Hefur Alþýðusambandið glatað umboði sínu og tilgangi vegna lífeyrissjóðanna?

Greinin birtist í morgunblaðinu 17.12.2010

Við vitum hverjir bera ábyrgð á hruninu en það vill gleymast hverjir bera ábyrgð á ástandinu. Útför heimila í boði ríkisstjórnarinnar í skjóli ASÍ."

Hverjir eru kostir og gallar almennra skuldaleiðréttinga fyrir sjóðsfélaga lífeyrissjóða ef við hugsum út fyrir lýðskrum verkalýðskónganna sem pakksaddir ropa um að ekki megi nota allt sparifé launamanna í að afskrifa allar skuldir. Í fyrsta lagi þarf ekki að nota allt sparifé launafólks og í öðru lagi er ekki verið að tala um að afskrifa allar skuldir eins og gert er með ófá fyrirtækin og skuldabréfalán lífeyrissjóðanna til tengdra aðila.
Forsendubresturinn, skerðingar á lífeyri og slæm staða er fyrst og síðast vegna óráðsíu í fjárfestingum sjóðanna. Ekki vegna skuldavanda heimilanna. Forsendubresturinn er viðbótarskerðing á lífeyri þeirra sem skulda, því skerðing á lífeyri bitnar hlutfallslega jafnt á öllum sjóðsfélögum.
Ef við tökum beinan kostnað lífeyriskerfisins við að skila til baka helmingi verðbóta frá ársbyrjun 2008, hafa sjóðirnir eignafært yfir 126 milljarða í verðbætur á fasteignalánum almennings yfir sama tímabil. Það kostar því um 63 milljarða eða 3,3% af heildareignum að koma til móts við skulduga sjóðsfélaga sem hafa tapað sínum mikilvægasta lífeyri á verðbólgubáli síðustu ára. Í því samhengi er rétt að taka fram að lífeyrissjóðirnir töpuðu yfir 43% af öllum eignum sínum á útrásarsvindlinu. Lífeyrissjóðirnir hafa aðeins viðurkennt brot af því tapi og til að setja það í samhengi voru 20% af öllum eignum lífeyrissjóðanna, fyrir hrun, bundin í hlutabréfum en þær eignir þurrkuðust út á einu bretti við fall bankanna. Eftir standa óuppgerðir gjaldmiðlasamningar, verðlaus og veðlaus skuldabréf útrásarfyrirtækjanna pökkuð inn í grátbroslega nauðasamninga með gjalddögum langt inn í framtíðina.

 

Hver er ávinningur sjóðsfélaga af almennum leiðréttingum?

Með stofnun Framtakssjóðs og fréttum af nýjustu áhættufjárfestingum lífeyrissjóðanna hafa þeir bundið framtíðarávöxtunarkröfu sína í smásölurekstri og þjónustu. Væntingar sjóðanna um heimtur eru þar af leiðandi bundnar við aukna neyslu, hagvöxt og bjartsýni í þjóðfélaginu. Aukið svigrúm skuldugra heimila er því beintengt afkomu sjóðanna af nýlegum fjárfestingum sínum. Aukin bjartsýni og réttlætiskennd hefði vafalítið jákvæð áhrif á samfélagið, almennan greiðsluvilja og betri heimtur af nauðasamningum sjóðanna. Það er því nær öruggt að þeir fjármunir sem lífeyrissjóðirnir leggja til almennra leiðréttinga muni skila sér til baka og vel það á tiltölulega skömmum tíma. Ólíklegt er að skerða þurfi lífeyri ef ríkið, með einfaldri lagasetningu, hækkar tryggingafræðileg vikmörk sjóðanna, tímabundið.

 

Hvað kostar að gera ekki neitt?

