Stöðugleikasáttmáli fyrir hverja ?

Gerð stöðugleikasáttmála ASÍ og SA eru líklega ein mestu umboðssvik verkalýðsforystunnar gagnvart launafólki eftir afnám vísitölutryggingar launa árið 1983 og verðtrygging lána var látin halda sér.

Fyrir hverja er stöðugleikinn?

Með þessu glórulausa og algerlega innihaldslausa væntingaplaggi um betri heim og sól í haga, afsalaði verkalýðsforystan sér réttinum til að segja samningum upp einhliða og byrja upp á nýtt. Þess í stað var farið í að verja samninga frá árinu 2007 sem eiga ekkert sameiginlegt við það ástand sem við stöndum frami fyrir í dag.

Launahækkunin sem fékkst í kjölfar samkomulagsins voru skitnar 6.500 krónur á mánuði sem fyrirtækin hafa tæplega efni á að borga nema skera frekar niður, jafnvel með uppsögnum. Þessi hækkun var farin út um gluggan áður en blekið var þornað í formi verðbóta húsnæðislána,hækkandi vöruverðs í bland við skattahækkanir og aðrar álögur frá ríki og sveitarfélögum sem hafa svo enn meiri hækkunar áhrif á neysluvísitölu svo fátt eitt sé nefnt. ASÍ lýtur undan.

Það er með öllu óskiljanlegt hvernig þessu var þröngvað í gegn án þess að leyfa félagsmönnum að kjósa um þennan vafasama sáttmála sem að mínu mati ætti að vera í ruslinu þar sem hann á heima.

Mér er enn í fersku minni þegar varaforseti ASÍ lagði mikla áherslu á að félagsmenn ættu síðasta orðið á trúnaðarráðsfundi VR. Það voru orðin tóm því á öðrum fundi með landsambandi verslunarfélaga kom fram að það þýddi ekkert að fara með þetta í atkvæðagreiðslu ef hin ASÍ félögin myndu ganga að þessari vitleysu. Einn talsmaður samkomulagsins sagði félagsmenn svo vitlausa að þeim væri ekki treystandi til að kjósa um þetta mál, þeir héldu að það væri verið að kjósa um Icesave.

Hvernig er hægt að gera stöðugleikasáttmála þegar þeir valdameiri hafa hag af óstöðugleika.

Á meðan ríkið dælir fjármagni í peningamarkaðssjóðina svo að fjármagnseigendur tapi sem minnstu, brenna fasteignir almennings upp á verðbólgubálinu sem aftur lagar eignastöðu banka og lífeyrissjóða til mikilla muna eftir útrásarfylleríið. Hér er um grófa mismunun á ferð. ASÍ lýtur undan sem fyrr.

Í stað þess að fara tafarlaust í vinnu við að bjarga heimilum þessa lands, nýta krafta okkar til afnáms verðtryggingar eða setja tafarlaust þak á verðbætur, finna raunhæfa lausn á vanda einstaklinga og heimila vegna myntkörfulána þar sem fjármögnunarfyrirtæki og bankar ganga mjög harkalega fram, lýtur ASÍ undan. 

Þetta er skammarlegt fyrir hreyfinguna sem ætti að taka hagsmunasamtök heimilanna sér til fyrirmyndar enda eru þau samtök að gera meira fyrir fólkið í landinu en félögin sem raka inn félagsgjöld til að leigja okkur niðurgreidda sumarbústaði og aðra þjónustu.

Ég sat einn af mörgum fundum sem stjórnarmaður í VR og hlustaði á plön og væntingar ASÍ til ársins 2013. Þar möluðu hagfræðingur ASÍ ásamt forystumönnum sambandsins um horfur á íslenskum vinnumarkaði og efnahagslífi ásamt leiðum út úr vandanum. Það er ekkert í þeirra plönum næstu árin sem tekur á helstu vandamálum launafólks nema innganga í Evrópusambandið.

Er friðurinn á vinnumarkaði og umboðssvikin til að stjórnvöld þurfi ekki að hafa verkföll eða lausa kjarasamninga hangandi yfir sér meðan okkur verður þvingað inn í evrópusambandið. Verður launafólk og fjölskyldur þeirra komnar hálfa leið fram af klettabrúninni þegar evrópusamningnum verður veifað framan í okkur sem töfralausn frá eymd og volæði?

Verður afnám verðtryggingar notuð sem skiptimynt fyrir atkvæði inn í evrópusambandið?

Sú framtíð sem blasir við ungum fjölskyldum þessa lands er að lífeyrissjóðir og bankar eru smá saman að taka eignarnámi í gegnum verðbætur húsnæðislána, aleigu fólks.

Er þjóðhagslega hagkvæmt að leggja slíkar birgðir á launafólk, að sjá meirihluta launamanna undir fertugu þurfa að byrja upp á nýtt eða stefna í þrot. Hvað gerist þegar stórskuldugir árgangar fara á lífeyri? Hvað kostar það samfélagið að halda okkur uppi á lífeyri þegar við skuldum meirihluta í fasteignum okkar? Þeir sem eru með myntkörfulán verða kanski komnir með jákvæða eiginfjárstöðu um fimmtugt þ.e.skulda markaðsvirði fasteigna sinna.

ASÍ og SA stjórna sameiginlega lífeyrissjóðum okkar og hafa þvertekið fyrir að skattleggja lífeyrisgreiðslur fyrirfram sem gæti skilað ríkissjóði tekjum sem jafngilda um 5% hækkun á tekjuskattstofni frá fyrsta degi án þess að nokkur taki eftir því. Nema lífeyrissjóðirnir sem þyrftu að losa vonlausar bréfaeignir mun fyrr til að standa undir lífeyrisskuldbindingum. Þá fyrst kæmi raunverulegt eignaverðmæti sjóðanna í ljós enda stórlega ofmetnar.Lífeyrissjóðirnir voru ekki með neinar sólarvarnir fyrir útrásarsólinni sem skilið hefur eftir sig rjúkandi brunarústir allstaðar sem hún skein og hún skein glatt á sjóðina svo mikið er víst.

Ef almenningur er að bíða eftir töfralausnum frá félögum sem þiggja um 1% af launum okkar mánaðarlega í félagsgjöld þá er það óþarfa bið.

VR greiðir 28 milljónir á ári til Landssambands Ísl.Verslunarfélaga sem eru regnhlífasamtök VR sem Varaforseti ASÍ stýrir en hún á sæti í yfir 20 nefndum og stjórnum víðsvegar í stjórnkerfinu.

Svo greiðum við aðrar 75 milljónir til ASÍ fyrir yfirumsjón hagsmunagæslu launafólks en þar fer fremstur í flokki Evrópusinnin og Samfylkingarmaurinn Gylfi Arnbjörnsson. Hvernig væri ef VR myndi greiða Hagsmunasamtökum heimilanna nokkrar milljónir en þeim virðist vera meira umhugað um framtíð okkar en ASÍ sem gerir ekkert annað en að verja helstu kosningamál samfylkingarinnar sem eru Evrópusambandið, lánalengingar og annað úrræðaleysi. Skrifstofu og stjórnunarkostnaður VR var 404 milljónir á síðasta ári. Við hljótum að geta gert betur en frjáls hagsmunasamtök heimilanna sem starfa af hugsjóninni einni saman. Eða hvað?


Bloggfærslur 21. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband