Verkalýðsforysta á Villigötum: Myntkörfulán og Úrræðin góðu!

Heimilin í sjálfskuldarábyrgð!

Við skoruðum á stjórnarmeirihluta VR að beita sér fyrir:

Raunverulegum úrræðum vegna myntkörfulána og stökkbreyttum höfuðstól húsnæðislána og hafni því úrræðaleysi sem í boði er.

Sjá svör mín með bláu en svör meirihlutans með rauðu. 

Hér er fullyrt að öll núverandi úrræði séu "óraunveruleg". Ekki er hægt að taka undir það þó þau henti fólki misjafnlega.  Úrræði af þessi tagi verða að vera efnahagslega og samfélagslega framkvæmanleg og gæta þarf jafnræðis og réttlætis. Stjórnvöld, í samráði við aðila vinnumarkaðarins - og þar með VR - eru að vinna og þróa frekari úrræði í gegnum stöðugleikasáttmálann. Vonandi kemur afrakstur þeirrar vinnu bráðlega í ljós.

Þarf að gæta jafnræðis og réttlætis? Ætli úrræðin verði tilbúin þegar dómstólar verða búnir að dæma þau ólögleg? Það er ekki seinna vænna að afraksturinn fari að skila sér 1 1/2 ári eftir hrun.Hvað hafa margar fjölskyldur gefist upp nú þegar eða þvingaðar til að afsala sér fjárhagslegu sjálfstæði sínu.

Þegar Lýsing og Kaupþing voru að ráðleggja fólki að taka myntkörfulán sem ÖRUGGA fjármögnun, voru eigendurnir, Exista og Kjalar að taka stórkostlega stöðu gegn íslensku krónunni og fara nú fram á yfir 300 milljarða eða umþb. 1/2 Icesave í uppgjör á slíkum samningum sem þeir gerðu við lífeyrissjóðina og fólkið í landinu í gegnum Kaupþing og Lýsingu, félög í þeirra eigu. 

Þeir settu heimilin í sjálfskuldarábyrgð fyrir gegndarlausu fjármálasukkinu.

Það er með ólíkindum að hugsa sér að þessir skrúðkrimmar komi jafnvel út í plús með því einu að skuldajafna framvirkum gjaldmiðlasamningum á móti botnlausri skuldsetningu félaga í þeirra eigu.

Ég fullyrði hér með að úrræðaleysið sem stendur fólki til boða á ekkert skylt við raunverulegt siðferðislegt réttlæti.

Af hverju í ósköpunum tekur verkalýðsforystan, sem er að velta yfir 10 milljörðum á ári, ekki af skarið og ályktar gegn myntkörfulánunum sem eru að sliga fjölskyldur fjölda félagsmanna okkar.

Við höfum markaðslaunakerfi og þurfum að semja um launin okkar sjálf. Forsendubrestur verð- og gengistryggðra lána kemur verkalýðshreyfingunni ekki við og þeir sem vilja sækja rétt sinn borga það úr eigin vasa.

Fyrir hverja er meirihluti stjórnar VR að vinna? Í dag er lánskjarabaráttan ein eftir. Því sami meirihluti samþykkti án fyrirvara eina mestu kaupmáttarrýrnun í sögu félagsins með síðustu kjarasamningum. 

Ég fullyrði hér með að núverandi úrræði eru til háborinnar skammar.

Hvernig er hægt að ætlast til að fólk taki á sig þann griðarlega skuldabagga sem hangir yfir okkur, í formi hærri lána, hærri skatta, skertari heilbrigðisþjónustu, hærra vöruverði þar sem yfirskuldsett eignarhaldsfélög þurfa að hækka vöruverð til að geta borgað skuldir eigenda sinna.

Myntkörfulánin eru að öllum líkindum ólögleg, Kaupmáttur er í frjálsu falli, verðbætur og gengistryggingar eru að sliga heimilin og sundra fjölskyldum en Verkalýðsforystan telur launafólk í ágætis málum??

Hvernig er hægt að réttlæta þessar klifjar í ljósi þess að ábyrgðamenn hrunsins eru enn við samningaborðið og eru að ná til baka þeim verðmætum sem þeir byrjuðu með.

Það er algerlega siðlaust að ætla almenningi að borga brúsann eftir útrásar sukkið á meðan gerendurnir hafa samningsstöðu innan bankanna.

Það er með öllu siðlaust og óskiljanlegt að þessir menn hafi samningsstöðu yfir höfuð.  

Hverjir eru að gæta hagsmuna launafólks?

Formaður VR telur launafólk vera í ágætis málum. Ég tel formann VR vera á rangri hillu.

Ragnar Þór Ingólfsson 

Stjórnarmaður í VR.

Næsta færsla er um launaþak forstjóra lífeyrissjóðsins sem ég lagði fram, hvernig formaður og stjórnarmeirihlutinn hafnaði sjálfsagðri skoðun á miljarða lánveitingum LV, án ábyrgða til Existu, Skipta og Bakkavarar en sjóðurinn hefur neitað að gefa upp hversu mikið þeir lánuðu þessum félögum. Mun ég birta yfirlit yfir skuldabréfaútgáfurnar, álit sem ég fékk frá FME um málið ásamt tölvupóstsamskiptum við framkv.stjóra og stjórnarmenn VR og LV vegna málsins. Einnig mun ég fjalla um kröfur LV á Kaupþing í þessu samhengi.


Bloggfærslur 16. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband