Er jörðin flöt hjá stjórnendum lífeyrissjóða ?

Nú er búið að semja við Bakkavararbræður um áframhaldandi yfirráð yfir Bakkavör.

Skuldabréfaútgáfurnar sem lífeyrissjóðunum er mikið í mun að semja um, minna óneitanlega á "I OWE YOU" post it miðana sem þeir Harry og Lloyd í myndinni Dumb & Dumber gerðu í skiptum fyrir peningana í töskunni góðu. Post it miðarnir eru skuldabréfaútgáfurnar og peningarnir eru eignir sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna.

Þeir Harry og Lloyd fengu lánað úr töskunni til að kaupa "bara það allra nauðsynlegasta" eins og hótelsvítur,rándýra sportbíla ofl. Ekki ósvipað Bakkabræður sem keyptu lúxuseignir í hverju heimshorni, ferðuðust um á einkaþotum, lúxussnekkjum og dýrustu gerðum sportbíla ásamt því að fara hamförum í öðrum fjárfestingum. Ekki voru launin til að kvarta yfir.

Í dag hafa lífeyrissjóðirnir samið við bræðurna í þeirri veiku von að eitthvað fáist upp í vonlausar fjárfestingar sjóðanna í félögum þeim tengdum. Þetta er eins og að rétta spilafíkli, sem tapað hefur einbýlishúsinu þínu, innbúið til að vinna tapið til baka.

Bullandi meðvirkni eða yfirklór vegna vonlausra lánveitinga?

Bakkavararbræður hafa ekki staðið skil, samkvæmt skráningarlýsingum, á einni einustu skuldabréfaútgáfu sem þeir hafa gefið út fyrir félög þeim tengdum. Þær eru annað hvort í vanskilum,endurfjármögnuð eða breytt í hlutafé.

Hver er ábyrgð stjórna lífeyrissjóðanna sem lánuðu ævisparnað okkar á slíkum forsendum, með bréfakaupum án veða sem eru álíka verðlaus og "post it" miðar með skuldarviðurkenningu viðkomandi félags.

Félög þeirra bræðra hafa verið margsektuð af kauphöll íslands fyrir gróf brot á lögbundinni upplýsingaskildu, Exista, Bakkavör.

Og enn voru þeir sektaðir sektir hér og Hér.

Svo hafa þeir kerfisbundið hlunnfarið almenna hluthafa með því að selja sjálfum sér verðmætustu bitana á vildarkjörum og verið kærðir fyrir. Og hagað sér eins og Hýenur þegar kemur að almennum hluthöfum.

Ekki nægir rannsókn Serious Fraud Office (SFO) og Serious Organised Crime Agency (Soca) í Bretlandi á viðskiptagjörningum þeirra bræðra til að stöðva nauðasamningana sem lífeyrissjóður verslunarmanna og stjórnarmeirihluti VR vilja ólmir gera við þessa skrúðkrimma og það sem allra fyrst. 

Hvað fær meirihluta stjórnar VR og stjórnarmenn okkar í lífeyrissjóðnum til að trúa því að þessir menn komi til með að standa við gerða nauðasamninga? Hvaða hagsmunir og sjónarmið liggja raunverulega að baki og hvað hafa þeir bræður gert til að verðskulda slíkt traust ?

Hvað í ósköpunum fær þingamann til að tala um ábyrgð lífeyrissjóða sem leggur um leið blessun sína á nauðasamninga við menn sem hafa tapað stórum hluta af ævisparnaði almennings og skilið eftir sig óvinnandi skuldaslóð eftir glórulaus útlán,fjárfestingar og lúxuslíferni sem íslenskur almenningur þarf nú að standa skil á.Hvað með ábyrgð stjórnenda sjóðanna ?

Sama fólkið semur um skuldina og lánaði peningana okkar.

Eiga Bakkavararbræður eftir að standa skil á skuldabréfi sem þeir gáfu út fyrir Skipti (síminn)? Bréfið heitir Simi 06 1 og er 15 milljarða kúlulán sem var búið að selja áður en það var gefið út í lokuðu útboði. Gjalddaginn er einn og er í apríl 2014. Sjá viðhengi.

Í viðhenginu má einnig sjá að óefnislegar eignir (viðskiptavild) félagsins er 58,5 milljarður.

Hverjar eru líkurnar á því að Skipti (Síminn) fari í nauðasamninga árið 2014 ?

Skuldabréfaútgáfurnar sem sjóðirnir fjárfestu í eru opinber gögn.

Engar tryggingar voru á bakvið þessar skuldabréfaútgáfur ef útgefandi stendur ekki í skilum eða fer í þrot.

Við vitum hvað útrásarfyrirtækin skulda en megum alls ekki vita hversu mikið stjórnendur sjóðanna lánuðu þeim af OKKAR eigin peningum.

Hvað er verið að fela?

Forsendur nauðasamningana eru varlega áætlaðar, hlægilegar.

Hvernig á Bakkavör að geta greitt kröfuhöfum 65 milljarða plús vexti líklega umþb. 100 milljarða á 4 1/2 ári ?

Er jörðin ennþá flöt hjá stjórnendum lífeyrissjóðanna.

Þessir menn hafa sýnt einbeittan ásetning í að hlunnfara kröfuhafa og almenna hluthafa m.a. með því að selja sjálfum sér Bakkavör úr Existu á vildarkjörum sem hvergi þekktust á þeim tíma. Ásamt því að margbrjóta leikreglur kauphallar Íslands.

Ég hef skoðað skuldabréfaútgáfurnar sem um ræðir mjög vel og óhætt að segja að engin veð né nokkrir fyrirvarar voru til staðar sem tryggðu heimtur lífeyrissjóðanna betur en almennra hluthafa.

Það er kanski ekkert skrítið að lífeyrissjóðirnir vilji loka þessu máli sem allra fyrst svo að sjóðsfélagar komist ekki að hinu sanna og dreifa tapinu yfir langan tíma.

Nú á almenningur að borga fyrir fylleríið. Það er ekki bara siðlaust að semja við þessa menn. Það er siðlaust að þeir skuli hafa samningsstöðu yfir höfuð.

Að þingmaðurinn Kristján Þór Júlíusson skuli verja þessa menn og líferyissjóðina sem neita að gefa upp hversu mikið þeim var lánað af okkar eigin peningum jafngildir falleinkun í mínum bókum.

Stjórnarmeirihluti VR hefur alfarið hafnað þeirri tillögu minni að skoða gjaldeyrissamninga og lánveitingar sjóðsins til félaga tengdum Bakkavararbræðrum. Formaður VR Kristinn Örn Jóhannesson telur þessi mál ekki koma okkur við.

Stjórn Lífeyrissjóðs Verslunarmanna hefur einnig hafnað allri skoðun en Stjórnin er nú að ganga frá nauðasamningum við sömu menn og komu landinu okkar á hliðina.

Stjórnarmenn fyrir hönd félagsmanna VR eru: Ragnar Önundarson sem var annar höfuðpaurinn í einu stærsta og alvarlegasta samkeppnislagasvindli Íslandssögunnar sem kennt er við kreditkortasvindlið.

Ásta Rut Jónasdóttir varaþingmaður framsóknarflokksins, Varaformaður VR og stjórnarmaður í Flug-kef ohf.Sem barðist fyrir auknu gegnsæi fjárfestingum sjóðanna og gegn spillingunni í lífeyrissjóðunum, missti málið eftir að henni var boðin stjórnearsetu speninn

Stefanía Magnúsdóttir Stjórnarmaður í VR og Miðstjórn ASÍ og Benedikt Vilhjálmsson stjórnarmaður í VR.

Þau bera við þagnarskyldu og bankaleynd aðspurð um hversu mikið af lífeyri félagsmanna okkar var mokað í félög tengdum Bakkavararbræðrum. Stjórnarmeirihluti VR hefur einnig hafnað allri skoðun á málinu.

Það er svolítið skrítið í ljósi þess að sjóðurinn mátti aðeins fjárfesta í skráðum skuldasbréfum í kauphöll íslands en heildar skuldir þessara félaga er ekkert leyndarmál og eru aðgengilegar á netinu. Sjá viðhengi. En þar er hluti af skráningarlýsingum skuldabréfanna sem sjóðurinn fjárfesti í. Einu leyndarmálin eru hversu mikið þeim var lánað af peningum sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna.

Hvernig ætlast stjórnvöld til þess að almenningur taki á sig skuldaklafa þessara manna þegar þeim er rétt upp í hendurnar sömu félögin og þeir byrjuðu með eins og ekkert hafi í skorist.

Tengslin.

Meðal stærstu skuldara Kaupþings voru félög tengd tveimur fyrrverandi stjórnarformönnum Lífeyrissjóðs Verslunarmanna. 

Getur verið að félög þeim tengdum hafi fengið ótakmarkaðan aðgang að fjármagni í staðin fyrir að lána stærstu eigendum Kaupþings,Existu,Bakkavarar og Skipta sem voru langstærstu skuldrara lífeyrissjóðs Verslunarmanna

Stærstu skuldarar LV eru sem hér segir.

1.Skipti (síminn)

2.Bakkavör 

3.Landsvirkjun

4.Exista ( búið er að afskrifa töluvert af skuldum Existu sem líklega útskýrir 4 sætið.)

Lífeyrissjóður Verslunarmanna gerir langstærstu kröfuna í Kaupþing af öllum lífeyrissjóðunum.

Krafan nemur kr. 13.537.201.848,- eða tæpir 13,6 milljarðar. Sem er helmingi hærri upphæð en kröfur næstu sjóða á eftir.

Tengslin:

Gunnar Páll Pálsson

Fyrrverandi:Formaður VR,Stjórnarformaður Lífeyrissjóðs Verslunarmanna.,Stjórnarmaður í Kaupþingi,Lánanefnd Kaupþings.

Eiginkona Gunnars Pals

Ásta Pálsdóttir

Er Lykilstarfsmaður hjá Kaupþingi og er skráð á innherjalista hjá FME sem slíkur.

Fjölskylda hennar á og rekur Atafl, gömlu keflavíkurverktaka. Atafl samsteypan sem fékk 50 milljónir Evra eða yfir 9 milljarða lán í gegnum Íslandsverktaka og tengd félög fra Kaupþingi samkvæmt lánabók.

Ásta Pálsdóttir er systir Bjarna Páls stjórnarformanns Atafls sem er þá mágur Gunnars Páls sem sat í lánanefnd bankans, stjórn og var stórnarformaður LV og formaður VR.

Þorgeir Eyjólfsson

Fyrrv.forstjóri Lífeyrissjóðs Verslunarmanna.

Framkv.stjóri eða Managing Director, Nasdaq OMX Nordic Exchange group.

Eiginkona Þorgeirs er Sigríður Kristín Lýðsdóttir starfsmaður hjá Kaupþingi.

Sonur Þorgeirs Lýður Þorgeirsson er sérfræðingur á fyrirtækjasviði Kaupþings.

Dóttir Þorgeirs Guðrún Þorgeirsdóttir er framkv.stjóri áhættustýringar hjá Existu og vara stjórnarmaður hjá Lýsingu.Hún rukkar nú gömlu bankana f.h. Existu yfir 200 milljarða fyrir stöðutöku gegn íslensku krónunni og rukkar svo viðskiptavini lýsingar,en stjórnin ráðlagði viðskiptavinum sínum að taka stöðu með krónunni í formi myntkörfulána sem örugga fjármörgnun.

Fékk einhver þeirra niðurfellingu á ábyrgðum eða afskriftir vegna hlutabréfakaupa eða annara fjárfestinga?

Guðmundur B. Ólafsson Lögmaður VR starfaði frá 1989-2002 hjá VR en er í fullri vinnu sem verktaki fyrir félagið.

Eiginkona Guðmundar er Nanna E. Harðardóttir, forstöðumaður í Kaupþing banka.

Þau voru á lista morgunblaðsins yfir þá aðila sem fengu niðurfellingu á ábyrgðum vegna hlutabréfakaupa.

Víglundur Þorsteinsson

Fyrrv.stjórnarformaður Lífeyrissjóðs Verslunarmanna og eigandi BM-Vallár.

Fékk 62,2 mlljónir Evra eða um 11.2 milljarða í lán frá Kaupþingi samkv. Lánabók.

BM-Vallá hefur ekki skilað inn ársreikningum til ríkisskattstjóra síðan 1995 og er komið í greiðslustöðvun.

Sjá ársreikningaskrá.

Það hlýtur að vera ein af forsendum lánshæfi fyrirtækja að skila inn ársreikningum ásamt því að þurfa að standa skil á slíkum gögnum samkv.lögum.

Er BM-Vallá í lánabókum Lífeyrissjóðs Verslunarmanna? 

Helga Árnadóttir Forstöðumaður Rekstrar- og fjármálasviðs VR er tengdadóttir Víglundar Þorsteinssonar. Hún er varamaður í stjórn lífeyrissjóðs Verslunarmanna.

Fyrirtæki sem tengjast tveimur fyrrverandi stjórnarformönnum Lífeyrissjóðs Verslunarmanna fengu tug milljarða fyrirgreiðslur frá kaupþingi,stærstu fjárfestingu lífeyrissjóðsins. Hver voru veðin?

Er þetta skýringin á því að lífeyrissjóður verslunarmanna vill með öllum tiltækum ráðum ganga til nauðasamninga við Bakkavararbræður um stjórn Existu og Bakkavarar.

Hvað er að finna í bókum félaganna og sjóðsins sem ekki þolir dagsljósið?

Með nauðasamningum verður bókunum lokað !

Fengu stjórnendur sjóðsins einhver hlunnindi fyrir að kaupa kúlu skuldabréf án veða af félögum tengdum Bakkavararbræðrum? Voru þetta skilyrðin fyrir lánveitingum til félaga þeim tengdum?

Stjórnendur Existu vildu 1 milljarð á ári fyrir umsýslu á brunarústum Existu. Í dag má ætla að það fáist aðeins um 1-7% upp í kröfur. Ekki hafa afskriftir LV verið í samræmi við þær heimtur svo mikið er víst.

Er skrýtið að eitt af skilyrðum nauðasamninga Bakkavarar var að bræðurnir færu úr stjórn Existu?

Hvaðan koma peningarnir? Ætluðu Bakkabræður að blóðmjólka fyrirtækin sem eftir eru í samstæðunni og setja rekstrarkostnað Existu og Bakkavarar að sjálfsögðu í forgang. Neytendur borga svo brúsan í formi hækkana á vöru og þjónustu viðkomandi fyrirtækja innan samsteypunnar. Síðan lengja þeir endalaust í skuldafréfaútgáfum sínum sem lífeyrissjóðirnir eiga, sem geta svo í framhaldi dreift tapinu smá saman yfir langan tíma? Það er útilokað að þetta reikningsdæmi gangi upp hjá þessum mönnum.

Hvað veldur því að Lífeyrissjóður Verslunarmanna hugleiði slíka samninga þegar klárlega liggur fyrir að mest fáist upp í kröfurnar með því að skera burt blóðsugurnar.

Hvernig í ósköpunum geta stjórnendur LV og meirihluti stjórnar VR samþykkt að gengið verði til nauðasamninga við ábyrgðamenn hrunsins.

Á hvaða forsendum,við hverja og á hvaða gengi gerði Lífeyrissjóður Verslunarmanna gjaldeyrissamninga upp á 93 milljarða? Af hverju er stjórnarmönnum VR og sjóðsfélögum neitað um þessar upplýsingar sem geta haft veruleg skerðingaráhrif á lífeyrisréttindi okkar.

Til að stærstu eigendur Kaupþings,Exista og kjalar sem gera kröfur í gamla kaupþing upp á 300 milljarða, fyrir það eitt að taka stöðu gegn krónunni, þurfti einhvern til að veðja á móti.

Ef Exista tók stöðu gegn krónunni sem skilar þeim vel á annan hundruð milljörðum en á sama tíma létu viðskiptavini sína,Kaupþings og Lýsingar, taka stöðu með krónunni með því að fjármagna húsnæði og bílasamninga í erlendri mynt sem örugga fjármögnun.

Í mínum bókum er þetta ekkert annað en stöðutaka gegn íslensku krónunni,almenningi og heimilum landsins.

Lífeyrissjóður verslunarmanna þvertekur fyrir að birta yfirlit yfir gjaldeyrissamninga og forsendur þeirra þrátt fyrir mikla óvissu um uppgjör þeirra sem getur haft veruleg áhrif á lífeyrisréttindi sjóðsfélaga.

Sjóðurinn hefur harðneitað að gefa upp hverjir voru útgefendur fyrirtækjaskuldabréfa sem sjóðurinn keypti fyrir á annan tug milljarða.

Sjóðurinn bar fyrst fyrir sig Bankaleynd en svo þagnarskyldu. FME sendi mér álit þess efnis að bankaleynd ætti alls ekki við og óskiljanlegt væri að upplýsingar sem þessar væru ekki aðgengilegar sjóðsfélögum.

Er ekki skrýtið í því samhengi að ég fékk þessar upplýsingar uppgefnar hjá Almenna lífeyrissjóðnum þó ég borgi ekki í hann? Hvað er verið að fela? 

Var það hrein tilviljun að krafa sjóðsfélaga um breytingar og gegnsæi voru hafðar að engu þegar nýr framkv.stjóri sjóðsins var ráðin til starfa. En það var Guðmundur Þórhallson fyrrum framkvæmdastjóri eignastýringar sjóðsins sem bar meðábyrgð á fjárfestingum hans með Þorgeiri Eyjólfssyni sem þáði 34 milljónir í laun ásamt fríðindum fyrir árið 2008.

Var ráðningasamningur Guðmundar sem er leynilegur til 7 ára tilviljun? En í 7 ár þarf sjóðurinn að halda í bókhaldsgögn, eftir þann tíma má kveikja á pappírstætaranum. Með nauðasamningum Bakkavarar og Existu lokast bækur þessa félaga.

"Heimildir Morgunblaðsins herma að kröfuhafarnir treysti ekki núverandi stjórnendum Exista til að upplýsa um raunverulega stöðu félagsins. Kröfuhafarnir sem um ræðir eru skilanefndir gömlu bankanna þriggja auk Nýja Kaupþings. Saman hafa þessir aðilar myndað óformlegt kröfuhafaráð innlendra kröfuhafa Exista ásamt þremur lífeyrissjóðum; Gildi, Lífeyrissjóði verslunarmanna og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Lífeyrissjóðirnir þrír skrifuðu ekki undir bréfið og vilja frekar halda núverandi stjórnendum Exista við stýrið. Heimildir Morgunblaðsins herma auk þess að sjóðirnir vilji breyta skuldum Exista við þá í skuldabréf með langan líftíma. Þá þurfa þeir ekki að afskrifa alla kröfu sína á hendur félaginu í einu."

Á góðri íslensku á að dreifa tapinu yfir eins langan tíma og hægt er til þess eins að fegra stöðuna tímabundið.

Þar sem innstreymi iðgjalda er margfalt hærra en útgreiðslur lífeyris þurfa sjóðirnir ekki að selja eignir til að standa við lífeyris skuldbindingar sínar vegna mikillar söfnunar sem á sér stað næstu 10-15 árin.

Ef þetta reynist rétt þá eru sjóðsfélagar sem greiða í Lífeyrissjóð Verslunarmanna að greiða lífeyri þeirra sem taka út í stað þess að safna réttindum sjálfir.

Sjóðsfélagar eru varðir fyrir þessu með lögum og ættu því að leita réttar síns eins og ég ætla að gera.

Það er útilokað að almenningur taki á sig þær drápsklifjar sem sukklíferni útrásarvíkinga hefur skilið eftir, á meðan stjórnvöld leggja blessun sína yfir gerða nauðasamninga.  

Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarmaður VR

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir

Þetta er lögreglumál eins og maðurinn sagði.... 

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, 5.3.2010 kl. 10:30

2 Smámynd: Sigurbjörn Svavarsson

Flott samantekt. Þakka þrautseigjuna.

Nú þarf að finna leið til að þrýsta á breytingar á lögum lífeyrissjóðanna.

Atvinnurekendur hafa ekkert að gera í stjórnum lífeyrissjóðanna, það fyrirkomulag hefur ekki síst ýtt undir spillingu í úthlutun sjóðanna og vildartengslum.

Það er búið að vera augljóst undanfarið ár að lífeyrissjóðirnir eru tregir til að afskrifa töp sín í fyrirtækjum útrásarvíkinganna og hafa þá stefnu að dreifa tapinu yfir lengri tíma svo inngreiðslur jafni þau upp. Það felur ekki þá staðreynd að góð ávöxtun ( útreikningar þeirra) síðustu 10-15 ára er orðin neikvæð.

Með öðrum orðum, inngreiðslur síðustu 10 ára tapaðar og allir útreikningar um lífeyrisréttindi sem við fáum senda 1-2 á ári eru rangir.

 Þess vegna Ragnar, eru þau sem nú sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna og vilja vel,-lömuð af skelfingu yfir stöðunni. Þau þora ekki að upplýsa sannleikann. Þau vilja frekar að við fáum hroðann í skömmtum af ótta við afleiðingarnar. Eins og deyjandi maður fær ekki að upplifa dauðann fyrir deyfandi lyfjum.

Sigurbjörn Svavarsson, 5.3.2010 kl. 11:09

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Þetta er hneyksli. Sukk með lífeyrir landsmanna hættir ekki meðan vinnuveitendum er falið að fara með lífeyri landsmanna án þess að eiga krónu í því fé. Ég man ekki betur en ASÍ hafi nýlega endurnýjað blessun sína á því fyrirkomulagi!!

Axel Jóhann Hallgrímsson, 5.3.2010 kl. 12:24

4 identicon

Ég verð bara að lesa þetta í skömmtum því reiði og skömm er svo mikil að hafa látið plata sig svona.....

Björn S. Lárusson (IP-tala skráð) 5.3.2010 kl. 14:48

5 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ísland er eina landið í heiminum þar sem menn trúa því að neyslan byrji fyrir eftir 70 ára aldur. Óhófleg lífeyrissjóðbinding, skerðir ráðstöfunar tekjur yngri kynslóðanna og þeirra á sanngjörnum launum miðað við þjóðartekjur á haus. Þess vegna kyndir hún undir óeðlilega mikla lánsþörf hjá almenningi og veiki neytenda markað innanlands til langframa. Ef við viljum eiga vöru viðskipti við útlendinga þá verðum við að kaupa inn vörur til að selja okkar varning.

Alþjóðasamfélagið gerir ráð fyrir almennt minni ávöxtun næstu 30 árin á jörðinni allri þess vegna eru allrar græðgivæntingar um raunávöxtun [hærri en 1,5% t.d.] handa öllum almenningi jafn óraunhæfar nú og fyrir 30 árum.

Sér Íslenska hagstjórnafræðinn þjónar skipulögðum fjölskyldum eingöngu og þarf engin að efast um það lengur.

Hér þarf að hætta þessari almennu áhættu og taka upp einn jafnflæðis grunn lífeyrir sjóð sem borgar öllum rétthöfum sama [í evrum talið] grunn lífeyrir.

Þetta minnkar sjóðsþörf strax og er auðvelta að framkvæma með því að finna út heildar mánaðarupphæðinna til útgreiðslu hvers mánaðar deila henni með fjölda allra sem eru eldri en segjum 18 ára. Sú fast upphæð bætist svo á tekjur allra í hverjum mánuði til að borga í jafnflæði næsta mánaðar.

Almenn laun til ráðstöfunar hækka strax. Síðan geta allar fjölskyldur í framhaldi ráðstafað  því sem er áhættu í hvað sem er og í hvað lífeyrissjóðsparnað sem að eigin geðþótta.

 Híbýlasjóðir fasteignaveðbréfa á 1 veðrétti undir 80% af nýbyggingar kostnaði [ 1 flokks veðbréfamarkaður] á að reka sjálfbært, alls ekki að lána veðin til að baktryggja 2. flokks markaðar skuldabréfalána,  einungis til til að tryggja eigin fjármögnum híbýlasjóðsins þá sjaldan að innstreymi dekkar ekki umframþörf almennings til híbýla.

Þetta sjónarmið er í anda þroskaðra hagstjórnarfræðinga alþjóð samfélagins og er þ-róað og gengur stöðugt framar eitt skref í einu.

Það er einmitt á uppvextinum sem nemarnir Íslensku ættu að læra af mistökum : sýna smá þroska merki á alþjóðamælikvarða.

Ragnar þakka þér fyrir topp fréttir dagsins.       

Júlíus Björnsson, 5.3.2010 kl. 14:52

6 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Þakka fræðsluna Ragnar það verður að stoppa þetta.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 7.3.2010 kl. 16:27

7 identicon

Mig langar að benda á að þótt menn geri samninga fram í tímann um að kaupa gjaldeyri er ekki hægt að segja að þeir séu að reyna að fella krónuna. Í slíkum samningum eru alltaf mótaðilar sem taka stöðu í hina áttina svo slíkir samningar vega hvorn annan út.

Annað varðandi framvirka samninga er að þeir kosta mjög mikið og bankarnir sem annast þá græða mikið á því að sjá um svona samninga. Bankarnir búa þannig um hnútana að þeir geti ekki tapað á samningunum og því er erfitt að skilja afhverju uppgjör þeirra eigi að bitna á þrotabúum bankanna eins og margir virðast halda.

Það má líkja þessu við hveitiframleiðanda sem þarf að borga vini sínum baunir í uppskerulok. Þeir semja um að fyrir hvert kíló af baunum borgi hann 1 kg af baunum. Ef verðið er svo annað í uppskerulok segja sumir að annar hafi tapað á samningnum en hinn grætt. Hinsvegar þá festu báðir aðilar verðið fyrirfram og voru með öruggt verð fyrir sína vöru. Margir eru tilbúnir að greiða fyrir öryggið með hugsanlegu ,,tapi" (þ.e. hefðu getað grætt meira).

Þeir sem segja að sjávarútvegsfyrirtækin hafi tapað á framvirkum samningum ættu í raun að segja að fyrirtækin hafi ekki grætt eins mikið og raun bar vitni.

Framvirkir samningar eru sniðug tæki sem hafa verið lituð í siðblindulitum eftir hrun. Þeir eru notaðir til að eyða gengisáhættu þegar munur er á gjalddögum tekna og skulda.

mbk,

Ólafur S (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 09:42

8 identicon

Ólafur S.  Framvirkir samningar eru í raun ein af stærstu ástæðum hrunsins í heiminum.  Markaður með afleiður í heiminum er 9 sinnum stærri en allt hagkerfi heimsins. Það sem gerðist var það að menn fóru að veðja um hitt og þetta með framvirkum samningum, bankarnir (stjórnendur og stærstu eigendur) veðjuðu gegn krónunni og létu t.d. lífeyrissjóði o.fl. veðja með henni........ eftir það fóru þeir á fullt við að fella krónuna til að græða peninga!!!!   N.B. þetta var á okkar kostnað! Þessir sömu menn létu ráðgjafa sína selja almenniningi ranga ráðgjöf. Þegar við skoðum svo yfirlýsingar vogunarsjóða sem sagst hafa lengi ætlað að gera ísland gjaldþrota!!!!  Eina leið þessara manna við að gera okkur gjaldþrota og græða ógrynni peninga í leiðinni var með afleiðusamningum!!! Afleiðusamningar eru ágætir fyrir framleiðendur á vörum en vandamálið er að spákaupmenn margir hverjir eru siðlausir og fara að veðja og jafnvel skemma fyrir venjulegu heiðarlegu fólki til þess eins að græða sem mest sjálfir!!!!!    Til þess að mörg lönd heimsins eigi von þá þarf að banna afleiðuviðskipti (veðmál), banna bönkum að vera í fjárfestingarbankastarfsemi ásamt viðskiptabankastarfsemi, laga reikningsskilastaðla, banna að endurmeta verðmæti í reikningum fyrirtækja, helst þyrfti að taka aftur upp þá leið að banna að reikna hagnað án þess að tekjur vegna sölu standi á móti hagnaðinum (kemur í veg fyrir loftbóluhagnað), banna sameiningu félags sem keypti sjálft félagið og félagsins sjálfs, koma á algeru gagnsæji í stjórnsýslunni og annarsstaðar í opinberum félögum s.s. Lífeyrissjóðum o.s.frv., banna endurskoðendum að endurskoða eigin vinnu, banna endurskoðendum að endurskoða sama félagið í meira en 4 ár í röð, helst fastráða þá í 4 ár, spurning hvort endurskoðunarvinna ætti ekki að fela í sér þá einföldu vinnu að rannsaka allt sem topparnir hefa verið að gera!!!!!,  banna skúffufélög þar sem mikill meirihluti þeirra hefur bara einn tilgang.... fela eitthvað. Svo að lokum þyrfti að loka skattaskjólum!!!! sérstaklega Bandarískum og Breskum!!!!

Sigurður Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 11:27

9 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Manni verður óglatt við þennan lestur. En þessi tengslanet þarf að grafa öll upp á yfirborðið og koma á framfæri. Þessa grein ætla ég að geyma.

Ævar Rafn Kjartansson, 9.3.2010 kl. 11:54

10 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Þakka innlit.

Guðrún, Nákvæmlega.

Sigurbjörn, 

Það þarf að endurskoða kerfið frá grunni. Við sjóðsfélagar sem erum að safna okkur lífeyri eruð varðir fyrir því með lögum að bókhald sjóðanna sé í samræmi við raunverulega stöðu svo iðgjöldin okkar séu ekki notuð í annað en að auka okkar eigin réttindi.

Við þurfum einfaldlega að leita réttar okkar gagnvart stjórnum lífeyrissjóðanna. Sem er nákvæmlega það sem ég er að vinna í og hvet aðra til að gera.

Ragnar Þór Ingólfsson, 9.3.2010 kl. 12:01

11 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Þakka innlit.

Axel, Það er orðið ansi erfitt að greina á milli ASÍ og SA. Þeim er meira í mun að verja "eignir sjóðanna" þó það kosti sjóðsfélaga sjálfa æruna og aleiguna. Sjóðirnir hafa aldrei verið nýttir í þágu þeirra sem þá eiga, þeir eru hinsvegar eyrnamerktir hinum ýmsu fyrirtækjasamsteypum. Í mínu tilfelli Bakkavararbræðrum og félögum þeim tengdum.

Þessu fylgja gríðarleg völd og hefur verkalýðsforystan villst illilega af leið frá upprunua sínum.

Björn, Sammála skömmin er mikil en kerfið er  gert svo flókið þó tilgangur þess sé einfaldur að það er ekki fyrir nokkurn mann að botna eitthvað í rekstri þess og eigin skilgreiningu.

Júlíus, Þetta er mergur málsins.

Ísland er eina landið í heiminum þar sem menn trúa því að neyslan byrji fyrir eftir 70 ára aldur. Óhófleg lífeyrissjóðbinding, skerðir ráðstöfunar tekjur yngri kynslóðanna og þeirra á sanngjörnum launum miðað við þjóðartekjur á haus. Þess vegna kyndir hún undir óeðlilega mikla lánsþörf hjá almenningi og veiki neytenda markað innanlands til langframa. Ef við viljum eiga vöru viðskipti við útlendinga þá verðum við að kaupa inn vörur til að selja okkar varning.

Ragnar Þór Ingólfsson, 9.3.2010 kl. 12:07

12 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Jón og þakka innlit, Rétt, við verðum að stoppa þetta.

Ólafur og þakka innlit,

Það er eitt að gera samninga fram í tíman, eins og ég þekki t.d. í mínu starfi þar sem ég geri sölusamninga fram í tíman á fyrirfram ákveðnu verði miðaða við ákveðnar gengisforsendur en get svo keypt gjaldeyri eða gert framvirkan samning frá sölu/samningsdegi degi til afhentingar/greiðslu vörunar einnig til að verjast gengissveiflum vegna lánaskuldbindinga. Í sinni einföldustu mynd eru slíkir samningar nauðsynlegir í hefðbundnu viðskiptaumhverfi.

En í þeirri afskræmingu sem þeir birtast okkur í dag þar sem lífeyrissjóðir  hengdu allar erlendar fjárfestingar sínar með gjaldeyrissamningum á forsendum sem virðast í meira lagi mjög vafasamar þar sem ekkert benti til annars en að krónan myndi veikjast verulega haustið 2008. En þá voru stórir jöklabréfagjalddagar ásamt Því að erlendir vogunarsjóðir voru búnir að marglýsa yfir árás á íslenskt hagkerfi.

Einnig sú staðreynd að Vogunarsjóðir og sérstaklega útrásarfyrirtækin sátu oft báðum megin borðsins þegar slíkir samningar voru gerðir.

Er þetta eki gallin við allt sem þarf að vera til staðar til að stunda eðlilega viðskiptahætti eru alltaf einhverjir sem skrumskæla rétt eins og í pólitík, þar sem heilbrigðar hugsjónir brenglast oft með öfgakenndum hætti. 

Ragnar Þór Ingólfsson, 9.3.2010 kl. 12:24

13 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sigurður, Þakka innlit.

Engu við þetta að bæta, sammála !!!

Kveðja

Ragnar

Ragnar Þór Ingólfsson, 9.3.2010 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband