Aumingjaskapur eða ásetningur Alþýðusambandsins?

Skilyrðislaus stuðningur ASÍ við verðtryggingu fjárskuldbindinga hlýtur að gera sambandið vanhæft til að fjalla um hagsmuni launafólks.

Er það ekki ótrúlegt að stærstu hagsmunasamtök launafólks skuli verja fjármagnseigendur sem stjórna stöðugleikanum og hafa beinan hag af óstöðugleika í skjóli verðtryggingarinnar?

Hvernig væri ástandið ef að þeir sem stjórna stöðugleika hefðu allt undir með stöðugleika en ekki öfugt?

Sama Alþýðusamband og segir ógerning að afnema verðtryggingu taldi fullkomlega eðlilegt að allar innistæður án takmarkana væru tryggðar upp í topp þó svo að stór hluti þeirra innistæðna sem ríkið gekkst fyrir, án lagalegrar skildu, væri sama þýfið og almenningur þarf að standa skil á í formi skatta.

Hversu stór hluti af þessum "tryggðu" innistæðum voru arðgreiðslur og bónusar úr gjaldþrota eignarhalsfélögum sem ekkert eru í dag nema ábyrgðalausar skuldir sem bíða barna okkar og barnabarna?

Hvernig í ósköpunum má það vera að ALÞÝÐU sambandið skuli verja verðtrygginguna og styðja innistæðutryggingar umfram lögbundin viðmið sem tryggðu mestu mismunun íslandssögunnar, að innan við 5% þjóðarinnar sem eiga meira en helming allra innistæðna fengu allt sitt á meðan almenningur var gerður að öreigum. 

Stór hluti almennings, sem hafði bundið allt sitt sparifé í fasteign, er á góðri leið með að missa aleiguna og gott betur því líklegt er að flóðgáttir greiðsluþrota munu nú opnast upp á gátt.

Hvert er svar lífeyrissjóða og verkalýðshreyfingarinnar við þessari þróun? Svar þeirra er að búa til leigufélög "miðstýrðum leigumarkaði"  til að taka á móti fasteignum umbjóðenda sinna svo hægt verði að leigja þær á sem hæsta verði þ.e. að hámarka arðsemi lífeyrissjóðanna á slíku félagi.

Ekki er horft til þeirrar staðreyndar að ávöxtun lífeyrissjóða á verðtryggðum eignasöfnum sínum er sú lélegasta á eftir hlutabréfum, ef gríðarlegt tap vegna gjaldmiðlasamninga og verðbætur á fasteignalánum almennings væru ekki tekin með í reikninginn. Nauðsynlegt yrði að reikna raunverulegt virði skuldabréfa í þessu samhengi.

Þeir lífeyrisþegar sem standa best í dag fóru skuldlausir á lífeyri og höfðu þak yfir höfuðið sem árangur ævistarfsins í stað innihaldslausra loforða.

Kjarasamningar hafa verið lausir í 113 daga. Verkalýðshreyfingin hefur ekki haldið einn einasta samstöðufund frá hruni en samstaða launafólks hlýtur að vera beittasta vopn alþýðunnar.

Nú tala vopnlausir smákóngar verkalýðsins um ábyrgar kröfur og að lítið sé til skiptanna, að skammarlegir kjarasamningar séu bundnir því að ábyrgjast Icesave skuldir einkafyrirtækis því ekki sé hægt að mismuna innlendum innistæðueigendum og þeim erlendu. Allt annað er lýðskrum og populismi.

Ef ég tek augun af baksýnisspeglinum og horfi í gegnum sótsvarta framrúðuna er ekki mikið til að gleðjast yfir. Verðtrygging fjárskuldbindinga mun ganga af hverju heimilinu dauðu með hverju verðbólguskotinu á fætur öðru. Afnám gjaldeyrishafta, almenn verðbólga í hinum vestræna heimi með hækkandi erlendum framleiðslukostnaði, olíuverð, fasteignamarkaður sem er að taka við sér sem er stór hluti af neysluvísitölu grunni og margt fleira.

Er aumingjaskapur Alþýðusambandsins gagnvart umbjóðendum sínum tilviljun eða vilji hinna útvöldu í að viðhalda sömu kerfisvillunni og hrundi á haustmánuðum 2008 á kostnað alþýðunnar? Er það tilviljun að þeir sem stýra viðbrögðum almúgans við gegndarlausu óréttlætinu eru hálaunamenn með gríðarleg ítök og völd í samfélaginu.

Aumingjaskapur eða ásetningur?

Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarmaður í VR.

 

 

 


Bloggfærslur 21. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband