14.1.2010 | 10:11
Opið bréf til trúnaðarráðs VR og stjórnar.
Ég vil byrja á því að þakka fyrir fundinn í gær sem var athyglisverður.
Það eru nokkrir hlutir sem ég vil koma á framfæri til ykkar vegna ummæla meðstjórnenda minna á fundinum í gær.
Ásta Rut vændi mig um að ég væri í hópi manna sem stundaði áreiti og einelti á ákveðna stjórnarmenn í VR. Hún sakaði mig um ódrengskap og vísaði í tölvupósta frá mér til stjórnar. Hún er þá væntanlega sem varaformaður að gefa mér grænt ljós á að vísa í tölvupósta stjórnar á opinberum vettvangi. Ég vísa ásökunum hennar til föðurhúsana.
Í stað þess að biðja mig afsökunar á framferði sínu reyndi hún að réttlæta fyrir ykkur gjörðir sínar.
Ég er búin að lýsa yfir skoðun minni á Ástu Rut Jónasdóttur og hennar störfum og hef í raun engu við það að bæta. Störf hennar innan stjórnar VR og lífeyrissjóðsins segja kannski mest um það.
Ásta Rut er að mínu mati tækifæris sinni og mun teygja sig ansi langt til að koma sjálfri sér áfram á kostnað annara. Hún hefur sýnt það og sannað í þrígang og þarf hún ekki að sanna sig frekar gagnvart mér.
Þennan tölvupóst sendi ég Ástu Rut Jónasdóttur eftir að hafa fengið það staðfest að hún hafi vitað að atlögunni gegn Bjarka Steingrímssyni tveimur mánuðum áður og tók svo sæti hans sem varaformaður VR.
Úr tölvupósti frá mér til Ástu 16 Des. 2009
Það er ljóst að þú stendur fyrir allt það sem ég fyrirlít í þessu samfélagi okkar í dag,sem er leyni og baktjaldamakk og óheiðarleiki gagnvart fólki sem treystir þér. Það eitt að taka þátt í þessum fyrirfram ákveðna farsa sem ég varð vitni að í dag, án þess að koma hreint fram, segir meira um þig sem persónu en þá sem fyrir voru í Stjórninni og hafa ekki farið leynt með skoðanir sínar.
Það er ekkert sem ég hef sagt um hana sem ég sé eftir eða ætla að taka til baka. Ég fyrirlít ákveðnar manngerðir í þjóðfélaginu sem er undirförulsháttur,óheiðarleiki og sviksemi við þá sem styðja þig og treysta. Ásta fellur undir þessa skilgreiningu í mínum bókum og er ég óhræddur við að segja þá skoðun enda hreinskilinn að eðlisfari og ætla mér ekki að villa á mér heimildir gagnvart henni eða nokkrum öðrum.
Ég ber mikla virðingu fyrir öllum öðrum meðstjórnendum mínum í VR sem og starfsfólki félagsins. Ég er ekki sammála þeim öllum en þeir koma þó hreint fram með sínar skoðanir og hafa ekki á nokkurn hátt reynt að villa á sér heimildir. Ég get tekið því að vera í minnihluta en meirihlutinn vill ekki sætta sig við að hafa minnihluta. Minnihluta sem heyrist í.
Varðandi deilur innan stjórnar vil ég koma eftirfarandi á framfæri.
Ég styð Bjarka Steingrímsson heils hugar í baráttu sinni. Við Bjarki erum ekki alltaf sammála en þó lang oftast. Við erum 100% sammála um það að það eina sem hann er að gera er að fylgja eftir sínum kosningamálum sem félagsmenn tóku afgerandi afstöðu með.
Bjarki hefur reynst mér sem traustur vinur og stuðningsmaður þeirra málefna sem ég hef sett á oddinn í baráttu minni. Bjarki er heill í gegn,heiðarlegur og einlægur í baráttu sinni gegn því óréttlæti sem dynur á félagsmenn okkar á hverjum einasta degi.
Ef stjórnin vinnur gegn þeim málum, sem félagsmenn tóka afgerandi afstöðu til í síðustu kosningum, er hún þá ekki að vinna gegn vilja félagsmanna?
Mín barátta hefur snúist fyrst og fremst um breytingar í lífeyrissjóðnum.
Það er hatrammlega barist fyrir því innan ASÍ og stjórnar VR að vinna gegn þeim málum sem ég bauð mig fram með.
Það er gegnsæi í fjárfestingum sjóðsins, gera sjóðinn og lykilupplýsingar aðgengilegri sjóðsfélögum.
Dæmi um gagnrýni mína á störf Ástu er að hún lofaði mér stuðningi við mitt helsta baráttu mál en var fljót að hoppa sjálf inn í stjórn lífeyrissjóðsins og svíkja þann stuðning.
Sms sem ég fékk var: Ohh my good!! þetta átti ekki að fara svona... Það er eitt að hoppa fram fyrir á kostnað annara en að vera hennar fyrsta verk að gera 7 ára leyniráðningasamning við hægri hönd Þorgeirs Eyjólfssonar sem tryggði enn frekar, engar áherslubreytingar er að sjálfsögðu með hreinum ólíkindum. Þegar ég hringdi svo í hana til að spyrja um þessi mál, vísaði hún mér í ársreikninga næsta árs, þar gæti eg fengið þær upplýsingar sem ég væri að leita að.
Ágúst Guðbjartsson skoraði á Gylfa Arnbjörnsson Forseta ASÍ að segja af sér vegna aðgerðarleysis verkalýðsforystunnar, hann væri rúin trausti og ekki málsvari okkar launafólks. Ágúst fór mikinn í fjölmiðlum vegna þessa.
Ágúst var svo á ársþingi ASÍ kosinn í miðstjórn ASÍ sem varamaður. Ekki hefur heyrst í honum síðan hvað Gylfa varðar. Hann er jú búin að opna vef sem heitir jákvæðni.is eða eitthvað slíkt sem er gott og blessað en því miður kemur ekki mikil jákvæðni upp í huga mér í því ástandi sem blasir við okkur í dag. Ég er ekki mjög jákvæður í garð þeirra sem hafa jarðsungið velferð og grunnstoðir samfélags okkar en ganga lausir eins og ekkert hafi í skorist.
Staðreyndin er sú að ekkert hefur breyst !
Það hafa engar breytingar orðið !
Ég spyr ykkur trúnaðarmenn alla hvort þetta séu vinnubrögð í lagi ?
Eigum við að snúa bökum saman sem ein heild ? Um hvað eigum við að snúa bökum saman ? Eigum við að snúa bökum saman um styrkveitingar til félagasamtaka ? Eigum við að snúa bökum saman um aðgerðaleysi núverandi forystu og ASÍ ?
Er það þetta sem Ég, Bjarki og Guðrún eigum að gera fyrir ykkar hönd í stjórn VR?
Eigum við að demba okkur að kjötkatlinum og kóa með forystunni sem við öll kusum gegn í síðustu kosningum?
Ég spyr, hvað viljið þið?
Ég er ekki til sölu, ég læt ekki bjóða mér einhverjar stöður til að þagga niður í mér.
Hvort sem ykkur líkar betur eða verr mun ég fylgja málefnum mínum eftir af meiri hörku en ég hef nokkurn tíman áður gert.
Þið verðið svo að taka ákvörðun um framhaldið.
Ég mun taka virkan þátt í næstu kosningabaráttu þar sem félagsmenn allir geta vonandi tekið afstöðu í eitt skipti fyrir öll, hvort krafta eins og minna sé þörf innan félagsins eða ekki. Ég hef nóg annað við tíma minn að gera ef félagsmenn kjósa að hafa ástandið eins og það var.
Ég er meðlimur í Hagsmunasamtökum Heimilanna og á sæti í greiðsluverkfallsstjórn. Þar hef ég barist fyrir leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstól húsnæði og bílalána. Ég er ákaflega stoltur af þeirri vinnu.
Ég er líka meðlimur Nýs Íslands sem stendur fyrir kröfufundum ásamt HH á austurvelli alla Laugardaga eins Bílamótmælin á þriðjudögum þar sem flautað er í eina mínútu fyrir framan fjármögnunarfyrirtækin.
Ekki hefur mikið sést til meðstjórnenda okkar á Austurvelli en félagsmenn eru þar fjölmargir.
Nýtt Ísland vill:
* Koma heimilum landsins til hjálpar, gera leiðréttingu á lánum landsmanna. Á við bílalán líka.
* Útrásarvíkingum og eigendum og stjórnendum bankanna verði birt sannleiks og sáttanefnd. eignir þeirra verði skráðar að beiðni yfirvalda og einhverjar þeirra kyrrsettar.
* Spillinguna burt.
* Gagnsæi við störf og úthlutanir á vegum hins obinbera.
* Rannsókn verði stórefld og margfalt meira fjármagni veitt til að velta öllum steinum við, (margfalt meira fjármagn, það skilar sér tilbaka í formi endurheimtingar á fjármagni ísem komið hefur verið undan).
Nýtt Ísland og Hagsmunasamtök Heimilanna eru samtök sem eru rekin af hugsjón og í sjálfboðavinnu sem yfir100 manns koma að með einum eða örðum hætti. Allir með eitt markmið sem er að berjast fyrir hagsmunum heimilanna og vera málsvari fólksins gegn stjórnvöldum þar sem verkalýðsforystan er gjörsamlega lömuð og múlbundin vegna pólitískra sérhagsmuna örfárra sem öllu stjórna innan hennar.
Það vakti athygli mína að Sveinbjörn Ragnar Árnason var títtnefndur á þessum fundi sem og öðrum.
Sveinbjörn hefur gagnrýnt stjórnarmenn VR harðlega fyrir að fylgja ekki eftir kosningaloforðum sínum. Hann hefur sér til saka unnið að gagnrýna prímadonnurnar sem hoppuðu upp í gullvagninn við fyrsta tækifæri. Hvort hann hafi gengið of langt í þeirri gagnrýni ætla ég ekki að leggja dóm á hér en vil benda félagsmönnum okkar á vefsíðu eins og www.nyttisland.is . Sveinbjörn er líklega einn harðasti baráttumaðurinn á Íslandi í dag gegn spillingunni í fjármálakerfinu og hafa einstaklingar eins og Eva Joly ofl. Notið góðs af rannsóknarvinnu hans í gegnum hvítbók ofl.
Sveinbjörn hefur einnig aðstoðað mig í þeirri miklu rannsóknarvinnu sem ég hef verið að vinna í sem þið fáið að sjá afrakstur af innan fárra vikna.
Ég hvet alla til að kynna sér þessar síður og það sem hann stendur fyrir áður en þið byrjið að kasta steinum. Og hvet þá stjórnarmenn sem tala hvað mest niðrandi um Sveinbjörn að líta í eigin barm og skoða hvað þið sjálf hafið lagt af mörkum í baráttunni gegn spillingunni.
Forystusauðir ASÍ styðja verðtryggingu,fagna aðkomu AGS og ríkisábyrgð á Icesave sem verður líklega síðasti naglinn í líkistu velferðar á íslandi eins og við þekkjum hana í dag.
Hér er rekið samfélag útvaldra sem græða á kostnað almennings í landinu. Gróðinn er engin snilld og hinir útvöldu eru engir snillingar.
Gróðinn er þýfi. Gróðinn er lögvarinn blóðpeningur.
Hinir útvöldu eru nútímavæddir þjófar og þjófnaðurinn fer fram í skjóli bankaleyndar og þagnarskyldu. Þjófnaðurinn fer fram um hábjartan dag beint fyrir framan nefið á okkur undir verndarvæng ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins.
Verkalýðshreyfingin er að velta yfir 10 milljörðum á ári, rekstrarkostnaður er um 2 milljarðar.
Lífeyrissjóðirnir eru að velta um 300 milljörðum á ári og rekstrarkostnaður um 4 milljarðar.
Það fer um 60% af heildar launum okkar í skatta og önnur launatengd vel falin gjöld.
Gleymum því ekki að VIÐ almenningur erum ríkið og VIÐ eigum lífeyrissjóðina, og það erum VIÐ sem greiðum í stéttarfélögin.
Það erum Við sem getum breytt þessu.
Hvað viljum VIÐ ?
Við getum ekki kennt starfsfólki stéttarfélaga um aumingjaskap þeirra sem stjórna.
Eftir höfðinu dansa limirnir.
Kær Kveðja
Ragnar Þór Ingólfsson
Stjórnarmaður VR.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)