Það er mikil og raunveruleg hætta á stórfelldum skerðingum lífeyrisréttinda, náist ekki samfélagsleg sátt um lausnir á skuldavanda heimilanna. Hvað kostar það sjóðina og hver verður staða þeirra ef upp úr sýður í þjóðfélaginu, sem allt stefnir í? Verkföll, óstöðugleiki og viðvarandi kaupmáttarrýrnun mun hafa gríðarlega neikvæð áhrif á ávöxtun sjóðanna og heimtur á skuldabréfalánum til fyrirtækja og einstaklinga. Greiðsluvilji þeirra sem greiða af full- og yfirveðsettum eignum er að fjara út með degi hverjum. Það er því ekki að undra að manni finnist þeir skjóta sig í fótinn í umræðunni um lausnir á skuldavandanum.

Hver króna í aukið svigrúm fyrir heimilin er eina næringin fyrir mergsogin fyrirtækin sem stjórnendur lífeyrissjóðanna reiða sig á til að vinna upp tapið á útrásarsukkinu.

Hver er staða sjóðanna í þessu samhengi þegar þeir réttlæta áhættufjárfestingar með samfélagslegri ábyrgð um endurreisn atvinnulífsins. Hver er þá samfélagsleg ábyrgð þeirra gagnvart sjóðsfélögum og samfélaginu í heild. Sjóðirnir eru jú í grunninn samtryggingarkerfi. Niðurstaðan er sú að kostnaður við almennar leiðréttingar fyrir skulduga sjóðsfélaga er aðeins brot af því að gera það ekki. Ávinningurinn er hins vegar augljós. Sjóðsfélagar sem nutu hagstæðra óverðtryggðra húsnæðislána fá nú greiddan lífeyri með verðbótum þeirra sem nú reyna að koma þaki yfir höfuðið.

Lífeyrissjóðirnir bera höfuð ábyrgð á því þensluástandi sem skapaðist í kringum útrásarvitleysuna og bera því höfuðábyrgð á þeim forsendubresti sem varð á fasteignalánum almennings. Að hjálpa bara þeim verst settu eru klæðskerasaumuð úrræði fyrir fjármálastofnanir og lífeyrissjóði til að réttlæta afskriftir á þegar töpuðum kröfum. ASÍ kóngarnir hafa sagt sitt síðasta í þessum efnum, hafnað almennum leiðréttingum og afnámi verðtryggingar. Allt vegna lífeyrissjóðanna sem hlýtur að vera áhyggjuefni. Ætli þeir hafni svo verkföllum launafólks til að verja ávöxtun lífeyrissjóðanna í gjaldþrota atvinnulífi? ASÍ tók upp hanskann fyrir auðvaldið og afgreiddi skuldavandann með sama hætti og Icesave. Að bregðast umbjóðendum sínum svo algerlega er samfélaginu og launafólki til háborinnar skammar.

Nú á ég að sætta mig við tímabundna ölmusu frá ríkinu í gegnum vaxtabótakerfið sem sárabætur fyrir þjófnað á okkar mikilvægasta lífeyri, sem er þak yfir höfuðið, horfa bjartsýnn fram á veginn, setja strik í sandinn, þegar mig flökrar enn við fortíðinni og óréttlætinu sem engan enda virðist taka. Nei takk!

Höfundur er sölustjóri og stjórnarmaður í VR.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Séreignalífeyrir greiðist að heildarlaun og  er það líðandi að ef allir geta ekki nýtt sér skattafrestun sem hann upp bíður á eða launhækkun að hann skuli finnast í lögum þessa lands.

80% þjóðarinnar græðir mest í augnblikinu á bæta eignfjárstöðu til að minnka vaxtagreiðslur á efri árum.

Ríkissjóði veitir ekki af hverri krónu til að greiða niður erlendar skuldir.

Steingrímur og Jóhanna  virðast því skulda lítið og eiga stutt eftir í upptöku sinna ofurlífeyrisuppbóta á kostnað barna skuldugra. 

Græðgina er erfitt að losna við. 

Júlíus Björnsson, 18.12.2010 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband