4.2.2011 | 09:48
Hvað er lífeyrir?
"Á meðan venjulegu fólki er refsað fyrir aðhald og skynsemi eru skuldasóðar verðlaunaðir með afskriftum. Skilgreina þarf fasteignir sem lífeyri." Greinin birtist í morgunblaðinu 4.febrúar 2011.
Lífeyrir er sá aur sem við fáum greiddan eftir að vinnuskyldu lýkur með því að safna í sjóði 12% af launum alls vinnandi fólks, óskattlögðum til ávöxtunar áratugi fram í tímann. Einnig fáum við lítilræði ef áföll dynja yfir á lífsleiðinni. Svo bjartsýn er þessi hugmynd, að heimtur okkar úr kerfinu skulu verðtryggðar með því að ávaxta inngreiðslur á raunvöxtum sem eru hærri en hagvöxtur þjóðar. Sá galli er á annars ágætri hugmynd að einhvers staðar þarf að fjármagna það sem upp á vantar. Sá munur fæst eingöngu með aukinni skuldsetningu þjóðarbúsins eða skerðingum lífeyrisréttinda.
Lífeyrissjóðirnir standa flestir með neikvæðum hætti þannig að ávöxtunarkrafa þeirra er í raun hærri en lög gera ráð fyrir til að vinna upp skekkjuna. Við þetta bætist svo mikil óvissa um raunverulegt verðmæti eigna í bland við óuppgerðar gjaldeyrisafleiður og stjarnfræðilegar væntingar á nauðasamningum við hrunverja.
Á meðan lífeyrissjóðir lánuðu útrásarfyrirtækjum út á kampavín og kavíar var sjóðfélögum lánað út á fasteignaveð með 65% hámarks veðhlutfall og sjálfskuldarábyrgð. Sjóðsfélagar horfa á eigið fé sitt tekið eignarnámi af lífeyrissjóðum sem aftur fjárfesta iðgjöld okkar og verðbætur í sama svartholinu og kom þjóðarbúinu og samfélaginu á hliðina.
Geta skuldarviðurkenningar, merktar einhverri snilldar group hugmyndinni, staðið undir framtíðarlífeyri okkar þar sem einu haldbæru veðin eru pappírinn og blekið sem tölurnar eru skrifaðar á?
Það sem raunverulega lagaði eignastöðu lífeyrissjóðanna eftir hrun eru rúmlega 126 milljarða verðbætur á fasteignalánum almennings. Þessi gríðarlega eignatilfærsla á okkar mikilvægasta lífeyri er vegna verðtryggingar fjárskuldbindinga og óráðsíu sjóðanna í fjárfestingum. Hér þurfum við að staldra aðeins við.
Á meðan venjulegu fólki er refsað fyrir aðhald og skynsemi eru skuldasóðar verðlaunaðir með afskriftum. Með því að frysta og endurfrysta afborganir og afskrifa, hafa einstaklingar jafnvel notið góðs af innistæðulausum skuldsetningum sínum, án endurgjalds, svo árum skiptir. Stjórnvöldum hefur tekist að viðhalda innistæðulausri neyslubólu í stað þess að leysa vandann strax. Skilaboð stjórnvalda eru skýr, að nægjusemi, aðhald og skynsemi borgar sig ekki og greidd skuld er tapað fé.
Með innistæðutryggingum, án takmarkana, tóku stjórnvöld afstöðu með þröngum hópi fjármagnseigenda á kostnað almennings. Virtist engu skipta þó stór hluti tryggðra innistæðna hafi skilið eftir sig sömu skuldir og venjulegt fólk á að þræla fyrir næstu áratugina.
Við vitum öll hvað þarf að gera en það bara gerist ekkert. Rétt eins og uppgjörið við fortíðina sem allir bíða eftir predika sömu bullandi meðvirku jakkafata-munnræpurnar yfir lýðnum og biðja um bjartsýni eftir að hafa stýrt öllu í strand. Sömu sérhagsmunaáherslurnar.
Ekki má eiga við kvótakerfið, annars verða engar fjárfestingar í yfirveðsettum og stjarnfræðilega skuldsettum sjávarútvegi. Ekki má eiga við verðtryggingu, ekki má leiðrétta skuldir heimilanna, ekki má skattleggja séreignasparnað o.s.frv.
Hvítflibbinn fór eftir lögum og við verðum að vera bjartsýn, það er jú 2% barbabrellu-hagvöxtur.
Skilgreina þarf eignahlut almennings í fasteignum sem lífeyri.
Með því að skilgreina fasteignir okkar sem lífeyri gefst lífeyrissjóðum kostur á að lækka vexti til húsnæðislána með því að tengja áunnin lífeyrisréttindi eignamyndun í fasteign. Ef lánið rýrnar eykst eignarhlutur (lífeyrir) en áunnin réttindi skerðast á móti og öfugt. Þetta gerir lífeyrissjóðum skylt að taka tillit til gríðarlegra hagsmuna sem almennir sjóðsfélagar eiga með eiginfjármyndun í fasteignum og hefði sjóðunum verið lagalega skylt að taka afstöðu með almennum skuldaleiðréttingum hefði þessi skilgreining verið til staðar. Í þessu samhengi þurfa lífeyrissjóðir ekki að berjast gegn afnámi verðtryggingar af sömu hörku og þeir hafa gert.
Aðrir kostir eins og að lífeyrissjóðir bindi frekar skuldbindingar sínar í eigin eignamyndun sjóðfélaga sinna hafa minni þensluáhrif á innlenda fjármálamarkaði og sjóðfélagar þurfa síður að eiga allt undir misgáfulegum ákvörðunum misviturra forstjóra. Lífeyrir er óaðfararhæfur og væri því ómögulegt að hirða þennan mikilvæga eignahlut okkar ef ófyrirsjáanleg áföll dynja yfir.
Heimtur sjóðsfélaga, sem hafa greitt í kerfið í 40 ár eða meira, eru sláandi litlar þrátt fyrir Ólafslögin 1979 hafi lífeyrissjóðir í stórauknum mæli fjárfest með verðtryggðum hætti. Nær allt launafólk sem greitt hefur í kerfið í 40 ár eða meira þarf viðbótargreiðslur frá ríkinu í gegnum Tryggingastofnun til að ná upp í lágmarksviðmið. Ríkið greiðir yfir 41.000 einstaklingum rúmlega 53,5 milljarða á ári í lífeyri eða helmingi meira en lífeyrissjóðirnir greiða út þrátt fyrir 60 ára tilvist. Nokkrir voru stofnaðir upp úr 1950, kerfinu komið á í núverandi mynd árið 1969 og lögbundið 1997. Þessar tölur eru fyrir utan opinbera kerfið.
Þeir lífeyrisþegar sem standa best í dag fóru skuldlausir á lífeyri og höfðu þak yfir höfuðið sem árangur ævistarfsins í stað innihaldslausra loforða.
Höfundur er sölustjóri og stjórnarmaður í VR.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)