Voru lífeyrissjóðirnir þolendur eða gerendur?

Nú hafa komið fram yfirlýsingar frá lífeyrissjóðunum um að þeir hafi verið þolendur í hruninu og ætli að leitast við að fara í skaðabóta mál við gömlu bankana.

Hið rétta er að almennir sjóðsfélagar voru þolendur í þessu máli en ekki stjórnendur sjóðanna.

Það er átakanlegt að horfa upp á stjórnendur sjóðanna, sem bera ábyrgð á fordæmalausri áhættusækni og peningamokstri í svikamyllur skrúðkrimmana, ætli að stilla sér við hlið okkar sjóðsfélaga sem fórnarlömb er algerlega siðlaust.

Stjórnendur sjóðanna voru gerendur í þessu máli. Þeir bera ábyrgð lögum samkvæmt.

Það komu fram spurningar um hvort lífeyrissjóðirnir færu í mál við stjórnendur Glitnis á sínum tíma þegar Vilhjálmur Bjarnason stefndi stjórnendum bankans vegna sjálftöku þeirra.

Nokkrir þaulreyndir lögmenn töldu það hæpið þar sem lífeyrissjóðirnir áttu stjórnarmenn í bönkunum og þar af leiðandi komu að ákvarðanatöku um lánveitingar bankanna til tengdra aðila.

Sem dæmi sat Gunnar Páll fyrrv.stjórnarform. LV í stjórn og lánanefnd Kaupþings fyrir fjóra stærstu sjóðina. 

Lífeyrissjóðirnir höfðu gríðarleg ítök í bankakerfinu og í fyrirtækjum útrásarvíkingana. Stjórnendur sjóðanna fjárfestu eins og engin væri morgundagurinn í þeim sýndarveruleika sem settur var á svið fyrir almenning.

Þetta var gert í skjóli bankaleyndar og þagnarskyldu.

Upplýsingar sem stjórnendur sjóðanna höfðu aðgang að en almenningur ekki.

Sjóðirnir keyptu skuldabréfaútgáfur útrásar krimmana í stórum stíl þó vitað væri að veldi þeirra væru á stórskuldum byggð.

Eftir að hafa lesið útboðslýsingar á skuldabréfaútgáfum Bakkavarar, Exista, Símans og fleiri fyrirtækja sést vel hversu glórulausar fjárfestingar þetta voru.

Þeir stjórnendur sem enn sitja við ketkatlana segja að auðvelt sé að vera vitur eftir á.

Hver er þá krafa sjóðsfélaga til þeirra sem þáðu boðsferðir, gjafir, tugmilljónir í laun, bónusa, lúxusbíla ofl.

Hvet alla að lesa hér útboðslýsingu á skuldabréfi Bakk 03-1 Bréf sem hefur verið í vanskilum síðan það féll. Þetta sýnir að Bakkavararbræður hefðu allt eins getað skrifað upphæðina á gulan post-it miða og lagt inn í sjóðina sem skuldaviðurkenningu. Post-it miðinn hefði líklega ekki fengist skráður í kauphöllinni en virði skuldabréfsins og Post-it miðans væri það sama í dag.

Höguðu stjórnendur lífeyrissjóðanna sér eins og meðvirkir alkahólistar sem neituðu að horfast í augu við drykkjuvandamál bankanna og útrásarfyrirtækjanna. Eða spiluðu þeir blindfullir með?

Vissulega voru einhverjir blekktir en einhverjir hljóta að hafa haft vitneskju um hvað var í gangi. 

Við sjóðsfélagar höfum aðgang að öllum skuldabréfaútgáfum skráðum í kauphöll íslands. Stjórnendur sjóðanna neita að gefa upp hversu mikið þeir keyptu í þessum útgáfum.

Ef stjórnendur sjóðanna voru svo grandalausir gagnvart því leikriti sem sett var á svið fyrir almenning, að þeir keyptu allt sem að þeim var rétt, hljóta þeir í það minnsta að hafa sýnt af sér stórfellda vanrækslu.

Ragnar Þór Ingólfsson

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 20. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband