9.2.2010 | 11:10
Verkalýðshreyfing á Villigötum: Verðtryggingin og lífeyrissjóðirnir.
Stjórnarmeirihluti VR endurspeglar brenglaðar hugmyndir ASÍ um hagsmunagæslu launþega á Íslandi. Til marks um það mun ég birta með tveggja til þriggja daga millibili úttekt á störfum stjórnarmeirihluta VR og verkalýðsforystunnar í heild sinni, séð með augum stjórnarmanns sem er sakaður um niðurrif og aðgerðarleysi.
Þetta er fyrsta færslan af 13 um þau mál sem ég hef lagt fram til stjórnar VR og hvernig meirihluti stjórnarinnar hefur kerfisbundið unnið gegn þeim málum og hagsmunum félagsmanna okkar.
Ég mun svo í lokin fara yfir það hverjir mynda þennan meirihluta, hvaðan þeir koma og hvað þeir lofuðu að gera fyrir félagsmenn sína en gerðu ekki.
Ég mun aldrei sætta mig við það að vera kallaður helsta vandamál launþegahreyfingarinnar fyrir það eitt að fylgja þeim málum eftir sem ég lofaði félagsmönnum VR að berjast fyrir.
Fyrst tökum við fyrir áskorun minnihutans til meirihluta stjórnar þann 13.Janúar síðastliðinn. Eftir að hafa gefist upp á aðgerðaleysi sama meirihluta í sama máli.
Formaður VR telur launafólk vera í ágætis málum. Ég tel formann VR vera á rangri hillu.
Verkalýðshreyfingin er að velta yfir 10 milljörðum á ári og uppsker ríflegan hluta launa okkar um hver mánaðarmót. Ég er líklega ekki sá eini sem kvartar yfir uppskerubresti.
Sjá svör mín með bláu en svör meirihlutans með rauðu.
Við skoruðum á stjórnarmeirihluta VR að beita sér fyrir:
1.Afnámi verðtryggingar tafarlaust og þak verði sett á vexti.
Í frjálsum markaðskerfum ákvarðast vextir og lánakjör á markaði og grundvallast á lánasamningum á milli lántaka og lánaveitanda. Það eru kostir og gallar við verðtryggð lán. Fyrir suma er kosturinn sá að afborganir eru lægri í upphafi en fara svo hækkandi út lánstímann. Til lengri tíma litið getur slíkt hentað lántökum vel.
Fyrir aðra henta hefðbundin nafnvaxtalán, en greiðslubyrði þeirra er þyngri í upphafi öfugt við verðtryggð lán og er greitt af höfuðstól frá upphafi.
Af þessu má dæma að meirihluti stjórnar VR styðji verðtrygginguna sem að mínu mati jafngildir vanhæfi viðkomandi aðila í stjórn stærstu hagsmunasamtaka launafólks á íslandi.
Skilja má kröfu þremenninganna þannig að þeir krefjist neikvæðra raunvaxta enda ekki ljóst hvar þeir vilja að vaxtaþakið liggi. Hvernig neikvæð ávöxtun getur samrýmst hagsmunum efnahagslífsins og t.d. sjóðfélaga í lífeyrissjóðum er vandséð. Er það virkilega ásetningur þremenningana að rýra eignir lífeyrissjóðsfélaga enn frekar sem myndi hafa í för með sér lækkun á greiðslum til elli- og örorkulífeyrisþega núna og í framtíðinni? Vilja þeir jafnvel ganga enn lengra og afnema verðtryggð afkomuréttindi þeirra líka? Lítil er samúð þeirra og samkennd með öldruðum og öryrkjum.
Í dag eru lífeyrissjóðir og bankar að stórlaga eignastöðu sína eftir útrásarsukkið, með stórfelldri eignaupptöku í fasteignum fólks í formi verðtryggingar og myntkörfulána. Þetta er ekkert annað en lögvarinn þjófnaður sem verkalýðsforystan á að beita sér fyrir að verði stöðvaður TAFARLAUST!
Það er til marks um fádæma þekkingaleysi meirihlutans á málefnum lífeyrissjóða um að afnám verðtryggingar rýri eignir sjóðsfélaga.
Er eignaupptaka í fasteignum framtíðarlífeyrisþega, til að borga þeim nokkrar krónur í lífeyri, að rýra framtíðarlífeyri þeirra?
Fasteignir okkar eru okkar mikilvægasti lífeyrir.
Heimilin eru okkar mikilvægasti lífeyrir og öryggisnet. Ef sjóðirnir tapa á braski sínu þá eiga fasteignir okkar að vera öryggisnetið sem grípur okkur í ellinni. OKKUR en ekki banka og lífeyrissjóði.
Hvað kostar það samfélagið þegar stórskuldugir árgangar fara á lífeyri, þegar lágmarks framfærsla fer að mestu leiti í afborganir af húsnæði?
Við hljótum að vilja skuld litla eða skuld lausa lífeyrisþega sem verða svo virkir neytendur í samfélaginu, atvinnulífinu til hagsbóta.
Hversu mikil var eign lífeyrissjóða í verðtryggðum eignum fyrir hrun? Rúm 20% voru í innlendum hlutabréfum (verðlaus í dag) rúmlega 40% voru í erlendum verðbréfum um 15% í skuldabréfum útrásarfyrirtækja og banka (að mestu verðlaus en voru verðtryggð) og 25 % sjóðsfélagalán og íbúðabréf ásamt öðrum verðtryggðum verðbréfum.
