20.10.2010 | 16:42
Skyndilegur áhugi stjórnenda á högum sjóðsfélaga lífeyrissjóða.
Mér finnst athyglisvert hversu forsvarsmenn lífeyrissjóða rjúka nú upp til handa og fóta og tala um HAG sjóðsfélaga.Ekki er hann til staðar þegar sjóðsfélögum er lánað úr eigin veski, sjóðsfélagalán, með 100% lágmarks veði, lánsfjárhæð sem takmarkast við 65% af markaðsvirði og sjálfskuldarábyrgð. Þetta hljóta að vera öruggustu útlán jarðkringlunnar. Á meðan sjóðsfélagar taka sjálfir lán sem tryggð eru út í hið óendanlega keyptu sömu stjórnendur sömu sjóða undirmálslán viðskiptabankanna sem lánuðu 90-110% af metnu markaðsvirði.
Áhyggjurnar hljóta að vera enn meiri af þeim sjóðsfélögum sem eiga fasteignalánin í skuldabréfavöndli Seðlabankans sem afhentur var lífeyrissjóðunum á vildarkjörum til að lagfæra hörmulega tryggingafræðilega stöðu þeirra.
Voru áhyggjurnar til staðar þegar útrásarfélögin fengu ótakmörkuð skuldabréfalán án nokkurra veða annarra en bréfsefnið og blekið sem upphæðirnar voru skrifaðar á? Það þarf ekki að fara mörgum orðum um heimtur þeirra lána.
Á meðan stjórnendur tala um hag sjóðsfélaga eru illa fengnar verðbætur fasteignalána notaðar í áhættufjárfestingar og vafasöm fyrirtækjakaup ásamt því að breiða yfir gegndarlaust fjármálasukk og spillingu innan lífeyrissjóða kerfisins.
Það er rétt að stjórnir lífeyrissjóða hafa ekki umboð til að semja niður höfuðstólslækkun húsnæðislána en þær hafa ótakmarkaðar heimildir til að færa niður lífeyri og áunnin réttindi sjóðsfélaga, sé glóruleysið í fjárfestingum þeim mun meira. Þær heimildir urðu rýmri með lagabreytingum sem fóru með ljóshraða í gegnum alþingi desember 2008.
Hverjir taka á sig skellinn?
Til að breiða yfir fordæmalaust fjármálasukk lífeyrissjóðanna eru farnar eftirfarandi leiðir til að lagfæra bækurnar.
1.Skerðing lífeyris og áunna réttinda.
þ.e. skerðing á lífeyri þeirra sem nú taka út, til jafns við skerðingar áunna réttinda þeirra sem nú greiða inn í kerfið.
2.Hækkun lífeyrisaldurs í 67ár.
Bætir tryggingafræðilega stöðu sjóðanna mikið á kostnað allra þeirra sem nú greiða í kerfið og eiga eftir að fara á lífeyri.
3.Breytingar á réttindaávinnslu lífeyrissjóðanna.
Þ.e. Iðgjaldagreiðendur fá minni réttindi fyrir hverjar greiddar 10.000kr. sem skerðir réttindi og framtíðarréttindi framtíðariðgjalda þeirra sem nú greiða í kerfið.
4.Tryggingafræðileg staða sjóðanna er í flestum tilfellum í hæstu leyfilegu neikvæðu mörkum sem þýðir að stór hluti iðgjalda þeirra sem nú greiða í kerfið og safna fyrir framtíðar lífeyri eru notuð til að greiða lífeyri þeirra sem nú taka út.
5.Verðbætur á fasteignalánum (okkar mikilvægasta lífeyri) hafa hækkað höfuðstól íbúðalána sjóðsfélaga um 30% frá 1/1 2008.Og skert þannig framtíðar lífeyri flestra þeirra sem nú greiða í kerfið.
6.Gríðarleg óvissa um raunverulegt verðmæti eigna kemur í bakið á þeim nú safna sér lífeyri.
Það vill oft gleymast hverjir það eru sem raunverulega borga brúsann.
HH hafa talað fyrir leiðréttingum á forsendubresti og þjóðarsátt um lausnir.
Það hefur aldrei verið minnst á afskriftir skulda. Við viljum borga til baka það sem við fengum lánað með sömu fáránlega háu vöxtunum og við skrifuðum undir að greiða miðaða við forsendur lánanna þegar þau voru tekin.
Þeir eru ófáir sem fengu fasteignir sínar á silfurfati sem tala nú gegn almennum leiðréttingum.
Ábyrgðin á ástandinu er fjármálafyrirtækjanna og lífeyrissjóðanna.Hverjir njóta góðs á ábyrgðaleysinu, útlánaþenslunni og þar af leiðandi hækkun verðbóta?
Ég tek fasteignalán hjá viðskiptabanka mínum fyrir 9 árum,samið var um vaxtakjör og verðbólgumarkmið og innsiglað með lánasamningi. Á ég að sætta mig við ofur verðbæturnar sem færast á eignareikning bankans sem fór gróflega gegn tilraunum ríkisins og seðlabankans við að slá á útlánaþenslu, til að standa við yfirlýst verðbólgumarkmið, sem notuð voru í lánasamningnum mínum? Með því að bjóða ólögmæta gengistryggða lánaafurð þegar útlán bankanna drógust saman, fóru bankarnir gróflega gegn hagsmunum viðskiptavina sinna.
Get ég treyst stjórnendum lífeyrissjóðanna til að verja framtíðar lífeyri minn í blindbil spákaupmennsku og sérhagsmuna? Get ég treyst stjórnendum lífeyrissjóða til að verjast framtíðar sveiflum í völundarhúsum kerfisvillunnar sem kom okkur á hausinn og valdahafar reisa nú við á sama sandi? Getum við treyst stjórnendum sjóðanna fyrir lífeyri okkar í kerfisbundnu markaðs hruni og valdabrölti viðskiptalífsins?
Ég treysti ekki Jóni Jónssyni forstjóra Stóra lífeyrissjóðsins til að geyma fyrir mig kerfisbundna eignaupptöku á mikilvægasta lífeyri mínum þegar hann sjálfur ber ábyrgð á eignatilfærslunni.
Jón og þeir sem á undan honum voru hafa einfaldlega ekki unnið sér inn traust mitt á þeim rúmlega 40 árum sem kerfið hefur starfað í núverandi mynd. Saga sjóðanna í fjárfestingum er þyrnum stráð og meðan ekkert virðist ætla að breytast úr því leyndarhyggju,vensla og eiginhagsmuna kerfi sem hrundi fyrir framan nefið á okkur haustið 2008 eru sjóðirnir ekki líklegir til frekari afreka í langtíma fjarfestingum. Nú koma nýjar blokkir í stað þeirra gömlu, sama bullið í nýjum jakkafötum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)