Með fulla körfu af fúleggjum.

Ofurlaun lífeyris forstjóra,háar þóknanir banka og stjórnarmanna voru réttlættar með gríðarlegri ábyrgð,þekkingu og reynslu í fjárfestingum. Snillingarnir sem stjórna af miklum móð, kerfi sem væri ónýtt ef innsýn þeirra í frumskóg fjárfestinga nyti ekki við. 

Menn nefndu til sögunnar talnadæmin þ.e. að forstjóri sem fær 35 milljónir í árslaun og skilar 0.5% betri ávöxtun er að skila sjóðsfélögum 1.300 milljóna betri tekjum osfrv.

Staðreyndin er sú að lífeyrissjóðir hafa lögum samkvæmt mjög takmarkaðar heimildir til fjárfestinga. Gríðarlegt fjármagn á markaði sem er afar smár með litla sem enga fjölbreytni. Innlend hlutabréf og önnur verðbréf þurfa að vera ,lögum samkvæmt, skráð í kauphöll íslands. Flest félög og skuldabréfaútgáfur sem skráðar voru í kauphöll íslands tengdust útrásar elítunni og fjárglæpum þeirra. Kauphöllin var því eins og full karfa af fúleggjum.

Hver var svo öll snilldin?

Eignastýring fór að mestu fram hjá bönkunum sem tóku til sín háar þóknanir og gátu í sumum tilfellum stýrt ávöxtun með því einu að kaupa og selja til þess eins að auka þóknanir og stýra ávöxtun.

Það sem vekur meiri athygli er að skráð verðbréf í kauphöll íslands ásamt markaðsskráðum innlendum hlutabréfum er megin uppistaða flestra sjóða samkvæmt lögum. þetta þýðir að ef við tækjum fjárfestingakosti sjóðanna sem þessir snillingar fengu milljónatugi við að velja úr og settum simpansa þeirra í stað, bindum fyrir augu og réttum dartpílu til að kasta í fjárfestingaskífuna, yrðu yfirgnæfandi líkur á því að simpansanum hefði vegnað betur en ofurlaunuðum forstjórunum.

Meðalraunávöxtun lífeyrissjóða sem taka við 12% iðgjaldi, síðustu 10 árin eða frá því að lögin um skyldutryggingar lífeyrisréttinda tóku gildi er rétt innan við 3% miðað við forstjóra útgáfuna af tapinu, sem er ótrúverðug í meira lagi.

Verðtryggðir Lífeyrisreikningar stærstu bankanna þriggja Kaupþings,Íslandsbanka og Landsbankans stóð í 5.97% meðal raunávöxtun yfir 10 ára tímabil.

Þetta er um 100% munur.

Við hljótum að taka að ofan fyrir öllum forstjórunum sem stýrðu öllum þessum sjóðum.

Nokkrir stærstu sjóðanna unnu náið saman í fjarfestingum sínum og sat t.a.m. Gunnar Páll í stjórn Kaupþings fyrir þrjá þeirra að minnsta kosti. Einnig má skoða hreyfingar 20 stærstu hjá Kauphöll Íslands þar sem glögglega má sjá hvernig ákveðnir sjóðir unnu saman með því að selja og kaupa í sömu félögunum.

Til hvers að vera með alla þessa sjóði ef þeir eru í raun að gera það sama.

Það sem aðskilur sjóðina í fjárfestingum er hversu vinveittir þeir eru einni valdaklíkunni framyfir aðra. Ákveðnir sjóðir tóku stöðu með eignarhaldsfélögum eigenda Íslandsbanka á meðan aðrir tóku stöðu með Kaupþingi og tengdum félögum,aðrir með Baugi osfrv. Þekkt dæmi þegar fólk sækir um vinnu og þarf að skipta um lífeyrissjóð til að fá starfið jafnvel þó ekki sé verið að skipta um starfsgrein.

þetta eru hlutir sem eiga ekkert sameiginlegt með markmiði sjóðanna sem er að verja hagsmuni sjóðsfélaga fyrst og fremst.

Í einu af ótal mörgum viðtölum mínum við aðila sem tengjast kerfinu, kemur alltaf í huga mér einn háttsettur starfsmaður eignastýringar stóru bankanna sem orðaði svo skemmtilega: Við tókum þyrlu í staðin fyrir limmósíur við bókuðum 6 stjörnu hótel í staðin fyrir 5 stjörnu, skipti engu máli því við fáum þetta margfalt til baka. Þetta var orðin hálfgerður ferðaklúbbur forstjóranna, og við vorum að keppast við hin fjármálafyfirtækin að bjóða þeim í betri ferðir.... þetta var orðið algjört rugl !

Grunnhugtak viðskiptafræðinnar er að geyma ekki öll eggin í sömu körfunni.Lífeyrissjóðirnir voru með fulla körfu af fúleggjum.

Ekki voru lífeyrissjóðirnir með sólarvarnir fyrir útrásarsólinni sem skildi eftir sig sviðna jörð alls staðar sem hún skein og hún skein glatt á sjóðina.

Ragnar Þór


Bloggfærslur 15. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband