15.10.2010 | 09:16
Hvað gera lífeyrissjóðir við verðbætur fasteignalána?
Hafa verðbæturnar skilað sér til lífeyrisþega?
Á meðan stjórnendur tala um hag sjóðsfélaga eru illa fengnar verðbætur fasteignalána notaðar í áhættufjárfestingar og vafasöm fyrirtækjakaup ásamt því að breiða yfir gegndarlaust fjármálasukk og spillingu innan lífeyrissjóða kerfisins.
Minnir á vítahring spilafíknar frekar en almenna skynsemi.
Mér finnst athyglisvert hversu forsvarsmenn lífeyrissjóða rjúka nú upp til handa og fóta og tala um HAG sjóðsfélaga, sem var ekki til staðar þegar sjóðsfélögum var lánað úr eigin veski, sjóðsfélagalán, með 100% lágmarks veði, lánsfjárhæð sem takmarkast við 65% af markaðsvirði og sjálfskuldarábyrgð.
Þetta hljóta að vera öruggustu útlán jarðkringlunnar. Á meðan sjóðsfélagar taka sjálfir lán sem tryggð eru út í hið óendanlega keyptu sömu stjórnendur sömu sjóða undirmálslán viðskiptabankanna sem lánuðu 90-110% af stórlega ofmetnu markaðsvirði.
Áhyggjurnar hljóta að vera enn meiri af þeim sjóðsfélögum sem eiga fasteignalánin í skuldabréfavöndli Seðlabankans sem afhentur var lífeyrissjóðunum á vildarkjörum til að lagfæra hörmulega tryggingafræðilega stöðu þeirra.
Voru áhyggjurnar til staðar þegar útrásarfélögin fengu ótakmörkuð skuldabréfalán án nokkurra veða annarra en bréfsefnið og blekið sem upphæðirnar voru skrifaðar á? Það þarf ekki að fara mörgum orðum um heimtur þeirra lána.
Ábyrgðin á ástandinu er fjármálafyrirtækjanna og lífeyrissjóðanna.Hverjir njóta góðs á ábyrgðaleysinu, útlánaþenslunni og þar af leiðandi hækkun verðbóta?
Ég tek fasteignalán hjá viðskiptabanka mínum fyrir 9 árum,samið var um vaxtakjör og verðbólgumarkmið og innsiglað með lánasamningi. Á ég að sætta mig við ofur verðbæturnar sem færast á eignareikning bankans sem fór gróflega gegn tilraunum ríkisins og seðlabankans við að slá á útlánaþenslu til að standa við yfirlýst verðbólgumarkmið sem notuð voru til hliðsjónar í lánasamningnum mínum?
Með því að bjóða ólögmæta gengistryggða lánaafurð þegar útlán bankanna drógust saman, fóru bankarnir gróflega gegn hagsmunum viðskiptavina sinna og almennings.
Get ég treyst stjórnendum lífeyrissjóðanna til að verja framtíðar lífeyri minn í blindbil spákaupmennsku og sérhagsmuna? Get ég treyst stjórnendum lífeyrissjóða til að verjast framtíðar sveiflum í völundarhúsum kerfisvillunnar sem kom okkur á hausinn og valdahafar reisa nú við á sama sandi? Getum við treyst stjórnendum sjóðanna fyrir lífeyri okkar í kerfisbundnu markaðs hruni og valdabrölti viðskiptalífsins?
Ég treysti ekki Jóni Jónssyni forstjóra Stóra lífeyrissjóðsins til að geyma fyrir mig kerfisbundna eignaupptöku á mikilvægasta lífeyri mínum þegar hann sjálfur ber ábyrgð á eignatilfærslunni.
Illa fegnar verðbætur á fasteignalánum verða notaðar sem eldiviður á bálköst valda og til endurreisnar sama kerfis og kom okkur á hliðina.
Af hverju dettur ríkisstjórninni ekki í hug að skattpína fjármálafyrirtækin og jafnvel lífeyrissjóðina með sama hætti og almenning.
Hvað eiga lífeyrissjóðirnir eftir að tapa framtíðarlífeyri og framtíðarskatttekjum ríkissjóðs mörgum sinnum áður en þeir þurfa að losa vonlausar bréfaeignir til að standa undir framtíðarskuldbindingum sínum?
Lífeyriskerfið er nú þegar hrunið.Það vita allir sem því stjórna en engin þorir að segja það upphátt.
Þegar að lífeyrissjóðirnir geta ekki lengur notað inngreiðslur til að standa undir útgreiðslum verður stærð bréfaeigna kerfisins líklega á bilinu 4000-6000 milljarðar eða tvö til þrefalt stærra en það er í dag. Hver á að losa sjóðina við öll þessi bréf með öllum þessum tölum á?
Væri ekki nær að leyfa fólki að eignast eitthvað á lífsleiðinni og minnka þannig framtíðarbirgði framtíðarskattgreiðenda, sem þurfa annars að kaupa út vonlausar bréfaeignir sjóðanna til að slá húsaskjóli yfir skuldaþrælana sem ekkert eiga.
Höfundur er stjórnarmaður í VR.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)