvæði inn í evrópusambandið og ýta þannig alþýðunni til kosninga með byssusting í bakinu.
Nú er ljóst að umboðssvik verkalýðskónganna eru svo alvarleg í öllum skilningi að leitun er að öðru eins. Málflutningur þeirra einkennist af lýðskrumi og, er virðist, meðvitaðri uppgjöf.
Það eitt að verkalýðshreyfingin ætli að hækka iðgjöld í lífeyrissjóði úr 12 í 15,5% til að trekkja upp almenna lífeyriskerfið til jafns við það opinbera, sem nú þegar inniheldur 500 milljarða skekkju sem skattgreiðendur þurfa að standa skil á miðað við óbreytt ástand, er ákveðin veruleikafirra sem er efni í stóra grein.
Látum ekki blekkjast. Ef það er einhvern tíma nausynlegt að standa í lappirnar og krefjast raunverulegra breytinga á þeirri kerfisvillu sem alþýða þessa lands þarf að þola, þá er það nú.
Eigum við að skrifa undir og samþykkja þennan óskapnað? Eigum við að samþykkja grímulaust ofbeldi fjármálafyrirtækja? Eigum við að viðurkenna að hrun fjármálakerfisins var okkur sjálfum að kenna og engum öðrum? Eigum við að skrifa undir og klappa verkalýðskóngunum á öxlina og þakka frábæra framistöðu við að gæta hagsmuna okkar frá hruni?
Nei Takk.
Ragnar Þór Ingólfsson
Stjórnarmaður í VR.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)