9.12.2009 | 12:20
Framtakssjóður Íslands.
Gott framtak eða sama bullið?
Fulltrúar sextán lífeyrissjóða innan vébanda Landssamtaka lífeyrissjóða hafa stofnað formlega, Framtakssjóð Íslands, nýtt fjárfestingarfélag sem ætlað er að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs í kjölfar falls fjármálakerfisins.
Lífeyrissjóðir landsmanna voru notaðir sem opnar pyngjur útrásar ofurhuga og ekki verður betur séð en að sami hákarla hópurinn og stjórnaði gengdarlausum fjárfestingum lífeyrissjóðanna í útrásarvitleysunni standi á bakvið þennan sama sjóð.
Fyrir mig sem hef gagnrýnt þessa menn,þetta kerfi og þessar fjárfestingar eru þetta ekkert annað en Úlfar í sauðagæru.
Af hverju gerðu lífeyrissjóðirnir ekki tilboð í öll húsnæðislán bankanna, sem þeir hefðu eflaust getað fengið með töluverðum affölum til hagsbóta fyrir sjóðina og almenning í landinu svo fátt eitt sé nefnt.
Það fylgja því ekki mikil völd í viðskiptalífinu að byggja þjónustu íbúðir fyrir aldraða sjóðsfélaga eða fjárfesta í húsnæðislánum sem teljast með öruggari verðtryggðum fjárfestingum að ríkisskuldabréfum frátöldum.
Völdin sem felast í því að stjórna svona sjóð, þar sem fjarmagn á markaði er af skornum skammti, eru gríðarleg.
En hverjir eru í stjórn þessa sjóðs?
Dæmi: Ragnar Önundarson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs Verslunarmanna.
Kristinn Örn formaður VR lagði mikla áherslu á að Ragnar Önundarson yrði skipaður stjórnarformaður LV. Við vorum nokkur í stjórninni sem töldum þessa skipan vera glórulausa enda vissum við ekkert um manninn né áherslur hans og afstöðu til bankaleyndar svo fatt eitt sé nefnt, í ljósi þess að krafa félagsmanna var gegnsæi í fjarfestingum sjóðsins. Það kom svo á daginn að Ragnar hefur barist harkalega gegn sjálfsögðu gegnsæi og séð til þess að sjóðurinn er lokaðri sjóðsfélögum en áður. Þrátt fyrir álit FME sem styður kröfur okkar sjóðsfélaga.
Hver er Ragnar Önundarson?
Ragnar Önundarson var áður framkvæmdastjóri Kreditkort hf, sem varð svo Borgun hf. Hann, ásamt Halldóri Guðbjarnasyni, voru höfuðpaurarnir í stærsta viðurkennda samkeppnislagabroti Íslandssögunnar og gæti verið vafasamt að maður með þennan afbrotaferil sé ráðinn eða skipaður sem formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Auðvitað er batnandi mönnum best að lifa, en það er rétt rúmlega ár síðan hann var látinn víkja sem framkvæmdastjóri frá Borgun vegna samkeppnislagabrotana.
Það eru því ódýr svör hjá Ragnari Önundarsyni að hann hafi ekki verið aðili málsins. En það sem hann gerir er athyglisvert, hann segir að samkeppnislagabrotin hafi verið á vegum og ábyrgð eigenda og stjórnarmanna. Ef við skoðum það aðeins nánar, þá er hann með þessu að ásaka og beina ábyrgðinni á þessum viðurkenndu samkeppnislagabrotum að fyrrum stjórnarmönnum Borgunar hf. (áður Kreditkort hf.), sem voru m.a. þessir:
Birna Einarsdóttir (núverandi bankastjóri Íslandsbanka), sat fyrir Glitnir árið 2007 og tók þ.a.l. þátt í samkomulaginu við Samkeppniseftirlitið
Finnur Sveinbjörnsson (núverandi bankastjóri Nýja Kaupþings), sat fyrir Landsbanka Íslands á árinu 2008
Haukur Oddsson (núverandi forstjóri Borgunar), var stjórnarformaður árið 2006, sat fyrir Glitnir.
Spurning hvort það væri tilefni fyrir Blaðamenn að skoða þessi svör aðeins nánar, hvort þessir aðilar eru á sama máli varðandi hver stóð á bakvið og beri ábyrgð á þessum viðkurkenndu samkeppnislagabrotum. Það eitt að Ragnar Önundarson er að beina ábyrgðinni frá sér,og að þessum aðilum þarfnast nánari skoðun.
Málið endaði með sátt, eins og Ragnar Önundarson segir í grein sinni í Mogganum 29 sept., en hann nefndi ekki að sáttin fól í sér að félögin viðurkenndu samkeppnislagabrot, sem skv. Samkeppniseftirlitinu voru langvarandi og víðtæk ólögmæt samráð, eða mjög alvarleg brot á 10. og 11. gr. samkeppnislaga sem voru til þess fallin að valda verulegri röskun á samkeppni, brotin voru framin af ásetningi og höfðu það m.a. að markmiði að koma keppinauti út af markaði, brotin náðu yfir langt tímabil.
Eins og forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir var þetta mál fast á eftir olíufélagamálum í alvarleika. Þá fól sáttin í sér að málið yrði ekki sent áfram til ríkissaksóknara, en þar hefði Ragnar Önundarson orðið formlegur málsaðili og fengið sinn andmælarétt (og væntanlega fengið sinn dóm fyrir). Þetta er kannski það alvarlegasta í þessu máli, að kortafélögin og eigendur þeirra borguðu fyrir að málið yrði ekki sent áfram til ríkissaksóknara, en það er ótrúlegt að það sé hægt að semja um slíkt.
Það mætti því segja að kortafélögin hafi greitt fyrir það að Ragnar Önundarson héldi sínu frelsi og yrði ekki persónulega refsað. Það að Ragnar Önundarson teljist fyrir vikið ekki vera málsaðili, þrátt fyrir að hafa verið annar höfuðpaurinn og gerandinn í þessum lögbrotum, staðfestir það að fyrirtæki geti brotið af sér án þess að framkvæmdastjóri beri neina ábyrgð af því. Þetta eru mjög hættuleg skilaboð og ég efast um að menn sætti sig við að hafa mann, ekki bara með slíkan bakgrunn, heldur sérstaklega með slíkt mat sem stjórnarformann lífeyrissjóðs Verslunarmanna. Og stjórnarmann í hinum nýja Framtakssjóð Íslands.
Hvað ætli samkeppnislagabrotin hafi kostað almenning í landinu fyrir utan þær 735 milljónir sem voru greiddar í sektir úr almennings hlutafélögunum til að kaupa stjórnendur frá dómi?
Getum við treyst Ragnari Önundarsyni fyrir framtíðar lífeyri okkar?
Athugasemdir
Ég hef alltaf haft grunsemdir um að Kristinn Örn formaður VR hafi bakhjarla sem vildu ekki missa tökin á VR. Gagnlegt væri ef Íslendingar byggju svo vel að hafa raunverulega blaðamenn, sem vildu leita sannleikans til þess að upplýsa almenning um mikilvæg mál. En, því miður, þeir eru ekki til hér.
Rósa Halldórs (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 13:11
Varðandi Ragnar Önundarson, þá er hann sá maður sem harðast gagnrýndi og benti mönnum á möguleika á hruni á Íslandi. Ég þekki hann ekki neitt, en las greinar hans á sínum tíma þegar hann benti á þetta og hlustaði á bankastrákana þegar þeir sögðu að gangrýni hans væri rugl. Af því sem ég best veit er hann heiðarlegur og grandvar maður.
TómasHa, 9.12.2009 kl. 13:34
Sæl Rósa
Mér fannst sjálfur aðkoma Kristins í fyrstu nokkuð sérkennileg. En í dag fer ekki á milli mála hvaða bakland hann hefur og er í forsvari fyrir.
Ég tel nú eitthvað til af góðum, jafnvel framúrskarandi blaðamönnum á íslandi.
Ég held samt að vandamálið liggi hjá miðlunum.
Þakka innlitið.
Tómas
Ég las margar greinar eftir Ragnar og var nokkuð jákvæður í hans garð þangað til upp komst um samkeppnislaga brotin sem voru gróf og einbeitt. Þessi brot hafa skaðað almeninng og almannahagsmuni og því get ég aldrei sætt mig við það að maður með slíka dómgreind fari með ævisparnað minn.
Við Ragnar áttum saman ágætan fund og höfum rætt saman í tölvupóstum um það leiti sem hann var skipaður stjórnarf. LV. Ég var undrandi yfir áherlsum hans um bankaleynd sem ekki á við um lífeyrissjóði og þann leyndarhjúp sem hann hefur sveipað um sjóðinn.
Þetta hefur ekkert að gera með hann sem persónu, eingöngu gjörðir hans og áherslur í starfi.
Þakka gott innlegg.
Kv.
Ragnar
Ragnar Þór Ingólfsson, 9.12.2009 kl. 13:51
Sæll Ragnar, sjálfur er ég ekki mikið inni í lífeyrissjóðsmálunum. Hef ekki sett mig nægilega mikið mikið inn í þau til að geta tekið undir með þér. Ég leyfi mér hinsvegar að efast um að raunveruleikinn sé svona kolsvartur eins og þú gefur í skyn.
Hinsvegar tek ég heilshugar undir með þér varðandi aukna þörf á gegnsægi í allri fjárfestingu lífeyrisstjóðanna og lýðræðislegt val á félagsmönnum inn í stjórn þeirra (fyrri skrif). Bara það eitt mundi klárlega draga úr tortryggni félagsmanna á stjórnun sjóðanna. Það hlýtur að vera krafa okkar sjóðsfélaga eftir hrunið mikla og tapið, að allt sé uppi á borðum í stjórnun sjóðanna og fjárfestingu þeirra. Ég styð þig í þeirri baráttu heilshugar.
Birgir Már Guðmundsson (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 15:19
Sæll Birgir
Það getur vel verið að maður máli svolítið skrattan á veggin í þessum málum .
Hitt er annað mál að öllum þeim málum sem við erum sammála um hefur verið ýtt út af borðinu tam. gegnsæi í fjárfestingum, lýðræðislegt kjör í stjórn sjóðsins ofl.
En dropinn holar steininn.
Þakka innlitið Birgir.
Kær kveðja
Ragnar
Ragnar Þór Ingólfsson, 9.12.2009 kl. 15:48
Þessi framtakssjóður er sama bullið jafnvel verra. Það er löngu orðið tímabært að almennir launþegar krefjist samskonar lífeyrisfyrirkomulags og opinberir starfsmenn njóta. Það er í raun glæpur að skylda fólk til að láta 12% tekna sinna renna í til þessara sjóða.
Af því að Birgir efast um að veruleikinn sé svona kolsvartur þá hvet ég hann til að kinna sér fortíð og framtíðarhorfur lífeyrissjóða.
Ég hef greitt í tvo lífeyrissjóði um ævina fyrst í Lífeyrissjóð Austurlands sem fjárfesti í Stoke um árið og varð fallit, leifarnar af honum færðust inn í Lífeyrissjóðin Stapa sem, þann gleymdi að lýsa 4 milljarða króna kröfu í þrotabú Glitnis s.l. haust.
Eftir 1998, þegar Stoke ævintýrið var í algleymi og sýnt var að ég hafði glatað sparnaðnum, ákvað ég að greiða í Íslenska Lífeyrissjóðinn sem vistaður var í Landsbankanum. Árið 2006 ákvað ég að færa mig yfir í LÍF IV, öruggustu leiðina, sem var sögð fjárfesta í ríkisskuldabréfum. Af einskærum misskilning þá höfðu vörsluaðilar sjóðsins keypt skuldabréf af Baugi, Samson og bönkunum í stað ríkisskuldabréfa þar gufuðu upp 30% af lífeyrissparnaðnum.
Það að gera almenningi skylt með lögum að greiða til lífeyrissjóða sem stjórnað er fjárglæframönnum, er ekkert annað en mannréttindabrot.
Magnús Sigurðsson, 9.12.2009 kl. 17:48
Sæll frændi. Þú ert enn við sama heygarshornið og virðist ekkert læra. Ég segi nú bara, þetta er nákvæmlega sama bullið og þú hefur verið að bera hér á borð undanfarna mánuði. Það er kannski einhver hópur sem gleypir svona rök, en ekki ég. Tel mig vita svo miklu miklu betur eins og þú reyndar veist.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 9.12.2009 kl. 20:55
Ég er þér alveg sammála. Þetta er ekki hlutverk Lífeyrissjóðanna fyrir utan það að ég er á því að ekki sé allt komið upp á yfirborðið varðandi TAP Lífeyrissjóðanna vegna bankahrunsins og ég er þess fullviss að eignir sjóðanna séu LANGT UNDIR ÞVÍ SEM GETUR TALIST ÁSÆTTANLEGT og jafnvel gæti verið svo komið fyrir einhverjum þeirra að þeir séu gjaldþrota.
Jóhann Elíasson, 9.12.2009 kl. 21:01
Heill og sæll; Ragnar Þór - sem og, þið önnur, hér á síðu hans !
Ragnar Þór !
Tortryggni þín; er réttmæt, í ljósi reynslu Íslendinga, af braski þessarra burgeisa, hverjir höndlað hafa, með Lífeyri landsmanna - allt of lengi.
Frænka þín; Hólmfríður, er ein þeirra - hver; ríghalda vilja, í hið morknaða og illa komna samfélagskerfi, hvert hrundi, haustið 2008. Kannski; það sé, af ræktarsemi - við FLOKK frænku þinnar, sem hún kjósi, að halda öllu hérlendis, í sama drullu damminum ?
Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi, sem jafnan /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 21:04
Með fullri virðingu fyrir frænku þinni en þá tel ég hana vera þá sem ekki vill læra af reynslunni, en því miður er enn til fólk sem lemur hausnum við steininn og neitar að trúa hvílíkan viðbjóð "við höfum alið" við brjóst okkar allt of lengi.
Ég vill leggja niður þetta kerfi, þannig að bara einn ríkissjóður verði stofnaður og allir hafi sömu réttindi í honum óháð stétt eða vinnu. Taka þetta helv.... bákn eignarnámi til að koma því til okkar aftur. Bæði mundi það spara milljarða í kostanði við stjórnun og reksturs þessara sjóða sem og vonandi auka gegnsæi.
(IP-tala skráð) 10.12.2009 kl. 09:07
Þakka öllum innlit og athugasemdir.
Magnús
Þetta er rétt hjá þér að ef saga lífeyrissjóða er rakin er hún þyrnum stráð. Það var eki fyrr en árið 1997 þegar sett voru lög um skyldutryggingar (sem tóku gildi árið 1998) að lífeyrissjóðum fór að ganga betur að halda utan um lífeyri landsmanna í stað þess að lána vildarvinum eða í "prívat" viðskiptahugmyndir.
Það kom svo á daginn haustið 2008 að nýja kerfið sem sjóðirnir áttu að starfa eftir var meingallað og alveg jafn auðvelt að stunda vafasöm viðskipti og áður nema með öðru sniði en þekkst hafði áður.
Kæra Hólmfríður frænka
Vil nota orð frænda míns Guðmundar Gunnarssonar sem príða heimasíðu hans: " engin er eins blindur og sá sem ekki vill sjá " Þetta á mjög vel við um ykkur bæði. Ég bið að heilsa ykkur inn í Evrópusambandið. Er það ekki annars eina lausnin sem þið hafið komið með, meðan allt er í ljósum logumí þjóðfélaginu. Ekki hefur ykkur dottið í hug að koma með vatnsfötur svo mikið er víst.
Ragnar Þór Ingólfsson, 10.12.2009 kl. 09:10
Jóhann
Ég er svo hjartanlega sammála þér. L'ifeyrissjóðirnir hafa ekki afskrifað nema lítin hluta af tapinu. Þetta hef ég marg oft sýnt fram á í skrifum mínum.
Ætli þessi sjóður láni til fyrirtækja sem hafa knúið starfsmenn til að afsala sér launahækkunum?
Sæll Óskar
Þakka ævinlega. Hún frænka mín er sátt við ástandið eins og það var og sættir sig við að hafa það eins og það er.
Guð hjálpi íslenskri alþýðu ef það yrði niðurstaðan. Ekki get ég stutt þennan "helvítis fokking flokk" sem hún styður.
Sæl Sigurlaug
Af hverju ekki að hafa einn sjóð sem ríkið ber ábyrgð á. Það væri svo miklu einfaldara og tala nú ekki um jafnræðið sem í því fælist.
Ekki þurfa norðmenn 37 olíusjóði.
Ragnar Þór Ingólfsson, 10.12.2009 kl. 09:18
Ég er fyrir löngu búinn að afskrifa allan þann pening sem lífelrisjóður Verslunarmanna rænir af mér um hver mánaðarmót. og gerir enn.
Hannes, 10.12.2009 kl. 20:21
Það er má til sannsvegar færa að "kerfið sem sjóðirnir áttu að starfa eftir var meingallað". Því er mikilvægt að launþegar geri sér grein fyrir því sem í raun er að gerast.
Ríkisstjórnir í heiminum hafa hver af annarri sett framtíðarskatta á almenning með því að moka peningum inn í bankakerfið. Þannig er búið að gera skattgreiðendur ábyrga fyrir öllum skuldum, þ.m.t. öllum lífeyrissparnaði. Það er því búið að gera skattgreiðendur m.a. að skuldaþrælum vegna skulda við sjálfa sig.
Margir halda að Íslenska lífeyrissjóðakerfið sé einstakt, enda hefur því verið haldið miskunnarlaust að fólki. En það er það ekki, það er byggt upp á svipaðan hátt og það Bandaríska, þ.e.a.s. ávaxtar sig á hlutabréfamarkaði.
Nýja Framtakssjóðnum er í raun ætlað að endurreisa hrunin hlutabréfamarkað, þetta er geggjuð áætlun. En með þessu er hægt að fela það að í einhvern tíma að stór hluti lífeyrissparnaðar landsmanna er raunverulega glataður. En á endanum mun þetta kosta það að framtíðar greiðslur til lífeyrissóða tapast einnig.
Hérna er grein sem ég hvet alla, sem vilja skilja framtíðarhorfur lífeyrissjóða, til að lesa. Þó svo að hún eigi við USA þá er Íslenska kerfið svipað, en niðurstaðan ætti að vera íslenskum launþegum þegar ljós.
http://finance.yahoo.com/expert/article/richricher/205569
Magnús Sigurðsson, 11.12.2009 kl. 13:54
Hannes
Við skulum reyna að breyta þessu saman, uppgjöf verður aldrei valkostur.
Magnús
Las þessa grein og mæli með henni, hún er mátulega stutt til að ná fram áhugaverðum punkti sem er nauðsynlegt að skoða vel.
Þ.e. að lífeyrissjóðirnir eru í raun að keyra upp verðbréfaverð með að komu sinni með 30 milljarða vítamínsprautu í hlutabréfamarkaðinn.
Meðalaldur greiðenda í lífeyrissjóði er 34ára og því gríðarleg söfnun í gangi.
Hvað gerist þegar lífeyrissjóðirnir þurfa að losa eignir sínar til að standa undir skuldbindingum sínum ganvart þessum risa barna árgöngum.
Gott dæmi er þegar lífeyrissjóðirnir fengu neyðarfund á sunnudagskvöldi með ríkisstjórninni sem ætlaði að opna fyrir útgreiðslu séreignasparnaðar.
Lífeyrissjóðirnir fengu ríkið til að takamarka útgreiðslur við 1 milljón og dreifa þeim yfir 10 mánuði. Af hverju var það gert ? Við skulum sjá yfirlýsingu sjóðanna:
Úr yfirlýsingu frá Landssamtökum Lífeyrissjóða:
„Tillögur um fyrirframgreiðslu á séreignarsparnaði þurfi að taka mið af því að ekki sé hægt að greiða séreignarsparnað út nema búið sé að selja verðbréf sem fjárfest hefur verið í. Til þess að hægt sé að selja fjárfestingar og breyta í laust fé þurfi einhver kaupandi að vera til staðar. Í dag sé seljanleiki á verðbréfamörkuðum lítill sem enginn og því verulegum vandkvæðum bundið að selja fjárfestingar sjóðanna.
Ef opnað er fyrir útgreiðslu á séreignarsparnaði án þess að hugað sé að því að breyta fjárfestingum í laust fé sé hætta á að fjárfestingar sjóðanna lækki, þó að ekki takist að selja nema lítinn hluta þeirra. Raunveruleg hætta sé á að eignaverð myndi lækka verulega og ekki væri hægt að greiða sjóðfélögum séreign sína út. Inneign allra sjóðfélaga myndi skerðast, óháð því hvort þeir óski eftir fyrirframgreiðslu.”
Úr grein sem birtist í Morgunblaðinu 15. febrúar 2009 eftir þá Arnald Loftsson, framkvæmdastjóra Frjálsa lífeyrissjóðsins, Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins, Marinó Örn Tryggvason, forstöðumann eignastýringar fagfjárfesta hjá Kaupþingi og Tryggva Guðbrandsson, framkvæmdastjóra íslenska lífeyrissjóðsins,
Þetta eru sömu menn og segja að eignir lífeyrissjkóðanna séu trausta, staða þeirra góð og kerfið sé það besta í heiminum.
Takk fyrir að vekja athygli á þessu Magnús. Ég var búin að skrifa um þetta áður en þetta er mjög mikilvægur vinkill í þetta framtakkssjóðs mál og í raun alveg dæmalaust.
Ragnar Þór Ingólfsson, 11.12.2009 kl. 15:05
Vildi bæta við fyrri athugasemd.
Vegna yfirlýsingar landsambands lífeyrissjóða.
Þarna er verið að vísa í Séreign sem er aðeins lítið brot af heildareignum sjóðanna. Við getum rétt ýmyndað okkur hvað gerist þegar farið verður að greiða út lífeyri stóru árganganna.
Ragnar Þór Ingólfsson, 11.12.2009 kl. 15:09
Ragnar í fyrsta lagi þá er ég öryrki og á þess vegna ekki rétt á örorkubótum ef ég lendi í slysi og gett þess vegna ekki unnið lengur frá lífeyrissjóðnum þrátt fyrir að borga það til þessara þjófa og allir aðrir eru þvingaðir til að gera.
Í örðu lægi þá eru tiltulega litlar líkur á því að ég nái 67ára aldri miðaða við það hvernig ég hugsa um heilsuna.
Hannes, 12.12.2009 kl. 14:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.