Þrælahald er staðreynd á íslandi.

Það er ömurlegt að horfa upp á samtryggingu valda í þessu samfélagi og veiklyndi ASÍ gagnvart launafólki.
 
Skuldaþrælkun í boði norrænnar velferðarríkisstjórnar, blessað af Gylfa Arnbjörnssyni og ASÍ. Fátækt blasir við þúsundum heimila.
 
Hvergi í veröldinni greiða hlutfallslega fleiri í verkalýðsfélög en á Íslandi en þau velta yfir 10 milljörðum á ári hverju. Frá hruni hefur sameinuð hreyfingin ekki haldið einn samstöðu eða mótmælafund utan hina árlegu 1.maí göngu, þar sem forseti ASÍ treysti sér ekki til að vera á meðal almennings í Reykjavík. Þrátt fyrir mestu hamfarir launafólks er þögnin orðin aðalsmerki þeirra sem verja eiga launafólk fyrir auðvaldinu og þiggja forstjóralaun fyrir.
 
Í verkalýðshreyfingunni er aðallega notast við bananalýðræði sem virkar þannig að félagsmenn geta ekki kosið sér forystu í beinni kosningu. Stjórnir félaganna handvelja sérstök trúnaðarráð sem aftur kjósa stjórnirnar. Þetta er eins og ef Ríkisstjórnin skipaði alþingi og alþingi kysi svo ríkisstjórn.Því er ekki að undra að forystusauðir og stjórnarmenn verkalýðsins sitja áratugum saman í sömu stólunum. Það er líklega er auðveldara að komast til metorða í Norður Kóreu en innan verkalýðshreyfingarinnar nema þú sért með réttar skoðanir.
 
Í stað þess að brýna vopnin með samstöðu launafólks er ASÍ búið að afvopna hreyfinguna með aðgerðaleysi og yfirlýsingum á borð við,lítið sem ekkert svigrúm,hvar á að fá peninga,halda fengnum hlut, koma í veg fyrir frekari kaupmáttarrýrnun og einhverju sem þeir kalla „ábyrgum kröfum“, sýnir best uppgjöfina og vonleysið.
Einu svörin frá verkalýðshreyfingunni eru öskrin í kóngnum ef einhverjum dirfist að gagnrýna ASÍ. Neyðarópin frá Akranesi og Húsavík eru afgreidd með sama hætti.
 
Í Frakklandi spyr verkalýðshreyfingin ekki hvernig eða hvar á að fá peninga. Það er hlutverk stjórnvalda að leysa það. Þegar til stóð að hækka eftirlaunaaldur í Frakklandi um tvö ár var hraðbrautum lokað og verkalýðshreyfingin boðaði til fjöldamótmæla.Við komum með kröfurnar, það er annarra að finna lausnir og framkvæma.Á íslandi er það hinsvegar verkalýðshreyfingin sem boðar hækkun eftirlaunaaldurs.
 
Aðilar vinnumarkaðarins dæla iðgjöldum sjóðsfélaga og illa fengnum verðbótum fasteignalána í áhættu fjárfestingasjóði til höfuðs vel rekinna fyrirtækja.    
Af hverju skattleggur ríkisstjórnin ekki fjármálafyrirtækin með ábyrgum hætti um minnst 60-80% af framtíðar hagnaði til að standa undir leiðréttingum húsnæðislána. það er alveg ljóst að fjármálakerfið ber höfuð ábyrgð á stöðu heimilanna í dag.
 
Ríkisstjórnin á að setja neyðarlög sem gerir það mögulegt að ná til baka megin þorra þess fjármagns sem útrásaraularnir hirtu úr gjaldþrota einkahlutafélögum, sem við borgum nú skuldirnar af. Tala nú ekki um eignir alþingismanna sem fóru úr ráðherradóm í ríkidóm á kostnað skattgreiðenda og sitja svo sofandi á kostnað þjóðarinnar á fundum út í heimi.
 
Það er hægt senda mann til tunglsins en það er ekki hægt að skattleggja séreignasparnað. Ekkert má gera, þetta er ólöglegt, við erum skaðabótaskyld ,hendur okkar eru bundnar, lögin banna okkur þetta og hitt osfrv. Hvað halda menn að það kosti að gera ekki neitt fyrir millistéttina?
 
Hingað til hefur ríkið sett alls kyns lög til að verja sérhagsmunahópa en þegar kemur að okkur sem raunverulega framleiðum og byggjum þetta land þá vandast málið. Það er ótrúlegt að horfa upp á sjúklega samtryggingu valda í þessu litla samfélagi.
 
Við getum sett lög um allt og ekkert.Við gætum sett lög á hurðarhúna, sett vörugjöld á gula liti, sem er gáfulegra en flest það sem núverandi Stjórnvöld hafa lagt til í niðurskurðarmálum.
 
Við getum borað göng undir Hvalfjörð, reist risa tónlistarhöll útí sjó, búið til peninga úr þunnu lofti á kostnað allra þeirra sem fyrir eru, lánað vildar vinum ígildi 1000 ævistarfa sem aldrei verða greidd til baka án eftirmála, horft framhjá fyrrverandi stjórnendum landsins skammta sér ríkiseigur án athugasemda, en við getum ekki lyft litla fingri fyrir heimilin.
 
Það sem heimilin þurfa er vilji. Vilji í formi pennastrika og orðalagsbreytinga í lagafrumskógi auðvaldsins. Það er ekki verið að færa til fjöll ,það þarf engar stórvirkar vinnuvélar, það þarf ekkert innflutt stál frá Kína, þetta snýst um að breyta orðalagi og forsendum sem skrifaðar verða með bleki á blað.
 
Forsendubresturinn er mannanna verk. Það þarf vilja til að breyta honum og verkalýðshreyfingu sem vinnur fyrir félagsmenn.

Ragnar Þór Ingólfsson 

Stjórnarmaður í VR.


Bloggfærslur 19. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband