2.3.2010 | 10:39
Vanheill á geði ?
Þeir sem hafa skoðanir innan verkalýðshreyfingarinnar sem ekki þóknast þeim sem stjórna eru taldir vanheilir á geði og öllum ráðlagt að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá slíku fólki.
Það er eitt að þóknast ekki verkalýðs elítunni sem öllu stjórnar innan hreyfingarinnar. En að verða vitni að skítlegum vinnubrögðum þeirra sem þola gagnrýni svo illa er með ólíkindum og er eitthvað sem ég átti alls ekki von á þegar ég fór í þessa baráttu.
Sem dæmi má nefna gagnrýni mína á lífeyrissjóðina þar sem verið er að semja við sama fólkið og kom þjóðinni í þessa ömurlegu stöðu og baráttu minni fyrir sjálfsögðu gegnsæi i fjárfestingum sjóðanna hafa stjórnarmenn svarað því við að ég gangi ekki heill til skógar.
Þegar ég tók sæti í nefnd um verklag við skipun í stjórn lífeyrissjóðsins fékk einn nefndarmanna símtal frá Stefaníu Magnúsdóttur starfsmanni og stjórnarmanni VR og miðstjórnarmanni í ASÍ þess efnis að regluverkið yrði að vera til þess gert að ákveðnir aðilar gætu ekki átt möguleika á setu í stjórn lífeyrissjóðsins.
Á stjórnarfundi VR þar sem ég lagði fram tillögu um að VR myndi beyta sér fyrir afnámi verðtryggingar tafarlaust og þak verði sett á vexti, sendi stjórnarmeirihlutinn frá sér þessa yfirlýsingu. Í framhaldi tók einn stjórnarmaður úr meirihlutanum þá ákvörðun að samþykkja ekki sameiginlega yfirlýsingu meirihlutans því hann taldi sig ekki geta, með nokkru móti, stutt verðtrygginguna.
Í framhaldi hafði Stefanía Magnúsdóttir VR/ASÍ samband við viðkomandi stjórnarmann og bað hann um að mæta ekki á stjórnarfundinn ef hann myndi ekki skrifa undir og samþykkja sameiginlega yfirlýsingu meirihlutans.
Hann stóð með sinni sannfæringu og samþykkti ekki yfirlýsinguna og er komin út í kuldan, eins og hann sjálfur orðar það, það eru allir hættir að hafa samband við mig.
Það var einmitt Stefanía Magnúsdóttir sem kallaði niðurstöðu síðustu og einu lýðræðislegu kosningarnar í VR, Slys.
Virðing og Réttlæti eru stór orð.
Nú fer formaður VR á milli vinnustaða og lætur stór orð falla í garð minnihlutans sem hann rægir niður í svaðið í nafni félags sem kennir sig við Virðingu og Réttlæti.
Það er auðvelt að sanna með fundargerðum félagsins að við í minnihlutanum höfum eingöngu unnið að þeim málum sem við lofuðum kjósendum okkar fyrir síðustu kosningar.
Er ekki komin tími til að Kristinn Örn Jóhannesson formaður VR fari að dusta rykið af kosningaloforðunum í stað þess að skítkastast út í minnihlutan sem engu ræður en hefur gert sig sekan um að standa við sinn hluta samningsins við félagsmenn sína.
Ég hef unnið hjá sama fyrirtækinu í rúmlega 18 ár, er 3 barna faðir og mikill fjölskyldumaður. Ég á frábæran vinahóp sem ég hef vanrækt nokkuð vegna baráttunnar í VR. Fjölskyldan er og verður alltaf í fyrsta sæti og hef ég því fórnað mikilvægum tíma með góðum vinum vegna þessa.
Ég byrjaði að gagnrýna lífeyrissjóðakerfið eftir vinamissi haustið 2007. Ég er að gagnrýna kerfi sem er rotið að innan og utan. Ég mun halda þeirri gagnrýni áfram þangað til kerfið er reiðubúið til að breyta sér í þágu okkar sem eigum þessa peninga og byggjum félögin og sjóðina.
Að ég sé vanheill á geði eða gangi ekki heill til skógar við það eitt að verja þau grunngildi sem mér voru kennd í æsku segir meira um fólkið sem ég er að takast á við.
Núverandi meirihluti mun reyna allt til þess að gera störf okkar tortryggileg. Þau geta hinsvegar aldrei falið sig fyrir aðgerðaleysinu, ákvörðunarfælninni og sviknum loforðum.
Ragnar Þór Ingólfsson
Stjórnarmaður í VR
Tölvupóst samskipti eru aðgengileg öllum þessu til staðfestingar og verða birt innan skamms, samtöl við fréttamenn, samskipti og hroki innan miðstjórnar ASÍ gagnvart fólki sem ekki kóar með forystunni, staðfestar af aðilum tengdum miðstjórn ASÍ.
Fyrirspurnir sendist á ragnar.ingolfsson@live.com
Einnig ef félagsmenn hafa áhuga á að fá einhvern úr minnihlutanum í heimsókn á vinnustaði til að heyra hina hlið málsins. Höfum farið á nokkra vinnustaði nú þegar við mikla ánægju þeirra félagsmanna sem við ræddum við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)