21.1.2010 | 12:07
Hvað er að gerast í VR ?
Þau eru brosleg svörin sem félagsmenn okkar fá þegar þeir spyrja um aðgerðaleysi VR og verkalýðsforystunnar á gríðarlegum skuldavanda heimilanna og kaupmætti sem er í frjálsu falli. þessar hamfarir sem herja á launa og fjölskyldufólk virðast engu skipta en stjórnin hefur meiri áhyggjur af því að semja við Bakkavararbræður og koma í veg fyrir að lánabók sjóðsins til fyrirtækja verði aðgengileg sjóðsfélögum. ASÍ sér svo um restina sem er Evrópusambandið sem eina lausnin á vandanum.
Svörin fyrir vítavert sinnuleysi meirihlutans eru yfirleitt þau að lítill minnihluti hóps haldi þeim sem öllu ráða "meirihlutanum" í gíslingu og ekkert verði úr verki. þetta gerir títt nefndan minnihluta að valda mesta minnihluta lýðveldissögunnar.
Staðreyndin er hinsvegar sú að meirihluti stjórnar VR og A-Listinn undir forystu Kristinns,hanga í pilsfaldi ASÍ og hafa ekki bein í nefinu til að standa í hárinu á þeim sem stjórnað hafa verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðunum á áratugi. Þetta er þröngur hópur fólks sem öllu ræður. Þessi hópur hefur mismikin áhuga á skjólstæðingum sínum.
Forseti og varaforseti ASÍ koma úr VR.
Gylfi Arnbjörns VR - Ingibjörg R. Guðmunds - VR/LÍV eiga sæti í miðstjórn ASÍ. þau Stefanía Magnúsdóttir fyrrum varaformaður VR og Kristinn Örn Jóhannesson Formaður VR eiga bæði sæti í miðstjórn ASÍ.
Það sem meirihluti stjórnar VR þolir ekki er að við sem erum í minnihluta og hlutum yfirburðarkosningu félagsmanna í fyrra erum að mótmæla aðgerðarleysi verkalýðsforystunnar sem við sjálf tilheyrum og síðan ömurlegu úrræðaleysi stjórnvalda á skuldavanda heimilanna.
Ég hef ítrekað reynt að fá Kristinn Örn formann VR til að taka ákveðin mál á dagskrá stjórnarinnar en án árangurs. Hann var fljótur að pakka niður stóru orðunum og hoppa upp í Evrópulest ASÍ á business class.
Þetta eru baráttumálin okkar í minnihlutanum, baráttumál sem A-listi og núverandi meirihluti stjórnar undir forystu Kristinns, þola ekki að ræða og hafa alfarið hafnað:
Áskorun minnihlutans á meirihluta stjórnar VR.
Við skorum á meirihluta stjórnar VR að beita sér fyrir:
1.Afnámi verðtryggingar tafarlaust og þak verði sett á vexti.
2.Raunverulegum úrræðum vegna myntkörfulána og stökkbreyttum höfuðstól húsnæðislána og hafni því úrræðaleysi sem í boði er.
3.Að mótmæla harðlega glórulausum neyslusköttum sem engu skiluðu nema hækkun á neysluvísitölu, húsnæðislána og aukinni kaupmáttar rýrnun.
4.Stuðningi við Hagsmunasamtök Heimilanna.
5.Áframhaldandi frest á nauðungarsölu.
6.Lagasetningu um að veð takmarkist við þá eign sem lánað var út á.
7. Lagabreyting leiði til þess að við gjaldþrot fyrnist eftirstöðvar skulda innan 5 ára og verða ekki endurvakin.
8. Að VR lýsi yfir vantrausti á Gylfa Arnbjörnsson og forystu ASÍ og hafni stöðugleikasáttmála þeim er samþykktur var í vor enda allar forsendur hans löngu brostnar.
9.Að þessi áskorun verði birt á heimasíðu VR.
10.Að VR verði aftur sjálfstætt og leiðandi afl í kjara og hagsmuna baráttu launafólks.
Bjarki Steingrímsson fyrrverandi varaformaður VR fékk á sig vantraust og var vikið úr sæti varaformanns fyrir að krefjast þess í ræðu á Austurvelli, að verkalýðsforystan hysjaði upp um sig brækurnar og beytti sér fyrir þessum brýnu hagsmunamálum launþega. Sérstaklega í ljósi þeirra ömurlegu samninga sem sama forysta kvittaði undir f.h. launafólks ásamt gerð stöðugleikasáttmála sem tryggði betur hagsmuni auðvaldsins en launþega nokkurn tíma.
Þegar varaþingmaður framsóknarflokksins Ásta Rut Jónasdóttir tók svo við sæti hans, en hún hafði áður stutt okkur í baráttunni gegn spillingunni, sýndi hún og sannaði að nefndar og frama snuðið sem víðfrægt er, og notað er af valdhöfum til að þagga niður í fólki, reyndist of mikil freisting.
Nú er valdið í höndum félagsmanna. Viljum við sama meðvirka ástandið og sinnuleysið? Viljum við breytingar?
Ég styð L-Lista lýðræðis því ég vil gegnsæi í fjárfestingum lífeyrissjóðsins og opið lýðræði í félaginu. Ég vil félag með beittar tennur en ekki tannlaust.
Ég styð Hall Eiríksson í framboði í einstaklingskosningu.
Þetta er einstakt tækifæri sem félagsmenn VR hafa og mega ekki láta fram hjá sér fara.
Ragnar Þór Ingólfsson.
Bloggar | Breytt 15.3.2010 kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)