Lífeyrisþjófnaður?

Lífeyrisþjófnaður?

Grein eftir Sigurð Oddsson sem birtist í Blaðinu, desember 2005.

Frábær Grein eftir Sigurð sem er einn af baráttumönnum gegn sinnuleysi lífeyrissjóðanna gagnvart eldri borgurum þessa lands.

Viljum við enda ævikvöldið á margra ára biðlista eftir  kústaskáp á yfirfullu elliheimili þar sem varla er hægt að hella sér upp á kaffi, hvað þá að taka á móti ástvinum ? 

Greinin: 

Ég fékk mikil viðbrögð við grein minni “Til hvers eru lífeyrirsjóðir”.  Ekkert heyrðist þó frá forsvarsmönnum lífeyrissjóða.  Samt notaði ég stór orð. Kallaði þá þjófa. Það hefði ég ekki sett á prent nema ég gæti staðið við það og geri það hér með:

Að loknu námi starfaði ég í Sviss.  Þar var frjálst val að vera í lífeyrissjóði og nokkrir í boði.  Ég valdi lífeyrissjóð opinbera starfsmanna og var í honum á þriðja ár.  Skömmu eftir að ég flutti heim kom yfirlit frá bankanum úti, sem launin mín voru jafnan lögð inn á.  Það var komin stór innborgun. Lífeyrissjóðurinn hafði endurgreitt mér allt, sem ég hafði borgað í hann.  Allir geta verið sammála um að samanborið við þetta, þá er maður rændur hérna  heima.  

Ég hef mikið velt fyrir mér, hvort það standist landslög, að lífeyrssjóðir slái eign sinni á inneign sjóðsfélaga, þegar þeir kveðja þennan heim.  Vonandi verður einhver lögfróður til að svara því með tilliti til eftirfarandi dæmis.:

Flestir ganga í lífeyrissjóð um leið og þeir byrja að vinna.  Oft barnungir. Síðar þegar gengið er í hjónaband eru hjónin eitt frammi fyrir guði og mönnum.  Eiga saman börn, innbú og íbúð. Allt er sameign nema þau geri kaupmála.  Taki annað hvort eða bæði lán með veði í sameiginlegri eign, þá skal makinn skrifa samþykki sitt á skuldaviðurkenninguna.  Svo kemur að því að annað fellur frá. Þá erfir sá sem lifir allt nema lífeyrissjóðsréttindin.  Sé lífeyrissjóðslán í búinu skal hann eða hún borga af því þar til það er upp greitt.  Á sama tíma fær hann eða hún tímabundið skertar bætur úr lífeyrissjóði makans.

Það eru aðallega konur, sem hafa farið illa út úr þessu.  Bæði lifa þær lengur og svo hafa þær fram til þessa verið meira það sem kallað er heimavinnandi. Fyrir það starf fást ekki lífeyrissjóðsréttindi.  Sama hversu stórt heimilið er og börnin mörg.  Merkilegt að þeir, sem mest berjast fyrir jafnrétti hafi ekki fengið þetta leiðrétt.

Ég geri mér grein fyrir að upp úr miðri síðustu öld jafnaði verðbólgan misréttið. Fasteignir hækkuðu í verði á meðan lánin brunnu upp á verðbólgubálinu og hjónin eignuðust óbeint lífeyrissjóð í búinu. 

Upptaka lífeyrissjóðsréttinda, þegar óðaverðbólgan geysaði, hefur eflaust bjargað mörgum sjóðnum frá því að fara á hausinn. 

Nú eru breyttir tímar. Nýtt og áður óþekkt vandamál.  Fjármagnið streymir svo skart inn að til vandræða horfir.  Yfirlýsingar um ónóg tækifæri til fjárfestinga innanlands koma frá sjóðunum. Þeir allt að því neyðast til að auka fjárfestingar í erlendum verðbréfum.  Á sama tíma er ekkert lát á fréttum um lakan aðbúnað eldri borgara, sem flestir eru stofnfjáreigendur lífeyrissjóðanna.

Til er einföld lausn á verðtryggingu fjármagns lífeyrissjóða, sem um leið bætir aðbúnað eldri borgara.  Lausnin felst í því, að lífeyrissjóðirnir stofni sameiginlegt byggingafélag “LÍFBYGG”, sem byggir leiguíbúðir eldriborga. Stofnfé gæti verið “ránsfengur” síðustu 25 ára. 

Fjármagn sem fer í byggingar er verðtryggt um leið og framkvæmt er fyrir það.  Sama er að segja um kaup sjóða á íbúðunum.  Um leið og greiðsla fyrir íbúð er yfirfærð til “LÍFBYGG” er hver einasta króna verðtryggð. Allir vita að fjárfesting í steinsteypu á Íslandi er góð. Ekki áhættufjárfesting líkt og hlutabréf.  Í viðbót við verðtrygginguna bætast við leigutekjur af íbúðinni frá fyrsta degi. 

Um leið gjörbylta þessar leiguíbúðir kjörum þeirra, sem eru að ljúka starfsaldri.  Allir ættu að geta leigt sér íbúð við hæfi.  Þeir sem eiga íbúð fyrir geta selt hana í rólegheitum og notið söluverðssins.  Leigt sumarhús af lífeyrissjóðnum á sumrin og ferðast til heitari landa á veturna.

Lífeyrissjóðirnir myndu losna við að sitja einhverja stjóra á aðalfundi verðbréfasjóða eða hlutafélaga erlendis með tilheyrandi dagpeningum og kostnaði.

Sigurður Oddsson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband