Konungur Lýðskrumsins!

Í stað þess að svara málefnalegum og gagnrýnum spurningum kjósa verkalýðskóngarnir (milljónaklúbburinn) að tala sig í kringum hlutina með slíkum hætti að umbjóðendur þeirra sitja ringlaðir eftir. Þeir kjósa að fela sig á bakvið þögnina sem umlikur handónýta verkalýðsforystuna og fílabeinsturninn sem þeir búa í. 

Guðmundur Gunnarsson formaður rafiðnaðarsambandsins og vara stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum Stöfum fer hamförum gegn þeim sem opna á sér munninn gagnvart lífeyrissjóðunum og leyfa sér að gagnrýna þá. Hann talar um heilindi og vönduð vinnubrögð hjá stjórnendum lífeyrissjóðanna þá sérstaklega hjá sínum lífeyrissjóði,Stöfum, þar sem hann er vara stjórnarmaður. Allir sem halda öðru fram eru lýðskrumarar af verstu sort.

Af því tilefni er ég með spurningu til Guðmundar sem hann hefur fengið í athugasemda færslur sínar en eyðir spurningunni jafnharðan út og ég set hana inn. Reyndar hefur Guðmundur og aðrir samkóngar hans fengið ráðleggingar PR-þræla sinna séð að spurningum frá mér verði alls ekki svarað með opinberum hætti, hverjar sem þær kunna að vera. Því hef ég ákveðið að spyrja hann aftur á heimasíðu minni og þannig með áberandi og opinberum hætti. 

Af hverju eru starfsmenn N1 skyldaðir til að borga í lífeyrissjóðinn Stafi? Er það vegna þess að stærsti einstaki skuldari Stafa er N1?

Samkvæmt samtali mínu við stjórnarmann Stafa sem einnig er starfsmaður N1, þá fóru þessar stærstu lánveitingar sjóðsins ekki fyrir stjórn. Eru þetta faglegu vinnubrögðin með sparifé launafólks sem þú, Guðmundur Gunnarsson, ert alltaf að tala um? Getur þú sem varastjórnarmaður í Stöfum lífeyrissjóði svarað mér hvort samþykktir og vinnureglur sjóðsins voru brotnar og eru þetta vinnubrögðin sem tíðkast hjá lífeyrissjóðum almennt? Hver er skuldastaða N1 og hverjar eru tryggingar, ef einhverjar eru, í skuldabréfalánum sjóðsins til N1? N1 er skuldsett langt umfram verðmæti og samkvæmt mínum heimildum eru skuldabréfalán Stafa, aftast í kröfuröðinni.

Hverjar verða raunverulegar heimtur þessara lána?

Í ársskýrslu Stafaá bls.15 kemur fram að N1 er langstærsti skuldari sjóðsins, síðan er farið yfir afskriftir á skuldabréfum frá hruni sem sýnir að Stafir voru í nákvæmlega sömu fjárfestingavitleysunni og aðrir sjóðir. 

Úr Samþyktum og vinnureglum Stafa lífeyrissjóðs. 

5.5 Stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans. Stjórnin skal fjalla um allar meiriháttar ákvarðanir varðandi stefnumótun og starfsemi sjóðsins. Hún skal annast um að nægjanlegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna sjóðsins. Stjórn sjóðsins ræður framkvæmdastjóra, ákveður laun hans og önnur starfskjör og setur honum starfsreglur. Stjórn sjóðsins ræður forstöðumann endurskoðunardeildar eða semur við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila til að annast skipulagningu innri endurskoðunar. Stjórn skal einnig móta innra eftirlit lífeyrissjóðsins og skjalfesta eftirlitsferla.

5.5.2 Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins í samræmi við mótaða stefnu og fyrirmæli sem stjórn hefur gefið. Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn til sjóðsins. Framkvæmdastjórinn er ekki kjörgengur sem stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum. Ákvarðanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar skal framkvæmdastjóri aðeins taka með sérstakri ákvörðun stjórnar eða samkvæmt áætlun sem samþykkt hefur verið af stjórninni. Sé ekki unnt að bera meiriháttar ákvarðanir undir stjórnarfund, skal haft samráð við formann stjórnar og aðra stjórnarmenn eftir föngum. Slíkar ákvarðanir skal síðan taka fyrir á næsta stjórnarfundi.

5.7 Stjórnarmaður lífeyrissjóðs eða framkvæmdastjóri má ekki taka þátt í meðferð máls ef hann hefur hagsmuna að gæta sem kynnu að fara í bága við hagsmuni sjóðsins. Sama gildir ef um er að ræða ákvarðanir sem tengjast fyrirtæki þar sem stjórnarmaður kann að eiga umtalsverðra hagsmuna að gæta sem eigandi, stjórnarmaður eða starfsmaður. Skylt er þeim, sem í hlut á, að upplýsa um aðstæður sem valda kunna vanhæfi samkvæmt framansögðu.  

5.7.1 Stjórn sjóðsins og framkvæmdastjóri mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna, umfram aðra eða á kostnað sjóðsins.

Í stað þess að stappa stálinu í launafólk og standa í lappirnar, tala verkalýðskóngarnir um ábyrgar kröfur og hversu lítið sé til skiptanna. Í stað þess að efla samstöðu ala þeir á meðvirkni,uppgjöf og hræðslu.

Þeir eru Konungar Lýðskrumsins?

Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarmaður í VR


Bloggfærslur 7. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband