8.3.2009 | 15:02
Er hægt að bjarga lífeyrissjóðunum?
Kostnaður við rekstur lífeyrissjóða á íslandi er varlega áætlaður um 4 milljarðar á ári. Í ljósi þess að fjárfestingar þeirra eru að upplagi nákvæmlega eins er nauðsynlegt að velta upp þeirri spurningu hvort ekki sé hægt að hagræða í kerfinu og láta sjóðina vinna fyrir fólkið í stað þess að vinna fyrir forstjóravaldið.
Hér er dæmi um rekstrarkostnað Lífeyrissjóða.
Rekstrarkostn. | Launakostn. | Stöðugildi | Forstj.laun | |
Lsj. starfsmanna ríkisins | 815.281.000 | 245.000.000 | 38,4 | 19.771.000 |
Lífeyrissj. Verslunarmanna | 424.426.000 | 269.000.000 | 27,5 | 30.000.000 |
Gildi lífeyrissjóður | 367.750.000 | 188.373.000 | 23 | 21.534.000 |
Sameinaði Lífeyrissjóðurinn | 237.346.000 | 135.463.000 | 16 | 16.768.000 |
Stapi Lífeyrissjóður | 173.494.000 | 86.000.000 | 11,6 | 12.917.000 |
Stafir | 153.420.084 | 94.290.790 | 10,5 | 19.048.011 |
Samtals. | 2.171.717.084 | 1.018.126.790 | 127 | 120.038.011 |
Þetta eru 6 sjóðir af 37 sjóðum sem taka við iðgjaldi. Hafa ber í huga að margir þeirra eru smáir og umsýsla þeirra í höndum bankanna.
Með því einu að sameina og hagræða í kerfinu væri hægt að lækka rekstrarkostnað um að lágmarki helming og þannig stórbæta réttarstöðu maka sem missa fyrirvinnu og byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða sjóðsfélaga á stærð við Nordica Hótel. Þetta myndi skila sanngjörnum leigutekjum til sjóðsfélaga frá fyrsta degi í stað þess að sjóðsfélagar þurfi að selja undan sér fasteignir á misgóðum markaði, jafnvel á undirverði, til að komast framar á biðlistum. Til þess eins að fá húnsæði á stærð við kústaskáp á yfirfullum elliheimilum. Fjárfesting í steypu yrði verðtryggð án þess að það myndi bitna á sjóðsfélögum.
Sjóðirnir standa misvel og bjóða upp á mis góðar tryggingar fyrir sína sjóðsfélaga. Í dag hafa sjóðsfélagar sömuleiðis áunnið sér misgóð lífeyrisréttindi. Það væri hægt að styðjast við þær upplýsingar og reikna inn í nýjan sameiginlegan sjóð eða sjóði með sama hætti og gert er þegar sjóðsfélagi skiptir um lífeyrissjóð.
Það sem ég tel verða flóknara við hugsanlegt sameiningarferli eru misjöfn réttindi sem sjóðsfélagar hafa í hinum og þessum sjóðum, örorkubyrðin er misjafnlega há eftir sjóðum og sjóðir eru ýmist með aldurstengda eða jafna ávinnslu réttinda, og svo mætti áfram telja. Þetta eru hinsvegar smámunir miðað við þann heildarávinning fyrir sjóðsfélaga sem gæti náðst með aukinni hagræðingu og gegnsæi.
Einnig er gríðarlega mikilvægt að opna bókhald sjóðanna upp á gátt og setja strangar siðareglur í fjárfestingum þeirra. Þetta mætti m.a. gera með því að leggja blátt bann við fjárfestingum í félögum og sjóðum sem hafa ofurlaunastefnu og kaupréttasamninga og banna fjárfestingar í fyrirtækjum sem brjóta á réttindum launafólks. Ef sjóðir eða fyrirtæki verða uppvís að slíku ætti einfaldlega selja hlutin í þeim eða gjaldfella lánin. Þau félög verða þá einfaldlega að leita annað eftir fjármagni. Fjármagnið sjálft, siðareglur og gegnsæi myndu eitt og sér veita fyrirtækjum sem sækja í fjármagnið mun meira aðhald en áður hefur þekkst. M.o.ö. verður sýnilegt hvaða fyrirtækjum sjóðirnir eru að lána. Þá geta önnur fyrirtæki innan sama geira gert athugasemdir og þannig veitt hvort örðu nauðsynlegt aðhald og hvata til að hafa ávallt hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi.
Með þessari einföldu hugmynd eru peningarnir að vinna fyrir þá sem eiga þá. Einnig finnst mér mikilvægt í þessu samhengi að ávöxtunarkrafa sjóðsins verði í meðallagi.
Er hægt að láta lífeyri erfast?
Í ársreikningum lífeyrissjóða kemur fram að kostnaður við almmannatryggingakerfið þ.e. örorku, maka, barnalífeyri og rekstrarkostnað er um 20% af heildarskuldbindingum og framtíðarskuldbindingum sjóðanna á móti 80% til greiðslu lífeyris. Það ætti því ekki að vera mikið vandamál að skipta 12% iðgjaldinu hlutfallsega á milli almannatryggingasjóðs og Séreignar. Hagræðing með mikilli lækkun rekstrarkostnaðar myndi svo bæta rétt þeirra sem þiggja greiðslur úr almannatryggingakerfinu til mikilla muna. Foreldrar sem oftar en ekki eru með fjárhagslegar skuldbindingar gagnvart börnum sínum eða nánasta fjölskylda þeirra sem einstæðir eru og barnlausir munu þá erfa viðkomandi í stað þess að greiddur lífeyrir gufi upp og týnist að lokum í bréfabraski.
Forstjórarnir
Aftur að hagræðingar- og sameiningarferlinu, sem vissulega verður flókið, en ef viljinn er fyrir hendi ætti ekkert að standa í vegi fyrir því að hægt verði að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Nema þá kannski helst forstjórar og stjórnendur sjóðanna sem munu að öllum líkindum berjast á móti þessari þróun með kjafti og klóm. Dæmi eru um að við sameiningar sjóða hafi forstjórar verið keyptir út með himinháum starflokasamningum eða nokkura ára uppsagnarfresti svo þeir fáist til að sleppa takinu. Það getur verið miklum vandkvæðum bundið að fá menn til að sleppa takinu á gullkálfinum og þeim gríðarlegu völdum sem þeir hafa sem einræðisherrar yfir öllum þeim fjármunum sem sjóðirnir hafa yfir að ráða. Enda sitja flestir forstjórar lífeyrissjóða eins og ormar á gulli og finna því öllu til foráttu að sameinast.
Að lokum
Það er því ekki að undra að í augum flestra eru sjóðirnir álíka fjarri okkur og karlinn í tunglinu. Við þurfum að opna þetta meira og fá lífeyrissjóðina nær fólkinu, því flestir hafa ekki hugmynd um hvað þar fer fram, hvað þá hverjir stjórna. Þetta er jú sameign okkar allra en ekki peningahítur forstjóravaldsins, vildarvina og vildarfyrirtækja þeirra.
Ef við viljum breytingar verðum við að kjósa breytingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)