Það er ekki hægt !

Er hægt að fara í almennar leiðréttingar á húsnæðislánum almennings?

Stjórnvöld í skjóli aðila vinnumarkaðarins hafa fullyrt að svigrúm sé ekkert og það komi allt niður á okkur sjálfum í formi skattheimtu verði slíkar leiðir farnar.

Slagorð ráðamanna eru mörg og þreytt.

Það er ekkert hægt að gera fyrir heimilin!

Það er ekkert svigrúm!

Þetta var allt ykkur að kenna!

Áhættan var augljós!

Hvar á að fá peninga!

Forystumenn verkalýðsfélaganna velta fyrir sér populistakröfum fólksins um engar skattahækkanir-engan niðurskurð og allar skuldir afskrifaðar.

Raunin er sú að almenningur er reiðubúin að takast á við vandann og vill borga sínar skuldir. Krafan er eingöngu að lágmarks sanngirnis og jafnræðis sé gætt.  

Það gæti svo sem verið rétt að þetta lendi allt á okkur þegar allt kemur til alls.

En til hvers er ríkið og hverjum á það að þjóna? Sú stjórn sem nú situr kenndi sig við velferð,fólkið og heimilin. Það átti að vera forgangsverkefni að koma fjölskyldunum og heimilunum til bjargar.

Það fyrsta sem stjórnin gerði var að semja frá sér allan rétt til almennra leiðréttinga með því að koma húsnæðislánunum okkar á niðursprengdu útsöluverði til nýju bankanna og gerðu ríkið væntanlega skaðabótaskylt ef um frekari niðurfellingar yrði að ræða eftirá.

Þetta var svo allt saman skreytt með stöðugleikasáttmála,greiðsluaðlögun og pakkað inn í innantóma pappírs skjaldborg.

Hvað er til ráða og er eitthvað hægt að gera?

Ef stjórnvöld geta skattpínt almenning út í hið óendanlega gætu stjórnvöld hæglega kallað lífeyrissjóði,fjármagnseigendur,banka og fjármálastofnanir á sinn fund og lagt til að farin verði sanngjörn leið um leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstól húsnæðislána, að öðrum kosti verði þeim refsað með sanngjörnum refsisköttum til að standa undir kostnaði við endurreisn heimilanna.

Sama leið valin fyrir almenning og þá sem komu þjóðinni á hliðina.

Ríkið gæti lagt til að bankar borguðu 50% skatt af hagnaði sínum sem nota mætti í almennar leiðréttingar, lífeyrissjóðsiðgjöld væru skattlögð strax og af hverju ekki að hóta skattlagningu á innistæður yfir 10 milljónum. Við gætum svo skellt fram lyklafrumvarpi Lilju Mósesdóttur í kaupbæti.

Ef raunverulegur vilji er hjá stjórnvöldum til að skapa sátt í samfélaginu, með því að gera virka neytendur úr þúsundum samborgara okkar í stað þess að gera þá að heimilislausum skuldaþrælum, þá þarf að framkvæma og þora.

Ég held að hljóðið og viðhorfið í bönkunum og fjármagnseigendum muni breytast ef stjórnvöld tækju upp nýja og áður óþekkta siði með því að skattleggja hið raunverulega fjármagn í stað þess að berja endalaust á þeim sem minnst mega sín.

Hvað kostar að fara í þessar aðgerðir? Hvað kostar að gera það ekki?

Hvað kostar að koma upp félagsbústaðakerfi sem er nægilega stórt til að taka á móti þúsundum heimila sem eru á leið í þrot? Hvað kostar það hagkerfið og fyrirtækin að drepa niður heilu kynslóðirnar af virkum neytendum með þeirri skuldþrælkun og ofbeldi sem bankarnir og stjórnvöld í skjóli aðila vinnumarkaðarins predika fyrir? Hvað kostar að breyta þúsundum skattgreiðenda í bótaþega?

Það kostar örugglega miklu minna að leysa vanda heimilanna strax.

Hver verða næstu úrræði stjórnvalda á skuldavanda heimilanna?

Verða það raunverulegar lausnir eða bragga hverfi?

 

Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarmaður í VR


Bloggfærslur 7. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband