Guð hjálpi launafólki ! Svör Gylfa.

Gylfi svarar nokkrum svörtum spurningum mínum með rauðu og ég svara honum svo aftur með bláu.

 

Hver er staðan ? Kaupmáttur launa er í frjálsu falli og mun rýrna um 15% á næsta ári í það minnsta samkv. Spám.

Þetta er ekki allskostar rétt. Kaupmáttur kauptaxta okkar aðildarfélaga mun aukast á samningstímabilinu (2008/2-2010/10) eftir að tryggt var að kjarasamningar halda gildi sínu. Hins vegar mun kaupmáttur almennra launa (markaðslauna) trúlega lækka um 8% á næsta ári og færa okkur aftur til ársins 2004 í kaupmætti.

Vil nota orð Gunnars Tómassonar, einn áhugaverðasti og reyndasti hagfræðingur okkar Íslendinga, sem sagði svo eftirminnilega.  Íslenskir Hagfræðingar eru aldir upp á tómu bulli!

Það er hægt að orða hlutina á marga vegu Gylfi. Hvernig getur þú horft framan í hinn almenna launamann og sagt honum að kaupmáttur hans muni aukast á næsta ári. Sú alvarlega staða sem blasir við launafólki er hafin yfir hugtakabullið og reikningsæfingar.

Varstu ekki annars að meina, kaupmáttur mun skerðast minna sem nemur smánarlegum taxtahækkunum. Kaupmáttur mun trúlega lækka um 15% jafnvel meira ef skattahækkanir verða miklar. Hagspár eru einskis virði á þessum ólgu tímum og ef ég man rétt hafa verðbólguspár Seðlabankans einu sinni verið innan við 15% skekkjumörk. Það var árið 2002.

Af hverju voru ekki sett skilyrði við gerð kjarasamnings og við gerð stöðugleikasáttmálans um stöðugleika heimilanna sem er grunnstoð samfélagsins ?

Stöðugleiki heimilanna verður ekki greindur frá stöðugleika kaupmáttar og atvinnu. Með stöðugleikasáttmálanum var komið í veg fyrir hrun kaupmáttar og meira atvinnuleysi en ella stefndi í og þess freistað að tryggja framgang umsaminna launahækkana. Með því voru grunnstoðir samfélagsins varðar í hruninu, en verkefninu er ekki lokið ennþá og því mikilvægt að beina kröftum okkar að áformum stjórnvalda í atvinnu- og skattamálum.

 

Einu grunnstoðirnar í samfélaginu sem voru varðar voru grunnstoðir fjármagnseigenda,banka og lífeyrissjóða.

Hvernig eigum við að treysta þér Gylfi? Að beina kröftum okkar að áformum stjórnvalda í skatta- og atvinnumálum!! Ekki heyrðist hóst né stuna úr kraftlausum kroppi ASÍ þegar settir voru á sykurskattar, bensínálögur og áfengisskattur sem engu skilaði, nema hærri verðbólgu og verðbótum á húsnæðislánin. Það er nú ljóti stöðugleiki kaupmáttar, heimila og atvinnu sem þú lýsir og verður fróðlegt að sjá hver afstaða ykkar verður til þeirra skattahækkana sem framundan eru eftir að þið hafið hafnað skattlagningu á stóriðju og hafnað skattlagningu á lífeyrissjóði. Hvað er þá eftir annað en fyrirtækin og heimilin?

Menn eiga að fara varlega með stór orð, þér hefur tekist að eiðileggja hugtakið stöðugleiki. Ég hef aldrei skilið hvernig menn geta gert stöðugleika sáttmála þegar þeir valdameiri í samfélaginu hafa beinan hag af óstöðugleika. 

Verðbætur húsnæðislána eru að éta upp ævisparnað okkar og mun gera það áfram á næsta ári. Af hverju beitir ASÍ sér ekki fyrir leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstól húsnæðislána eða í það minnsta að sett verði þak á verðbætur til að setja eitthvað öryggisnet fyrir heimilin?

Ekki hefur verið sýnt fram á hvaðan á að taka fjármagn til að fara í svo almenna lækkun skulda, og mikil hætta á því að það séu einmitt félagsmenn okkar (einkum millistéttin) sem yrði að borga þetta með sköttum eða minni lífeyri. Því hefur afstaða ASÍ verið að tryggja réttarstöðu heimila gagnvart bankakerfinu þannig að það þurfi að axla ábyrgð á eigin útlánastefnu út frá þeirri grundvallar hugmynd að miðað verði við greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi. Annað verði einfaldlega fært niður.

Það getur verið að peningarnir séu ekki til, en þeir voru til svo mikið er víst. Það hefði ekki þurft meira fjármagn en c.a. helming af því sem búið er að dæla inn í peningamarkaðssjóðina. Ef þú hefðir unnið vinnuna þína þá væri kanski búið að leysa þennan hluta vandans.

Bankarnir tóku húsnæðislánin yfir með 44% afföllum. Þarf einhverja peninga? Á að rukka heimilin með 100% álagningu á húsnæðislánin svo hægt sé að réttlæta afskriftir óreiðumanna?

Að þú segir ASÍ vera að tryggja réttarstöðu heimila gagnvart bankakerfinu! Skammastu þín Gylfi. Fólk er að leita réttar síns SJÁLFT ! Gagnvart bankakerfinu sem valtar yfir félagsmenn okkar. Venjulegt fólk er að ráða sér lögfræðinga eða fara í greiðsluverkfall með Hagsmunasamtökum Heimilana sem starfa af mikilli hugsjón án þess að þiggja krónu af umbjóðendum sínum.  

Gengistryggð íbúðarlán og bílalán eru að ganga frá fjölskyldum félagsmanna okkar. Af hverju í ósköpunum hefur ASÍ ,með alla sína lögfræðinga, ekki látið kanna lögmæti gengistryggðra lána sem virðast hafa verið kolólögleg?Hjá ASÍ starfa tveir

lögfræðingar sem sinna verkefnum á sviði vinnuréttar og þjónustu við aðildarsamtökin á því sama sviði. Grannt er fylgst með þeim könnunum sem þegar hafa verið gerðar á lögmæti gengistryggðra lána af til þess hæfum lögfræðingum.

Ætla þeir bara að fylgjast með eða eigum við von á því að heyra eitthvað frá þeim? Þ.e. áður en fleiri fara í þrot eða flytja af landi brott. Bankarnir og fjármögnunarfyrirtækin hafa valtað yfir fólk með gengistryggðar skuldbindingar sem eru að öllum líkindum kolólöglegar. Þlílíkir varðhundar! 

Skuldajöfnunar úrræði stjórnvalda, sem samin voru í höfuðstöðvum ASÍ eru til háborinnar skammar og frestar skelfilegri stöðu heimilanna með því að tengja skuldastöðu, þeirra verst settu, við almenna launaþróun. Hvernig dettur ASÍ í hug að samþykkja úrræði sem eru til þess fallin að etja saman launafólki þ.e. eiga þeir sem þurfa greiðslujöfnun að mótmæla launahækkunum þeirra sem ekki þurfa slík úrræði ? 

Þeir sem þurfa greiðslujöfnun þurfa ekki að mótmæla launahækkunum vegna þess að greiðslujöfnunarhlutinn endurgreiðist í takt við greiðslujöfnunarvísistölu sem vegur saman kauphækkanir og atvinnustig. Úrræðið etur því ekki launafólki saman en bindur þvert á móti saman hagsmuni af því að draga úr atvinnuleysi samhliða launahækkunum.

Hvernig er hægt að að taka þá verst settu, afskrifa niður í greiðsluþol viðkomandi, og setja eftirstöðvar á hliðarreikning sem greiðist svo eftir því hvort að laun í landinu hækki eða hvernig atvinnustig þróast.

Það er ekki nóg með að ASÍ verji verðtrygginguna, heldur býr til nýjar.

Hvernig væri að setja allar skuldir Haga á greiðslujöfnunarreikning sem bundin er veðurfari á vesturlandi. Það sem fæst upp í þær að lokum verður notað til að greiða upp greiðslujöfnunarreikninga heimilana. Þetta gætum við gert við fleiri fyrirtæki útrásarkóngana.

Ef að kennarar fá 20% launahækkun og hafa ekki nýtt sér úrræðaleysuna. Þá geta skuldir hækkað hjá verkamannafjölskyldu sem þurfti á greiðslujöfnun að halda. Vonandi fylgist þið grannt með þessari þróun.

Er eðlilegt að verðbætur á húsnæðislánum okkar séu færðar yfir á reikninga fjármagnseigenda?  Af hverju gerði ASÍ ekki athugasemdir við það þegar Ríkið mismunaði þegnum þessa lands gróflega með því að moka hundruðum milljarða í peningamarkaðssjóði fjármegneigenda, meðan sparnaður venjulegs fólks sem er bundin í fasteignum er að brenna upp?

Til þessara aðgerða var gripið án nokkurs samráðs við ASÍ. Launafólk eru mikilvægustu eigendur sparifjár í þessu landi og þúsundir þess áttu innistæður í bönkum sem varðar voru að fullu og í peningamarkaðssjóðum sem varðir voru að hluta. Engin ein aðgerð mun hjálpa meira við að vernda sparnað í fasteigum önnur en sú að hemja verðbólgu, skapa atvinnu, auka kaupmátt og skapa um leið markað fyrir fasteignir. ASÍ hefur ætíð litið á íbúðarhúsnæði sem öruggt athvarf fjölskyldunnar samhliða því að geyma sparnað. Hvorutveggja þarf að verja en fjölskylduna fyrst. Þess vegna hefur ASÍ beitt sér fyrir aðgerðum til þess að ná niður greiðslubyrði og aðgerðum sem tryggja niðurfellingu skulda umfram greiðslu- og veðþol.

 

bla,bla,bla,bla....

 

Það er alrangt hjá þér Gylfi að greiðslujöfnun og það úrræðaleysi sem þið standið fyrir TRYGGI niðurfellingu skulda. Niðurfelling skulda er bundin við ákveðna þróun sem engin getur sagt til um hvernig verður. 

 

Þessar klisjur duga skammt þessa dagana. Aðgerðarleysi verkalýðsfhreyfingarinnar undir þinni forystu hefur valdið heimilunum meiri skaða en nauðsynlega þurfti svo mikið er víst.

Af hverju var stöðugleikasáttmálinn og kjarasamningurinn ekki settur í dóm hins almenna félagsmanns ?

Vegna þess að stöðugleikasáttmálinn er ekki „kjarasamningur“ heldur sameiginlega yfirlýsing ríkisstjórnarinnar, SA og ASÍ. Umboð ASÍ við gerð sáttmálans var sótt til aðildarsamtakanna. ASÍ fer ekki með sjálfstætt kjarasamningsumboð, en hvert aðildarfélag hafði val um það í febrúar að leita eftir afstöðu sinna félagsmanna með allsherjar atkvæðagreiðslu.

Það var gríðarleg pressa frá miðstjórn ASÍ um að setja samningin ekki í atkvæðagreiðslu. Vinsælustu rökin voru þau að ef við felldum þetta, hefði miðstjórn ASÍ hvort sem er umboð til að fresta þessu sem yrði svo kjánalegt fyrir hreyfinguna.... Önnur var sú að félagsmenn væru svo vitlausir að þeir héldu að þeir væru að kjósa um Icesave... Svo þriðja að það væri ekki tími til að framkvæma atkvæðagreiðsluna sem trúnaðarráð var búið að samþykkja að fara í. Þessu var þröngvað úr höndum félagsmanna með ömurlegum hætti. 

Er eitthvað öryggisnet fyrir alþýðuna ? Eina öryggisnetið sem sett var fyrir okkar hönd í stöðugleikasáttmála og kjarasamninga voru verðbólgumarkmið í LOK samningstíma. En þá eru samningar lausir hvort sem er.

Það er rangt að eina öryggisnetið felist í verðbólgumarkmiði eins kjarasamnings. Öryggisnet launafólks byggir á áratuga þrotlausri baráttu. Grundvöllur þess felst m.a. í almannatryggingum sem rót eiga í kröfum verkalýðshreyfingarinnar, örorku og eftirlaunalífeyriskerfi sem samið var um á sjöunda áratugnum, öflugu og víðtæku neti sjúkratrygginga í kjarasamningum, sjúkrasjóðum og lífeyrissjóðum. Hreyfingin byggði jafnframt upp verkamannabústaðakerfi sem stjórnvöld rústuðu í lok tíunda áratugarins gegn öflugum mótmælum ASÍ og af þeirri ráðstöfun súpum við seyðið nú. 86% aðild að verkalýðsfélögum gefur hreyfingunni þann styrk sem til þessa hefur þurft.

Á íslensku: Verkalýðskerfið er yfirfullt af allskyns sjóðum sem ekki má snerta eða nota í neitt nema það sem þóknast þröngri valdaklíkunni sem öllu stjórnar. Hvað er Ásmundur Stefánsson að gera í dag?

 

Hver var afstaða ASÍ um skattlagningu lífeyrissjóða?

Í stað þess að bæta hag launafólks var enn einn sjóðurinn stofnaður. Til að fækka öryrkjum á kostnað öryrkja. 

 

Eru einhverjir raunvörulegir fyrirvarar, öryggisnet, fyrir launafólk í stöðugleikasáttmálanum eða kjarasamningunum, mér reynist lífsins ómögulegt að finna þá ?

 

Öryrkjar taka nú á sig skerðingu frá lífeyrissjóðum á sama tíma og sjóðirnir samþykkja að greiða 0,13% af öllum iðgjöldum í “starfsendurhæfingarsjóð” sem Gylfi verður í forsvari fyrir, en í þann sjóð greiða launþegar 0,13% og atvinnurekendur 0,13% samtals 0,39% af öllum launum. Þetta var ein af forsendum karasamnings og stöðugleika. Þurfum við enn einn sjóðinn sem rekin er sem fé án hirðis af elítu auðvaldsins. ASÍ hafnaði ályktun til lífeyrissjóða um að fresta skerðingu lífeyris öryrkja. Þurfum við enn einn sjóðinn þegar gengið er svo harkalega að kaupmætti okkar?

 

Hlutverk starfsendurhæfingarsjóðs er að endurhæfa launafólk sem lendir í áföllum og er ætlað að tryggja því endurkomu og áframhaldandi atvinnuþátttöku í stað þess að lenda á örorkubótum eða í langtímaatvinnuleysi. ASÍ hafði í samstarfi við atvinnurekendur, Öryrkjabandalagið o.fl. aðila reynt að fá stjórnvöld til að sinna þessu verkefni án árangurs og því tóku ASÍ og SA frumkvæði að því að leysa þetta mikilvæga verkefni. Sjóðurinn er aldrei mikilvægari en einmitt nú og öll aðildarsamtök ASÍ sömdu um greiðslur til hans við viðsemjendur sína og stjórn hans er skipuð fulltrúum verkalýðsfélaga innan ASÍ, BSRB, BHM og KÍ ásamt fulltrúum SA, ríkisins og sveitarfélaganna.

Hver stýrir þessum sjóð ? Svar Gylfi Arnbjörnsson.

Ef þú hefur svona miklar áhyggjur af öryrkjum af hverju hafnaðir þú tillögu okkar um að beina því til lífeyrissjóðanna að fresta fyrirvaralausum skerðingum á örorkubótum?

Hver er afstaða ASÍ til Verðtryggingar?

ASÍ hefur lagt áherslu á að tryggja hér trúverðugan og varanlegan stöðugleika í verðlagi með þeirri einu færu leið sem við sjáum, og það er að sækja um aðild að ESB og taka upp evru sem gjaldmiðil. Launafólk hefur nú á 25 árum í tvígang mátt upplifa hrun okkar gjaldmiðils, í upphafi níunda áratugarins og aftur nú. Í bæði skiptin glötuðum við fjórðungi eigna okkar og rauntekna sem er algerlega óviðunandi. Á meðan við búum við ótraustan gjaldmiðil og sveiflukennt verðlag hefur verðtrygging tryggt launafólki bæði lægri vexti og jafnari greiðslubyrði þegar upp er staðið, en vandamálið er og mun vera verðbólgan, því hún mun alltaf birtast okkur í lántökukostnaði á endanum.  

Hvernig mun Evran breyta vonlausri skuldastöðu heimila, Ríkis, Sveitafélaga og Fyrirtækja? Hvernig leysir Evran og Evrópusambandið jöklabréfavandann?

Hvert er varaplanið Gylfi ef að fólk hafnar evru og evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðsu? Er ekki algerlega óábyrgt af þér að mynda hreyfingunni svo sterka skoðun í Evrópumálum þegar samningaviðræður eru ekki hafnar og ekkert sem liggur á borðinu um sérmeðferð á auðlindanýtingu landsins?

Veistu eitthvað meira en við hin? 

Er eitthvað Plan-B?

ASÍ fagnar aðkomu AGS og Icesave sem hafa sett þjóðina í skuldaklafa sem ekki á sér hliðstæðu í mannkynssögunni. Svo þegar að ræða á um skattlagningu lífeyrissjóða til að nauðverja heimilin, þá hefur Gylfi allt í einu áhyggjur af skuldabirgði barna okkar.

Hver verður birgðin á samfélaginu þegar stórskuldugir árgangar fara á lífeyri?

Verkalyðshreyfingin veltir yfir 10 milljörðum á ári og rekstrarkostnaður er um 2 milljarðar á ári.

Eg vona að þú erfir það ekki við mig Gylfi en mér finnst uppskeran heldur rýr.

Guð hjálpi íslensku launafólki.

Ragnar Þór.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Birgir Viðar Halldórsson

Gylfi - starfsmaður á plani hjá Samfylkingunni.

Evran bætir ekki stöðu Íslands, vandamálið er ekki krónan, vandamálið er fjórflokkurinn og talsmenn hans...

Birgir Viðar Halldórsson, 13.11.2009 kl. 10:02

2 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Það má bæta því við að Seðlabankinn birtir ekki tölur um ÚTLÁN. Notaði þær upplýsingar til þess að meta stöðuna 2006 og fæ þær ekki uppfærðar (síðast mars 2009). Þessar tölur eru lykillinn að því að negla niður hvernig staða heimila og fyrirtækja í raun og veru er, en það er verið að fela þessar upplýsingar. Sé verið að senda út greiðsluseðla eru kerfin virk en ekki verið að birta stöðuna.

Í þessum tölum má sjá afskriftir og nettóstöður eftir útlána- og innlánstegundum og ég er að verða verulega undrandi á að þessar upplýsingar liggi ekki fyrir. Styrkir amk. ekki tiltrú mína á ástandi mála.

Flokkun útlána sparisjóðanna (miljarðar)

Samtals febrúar 2009: 468

Samtals mars 2009: 333 (-29%)

Heimili febrúar 2009: 235

Heimili mars 2009: 157 (-33%)

Þ.a. íbúðalán febrúar 2009: 135

Þ.a. íbúðalán mars 2009: 77 (-43%) 

Fyrirtæki febrúar 2009: 232

Fyrirtæki mars 2009: 190 (-18%)

Fjármálafyrirtæki önnur en bankar febrúar 2009: 14

Fjármálafyrirtæki önnur en bankar mars 2009: 9 (-37%)

Ég hef verulegan áhuga á því að fá þessar tölur uppfærðar og það hið snarasta.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 13.11.2009 kl. 10:11

3 Smámynd: Lúðvík Lúðvíksson

MÓTMÆLI BYRJA Í DAG KL 12 FYRIR UTAN

Félags- og tryggingamálaráðuneytið - Hafnarhúsinu við Tryggvagötu

Lúðvík Lúðvíksson, 13.11.2009 kl. 10:15

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ragnar, þakka þér fyrir að rótast í þessu.  Þeir eru ekki margir sem hafa úthaldið þitt.  Elítan ætlar grinilega að sitja áfram og treysta á lélegt minni almennings, það hefur dugað henni hingað til.

Magnús Sigurðsson, 13.11.2009 kl. 10:41

5 Smámynd: Júlíus Björnsson

Þakka góð orð.

Mér finnst að sumir þegar verðið er að tala um hlutföll og bera saman eigi einingis að miða við kaupmátt, skudir 2/3 lægst launuðu sinna félagsmanna.  Í dag að mið við evrur þar sem gengið krónunnar er í leiðréttingu með aðstoð IMF.

Svo er búið að koma framhjá Alþjóðasamfélaginu að hér liggi sérstakur vandi almennings í tegningu íbúðalána við bólgu vístölu, í stað fasteignavísitölu.

Einnig að fasteigna lánin m.t.t. höfuðstóls séu of hátt metin. Þessu er ég allveg sammála. Fjármála stofnanir á sína eigin ábyrgð stuðluð að því fasteignverð hækkaði hér um minnst 30% að meðaltali fyrir nokkrum árum og sumir nýttu sér það til að réttlæta hækkun sinna eigin launa og hækkun fasteignaskatta. Ég vissi hinsvegar að þetta myndi ekki standast í 30 ár og hækkun væri óeðlilega miðað við raunverlegar þjóðartekjur í alþjóðasamanburði.

Málið er þeir sem töldu almenningi trú um að fasteignaverð væru eðlileg og mátu að hann geti staðið undir greiðslu á lánum tengdum þeim  eru búnir að hagnast á ofreiknuðum höfuðstól og betra lánshæfi á fölskum forsendum um nokkurra ára bil. 

Þess vegna á að færa þessa samþykktu of háu höfuðstóla í bókhaldi almennt niður til leiðréttingar til samræmis við almennar ráðstöfunar tekjur og krónugengi sem markmiðið er að verði hér í framtíðinni.

Taka svo um fasteignverðstengingu til verðtryggingar fasteigna í framtíðinni í grunnleiðréttingar, nafnvextir eftir sem áður geta tekið mið af bólgu í hverjum mánuði, þá dregur úr eftirspurn eftir fasteignum í bólgu. 

Þessi höfstóls stuldar millifærsla sem fengin var fram, á alþjóðlegum mælikvarða, á fölskum forsendum á að leiðrétt starx það gagnast 80-90% launþega starx og skilar sálfræðilegri bjartsýni sem er nauðsynleg.

Spara dómarkostnað og kostnað skilanefnda. Þetta fer saman með niðurskurði á fjármálgeirum sem byggir á viðurkenningu um fasteingalána blekkingar það er ofmati fasteignverðs vegna rangra leiðréttinga forsenda á alþjóðamælikarða og míns mælikvarða.

Setja þetta afskrifaða fé á biðreikning til að tékka á  hvort almenningur gæti hugsanlega greitt og auka útgjöld í dómara stéttina er ekki trúverðugt.

Svo í framtíðinni þegar fasteignaverðsþróun verður tekin upp í þessum lánaflokki til verðtryggginar þá hækka fasteignlán ef húsnæðiverð og leiguverð hækkar og lækka þegar þau lækka sem er normalt.

Júlíus Björnsson, 13.11.2009 kl. 11:25

6 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Meira að segja Ingibjörg Sólrún sér í gegnum bullið í núverandi stjórnvöldum og það sem meira er HÚN FÆR EKKI ORÐA BUNDIST.

ÞEssi forystumaður launþega er svipaðarar gerðar og aðrir sem eru að eigin áliti yfir okkur pöpulinn hafnir, að telja allt sem þeir gera í þjónustu yfirboðara sinna (í þessu tilfelli stjórn S og VG ) sé af yfirskilvitlegum ástæðum Rétt og satt.

Þó svo að með reikningi, kenndum í Reiknisbók Elísar Bjarnasonar fyrir barnaskóla, að er ósatt og ef betur er að gáð, lygi sem er sett fram vísvitandi og kaldrifjað.

 Sjáðu hvað Verkalýðsrekendur eru nú að gera í Lífeyrissjóðunum.  Þeir láta almennan launþega borga fyrir þotuliðið og þegar hækkandi álögur eru að ná að jafna stöðuna út (eftir að gengið hefur fallið um 50%) berja þeir se´r á brjóst og segjast hafa ,,náð árangri".

SVona líkt og þeir gerðu fyrir svo sem áratug, þegar þeim var leyft að lána erlendis og fjárfesta erlendis.  Þá réðust þeir á gegnið, líkt og nú var gert af vinum þeirra í Glitni, KB og Landsanum og settu ,,litlu kreppu af stað með stórhækkun verðbótaviðmiðunum.  Sér er nú hver ,,árangur".

Takk fyrir varðstöðu um réttindi fyrrum félaga minna í VR

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 13.11.2009 kl. 15:34

7 Smámynd: Þór Saari

Þakka þér fyrir að standa vaktina Ragnar.  Meintur stöðugleikasáttmáli er að leika almenning grátt og er einfaldlega til að tryggja ríkisstjórn, SA og "forystu" verkalýðshreyfingarinnar starfsfrið.  Sameinað stendur þríeykið gegn almannahag.  Þetta er ekkert nýtt í verladarsögunni.  "Þjóðarsáttin mikla" sem náðist á 3. og 4. áratug síðustu aldar á Ítalíu var með alveg nákvælega sama sniði og sú íslenska.  Tryggði valdhöfum, þ.e. stjórnvöldum, atvinnurekendum og verkalýðsforystu) frið frá almenningi og áframhaldandi völd.  Helsti hvatamaður og arkitekt þeirra þjóðarsáttar var þó enginn annar en Mússólini sjálfur og festi "sáttin" ítök fasistahreyfingarinnar á völdum í landinu.  Við skulum ekki gleyma því.

Þór Saari, 13.11.2009 kl. 23:15

8 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Þetta er gott hjá þér Ragnar. Haltu áfram að segja hlutina eins og þeir eru. Það er ekki auðvelt að eiga við ofgreidda starfsmenn verkalýðsfélaga sem eru löngu búnir að gleyma hverjir borga launin þeirra.

Þeir munu verjast með oddi og egg, ljúga þvæla og bulla. En sannleikanum er hver sárreiðastur, eins og sjá má á viðbrögðum Gylfa.

Framganga NÆSTUM ALLRA forsvarsmanna verkalýðshreyfingarinnar er til skammar. Það heyrist ekki múkk í þeim meðan verið er að kyrkja fjölskyldur landsins hægt og rólega.

Baldvin Björgvinsson, 14.11.2009 kl. 08:43

9 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Þakka öllum innlit og athugasemdir.

Birgir

Spurning hvort að Jóhanna sé sarfsmaður á plani hjá Gylfa Bjarnfreðarsyni.

Snorri

Það væri afar fróðlegt að sjá þessar tölur en líklega eru þær ekki birtinga hæfar.

Magnús

Nákvæmlega! Minnisleysi virðist vera algengur kvilli hér á landi, ætli þeir dæli þessu í skyndibitan :)

Júlíus

"sálfræðileg bjartsýni" óskast STRAX!

Ragnar Þór Ingólfsson, 14.11.2009 kl. 10:39

10 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Bjarni

Ég fé allataf óbragð í munnin þegar lífeyrissjóðs kóngarnir slá sér á brjóst. tam var í fréttum gærdagsins að þeir nálguðust "fyrri styrk" fyrir hrun. þ.e. að hálf verðlausar eignir þeirra væru að nálgast 1800 milljarða en ætti neð réttu að vera um 2300 milljarðar miðað við lögbundna raunávöxtunarkröfu.

Árangur!!! Svo nota þeir iðgjöldin til að sýna fram á þennan Árangur!!

Þór

Takk sömuleiðis, Þeir eru nú ekki margir að standa vaktina fyrir okkar hönd á blessuðu þinginu. Þú ert að gera frábæra hluti og þú mátt vera virkilega stoltur af störfum þínum fyrir almenning í landinu.

Stöðugleikasáttmálinn tryggði valdhöfum þessa lands vinnufrið frá fólkinu sem það vinnur fyrir.

Sæll Baldvin

Við verðum að taka höndum saman og breyta þessari þróun. það skal takast, að koma ákvörðunarvaldinu aftur til félagsmanna og hreinsa ærlega til í þessum fílabeinsturnum í leiðinni. 

Stöðugleikasát

Ragnar Þór Ingólfsson, 14.11.2009 kl. 10:53

11 Smámynd: Sveinbjörn Ragnar Árnason

Þjóðfundur er flott framtak ! Þó læðist að manni sá grunur að FjórKlanið standi að þessu öllu saman, á bakvið tjöldin. Nú þarf að deyfa mannskapinn niður. Því ekkert er gert fyrir skuldug heimili og því er Þjóðfundur málið. Ekki er verra að láta Gjaldþrotakallinn í OZ stýra öllu bixinu. Fólk er svo auðtrúa, sjáið hvernig bankamenn plötuðu almenning og eru enn að plata almenning. Íslendingar læra ekki, þeir eru meðvirkir stjórnmálamönnunum.

Íslendingar láta stjórnmálamenn og flokka plata sig ítrekað. FjórKlanið er með mikinn móral, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur sennilega spilltustu stjórnmálaflokkar á Norðurhveli jarðar veita nær enga stjórnaranstöðu, þeir eru með of mikinn móral. Búnir að leggja grunninn að glötun einnar þjóðar. Því er nær engin stjórtnarandsstaða og vinstri flokkarnir hella yfir okkur almenning ógeði útrásarmanna og bankaeigenda þeirra fyrrverandi. Þeir eru allir góðir, gamlir og gildir vinir FjórKlansins.

Hvernig er hægt að reka landið mitt í gjaldþrot á aðeins 66 árum. Landið mitt er gjöfult og miðin full af sjávargulli? Jú ég hef komist að svarinu. Stjórnmálaflokkarnir, (FjórKlanið), sjá til þess að tiltölulega lítill hluti þjóðarinnar hefur völdin, stjórnar og á peningana. Eftir Miklahvell s.l. haust á eingöngu að endurreisa þennan litla hluta vina FjórKlansins og fjármálseiganda við, sem ég tel vera c.a. 3-5% þjóðarinnar. Þetta er gert beint fyrir framan augum almennings.

Því er mikilvægt að meðvirkt fólk sjái að sér og taki hagsmuni sjálfs síns og hins almenna Íslendings og ráðist gegn þessu kerfi sem á sér upphaf og hefð í gegnum stjórnmálaflokkanna á Íslandi.

Til að greiða uppí skuldir óreiðumanna hefur verið ákveðið af FjórKlaninu að láta almenning endurbyggja FjórKlanið og fjármagnseigendur. Á innan við sólarhring tryggði Samfylking og Sjálfstæðisflokkurinn fjármagnseigendum og FjórKlaninu framhaldslíf. Geir og Ingibjörg og reyndar fleiri þarf að færa fyrir Landsdóm. Skaði þeirra við stjórn landsins er margvíslegur, fólksflótti, hörmungar fjölskyldna, atvinnuleysi, vonleysi og fl., en fjármagnseigendur geta klappað þeim lof í lófa um ókomna tíð

FjórKlanið hefur stjórnað Íslandi með sameiginlegu ábyrgðarleysi alltof lengi og við almenningur horft á aðgerðarlaus. Því væri réttast að almenningur myndi byrja á viðamesta vandamáli Íslands. Að brjóta niður fjórflokksmúrinn. FjórKlanið er helsjúkur. Nú á erfiðum tímum, gengur fjórflokkurinn laus með einhverja lægstu greindarvísitölu í manna minnum, (var reyndar ekki mælt þegar Sigmundur Ernir var í glasi). Því ríður á að gera viðamiklar breytingar á stjórnháttum á Íslandi. Það yrði gert með því að brjóta fjórflokksmúrinn niður, helst fyrir ársbyrjun 2010. Stórt fallegt land með fáa íbúa hefur ekki efni á FjórKlaninu öllu lengur.

Stöðuveitingar í gegnum fjórflokkinn hefur tryggt að enginn á að geta brotið niður fjórflokkinn.

Það, hve ástand Íslands er orðið flókið, stafar af því að stjórnmálaflokkarnir krefjast stöðugt tryggingar fyrir því að almenningur ráðist ekki á samtryggingarkerfi stjórnmálaflokkanna. Því brenna eignir almennings upp, gjaldborg fjármagnseigenda var tryggð í boði FjórKlansins. Gerendur geta og vilja ekki borga skaðann, almenningur skal greiða fyrir sukkið, sama hvað það kostar, nema ef vera skyldi að fjórflokkurinn myndi missa völdin. Því er verkið ærið, leggja þarf fjórflokkinn að velli. Það verður gert með óeirðum og byltingu. Það er eina von almennings að hér verði stokkað upp og gefið á garðana af sanngirni. Stefnum á að það verði afgreitt fyrir árið 2010.

Niður með fjórflokkinn, byltingu strax.

Dæmi: Það sagði við mig einn góður vinur minn, að Íslendingar væru sennilega eina þjóðin í heiminum sem myndi keyra fullir ef engin viðurlög væru fyrir því, reyndar talaði hann um allt 70% þjóðarinnar. Fólk væri bara akandi úti blindfullt ef engin væru viðurlögin. Íslendingar eru hugsanlega mjög sérstakt fólk meðvirkt stjórnmálamönnum.

Sveinbjörn Ragnar Árnason, 16.11.2009 kl. 00:00

12 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Tja, birtingarhæfar og ekki birtingarhæfar.  Það eina sem þarf er að fá stöðuna eins og hún breytist á milli mánaða.  SÍ er alltaf að breyta gögnum afturvirkt hvort sem er þegar nýjar upplýsingar liggja fyrir og það gera aðrar stofnanir líka.

Það er stórfurðulegt að á meðan bæði heimili og fyrirtæki kvarta undan skuldabyrði að tölurnar skuli ekki liggja fyrir. Séu tölurnar ekki birtingarhæfar (fyrirsláttur frá opinberum aðilum sem auðvelt er að hrekja) ætti það að ná til birtingar á greiðsluseðlum; semsagt útlánakerfið væri stopp. Það er þó ekki raunin. Skortur á þessum lykilupplýsingum gerir alla umræðuna um skuldsetningu heimila og fyrirtækja ómarkvissa og eykur alla áhættu sem tengist Íslandi.

Gögnin eru til staðar hjá RB og má keyra út á svipstundu (með athugasemdum og fyrirvörum). Eiga erlendir aðilar að fjárfesta á Íslandi? Á meðan þessar tölur liggja ekki fyrir ættu þeir að bíða átekta; að fjárfesta hérlendis án þessara upplýsinga jafngildir því að kaupa köttinn í sekknum. Það er amk. mitt svar til erlendra aðila sem eru að forvitnast um stöðuna hérna (og er eitt samsteypa fjárfesta í samfloti við viðskiptaráð ESB lands).

Það er ekki hægt að áætla neitt eins og staðan er s.s. jólveltuna, en verði hún slök sjáum við aukið atvinnuleysi í ársbyrjun 2010 með tilheyrandi keðjuverkun.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 16.11.2009 kl. 07:31

13 identicon

Þú stendur þig eins og hetja!

Eva Sól (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 11:32

14 Smámynd: Júlíus Björnsson

Nú má gera ráð fyrir því að sá hluti þjóðarinnar, mikið til þeir sem voru kaupa sína fyrstu fasteign síðustu 10 ár verði ekki í góðu skapi þegar svo kallaður þriggja ára greiðslubyrðabiðsjóður byrjar að fitna, hinsvegar ef hann fitnar ekki bætir það heldur ekki skapið.

Erlendir fjárfestar utan EU hljóta að áætla að Umboðið í Brussel eigi síðast orðið um fjarfestingar innan heildarinnar sem oft mun vera fjármagnaðar að mestu með lánum frá EU, svo sem Evrópska Fjárfestinga Bankanum.

Ef um mannfrekar fjárfestingar er að ræða þá hljóta önnur Meðlima-Ríki EU þar sem framfærslukröfur eru minni að vera að því leyti betri kostur í þeirra augum.

Hvernig verður svo stöðugleiki á vinnu markaði hér á landi næstu áratugina í ljósi stöðuleikans um færri evrur í launa umslagið almennt.

Svo gerir lágvirðisauka iðjuver kröfu um 90 lámenntastörf fyrir hver 10 meiri menntuð störf.  

Júlíus Björnsson, 16.11.2009 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband