Kerfisvillan er Trúnaðarmál,bundin þagnarskyldu og varin með bankaleynd.

Nú eru liðin tæp tvö ár frá hruninu. Þá á ég ekki aðeins við hrun bankanna eða fjármálakerfisins heldur stjórnkerfinu í heild sinni. Þetta kerfishrun sem hrundi eins og spilaborg fyrir framan nefið á almenningi var áfellisdómur yfir þeirri kerfisvillu sem stjórnvöld hafa viðhaldið áratugum saman.

Eftir höfðinu dansa limirnir.

Eitt af því sem hrundi var stjórnsýslan og ber hún ein ábyrgð á kerfishruninu. Ef þú skilur eftir fulla skál af sælgæti á stofuborðinu heima hjá þér, getur þú skammað barnið sem át allt nammið eða litið í eigin barm og hugsað um ábyrgðaleysið að skilja eftir svo auðbúna mannlega freistingu.

Hávær krafa almennings um réttláta úrlausn á skuldavanda heimilanna, beint lýðræði í gegnum persónukjör og stjórnlagaþing, virðist þyrnir í augum stjórnmálaflokkanna.

Hvað hefur raunverulega breyst frá hruninu?

Ein af stóru kerfisvillunum er að of fáir einstaklingar hafa allt of mikil völd, völd sem varin eru ógegnsæi og leyndarhyggju.

Helsti óvinur mafíunnar er gegnsæi.

Í dag fara stærstu bitarnir úr föllnu bönkunum í forval, segjum 20 áhugasamir aðilar sem varðir eru bankaleynd. Svo eru 10 valdir úr þeim hópi til að gera tilboð og eru þeir aðilar einnig varðir bankaleynd og þagnarskyldu. Síðan er einum selt og kaupverðið er trúnaðarmál.

Litlu bitarnir fara svo til þeirra sem vinveittir eru þeim sem stjórna.

Þekkt nöfn úr fyrra viðskiptalífi heyra brátt sögunni til. Ný nöfn og nýjar blokkir taka við á nákvæmlega sömu forsendum og hinir föllnu gerðu.

Það hefur ekkert breyst í okkar samfélagi og virðast stjórnvöld, sem alla ábyrgð bera á því ömurlega ástandi sem við stöndum frami fyrir, ekkert ætla að gera því til leiðréttingar.

Ef fyrri ríkisstjórn kom heimilunum hálfa leið í gröfina þá er sú sem nú stjórnar svo sannanlega að klára verkið og stappa vandlega yfir.

Skelfilegt hlutskipti öryrkja og lífeyrisþega er efni í heila grein.

Er eðlilegt að fólk þurfi að standa með grátstaf í kverkum og brotna sjálfsmynd, eignlaust í biðröð eftir ölmussu á meðan þröngur hópur einstaklinga liggur á 2.200 milljörðum inni í bankakerfinu eftir þær efnahagslegu hamfarir sem á þjóðina dundu.

Hver var öll snilldin á bakvið gróðann? Hér er ennþá stundaður kerfisbundinn og lögvarinn þjófnaður í gegnum verðtryggingar og bankaleynd.

Í skjóli bankaleyndar,ógegnsæi,þagnarskyldu og trúnað hafa útvaldir grætt á kostnað almennings. Upplýsingar sem ekki eru aðgengilegar almenningi voru lykillinn að gróðanum.

Það er áhættulaust að stunda veðmál ef þú veist úrslitin fyrirfram.

Almenningur tekur húsnæðislán sem varin eru með verðtryggingu þar sem verðbætur reiknast á tilviljanakenndum markaðsatburðum óskyldum þeim verðmætum sem tekin voru að láni.

Forsendum verðbóta er stýrt haf þeim sem stjórna stöðugleikanum og hafa hag af verðbótum. Verðtryggingin  er ógegnsæ og felur í sér kerfisbundna eignaupptöku og okurvexti.

Sem dæmi um okurvexti má benda á að verðtryggt húsnæðislán á 5% vöxtum miðað við 3,5% verðbólgu jafngildir rúmlega 14% vöxtum í 40 ár.

Það er því skiljanlegt að fjármagnseigendur hafi beinan hag af óstöðugleikanum.

Hvernig getur höfuðstóll láns, sem greitt hefur verið samviskusamlega af í 10 ár, ekkert annað en hækkað? Eignatilfærslan vegna verðbóta fer til þeirra sem bera ábyrgð á stöðunni. Sem dæmi hafa lífeyrissjóðirnir, sem dældu almannafé í botnlaust fjármálasukk skrúðkrimmana, stórlagað eignastöðu sína með því að eignafæra í bækur sínar yfir 120 milljarða frá ársbyrjun 2008, vegna verðbóta á húsnæðislánum almennings.

Stóra spurningin er þessi. Hafa valdhafar þessa lands gert eitthvað til að koma til móts við fólkið eða sýnt minnstu viðleitni til að leiðrétta kerfisvilluna.

Svarið er NEI.

Svo virðist sem valdhafar þessa lands reyni nú eftir fremsta megni að byggja upp sama kerfi og hrundi fyrir framan nefið á okkur. Kerfi sem að gengur ekki upp, kerfi sem er dæmt til að hrynja aftur,aftur og aftur.

Kerfið er komið upp að vegg, ver sig með öllum tiltækum ráðum og reynir að lifa af á kostnað almennings. Það reynir að telja okkur trú um að eina leiðin úr vandanum sé að taka því sem að okkur er rétt og að sama kerfisvillan sé eina og rétta leiðin út.

Hér eru aðrar þrjár leiðir sem hægt er að fara.

Leið 1.Raunverulegar breytingar á stjórnkerfinu í þágu almannahagsmuna með afnámi bankaleyndar og þagnarskyldu, afnámi verðtryggingar tafarlaust og vaxtaþak. Lögbundið gegnsæi, persónukjör og stjórnlagaþing.

Leið 2.Sniðganga kerfið og kerfisvilluna þar sem fólkið byggir upp nýtt samfélag við hlið þess sem hrundi, nýjan banka, nýjan lífeyrissjóð, nýjar samfélagslegar áherslur og forgangsröðun.

Leið 3.Bylting.


Bloggfærslur 21. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband