Verður Andrés Önd næsti forseti?

Nú hefur Þorgeir Eyjólfsson verið ráðinn til Seðlabanka íslands til að stýra losun gjaldeyrishafta. Það væri svo sem ekki til frásagnar nema fyrir þá staðreynd að undir stjórn Þorgeirs tapaði Lífeyrissjóður verslunarmanna gríðarlegum upphæðum á gjaldeyrisbraski Þorgeirs, sem gerði framvirka gjaldmiðla samninga fyrir hönd Lífeyrissjóð verslunarmanna upp á 93 milljarða rétt fyrir hrun. Ekki sér fyrir endann á tapi sjóðsins vegna þessa en það hleypur á milljörðum ef ekki milljarðatugum.

Þessi óskiljanlega áhættusækni, eins og það er orðað í Rannsóknarskýrslu Alþingis, var kannski ekki svo ótrúleg í ljósi tengsla forstjórans fyrrverandi við þau félög sem aftur tóku stöðu gegn íslensku krónunni.

Í ljósi þess að gjaldeyrisbrask Þorgeirs sem að öllum líkindum braut lög um skyldutryggingar lífeyrisréttinda og samþykktir sjóðsins hlýtur að teljast með hreinum ólíkindum að maðurinn skuli stýra gjaldeyrisviðskiptum þjóðarinnar og er kannski enn eitt dæmið um þá dæmalausu stjórnsýslu sem á borð er borin fyrir Alþýðu þessa lands.

Verður Hannes Smárason næsti Seðlabankastjóri? Eða Ragnar Önundarson næsti forstjóri samkeppniseftirlitsins?

Ragnar Þór Ingólfsson 

Stjórnarmaður í VR.


150 milljarðar frá heimilum til lífeyrissjóða.

Mikið er talað um gróða bankanna og heimtur þeirra vegna vildarkjara á skuldum heimilanna.

Það vill gleymast í umræðunni að íslenskir lífeyrissjóðir hafa eignafært yfir 150 milljarða í verðbætur á fasteignalánum almennings frá ársbyrjun 2008. Og hafa þar af leiðandi stórlagað eignastöðu sína eftir glórulaust útrásarsukkið á kostnað eigin sjóðfélaga.

Það er ekki nóg með að sjóðfélagar horfi á eftir eftirlaunum sínum í svarthol meingallaðs fjármálakerfis heldur horfum við á vafasamar verðbæturnar notaðar til endurreisnar sömu kerfisvillunnar og hrundi eins og spilaborg á haustmánuðum 2008.

Að halda því fram að verðtrygging fjárskuldbindinga ein og sér tryggi sjóðsfélögum verðtryggðan lífeyri er einfaldlega galið.Það eru gæði fjárfestinganna sem tryggja afkomu sjóðanna og sjálfbærni okkar eftir að vinnuskyldu líkur sem tryggir áhyggjulaust ævikvöld.

Það er vert að skoða málflutning varðhunda lífeyriskerfisins sem kalla það hornstein íslensks samfélags og finna lífeyriskerfum nágrannaríkjanna, sem kennd eru við gegnumstreymiskerfi, allt til foráttu. Gegnumstreymiskerfi gengur í stuttu máli út á að skattkerfið stendur undir lífeyri þar sem lítil söfnun og sjalfbærni á sér stað.

Í því samhengi hlýtur maður að spyrja sig hvort skylduaðild að lífeyrissjóðum sé eitthvað annað en skattur og þegar horft er til eigna lífeyrissjóðanna sem samanstendur af stærstum hluta af skuldum sjóðsfélaganna sjálfra.

Af um 2.000 milljarða meintum eignum lífeyrissjóðanna liggja um 900 milljarðar í verðtryggðum okurvaxta húsnæðislánum almennings og skuldabréfum ríkisins, bæjar og sveitarfélaga.Mikil óvissa ríkir svo um raunverulegt virði þeirra eigna sem eftir standa sem eru margar vafasamar í meira lagi.

það er ekki svo að sá sem þetta skrifar sé á móti lífeyrissjóðum og því þarfa verki að sjóðsfélagar standi sem best að vígi eftir að vinnuskyldu líkur.

Kerfið í þeirri mynd eins og það er í dag gengur einfaldlega ekki upp. Við sjáum fram á að stór hluti lífeyrisþega framtíðarinnar fara stórskuldugir og eignalausir á lífeyri og þurfa að reiða sig á Ponzi uppbyggingu meingallaðs kerfis sem aftur reiðir sig á meingallað fjármála og markaðskerfi sem er dæmt til að hrynja með kerfisbundnum hætti.

Væri ekki ráð að koma þröngum sérhagsmunaklíkum og afætum frá kerfinu þar sem rekstrarkostnaður er að lágmarki 5 milljarðar á ári og huga að framtíðinni með hag sjóðsfélaga að leiðarljósi.

Þeir sjóðsfélagar sem standa best í dag fóru skuldlausir á lífeyri með þak yfir höfuðið sem árangur ævistarfsins í stað innihaldslausra loforða.

Það er með ólíkindum að í svo litlu landi skuli vera rekin tvö almannatryggingakerfi, annað af ríkinu og hitt af aðilum vinnumarkaðarins í gegnum yfir 30 lífeyrissjóði sem haga sér eins og ósnertanlegir mafíósar þegar sjóðfélagar voga sér að benda á augljósa annmarka kerfisins.  

Ragnar Þór Ingólfsson 

Stjórnarmaður í VR

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband