Nauðasamningar Exista og Bakkavör.

Í ljósi nýlegra frétta af umfangsmestu húsleitum Íslandssögunnar.

Sendi þessa áskorun á meirihluta stjórnar þann 14.Janúar síðastliðinn, sem hefur hingað til hafnað allri skoðun á þessum málum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mínar.

Kæru meðstjórnendur.

Sendi hér með fréttaskýringu Spegilsins á Rás2,  á því hvað gerist við nauðarsamninga. Þetta er skylduhlustun fyrir alla stjórnarmenn okkar.

Þegar Eimskip fór í nauðarsamninga var sjálfkrafa lokað á það hvernig stjórnendur þurrkuðu upp allar eignir félagsins og hvernig stærsta, ríkasta og öflugasta fyrirtæki landsins varð eignalaust og leitt í þrot á örskotstundu.

Hið sama er að gerast með Exista. Bakkavararbræður hafa nú þegar hirt stærsta bitan af kökunni, á vildarkjörum sem hvergi þekkjast, á kostnað kröfuhafa ( sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna ).

Haldið þið virkilega að nauðarsamningar komi til með að skila sjóðunum betri heimtur? Það er óvíst að heimtur af brunarústunum einum sem eftir standa innan Existu nái að dekka gríðarlegan rekstrarkostnað þeirra sem vilja stýra félaginu áfram.

Ég vil minna ykkur á að þau félög sem Exista menn ætla að mergsjúga til að standa við vonlausar skuldbindingar sínar, eru félög sem þurfa að lækka þjónustu stig og segja upp fólki, hagræða langt um fram þörf með hækkun á vöru og þjónustu og jafnvel yfir skuldsetja sig. Allt á kostnað almennings,sjóðsfélaga og félagsmanna VR.

Af hverju má ekki gera þessi móðurfélög upp sem engan tilgang hafa annan en að merg sjúga arðvænlegar rekstrareiningar sínar og númer eitt að halda leyndarhjúp yfir gegndarlausu fjármálasukkinu sem viðhaft var á kostnað almennings.

Við hljótum að spyrja okkur um tilgang framtakssjóðs lífeyrissjóðanna þegar lífeyrissjóðirnir sjálfir kvitta undir nauðarsamninga félaga, þar sem skrúðkrimmarnir selja sjálfum sér bestu bitana úr gjaldþrota móðurfélögum á vildarkjörum sem hvergi þekkjast.

Af hverju má ekki gera þessi félög upp?

Sjóðirnir sitja eftir með verðlaus skuldabréf sem þeir bókfæra sem milljarða eign. Stjórnendur halda andlitinu, tímabundið. Tapinu dreift á kostnað sjóðsfélaga og engin kemst að hinu sanna um  gegndarlausan rekstrarkostnað og vafasöm tengsl æðstu stjórnenda.

Spillinguna er líklega ekki að finna innan sjóðanna sjálfra en vafalítið hafa stórfyrirtækin sem sjóðirnir fjárfestu í verið örlátir við stjórnendur þeirra. 

Það er ekki spurning um hvort Exista verði rannsökuð sérstaklega heldur hvenær. Ég hef sjálfur, sem sjóðsfélagi, kært söluna á Bakkavör úr Existu . Kaupþing fylgdi í kjölfarið tveimur vikum seinna og kærði sama gjörning.

Fleiri kærur eru til skoðunar og fleiri eru á leiðinni.

Þetta verður í síðasta skipti sem ég skora á meðstjórnendur mína og stjórnarmenn okkar í LV til að taka af skarið og gera eitthvað í málunum.

Ég skora á ykkur öll að taka höndum saman og segja nei við nauðarsamningum Existu. Látum stjórnendur þessara félaga og vildarvini þeirra, ekki hafa okkur að fíflum.

Þessi keisari er án klæða svo mikið er víst.

Að lokum vil ég minna á fyrri bréf mín til ykkar þar sem ég hef margbent á tengingar stjórnenda sjóðsins við þessi félög. Það eitt að kauphöll Íslands er búið að marg áminna og sekta stjórnendur félagsins og félagið sjálft, fyrir misvísandi lögbundna upplýsingagjöf hlýtur að gefa tilefni til tortryggni í garð þessara aðila. Það virðist ekki vera orð að marka þessa menn. Samt er broslegum áætlunum þeirra um heimtur tekið sem heilögum sannleik. 

Fyrirtæki tengd tveimur fyrrverandi stjórnarformönnum LV eru meðal stærstu skuldara Kaupþings.

Stærstu eigendur Kaupþings og Existu eru langstærstu skuldarar LV.

Það er krafa mín sem sjóðsfélagi að fá allt upp á borðið. Treystum ekki sama glæpalýðnum og kom okkur í þau vandræði sem þjóðin stendur frami fyrir í dag. Þessir menn hafa sýnt þjóðinni fádæma hroka og er meira umhugað að koma undan eignum og fjármunum en að hjálpa til við að slökkva eldana sem þeir sjálfir kveiktu.

Hvað í ósköpunum fær ykkur til að trúa því að þessir menn beri hag sjóðsfélaga fyrir brjósti?

Virðingafyllst.

Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarmaður í VR.


Bloggfærslur 27. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband