Kvótamál og Kjarasamningar.

Eftir að SA setti það sem forsendu fyrir kjarasamningum að allri “óvissu” varðandi sjávarútveginn yrði eytt eða með öðrum orðum að nýtingaréttur útvaldra á auðlindum þjóðar væri tryggður, fór ég að hugsa um hversu langt verkalýðshreyfingin er komin frá uppruna sínum. Það eitt að hreyfingin beiti sér ekki gegn verðtryggingu veðskuldbindinga sem heldur stórum hluta launafólks í gíslingu segir í raun margt um ástandið. ASÍ talar um ábyrgar kröfur launafólks og ver í leiðinni sjúklegustu kerfisvillu samtímans.

Í ljósi þessa tel ég glórulaust að lífeyrissjóður okkar verði notaður til fjárfestinga í atvinnulífinu vegna óvissu um framtíð launafólks og atvinnulífsins. ASÍ hefur kastað fram hugmyndum um 3% hækkun á ári í 3 ár og þar með viðurkennt gríðarlegar eignatilfærslur frá almenningi til fjármagnseigenda ásamt kaupmáttarrýrnun sem á sér vart hliðstæðu. Skattahækkanir og aðrar álögur virðast ósýnilegar í augum verkalýðsgæðinganna sem þurfa sjálfir ekki að kvarta yfir sínum kjörum. 

Sífellt er talað um að fjárfesta þurfi í atvinnulífinu til að skapa störf og kvarta SA menn sáran undan þeirri óvissu því fjárfestingar í stjarnfræðilega skuldsettum sjávarútvegi eru engar.

Ég lagði því fram tillögu á stjórnarfundi VR í gærkvöldi um að beina þeim tilmælum til stjórnarmanna okkar í Lífeyrissjóði Verslunarmanna að setja allar fjárfestingar er tengjast atvinnulífinu í biðstöðu þangað til framtíð atvinnulífsins og félagsmanna okkar verður tryggð.

Ég sé ekki að það sé ábyrgt að setja fjármuni út í atvinnulíf þar sem allir kjarasamningar eru lausir og verkföll yfirvofandi. 

Það er alveg ljóst að atvinnulífið þarf sárlega á peningum okkar að halda. Eins og atvinnulífið þurfti á fjármagni lífeyrissjóðanna að halda fyrir hrun. Ég held að flestir viti hvaða vel launuðu störf voru sköpuð í kringum þann ósóma. Okkur er sagt að fjárfestingar þurfi til að skapa störf á meðan fjárfestingar lífeyrissjóðanna fara allar í að kaupa upp brunarústir hrunsins. Helsta lífæð þeirra fyrirtækja sem sjóðirnir fjárfesta í reiða framtíð sína á aukin kaupmátt og þar af leiðandi neyslu til þess eins að lifa af. Ekki er framtíðin björt í því samhengi svo mikið er víst.

Það er auðvitað óþolandi að horfa á eftirlaunasjóði okkar notaða til að endurreisa allt það sem illa fór við hrunið. Fögur loforð um ný vinnubrögð og gegnsæi eru orðin tóm. Engin raunveruleg breyting eða siðbót hefur orðið í atvinnulífinu þar sem ógagnsæi og leyndarhyggja er alls ráðandi.

Það hlýtur að vera lágmarks krafa launafólks að framtíð okkar verði tryggð með einhverjum hætti áður en við brjótum síðasta sparibaukinn.


Bloggfærslur 10. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband