Lífið er til að njóta þess alla ævi.

Forystumenn verkalýðsins temja sér lýðskrum sem svar við gagnrýni fjöldans á störf þeirra fyrir alþýðuna. Raunsæi og raunhæfar kröfur heyrast mikið í því sambandi þegar valdhafar tala niður til lýðsins. Mikið er rætt um að hjálpa bara þeim allra verst stöddu því annað sé óraunhæft, þeir sem geta borgað skulu borga.

Að hjálpa bara þeim verst stöddu eru í raun engin úrræði eða lausn því þeir verst stöddu eru nú þegar komnir í þrot. Ef þeir skrifa ekki undir afarkosti bankanna um afsal á fjárreiðum og eilíft skuldafangelsi blasir gjaldþrot við með enn meiri afskriftum fyrir banka og fjármálastofnanir.

Að hjálpa bara þeim verst settu eru klæðskerasaumuð úrræði fyrir fjármálastofnanir til að hafa sem allra mest út úr þegar töpuðum kröfum.

ASÍ segir að ekki sé hægt að þurrka upp skuldir fólks með sparifé launamanna. Að halda því fram að óreiðufólk vilji nota allar eignir lífeyrissjóðanna til að afskrifa allar skuldir er lýðskrum af versta tagi. Hvernig getur krafa fólksins um leiðréttingu á verðbótum vegna forsendubrests talist til afskrifta allra skulda með öllu sparifé launamanna? Krafan er að farin verði millivegur og illa fengnum verðbótum skilað að hluta.

ASÍ telur galið að fara í flata niðurfellingar skulda því þá myndi afslátturinn af íslenskum húsnæðislánum frá Lúxemborg, sem lífeyrissjóðirnir fengu á vildarkjörum frá SÍ, ganga til baka. Það eru ekki bara bankarnir sem hagnast á vildarviðskiptum með húsnæðislán almennings.

Nú fer að styttast í að hálaunaðir foringjarnir fari á lífeyri og ekki að undra að þeir vilji sem minnst vita af unga fólkinu í þessum efnum.

Lífeyrissjóðirnir hafa eignafært yfir 126 milljarða í verðbætur á fasteignalánum almennings frá ársbyrjun 2008.

Lífeyrissjóðirnir hafa fært rök fyrir því að fella eigi niður glórulausa gjaldmiðlasamninga,sem þeir gerðu í von um skjótfengin gróða, vegna þess að forsendur fyrir þeim hafi brostið. Á meðan lífeyrissjóðirnir leita réttar síns vegna forsendubrests, neita þeir að viðurkenna forsendubrest á stökkbreyttum fasteignalánum almennings.

Illa fengnar verðbætur sem lífeyrissjóðir hafa nú þegar eignafært í bækur sínar skekkir stöðu og mismunar sjóðsfélögum gríðarlega. Sjóðsfélagar sem nutu hagstæðra óverðtryggðra húsnæðislána fá nú greiddan lífeyri með verðbótum þeirra sem nú reyna að koma þaki yfir höfuðið. Almenn skerðing bitnar á öllum sjóðsfélögum ekki bara ”aumingja gamla fólkinu” eins og forseti ASÍ kallar það þegar hann gerir lítið úr kröfum fólksins.

Lífeyrissjóðirnir bera ábyrgð á ástandinu með því að nota almannafé sem eldivið á bálköst útrásarinnar, Verkalýðshreyfingin ber ábyrgð á lífeyrissjóðunum og verkalýðsforingjarnir bera ábyrgð á verkalýðshreyfingunni. Er skrýtið hversu aðilar vinnumarkaðarins berjast á móti opinberri rannsókn á kerfinu og vilja nota brostnar forsendur fasteignalána til að breiða yfir sukkið og skítinn.

Forsendubresturinn er viðbótar skerðing á lífeyri þeirra sem skulda.

Ekki á minni vakt“ segir forseti ASÍ sem gerir nú kröfu á jöfnun lífeyrisréttinda á við opinbera kerfið, sem þýðir skerðingu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna því það er með öllu óraunhæft að skrúfa upp almenna kerfið til jafns við það opinbera. Þeir hafna alfarið aðkomu lífeyrissjóða á skuldavanda heimilanna, hafna skattlagningu séreignasparnaðar sem kæmi í veg fyrir gríðarlegar álögur á ungt fjölskyldufólk sem nú þegar hefur tekið á sig mesta skellinn.

Lífeyrisþegar sem greitt hafa í kerfið í 40 ár eða meira eru nú komnir á lífeyri. Í flestum tilfellum þarf ríkið í gegnum tryggingastofnun að borga mismuninn sem vantar upp á lágmarks framfærslu lífeyrisþega. Það sem heldur lífeyrisþegum gangandi í dag er eignamyndun utan kerfisins yfir sama tímabil og greitt var í lögbundna kerfið.Við sjáum hversu vel hefur tekist til síðustu áratugi og hver uppskera lífeyrisþega er í dag. Telur þar mest áratuga óráðsía í fjárfestingum sjóðanna í bland við handónýta peningastjórn.

Við höfum dæmin fyrir framan okkur um hversu mikilvægt er að eignast þak yfir höfuðið og hversu hörmulega gengur að geyma peninga með bréfabraski í kerfisbundnum áföllum fjármálamarkaða.

Ég er skyldaður til að greiða í lífeyrissjóð en fæ engu ráðið um hverjir stjórna þeim.Ég er skyldaður til að spara en fæ engu ráðið um hvernig sparifénu er ráðstafað. Ég á allt undir með misgáfulegum fjárfestingum,misgáfaðra forstjóra, hvernig hag mínum verður borgið á efri árum.

Er eðlilegt að sumir fái meira út úr lögbundnu kerfi en aðrir vegna ákvarðana sem við höfum ekkert með að gera? Er eðlilegt að lögbundin iðgjöld sem eru ekkert annað en skattur, mismuni fólki á þann hátt að kerfið hygli þeim efnameiri. Væri eðlilegt að skattkerfið bjóði hátekjufólki betri heilbrigðisþjónustu en lágtekjufólki?

Hvað þurfa norðmenn marga olíusjóði?Hvernig væri að sameina sjóðina í einn og jafna öll lífeyrisréttindi.

Lífið er til að njóta þess alla ævi. Að ætla sér að gera kynslóðir að skuldaþrælum með því að lofa gulli og grænum skógum eftir 67 ára aldur minnir óneitanlega á ofsatrúaða öfgamenn.

 

Fyrsta grein af fjórum um uppgjör mitt við kerfið sem stjórnarmaður í VR síðastliðin tvö ár.


Bloggfærslur 10. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband