Hóflegar og ábyrgar kröfur launafólks og bjartsýni.

Ég var á upplýsingafundi VR um stöðu kjarasamninga í gærkvöldi og get ekki orða bundist.

Dagskipun verkalýðshreyfingarinnar er að launafólk sýni ábyrgð og fari fram á hóflegar launahækkanir, sem tryggi kaupmátt og viðhaldi stöðugleika. 

Hugmyndafræði SAASÍ gengur út á að fylkja sér á bakvið verðbólguspá seðlabankans (sem hefur aldrei staðist frá því að mælingar hófust) og bæta lítilræði við til þess að sýna fram á jákvæða og ábyrga kaupmáttaraukningu. Hugmyndirnar ganga út á 2,5-3% hækkun á ári í 3 ár þannig að mismunur á launahækkunum og verðbólgu verði jákvæður um 1-3% yfir samningstímann.

Á fundinum í gær kom skilyrðislaus stuðningur Alþýðusambandsins við verðtryggingu fjárskuldbindinga sem eitt og sér hlýtur að gera ASÍ vanhæft til að fjalla um hagsmuni launafólks.

Er það ekki ótrúlegt að stærstu hagsmunasamtök launafólks skuli verja fjármagnseigendur, sem stjórna stöðugleikanum og hafa beinan hag af óstöðugleika í skjóli verðtryggingar?

Hvernig væri ástandið ef að þeir sem stjórna stöðugleika hefðu allt undir með stöðugleika en ekki öfugt?

Vissulega eru lífeyrissjóðir fjarmagnseigendur sem aftur erum við fólkið. En hver er okkar mikilvægasti lífeyrir? Eignaupptakan á okkar mikilvægasta lífeyri í gegnum verðbætur er notaður sem spilapeningur í fjárhættuspili viðskiptalífsins þar sem allt snýst um völd og aðgang hinna útvöldu að almannafé, sem tapast svo í kerfisbundnum markaðsáföllum.

Þeir lífeyrisþegar sem standa best í dag fóru skuldlausir á lífeyri og höfðu þak yfir höfuðið sem árangur ævistarfsins í stað innihaldslausra loforða.

Verkalýðshreyfingin hefur stungið hausnum í sandinn gagnvart launafólki hingað til og er mér spurn um hvers lags ábyrgð og hófsemi ég á að sýna eftir allt sem á undan er gengið.

Hvaða ábyrgð, hófsemi og aðhald hefur verkalýðshreyfingin sýnt?

Við höfum séð ábyrgar skattahækkanir sem engu hafa skilað nema hækkun á neysluvísitölu.

Við höfum séð hófsamar og ábyrgar innistæðutryggingar án takmarkana þar sem stór hluti þeirra upphæða sem tryggður var, eru sömu skuldirnar og almenningur verður skattpíndur næstu áratugi til að greiða.

Við höfum séð ábyrgð og hófsemi í gjaldskrárhækkunum orkuveitunnar og niðurskurði hjá leikskólum og grunnskólum. 

Við þekkjum ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar í að mótmæla því að ríkið innheimti skattstofn sinn í séreignasparnaði til að hlífa heimilum landsins við frekari álögum.

Með ábyrgum og hófsömum hætti stakk Verkalýðshreyfingin hausnum á bólakaf í sandinn á meðan almenningur leitaði réttar síns vegna stökkbreyttra húsnæðis og bílalána og tók svo á endanum ábyrga afstöðu með fjármálafyrirtækjunum.

Með ábyrgum hætti studdi verkalýðshreyfingin Icesave samninginn sem hefði verið síðasti naglinn í líkkistu velferðar á íslandi ef almenningur hefði ekki risið upp og hafnað honum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nú ætlar verkalýðshreyfingin að bjóða launafólki í kökuboð þar sem sýnt verður fram á hversu lítið sé til skiptanna.

Hvar var verkalýðshreyfingin þegar fjármagnseigendur voru að skera sínar sneiðar af sömu köku sem ekkert er eftir af? Hvar var verkalýðshreyfingin þegar milljarðahundruðum var eytt í að kaupa verðlaus skuldabréf út úr peningamarkaðssjóðum sem ekki voru ríkistryggðir en í eigu og stjórnað af útvöldum.

Hvar var verkalýðshreyfingin þegar kökusneiðunum var sólundað í sama svartholið og kom okkur á hliðina?

26 milljarða kr. vegna VBS, 12 milljarða kr. vegna Sjóvár, 20 milljarðar vegna Saga Capital, 6 milljarða vegna Aska Capital, 5 milljarða vegna Byrs, 14 milljarða vegna Sparisjóðs Keflavíkur og væntanlega 3,5 milljarða vegna Byggðastofnunar og 20 milljarðar í SpKef.

Launafólk þarf svo sárlega á sterkri forystu að halda sem hefur kjark í að berjast gegn grímulausu óréttlætinu, en hefur yfir sér stjórn þar sem ákvörðunarfælnin, meðvirknin og tepruskapurinn er slíkur að það hálfa væri nóg.

Eru forystumenn verkalýðshreyfingarinnar kanski að starfa fyrir fjármagnseigendur og atvinnurekendur? 

Vil enda þetta á orðum vinar míns Guðmundar Más Ragnarssonar:

Velferðastjórnin búin að lækka barnabætur fjölskyldunnar um helming. Á sama tíma kemur glaðningur frá leikskóla, systkinaafsláttur lækkaður og gjaldið hækkað í ofanálag. Nýtt „endurvinslusorpstöðvargjald“ lagt á heimilið. Gengdarlausar skattahækkanir kryddaðar með hækkun allra tilfallandi gjalda. Væri ekki bara hreinlegra að vísa manni úr landi?

Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarmaður í VR.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög góð grein. Og segjir okkur að þessi þjóð lætur allt yfir sig ganga.

Bragi (IP-tala skráð) 17.2.2011 kl. 11:36

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Gömul bæling í þjóðarsálinni.

Helga Kristjánsdóttir, 17.2.2011 kl. 12:31

3 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Mjög GÓÐ grein!

Þessu verður sennilega svarað svona: "Við megum ekki vera að velta okkur upp úr fortíðinni - við verðum að horfa bjart fram á við."

Sá sem þekkir ekki söguna er dæmdur til þess að endurtaka hana.

Sumarliði Einar Daðason, 17.2.2011 kl. 12:40

4 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Ef þetta er nýa Island Ríkisstjórnarinnar! Þá vil  ég ekki búa hér, og ekkert af mínu fólki. Svo á að vera prósentu hækkun launa!! Hvað þíðir það fyrir Gylfa? Og hvað þíðir það fyrir manninn með litlu launin?? Gera þarf uppreisn ef hægt á að vera að búa hér!!!

Eyjólfur G Svavarsson, 17.2.2011 kl. 17:44

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er þyngra en tárum taki.

Magnús Sigurðsson, 17.2.2011 kl. 17:50

6 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Þakka innlit.

Bragi, kanski þurfum við að búa við 30 ára kúgun í viðbót til að fólk taki við sér.

Helg, þakka innlit og hvað þú ert alltaf dugleg við að stimpla þig inn á bloggið hjá mér. Bæld, og meðvirk.

Ragnar Þór Ingólfsson, 17.2.2011 kl. 19:26

7 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

þakka innlit Sumarliði,

Já og  svo verður okkur sagt að vera ábyrg og hvar á eiginlega að fá peninga?

svo mikið er víst að verkalýðsforystan hefur séð til þess að ekkert er til skiptana fyrir fólkið í landinu.

Ragnar Þór Ingólfsson, 17.2.2011 kl. 19:29

8 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

sæll Eyjólfur, Gylfi er með c.a. milljón á mánuði, Kiddi kóngur í keflavík er með 1,4millur. verkalýðshreyfingin er að velta yfir 10.000 milljónum á ári og rekstrarkostnaður er yfir 2.000 milljónir á ári hverju.  Við erum líklega ekki einir um það að finnast uppskeran heldur rýr. Svarið við stóru spurningunni eru Bylting eða Brottflutningur. Þriðji valkosturinn er þrældómur.

Ragnar Þór Ingólfsson, 17.2.2011 kl. 19:34

9 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Magnús,

þetta er í einu orði sagt Ömurlegt. Það er svo enn ömurlegra að sitja undir þessu fund eftir fund. 

Ragnar Þór Ingólfsson, 17.2.2011 kl. 19:36

10 Smámynd: Júlíus Björnsson

Staðreyndin er að Hagvöxtur er: verðbólga + fasteignaveðbólga - skattar til að greiða niður skuldir stjórnsýslunar. Módel Seðlabankas í einfaldri mynd.

Ísledingar un 500.000 þús. kr mánaðartekjum hafa orðið fyrir um 40 % skerðingu neyslutekna, stór hluti misst allan séreignarlífeyrir  og allan eigar hlut í eigin húsnæði.

Hér á setja fram að minnst 40.000 kr komi ofan á öll laun undir 600.000 heildartekjum á mánuði.

Þótt fyrirtækin þurfi að hækka verðlag um 1% á móti. Skilar þetta launþegum þó nokkru til baka.         

Júlíus Björnsson, 17.2.2011 kl. 19:44

11 Smámynd: Júlíus Björnsson

Spurning er hvað er mikið eftir til að spara eða sukka að eigin vali.

Þá er prósentu munurinn stjarnfræðilegur. 

Júlíus Björnsson, 17.2.2011 kl. 19:48

12 Smámynd: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir

nú er verið að dæla 14 milljörðum... 14 þúsund milljónum í sparisjóð Keflavíkur til að bjarga 6% af innistæðueigendum á meðan sjúkrahús Akranes þarf að skera niður um 115 milljónir. Svo fer Gylfi og co með lofræður um land allt til að tala upp 2,5 til 3.0 prósenta sameiginlegrar hækkun yfir alla. Það eitt þýðir að hann sjálfur fær 25 til 30 þúsund kall á meðan afgreiðslumanneskjan sem afgreiðir hann fær max 6.000 kr. Réttlæti? Hvað með að hækka laun þeirra lægstlaunuðu sem kemur til með að skila sér beint sem aukin neysla og þar af leiðandi til aukna atvinnutækifæra. Gylfi mun setja þessa hækkun bara inn á bók eða fara til Kanarí ekki kaupir hann fleiri kjúklingabringur fyrir peninginn.

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, 18.2.2011 kl. 01:30

13 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Júlíus

ASÍ talar um hversu óábyrgt það sé að hækka laun of mikið því það skili sér strax í hærra verðlagi. Það eitt og sér þegar verkalýðsforysta talar niður launahækkanir er umhugsunarvert svo ekki sé meira sagt. Sama verkalýðsforystan ver alla þá varnagla sem kerfið hefur til að mæta öllum launahækkunum í nútíð og fortíð. Ekki dettur þeim í hug að verðtryggja hækkanir eða skera í burtu helsta krabbamein samfélagsins sem er verðtryggingin sem aftur heldur launafólki í gíslingu.

Ragnar Þór Ingólfsson, 18.2.2011 kl. 08:49

14 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæl Guðrún

Stjórnvöld virðast vera með forgangsröðina á hreinu. Er til of mikils ætlast að verkalýðshreyfingin hafni því að almenningur sé skattpíndur með því að dæla endalausum fjármunum í svarthol fjármálafyrirtækjanna. Er eitthvað skrýtið að lítið sé til skiptanna þegar bestu bitunum af kökunni er rænt fyrir framan nefið á okkur, i skjóli þeirra sem fá greitt fyrir að gæta hagsmuna okkar og sjá til þess að eitthvað sé skilið eftir handa okkur? Eftir stendur mylsnan sem 95% landsmanna er gert að skipta , bróðurlega, á milli sín.

Hvernig má það vera að af heildarlaunakostnaði við einstakling fari um 63% til ríkjanna tveggja, þ.e. verkalýðs og lífeyrissjóðamafíunnar og restin til ríkis og sveitarfélaga. 

Svo greiðum við 25,5% vsk af því sem eftir stendur.

Ragnar Þór Ingólfsson, 18.2.2011 kl. 08:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband