24.11.2010 | 10:04
Séreignastefnan og asninn ég.
Ef hugsunin nær ekki út fyrir sjúkan lagaramma sérhagsmuna er lítið um lausnir og úrræði. Eru valdhafar að vinna stríðið við almúgann?
Það mikilvægasta fyrir framtíðina er að byrði á framtíðarskattkerfið, sem afkomendur okkar koma til með að halda uppi, verði sem minnst.
Við rekum lífeyriskerfi sem byggist á þenslu, skuldaþrælkun og eignamyndun af stærðargráðu sem vonlaust er að geyma í svo litlu hagkerfi, hvað þá að losa þær. Er ekki kominn tími til að byggja upp nýtt kerfi á grunni þess gamla sem gerir ungu fólki kleift að koma þaki yfir höfuðið og safna lífeyri á sínum eigin forsendum?
Ástæða bágrar stöðu lífeyrisþega í dag er ekki eingöngu sú að eignir sjóðanna brunnu upp á einhverju ímynduðu verðbólgubáli heldur að stjórnendur sjóðanna, sem voru um 90 talsins þegar mest var, stóðu ekki undir væntingum um að geyma peningana sem nú á að nota.
Það er ekki einfalt að brauðfæða í framtíðinni með þessum hætti og virðist ekkert auðveldara að geyma peninga en mat. Er því ekki að undra að sveltandi lýðurinn horfir spyrjandi á troðfullar matarkistur lífeyrissjóðanna sem telja okkur trú að um ferskmeti sé að ræða og alls ekki megi nota. Er farið að rotna í matarkistunum nú þegar og í hvaða ástandi verður innihaldið eftir 20 ár?
Þeir lífeyrisþegar sem standa best í dag eiga skuldlausar eða skuldlitlar eignir og hafa jafnvel náð að spara lítilræði með því að leggja til hliðar framhjá lögbundna kerfinu. Þessi hópur fer á lífeyri sem virkur neytandi til mikilla hagsbóta fyrir hagkerfið. Þetta vitum við, en við vitum ekki hvernig ástand skapast þegar afkomendur okkar verða skattpíndir til að halda uppi félagslegu húsnæðiskerfi og lágmarksframfærslu þegar skuldaþrælar nútímans fara eignalausir á lífeyri.
Stjórnvöld tala um að séreignastefnan sé liðin undir lok.
Ég tel að séreignastefnan hafi kennt okkur hið gagnstæða og hversu mikilvægt er að við bindum lífeyri okkar og framtíð í séreign.
Rekstrarkostnaður lífeyriskerfisins með innlendum fjárfestingagjöldum er ekki undir 3,3 milljörðum á ári sem jafngildir því að iðgjöld 11.458 einstaklinga með 200.000 kr. á mánuði fara í ekkert annað en að standa undir rekstrarkostnaði sjóðanna. Við þennan kostnað bætast svo erlend fjárfestingagjöld.
Hvað verða sjóðirnir búnir að tapa lífeyri okkar mörgum sinnum áður en við þurfum á honum að halda?
Það verður að hugsa kerfið upp á nýtt, jafna réttindi og fækka sjóðunum. Umræðan undanfarnar vikur um lýðskrum og rangláta mótmælendur er það versta sem ég hef orðið vitni að frá hruni. Sorglegast af öllu þykir mér hvernig áróðursvélar valdhafa virðast ná heljartökum á samfélaginu.
Mikið er í húfi fyrir valdhafa þessa lands að vinna stríðið við almúgann og troða á öllu sem heitir réttlæti og almenn skynsemi.
Ef hugsunin nær ekki út fyrir sjúkan lagaramma sérhagsmuna er lítið um lausnir og úrræði. Það væri óskandi að forystusveit verkalýðsins mótmælti óréttlætinu eins kröftuglega og hún mótmælir lýðskrumi þeirra sem vilja raunverulegar breytingar í stað endurreisnar sömu kerfisvillunnar og hrundi, og mun hrynja kerfisbundið um ókomna tíð.
En vissulega þurfum við að vera raunsæ alveg eins og pistlahöfundur hugsar með raunsæislegum hætti um framtíð sína og fjölskyldu.
Ef ég á að koma með raunsæislegar lausnir verð ég að hugsa út fyrir rammann, út fyrir lagaramma sérhagsmuna, út fyrir regluverk græðgisvæðingar, út fyrir samtryggingu valda, út fyrir pólitíska hagsmuni og út fyrir raunsæi þeirra sem allt þykjast vita um raunsæi.
Hugtök eins og kjölfestufjárfestar hljóma óþægilega kunnuglega nú þegar hrægammarnir sem græddu, og bera ábyrgð á óförum þjóðar, eru komnir heim með þýfið og spila sig saklausa bjargvætti í gervi fagfjárfesta.
Þjófur er sá kallaður sem stelur sér til matar en þeir sem stela milljörðum á kostnað heillar þjóðar,fagfjárfestar.
Raunsæi ríkisstjórnarinnar í skattamálum má líkja við klyfjaðan asna. Í stað þess að létta honum byrðina svo hann komist lengra og léttari inn í framtíðina, verði duglegur, framleiðinn, jákvæður og vinnusamur asni, er lausn ráðamanna á vandanum að skella meiri byrðum á asnann. Asninn fer hægar yfir með hverju pundi sem á hann er lagt, alveg þangað til hann örmagnast og allir hinir asnarnir sem eftir eru þurfa að taka við því sem sá örmagna réði ekki við.
Er skrýtið að manni líði stundum eins og asna við að hlusta á ropið í pakksöddum ráðamönnum.
Yfirfullt hagkerfi heimsins af bréfaeignum og pappírsskuldum þarf stöðugt að leiðrétta sig með gríðarlegum eignatilfærslum sem stjórnað er af öflum sem hafa sjálfskipaðan einkarétt á að framleiða peninga úr þunnu lofti á kostnað allra hinna sem fyrir eru. Spákaupmenn og braskarar sem veðja á allt frá nauðsynjavörum sveltandi ríkja til ríkisgjaldmiðla hinna ríku, maka svo krókinn á öllu saman í skjóli laga og leyndarhyggju.
Allt er þetta gert á kostnað alþýðu allra landa. Að réttkjörnir gæslumenn okkar skuli verja þetta sjúka kerfi sem verið er að reisa á sömu brauðfótum og það síðasta sem hrundi er ömurlegt og ólíðandi.
Hver er lausnin á vandamálum samfélags sem uppfullt er af réttmætri vantrú og reiði? Vandamálin eru í rituðu máli, orðum og tölum.
Það vantar sárlega til valda, kjarkmikið hugsjónafólk sem er tilbúið að breyta forsendum á blöðum með penna að vopni, tilbúið að strika út óréttlæti og skrifa inn réttlæti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)