Lífeyrisréttindi eru EKKI verðtryggð. Hinsvegar er lífeyrissjóðum skylt samkv. lögum að ávaxta lífeyri að lágmarki 3,5% verðtryggt.
Lífeyrissjóðir hafa heimild til að skerða lífeyrisréttindi eða auka eftir því hvernig þeim gengur að ávaxta sig.
Þeim er skylt að reikna niður áunnin réttindi lífeyrisþega ef tryggingafræðileg staða þeirra er neikvæð sem nemur 10% eða meira. Lögunum var svo breytt í desember 2008 í 15% tímabundið.
Þetta þýðir að ef skuldbindingar lífeyrissjóðanna að núvirði og til framtíðar fara yfir neikvæð tryggingafræðileg mörk ber sjóðunum skylda að skerða lífeyrisréttindi.
Þetta þýðir að lífeyriréttindi á almennum vinnumarkaði eru ekki verðtryggð. Þau eru hinsvegar verðtryggð hjá ríkisstarfsmönnum sem hafa ríkistryggðan lífeyri. T.d. tap LSR (lifeyrissjóðs starfsmanna ríkis) þarf að bæta upp að stórum hluta með skatttekjum almennings.
Nú eru fyrstu lífeyrisþegarnir sem greitt hafa í lífeyrissjóði í 40 ár eða meira byrjaðir að taka út lífeyri. Í fæstum tilfellum stendur sá lífeyrir undir lágmarks framfærslu og þurfa lífeyrisþegar að stóla á greiðslur frá tryggingastofnun ofan á lífeyri frá stéttarfélagssjóðum. Ef lífeyrir skerðist,aukast greiðlur frá ríkinu þar sem lágmarks framfærslu er ekki náð. Til gamans má geta að þeir sem aldrei hafa greitt í lífeyrisjóði síðsatliðin 40 ár fá það sama og hinir nema að öllu leiti frá tryggingastofnun. Um þetta eru til fjölmörg dæmi.
Notkun verðtryggingar hér er alltof víðtæk og hefur skapað vítahring sjálfvirkra verðhækkana. Alþekkt er að fyrirtæki og stofnanir hafi réttlætt gjaldskrárhækkanir með vísan í vísitöluhækkanir án þess þó að þær hafi haft nokkur áhrif á rekstrargjöld þeirra. Þennan vítahring þarf að rjúfa. Sömuleiðis er það þjóðþrifamál að berjast fyrir niðurfellingu opinberra gjalda eins og stimpilgjalda sem hamla samkeppni á lána- og bankamarkaði.
Þessi vítahringur verður aldrei rofin nema með afnámi verðtryggingar. Þegar Ólafslögin voru sett árið 79' áttu þau að tryggja fjármagnseigendur gegn eignabruna sem myndaðist við óstjórn peningamála hér á landi. Þegar verðtrygging launa var svo afnumin 1982 en verðtrygging lána var látin halda, tala margir af okkar færustu hagfræðingum um mestu hagstjórnarmistök íslandssögunnar. Ég er sammála þeim.
Verkalýðsforystan lofaði launafólki afnámi verðtryggingar fljótlega í kjölfar afnáms verðtryggingar launa. 28 árum síðar hefur ekkert gerst. Það er komin tími til að efna gamalt loforð.
Hann er sorglegur og grunnur málflutningur pólitískra evrópusinna að evran sé EINA lausnin frá verðtryggingunni.
Á að nota verðtrygginguna sem skiptimynt fyrir atkvæði inn í evrópusambandið og reka þannig launafólk til atkvæða með byssusting í bakinu?
Þeir sem góla hvað hæst í gospelkór evrópusinna telja fólki trú um að vextir verði lægri,lánakjör betri og verðbólga lítil með upptöku Evru og að skuldastaða okkar hafi ekkert með það að gera.
Það eina sem breytir þeim kjörum sem í boði eru hverju sinni er greiðsluhæfni þess sem lánið tekur.
Ef kjör okkar verða betri innan ESB miðað við sömu skuldastöðu Íslands, hvað þurfum við þá að gefa eftir af sjálfstæði okkar og auðlindum til að fá betri lána kjör ? Ekki batnar skuldastaðan svo mikið er víst.
Krónan er hvorki betri né verri en hver annar gjaldmiðill hún er hugtak en ekki hlutur sem endurspeglast að langstærstum hluta í innistæðum í bankakerfinu sem verða til úr engu líkt og færslur í bókhaldskerfi.
Krónur verða til við kaup banka á skuldaviðurkenningum lántakenda sem fá andvirði þeirra yfirfært á bankareikinga sína með tölvufærslu.
Krónan er einkum frábrugðin matadorpeningum í því einu að hún er lögboðinn gjaldmiðill í viðskiptum innanlands og til kaupa á gjaldeyri.
Lausnin felst í því að stjórna hér peningamálum með því hugarfari að eyða ekki meir en að þjóðarbúið aflar í gjaldeyri fyrir það sem við framleiðum og skapa samfélagslegan hvata fyrir stöðugleika.
Lausnin felst ekki í því að stjórna hér peningamálum með rassgatinu í þágu útvaldra eins og gert hefur verið síðustu áratugi.
Ragnar Þór Ingólfsson
Stjórnarmaður í VR.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)