Vinnubrögð VR stjórnar 1.hluti.

Meirihlutinn undir forystu þeirra sem berjast um völdin í VR, höfnuðu tilraun minni og Rannveigar Sigurðardóttur, sem var í innsta koppi VR skugga, um að fá meirihlutann til að sættast og koma einhverju góðu frá félaginu sem ein heild. Þetta er aðeins ein af mörgum tilraunum til sátta og rekur frekari stoðum undir það að meirihluti stjórnar vill vísvitandi þagga niður í sátta og barátturöddum innan félagsins á meðan þau vinna hörðum höndum að lokatakmarki sínu.

Tillagan snérist um grundvallar mannréttindi, að hinn almenni félagsmaður fengi beinan kosningarétt í félaginu og afnám uppstillinga og lista fyrirkomulags við stjórnarkjör, meirihlutinn gat ekki sætt sig við að félagsmenn gæti kosið sér forystu í beinni og opinni kosningu. Fyrirkomulagið nú er að stjórnin skipar trúnaðarráð og trúnaðarráð skipar svo stjórn félagsins sem er lykilatriði meirihlutans í að viðhalda völdum innan félagsins.

Hér má svo sjá tilraun okkar Rannveigar til að ná sáttum í félaginu þann 8 des. síðastliðinn.
Eftir að mér bárust tölvupóstar sem staðfestu að meirihlutinn hafði verið að plotta á bakvið tjöldin, svo mánuðum skipti, um völd í félaginu án þess að sýna sáttatilraunum nokkurn áhuga var mér nóg boðið og ákvað að stíga fram.
Mun einnig birta fjölda góðra mála sem við höfum lagt fram en stjórnin alfarið hafnað að skoða eða taka afstöðu til.
Vil að lokum árétta að á skrifstofu VR vinnur frábært starfsfólk sem þarf að lýða fyrir ömurlega stöðu stjórnarinnar sem er öllum stjórnarmönnum VR til háborinnar skammar.

Kveðja.
Ragnar Þór Ingólfsson
Stjórnarmaður í VR

________________________________________
Frá: Ragnar
Sent: 8. desember 2010 09:06
Viðtakandi:XXXXX
Efni: SV: 20. gr. laga VR ásamt greinagerð.

Sæl Öllsömul.

Ég vil nota tækifærið og þakka Rannveigu fyrir þessa óeigingjörnu og góðu vinnu.
Þessi tillaga er gríðarlega sterk fyrir félagið útávið ef við getum komið okkur saman um hana og farið sem ein heild til auka aðalfundarins, verður það til mikilla heilla fyrir félagið og okkur öll.

Það er gríðarlega hart sótt að launafólki og við verðum að standa í lappirnar næstu misserin. Ríkisstjórnin hefur sagt sitt síðasta varðandi skuldavanda heimilanna á meðan fólkið okkar horfir á hluthafafund Existu veita stjórnendum syndaaflausn og friðhelgi með veglegum kaupaukum. Óréttlætið í samfélaginu virðist engan endi ætla að taka og félagsmenn okkar verða nær daglega vitni að einhverju sem rýrir traust þeirra á slagorði félagsins.

Með því að sameinast um tillögu Rannveigar sláum við vopnin úr höndum þeirra sem sækja að félaginu og um leið sýnum við félagsmönnum okkar þá virðingu sem þeir eiga skilið, og vonarneista um að orkan fari nú í að stilla saman strengi stjórnar fyrir komandi átök þar sem eitt stærsta ágreiningsmál frá hallarbyltingunni sé nú til lyktar leitt og sami hópur fer nú fram sem ein heild sem málsvari félagsins.

Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað við getum gert sameinuð útávið miðað við þá orku sem hefur farið í innbyrðis deilur.

Ég rak augun í eitt atriði, Fimm manna uppstillinganefnd, skipuð formanni og fjórum kosnum af trúnaðarráði og tveimur til vara, annast undirbúning kjörfundar.
Þarna er aftur vísað í kjörfund.

Með vinsemd og virðingu.
Ragnar Þór

________________________________________
Frá: Rannveig Sigurðardóttir [rannveig@XXX.is]
Sent: 7. desember 2010 15:12
Viðtakandi: XXX
Efni: 20. gr. laga VR ásamt greinagerð.

Sæl öll, lagaði aðeins 20. gr. þ.e. setti inn félagsfund í stað kjörfundar sem var gagnrýnt á trúnaðarráðsfundi. Setti einnig nokkrar línur niður til skýringa sem greinagerð. Ykkur er heimilt að leggja þetta fram á stjórnarfundi til samþykkis ef ykkur líst ekkert á greinina frá formanni og Guðmundi B. En ég bið alla að gera þetta sem mest í sátt og samlyndi, því nú ríður á að vernda VR fyrir ágangi Lúðvíks og félaga. Allt sem miður fer hjá VR er hagnaður fyrir LL, ef við missum félagsmenn vegna innbyrðis deilna þá fara þeir fljótt yfir í friðinn hjá LL og Guðmundi Franklín Jónssyni.
Ég held að það verði heillaráð að fá tillögu formanns og bera hana saman við þá sem ég er að senda og sjá hvort þær falli saman.
En eins og var sagt við okkur systur í gamla daga: “Elskið þið friðinn og strjúkið á ykkur kviðinn”. Ef einhverra útskýringa er þörf þá hafið samband.

Með bestu kveðju,
Rannveig Sig.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Mér finnst óeðlilegt að VR sé innbyrðis samkeppni um völd, því þetta ætti að vera samhentur hópur um að viðhalda og auka völd almennra félagsmanna til lifa með reisn.

Gangi ykkur vel með siðbæturnar og vernda almenna félagsmenn fyrir afætuliðinu. 

Júlíus Björnsson, 22.12.2010 kl. 15:10

2 Smámynd: Einar H. Björnsson

"Fyrirkomulagið nú er að stjórnin skipar trúnaðarráð og trúnaðarráð skipar svo stjórn félagsins sem er lykilatriði meirihlutans í að viðhalda völdum innan félagsins."

Fáðu þér nú uppherslu á öllum lausu skrúfunum. Hann Sigurður Sigfússon er lagtækur og gæti eflaust hert upp á þeim. Að því loknu skaltu lesa lög félagsins.

Einar H. Björnsson, 22.12.2010 kl. 18:43

3 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Einar

Þykir miður að þú skulir nota meiðandi orðalag í færslu þinni en hrósa þér að koma undir nafni, sem er mjög óalgengt meðal stuðningsmanna skugganna.

Ég þekki reyndar lög VR ágætlega og þurfti sjálfur með góðu fólki að safna yfir 300 undirskriftum, tvisvar til þess eins að geta boðið almennum félagsmönnum að kjósa sér forystu í fyrstu lýðræðislegu kosningum félagsins á sínum tíma eða árið 2009.

Það sem þú vitnar í er lýsing mín á flókinni lagafléttu félagsins, á manna máli. Þeir sem hafa áhuga á að lesa sér til um hvernig ég fæ þetta út geta lesið rumsuna hér neðar.

16. gr. Trúnaðarmenn

Stjórn félagsins skipar trúnaðarmenn á vinnustöðum eða staðfestir skipun þeirra ef kosning hefur farið fram.

Trúnaðarmenn skulu starfa eftir erindisbréfi er stjórn félagsins setur þeim.

Trúnaðarmenn skulu hafa eftirlit með að lögum félagins, samþykktum og samningum sé hlýtt.

Trúnaðarmenn eru tengiliðir starfsmanna á viðkomandi vinnustað við stjórn og starfsmenn félagins. Að öðru leyti fer um starfsemi, réttindi og skyldur trúnaðarmanna að lögum og kjarasamningi félagsins.

1. Til að tryggja stöðugleika í stjórn félagsins skal Nýársfundur, sameiginlegur fundur trúnaðarráðs og trúnaðarmanna á vinnustöðum, gera tillögu um skipun í öll embætti sem í kjöri eru hverju sinni með eftirfarandi hætti:

a. Kjörstjórn skal auglýsa eftir framboðum í dagblöðum og á vefsíðu félagsins. Framboðsfrestur skal vera að minnsta kosti tvær vikur og renna út eigi síðar en tveimur vikum fyrir Nýársfund. Framboðum skal skila á skrifstofu félagsins og skulu fylgja þeim upplýsingar um nafn og kennitölu. Skrifleg meðmæli 10 félagsmanna þarf vegna framboðs til setu í stjórn. Fyrir þá sem eru að bjóða sig fram eða endurnýja framboð sitt til setu í trúnaðarráði nægir rafrænt samþykki. 

b. Fimm manna uppstillinganefnd, skipuð formanni og fjórum kosnum af trúnaðarráði og tveimur til vara, annast undirbúning Nýársfundar. Formaður félagsins skal kalla nefndina saman í fyrsta sinn eftir að hún hefur verið kosin og skiptir hún með sér verkum á fyrsta fundi. Nefndin skal gera tillögur um 4 stjórnarmenn og trúnaðarráð til framboðs í listakosningu og leggja þær fyrir Nýársfund til samþykktar. Í tillögu sinni um stjórnarsætin fjögur ber uppstillinganefnd að stilla upp fráfarandi stjórnarmönnum, ef þeir gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Ef fleiri fráfarandi stjórnarmenn bjóða sig fram en sem nemur þeim fjölda sæta sem í boði eru skal nefndin gera tillögu um þá sem hafa setið styst samfellt í stjórn. Einnig skal nefndin taka tillit til jafnréttissjónarmiða við tillögu að skipun í stjórn. Komi fram tillögur á Nýársfundinum um frambjóðendur í stað þeirra sem eru tilnefndir á lista uppstillingarnefndar skal fara fram atkvæðagreiðsla á fundinum. Frambjóðendur skulu koma úr hópi þeirra sem tilkynntu framboð sitt í samræmi við auglýstan framboðsfrest kjörstjórnar.

c. Jafnframt skal á Nýársfundinum velja fulltrúa til að fylla þau sæti sem boðin eru fram í einstaklingskosningu, þ.e. þrjá aðalmenn í stjórn og þrjá til vara auk formanns annað hvert ár, úr hópi þeirra sem boðið hafa sig fram. Ef ekki berast nægilega mörg framboð eða ekki nógu margir hæfir einstaklingar bjóða sig fram að mati uppstillingarnefndar, hefur nefndin heimild til að bæta við nöfnum fyrir fundinn.

d. Atkvæðisrétt á Nýársfundinum hafa allir trúnaðarráðsmenn og trúnaðarmenn á vinnustöðum. Til að kosning á fundinum teljist lögleg þurfa a.m.k. 40% fulltrúa vera mættir á fund þegar atkvæðagreiðsla fer fram. Náist sú þátttaka ekki skal fara fram póstatkvæðagreiðsla meðal trúnaðarráðs og trúnaðarmanna. Meirihluti atkvæða í póstatkvæðagreiðslu ræður úrslitum.

2. Nái frambjóðandi til stjórnar ekki kosningu á Nýársfundi getur hann farið fram á allsherjaratkvæðagreiðslu um framboð sitt með því að afla 40 meðmælenda til viðbótar sem dreifast nokkuð jafnt frá a.m.k. 5 mismunandi vinnustöðum. Meðmæli þurfa að vera skrifleg sbr. lið 1a. Skila þarf inn meðmælendum eigi síðar en tveimur vikum eftir Nýársfund.

3. Framboðsfrestur fyrir listaframboð gegn samþykktum lista trúnaðarráðs og trúnaðarmanna fjögurra stjórnarmanna og trúnaðarráðs skal auglýstur innan tveggja vikna frá Nýársfundi og vera a.m.k. tvær vikur. Skriflegt samþykki allra þeirra sem í kjöri eru skal liggja fyrir þegar listi er fram borinn. Til þess að listi sem borinn er fram gegn lista trúnaðarráðs sé löglega fram borinn þarf skrifleg meðmæli 300 félagsmanna sbr. lið 1a.

4. Lágmarksþátttaka í allsherjaratkvæðagreiðslu skal vera 5%. Kjörstjórn úrskurðar um hvort listar eða einstaklingaframboð séu rétt fram borin og sér um framkvæmd kosninga. Ef lágmarksþáttaka í allsherjaratkvæðagreiðslu næst ekki er listi trúnaðarráðs og trúnaðarmanna sjálfkjörinn.

Ragnar Þór Ingólfsson, 23.12.2010 kl. 08:44

4 Smámynd: Einar H. Björnsson

Rangt hjá þér Ragnar Þór að ég sé stuðningsmaður þeirra sem þú nefnir "skugga". Ég nefndi nafn Sigurðar Sigfússonar af því að ég þekki hann og veit að hann er aðeins að reyna að gera sitt besta til þess að forða félaginu frá tortímingaröflum innan stjórnar félagsins.

Þeir sem gegna trúnaðarstörfum innan félagasamtaka verða að ástunda heiðarleg vinnubrögð, bæði í ræðu og riti. Færsla þín hér að ofan er uppfull af rangfærslum og dylgjum og ekki sæmandi sitjandi stjórnarmanni í VR. Þegar þú ert að reyna að réttlæta rangfærslur þínar, skautarðu listilega framhjá 14. grein í lögum VR, en sú grein fjallar um trúnaðarráð félagsins og er svohljóðandi:

"14.gr. Trúnaðarráð

Í félaginu skal starfa trúnaðarráð sem skal vera stjórn félagsins ráðgefandi varðandi ýmis stærri málefni sem upp koma í starfsemi félagsins s.s. við gerð kjarasamninga og meiriháttar framkvæmda á vegum félagsins. Auk þess skal trúnaðarráð gera annað það sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.

Í trúnaðarráði sitja auk stjórnar 82 fulltrúar, alls 100 fulltrúar, almennir trúnaðarráðsmenn eru kosnir í allsherjaratkvæðagreiðslu til eins árs í senn. Formaður félagsins er jafnframt formaður trúnaðarráðs og boðar hann til fundar eftir því sem þurfa þykir."

Einar H. Björnsson, 23.12.2010 kl. 13:10

5 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Einar

Þakka innlit og athugasemd.

Ég er ekki að skauta fram hjá einu eða neinu. Til þess að komast á lista trúnaðarráðs sem kosið er til eins árs í senn, þarftu að komast í pilsfaldinn hjá uppstillingarnefnd sem er skipuð formanni félagsins og fjórum tilnefndum af trúnaðarráði, sem aftur velja trúnaðarráð og fjóra stjórnarmenn á sérstakan uppstillingar lista sem trúnaðarmenn og trúnaðarráð kýs svo um á lokuðum nýjársfundi.

Og ef það á að hrófla við þessu þurfa fálgsmenn að fara í hallarbyltingu sem ég hef farið æí gegnum og þekki því lögin orðið mjög vel. Ég hef einnig verið virkur þáttakandi í vinnu við breytingar á einmitt þessum sömu lögum og þú túlkar svo lýðræðisleg. 

Þegar ég bauð mig fram fyrst eftir þessu kerfi hafði ég ekki einu sinni kosningarétt í félaginu.

Það er því greinilegt að þú þarft að huga þetta aðeins betur Einar. Ef þú lest eitthvað annað út úr þessu en ég þá er það þín fyrra að bera. Að Sigurður Sigfússon sé að reyna að gera sitt besta til þess að forða félaginu frá tortímingaröflum innan stjórnar félagsins er brandari sem ég tek með mér inn í hátíðarnar.

Gleðilega hátíð.

Ragnar Þór

Ragnar Þór Ingólfsson, 23.12.2010 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband