4.6.2010 | 08:49
Útför heimila í boði lífeyrissjóða.
Það vill gleymast hvað raunverulega lagar eignastöðu lífeyrissjóðanna þegar þeir birta mánaðarlega stöðu sína, mat sem einkennist af veruleikafirrtu verðmæti eignasafna.
Gríðarleg eignatilfærsla frá fasteignum almennings til sjóðanna hefur myndast vegna ástands sem sjóðirnir sjálfir eiga stóran þátt í að skapa.
Nú hafa lífeyrissjóðirnir bætt um betur og keypt skuldabréfavafning af seðlabankanum upp á 88 milljarða með 7,2% vöxtum. Hverjir borga þessa vexti sem eiga að rétta við tryggingafræðilega stöðu sjóðanna um 1-2%?
Þessir vafningar eru skuldabréfaútgáfur íbúðarlánasjóðs.
Þetta staðfestir að ekkert er í pípunum um almennar leiðréttingar á stökkbreyttum höfuðstól húsnæðislána. Þvert á móti ætla sjóðirnir og ríkið að hagnast umtalsvert á okurvöxtum sem heimilin og fjölskyldurnar þurfa að standa undir og bera um ókomin ár. Sem dæmi um okurvexti má benda á að verðtryggt húsnæðislán á 5% vöxtum miðað við 3,5% verðbólgu jafngildir rúmlega 14% vöxtum í 40 ár.
Hver eru þolmörkin?Eru lífeyrissjóðirnir að jarðsyngja heimilin í skjóli aðila vinnumarkaðarins og ríkisins?
Hér er verið að viðhalda sömu kerfisvillunni og kom okkur í þá stöðu sem við stöndum frami fyrir í dag, sömu stöðu og fjölskyldur og einstaklingar lentu í eftir að verðtrygging launa var afnumin árið 1982 sem færustu hagfræðingum okkar telja verstu hagstjórnarmistök íslandssögunnar.
Ætlum við virkilega ekkert að læra af þessu hruni?
Í stað breytinga í viðskiptalífinu, er gefið upp á nýtt. Sama spillingin, ný andlit.
Hér er ennþá bankaleynd og þagnarskylda, gegnsæi er ekkert.
Hér hefur ekkert breyst og ekkert virðist ætla að breytast.
Samkvæmt Þessari samantekt verður áfram rekið hér hagsmunasamfélag fjármagnseigenda á kostnað þeirra sem minna mega sín. Nú hafa ungar fjölskyldur og millistéttin bæst í hópinn.
Það hlýtur að vera lágmarks krafa fólksins að jafnræðis sé gætt. Jafnræðis þannig að fjármagnseigendur taki að minnsta kosti hálfa byrðina sem venjulegt fólk tekur nú á sig vegna aðstæðna sem það átti engan þátt í að skapa.
Mig dreymdi um að hér væri hægt að reisa samfélag á grunni hrunsins þar sem þjóðin sem heild gæti lifað í sátt og haft sameiginlegan hag af stöðugleika. Ekki bara skuldarar heldur fjármagnseigendur líka. Mig dreymdi um gegnsæi í fjárfestingum lífeyrissjóða og í rekstri hins opinbera. Ég vonaðist eftir breytingum í stjórnsýslunni þar sem hæfni verði tekin fram yfir frændsemi.Ég vonaðist til að geta kosið einstaklinga en ekki flokka og ég vonaði að fólkið sem byggir þetta land yrði sett í fyrsta,annað og þriðja sæti.
Nú virðist stefna í að sá draumur sé í álíka fjárlægur og sólin þrátt fyrir fögur loforð.
Stjórnendur lífeyrissjóða hafa talað um kosti kerfisins við að hlífa komandi kynslóðum byrgði sem ríkið þarf að bera vegna lífeyrisskuldbindinga framtíðarinnar. Miðað við ástandið í dag og fréttir um kaup sjóðanna á skuldabréfavafningum seðlabankans á að knésetja nokkra árganga af fólki.
Árgangar sem verða sendir eignalausir eða stórskuldugir á lífeyri.
Getum við treyst sjóðunum sem hafa kerfisbundið tapað eignum okkar í kerfisbundnum eignabólum og markaðshruni. Getum við treyst fámennum hópi fólks til að standast freistingar um skyndigróða í leikhúsum braskara og skrúðkrimma.
Hvað kostar ríkið að halda uppi eignalausu fólki ef sjóðirnir standa ekki undir þeirri ábyrgð og væntingum sem til þeirra eru gerðar?
Hvað kostar samfélagið að afnema ekki verðtryggingu?
Í dag stöndum við frami fyrir einstöku tækifæri til að breyta þessu kerfi í eitt skipti fyrir öll, til mikilla hagsbóta fyrir samfélagið í heild.
Af hverju ekki að fækka sjóðunum úr 37 í 1 og af hverju getur hlutverk sjóðanna ekki verið að sjá sjóðsfélögum fyrir hagstæðum fasteignalánum og vera í forystu hlutverki stöðugleika í stað sérhagsmuna, þenslu og okurvaxta.
Hver er mikilvægasti lífeyrinn og hvað er mikilvægast fyrir framtíðina?
Hvernig ætla sjóðirnir að fjárfesta margfaldri landsframleiðslu á íslenskum mörkuðum og viðhalda stöðugleika í leiðinni?
Hlutverk sjóðanna er að gæta hagsmuna sjóðsfélaga sinna. Það felst í því að kaupmáttur okkar verði sem mestur eftir að vinnuskyldu líkur í stað þess að gera okkur að skuldaþrælum í 40ár til að hafa það þokkalegt í 5 eða 10 ár. Saga sjóðanna í fjárfestingum er þyrnum stráð og því ekki sögulega líklegt að þeim takist að geyma þau verðmæti sem þarf til að halda uppi eignalausum almúganum.
Ábyrgðin er því mikil sem hvílir á herðum stjórnenda því við megum svo sannarlega ekki við fleiri áföllum en orðið hafa þó sjóðirnir hafi söguna svo sannarlega ekki með sér.
Í gegnum starf mitt í smásöluverslun hef ég séð miklar breytingar á markhópum sem halda uppi neyslu umfram helstu nauðsynjar.
Neyslunni er haldið uppi af fólk sem tekist hefur að eignast eitthvað og skuldar lítið. Þessi hópur sem um ræðir kemur til með að geta lifað á lágmarks framfærslu og verið virkir neytendur á sama tíma, fyrirtækjum og atvinnulífinu til góða. Hópurinn sem um ræðir er á fimmtugs og sextugs aldri.
Framtíðin er því ekki björt hjá ungum fjölskyldum. Tækifæri breytinga eru svo sannarlega til staðar en það er undir okkur sjálfum komið hvernig við spilum úr þessu.
Hvernig framtíð viljum við?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)