Framtíðin er á okkar ábyrgð.

Mikið er í fréttum um hin ýmsu framboð sem ætla að leiða þjóðina frá glötun fjórflokksins. Margt af því góða fólki, sem nú hefur stigið fram, hefur sett sig í framvarðarsveit hagsmunagæslu íslenskrar alþýðu og leggur nú allt kapp á, hvert í sínu horni, að setja saman framboðslista fyrir næstu alþingiskosningar.

Hver er tilgangurinn með því að stofna fjölmörg framboð með sambærilegum áherslum til að rétta hlut alþýðunnar?

Er öllu því góða fólki sem nú keppist við að setja saman hin ýmsu framboð svo umhugað um hagsmuni alþýðunnar að það getur ekki brotið odd af oflæti sínu og sameinast sem raunverulegur valkostur gegn spillingunni.

Liggur vandinn og hin raunverulega stjórnarkreppa í samstöðuleysi grasrótarinnar?

Hvað breytist ef við fáum yfir okkur fjölmarga valkosti sem allir lofa siðbót og raunverulegum kerfisbreytingum? Eru þeir sem hæst gala gegn óréttlæti og aðgerðarleysi kannski engu betri en núverandi ríkisstjórn ef þeir geta ekki komið sér saman um raunverulegan og raunhæfan valkost fyrir kjósendur?

Það besta sem gæti gerst fyrir stjórnmálaöflin sem bera ábyrgð á ástandinu sem við erum svo óskaplega ósátt við er samstöðuleysi þeirra sem telja sig kyndlabera réttlætis og breytinga.

Get ég sem kjósandi, millistéttarauli og virkur þjóðfélagsþegn gert kröfu til þeirra sem hafa vakið upp væntingar mínar um betra samfélag að bjóða fram valkost sem líklegur er til árangurs gegn því ömurlega ástandi sem nú ríkir?

Við vitum hvað fjórflokkurinn stendur fyrir og ef áfram heldur sem horfir standa valkostir kjósenda á milli kvalara sinna.

Umboðssvik, spilling og brotin loforð er sá raunveruleiki sem kjósendur hafa búið við um áratuga skeið. Því miður virðast þeir sem boða fagnaðarerindið og raunhæfar leiðir til betri lífskjara, ekki getað boðið kjósendum upp á raunhæfa leið til árangurs.

Þar liggur vandinn og ábyrgðin!

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Mikið rétt Ragnar,allir vilj vera kyndilberar,happasælla er sameining léttir valið.

Helga Kristjánsdóttir, 6.1.2012 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband