Lágmarksframfærsla.

Ágæti, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.

Viss hluti samlanda okkar þarf að lifa á lágmarkskjörum frá einum mánaðamótum til þeirra næstu. Til þessa hóps teljast: öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir, félagsbótaþegar og starfsmenn á lágmarkslaunatöxtum. Flestallir sem koma að ákvörðun um hversu mikið einstaklingar í þessum hópum hafa úr að spila hafa margfalt hærri tekjur og eru sökum þess illa búnir til að meta aðstæður skjólstæðinga sinna rétt.

Heildartekjur upp á 160 þúsund krónur á mánuði er staðreynd fyrir stóran hóp Íslendinga. Bæði rannsóknir þinna eigin starfsmanna, sérfræðinga og hyggjuvit meðalmannsins benda ótvírætt til þess að nánast ómögulegt sé að ná endum saman með fyrrnefndri upphæð.

Eftir umfangsmikla vinnu á vegum velferðarráðuneytisins var nýlega lögð fram ákaflega gagnleg skýrsla um neysluviðmið (Sjá hér). Hún er vel unnin í alla staði og gefur góða vísbendingu um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.

Vegna þessarar skýrslu var sett upp reiknivél (Sjá hér) á vef ráðuneytisins. Samkvæmt henni þarf einstaklingur í leiguíbúð 300.966 krónur í ráðstöfunarfé til þess að eiga fyrir nauðþurftum og öðru sem telst til mannréttinda eins og húsnæði og virkri þátttöku í samfélaginu.

Í ljósi alls þessa leitum við til þín með eftirfarandi spurningu:

Hvernig myndir þú, ágæti Guðbjartur, ráðleggja fólki að ná endum saman með áðurnefndum hundrað og sextíuþúsund króna tekjum á mánuði?

Ráðleggingar þínar gætu orðið upphafið að bættri umræðu um núverandi vandamál þeirra einstaklinga sem glíma við þessa spurningu 12 sinnum á ári.

 

Virðingarfyllst og með ósk um svör.

Ásta Hafberg

Björk Sigurgeirsdóttir

Gunnar Skúli Ármannsson

Elías Pétursson

Jón Lárusson

Kristbjörg Þórisdóttir

Ragnar Þór Ingólfsson

Rakel Sigurgeirsdóttir

 

Bréf með sömu fyrirspurn sent á Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands.

Afrit sent á fjölmiðla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Ég tek undir þetta! Það væri áhugavert að sjá viðbrögð.

Sumarliði Einar Daðason, 24.2.2011 kl. 08:54

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

   Gott að eiga góða að.

Helga Kristjánsdóttir, 24.2.2011 kl. 10:07

3 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Milljónaklúbburinn sem nú reynir með öllum ráðum að heilaþvo launafólk og bótaþega um ábyrgð, aðhald og skynsemi þurfa að svara þessari spurningu áður en þeir opna á sér munnin um ábyrgar kröfur. 

Ragnar Þór Ingólfsson, 24.2.2011 kl. 10:27

4 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

> gefur góða vísbendingu um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér

Er þetta ekki misskilningur? Skýrslan segir ekki hvað fólk *þarf* heldur hvað fólk *gerir*. Þannig segir skýrslan okkur hvað fólk eyðir í matvæli og föt, ekki hvað fólk þarf að eyða í þessa útgjaldaliði. Það segir sig sjálft að slíkar tölur eru hærri en þær lágmarkstölur sem teljast myndu "þörf" fólks.

Matthías Ásgeirsson, 24.2.2011 kl. 10:43

5 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Matthías, það er rétt hjá þér. Hins vegar voru aðrir útgjaldaliðir vanmetnir s.s. húsaleiga. Hún er hátt í tvöfalt dýrari en gefið er til kynna í þessu viðmiði. Bara út frá því þá má segja að í heild séu þessi viðmið nærri lagi.
Hvað gerist ef einhver þarf að fara til tannlæknis?
Það er útilokað fyrir venjulegt fólk að safna fyrir útborgun í íbúð eða fjárfesta í bifreið - nema að eiga efnameiri ættingja að sem hjálpa.

Sumarliði Einar Daðason, 24.2.2011 kl. 11:01

6 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Matthías

Varðandi skýrsluna þá er athugasemdin rétt hjá þér að hún segir ekki frá þörfinni beint en út frá henni er hinsvegar hægt að gefa sér margar af þeim forsendum sem þar eru og nota svo áfram eins og við gerðum.

Spurningin er eftir sem áður hvernig er hægt að lifa á því sem t.d. verkalýðshreyfingin hefur hingað til haldið fram að dugi sem lágmarks framfærsla? Verkalýðskóngarnir þurfa sjálfir ekki að kvarta svo mikið er víst. Við hljótum að vera sammála um nauðsyn þess að spyrja þessara spurninga til að vekja upp heilbrigða og málefnalega umræðu um málið.

Ragnar Þór Ingólfsson, 24.2.2011 kl. 11:53

7 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Sumarliði

Sammála þér varðandi neysluviðmið er snúa að nausynlegum útgjaldaliðum eins tannlækningum ofl. ofyrirsjáanlegum útgjaldaliðum er snúa að fjölskyldum. Hef aldeilis fundið fyrir því hvernig þjónustan hefur verið skert og hvernig útgjaldaliðir vegna 3 barna minna hafa aukist. Get rétt ýmindað mér barnafjölskyldur þar sem fyrirvinna missir vinnu eða er á lágmarkslaunum. Mér reynist því tæknilega ómögulegt að svara því hvernig barnafjölskyldur eiga að lifa a þessum lágmarks launum og bótum með rökstuddu, tölulegu og sundurliðuðu svari.  

Ragnar Þór Ingólfsson, 24.2.2011 kl. 13:40

8 Smámynd: Júlíus Björnsson

Hvað þurfa eða er við hæfi að lámarks neyslutekjur [fyrir utan húsnæðiskostnað og eðlilega vexti miðað við umfang fjármálgeira] að vera hér á Íslandi til halda hér upp  vsk. markaði að vestrænni fyrirmynd. Tryggja almenna eftirspurn eftir vöru og þjónustu?

Svona spyrja siðmenntaðir yfirgreindir útlendingar t.d.

Vandamálið á Íslandi er hér veljast trivium einstaklingar til ákvörðunartöku eingöngu en erlendis hjá þroskuð ríkjum er quadrivum lágmarkið.

Júlíus Björnsson, 4.3.2011 kl. 02:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband