15.12.2009 | 10:26
Ræðan mín á Austurvelli 12/12.
Virðing og Réttlæti? Þetta eru stór orð. Hvernig náum við fram réttlæti ? Hvernig fáum við þá virðingu sem við eigum skilið.
Virðing og réttlæti fæst ekki fyrir flugpunkta eða heima í stofu.
Það er fullreynt að stóla á þá sem þiggja dágóðan hlut af launum okkar til að sinna hagsmunagæslu fyrir okkar hönd.
Við fáum ekkert upp í hendurnar gott fólk.
Við verðum að gera þetta sjálf.
Það hjálpar okkur engin.
Við horfum upp á stórfelldan þjófnað í fasteignum landsmanna í formi verðbóta og myntkörfulána.
Hverjir hirða þýfið?
Bankar og Lífeyrissjóðir hafa stórlagað eignastöðu sína með því að nota verðbætur húsnæðislána og stökkbreytt myntkörfulán til að breiða yfir tapið á útrásarbullinu.
Lífeyrissjóðirnir eiga að tryggja okkur lífeyri. En ekki með því að stela af okkur milljónum með vinstri til að borga okkur nokkrar krónur með þeirri hægri.
Heimilin eru okkar mikilvægasti lífeyrir og öryggisnet. Ef sjóðirnir tapa á braski sínu þá eiga fasteignir okkar að vera öryggisnetið sem grípur okkur. OKKUR en ekki banka og lífeyrissjóði.
Við þurfum að afnema Verðtryggingu tafarlaust og setja þak á vexti.
Þetta er eina leiðin til að þrýsta á að peningamálum verði stýrt hér af skynsemi með almanna hag að leiðarljósi í stað þess að gera það með rassgatinu. Með rassgatinu í þágu útvaldra á kostnað almennings eins og gert hefur verið síðastliðna áratugi.
Verkalýðsforystan skuldar launafólki að berjast fyrir afnámi verðtryggingar. Þetta er óuppgert loforð síðan vísitölutrygging launa var afnumin fyrir rúmlega 25 árum síðan, með einu pennastriki.
Er ekki komin tími til að standa við það loforð?
Stöðugleiki þarf að vera allra hagur ekki bara hins almenna.
Verðtrygging er mannanna verk og það eru engir aðrir sem geta tekið hana af.
Hagfræðingar ASÍ sem styðja þetta krabbamein sem er að éta upp heimilin innan frá spyrja, hvað á að koma í staðinn.
Ég segi: EKKI NEITT ! það er komin tími á að fjármagnseigendur taki ábyrgð á gjörðum sínum.
Það eru þeir sem hafa skapað þann óstöðugleika og það ástand sem við okkur blasir í dag og það eru þeir sem eru varðir á kostnað almennings. Við höfum borgað brúsann alltof lengi.Við höfum borgað brúsann í 25 ár.
Það eru yfir 30 lífeyrissjóðir sem taka við lögbundnu 12% iðgjaldi af launum alls vinnandi fólks.
Af hverju alla þessa sjóði?
Ekki þurfa norðmenn marga olíusjóði svo mikið er víst.
Við borgum 37,2% í skatt.Við borgum 12% í lífeyrissjóð 7% í Tryggingagjald
Við borgum í Stéttarfélagög, Sjúkrasjóð, Orlofssjóði,Starfsmenntunarsjóði,endurmenntunar,símenntunar- og endurhæfingasjóði til SA/ASÍ.
Hvaða nöfnum sem þetta nú allt saman heitir borga launafólk og atvinnurekendur nálægt 60% af heildarlaunum sínum í einhvers konar skatt ef launatengd gjöld eru tekin með í reikningin.
Í síðustu kjarasamningum var samið um enn einn sjóðinn sem heitir endurhæfingarsjóður sem hefur þann tilgang að fækka öryrkjum á kostnað öryrkja.
Þessi sjóður kemur til með að hafa um 3000 milljónir til ráðstöfunar. Hver ætli stjórni þessum sjóð? Gylfi Arnbjörnsson, Vilhjálmur Egilsson og co.
Þetta er enn eitt skrefið í átt að einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar.
Þetta er enn eitt skrefið í átt að því að þeir sem greiða ekki til stéttarfélaga verður gróflega mismunað.
Er ekki komið nóg af sjóðum?
Aðilar vinnumarkaðarinns og lífeyrissjóðirnir eru orðnir Ríki í Ríki sem keppast um stærri og stærri hlut af launum almennings.
Hverjar eru kröfur aðila vinnumarkaðarins í dag, á meðan heimilin standa í ljósum logum?
Kröfurnar eru yfirráð yfir atvinnuleysistryggingasjóði. Sem þýðir að 7% tryggingagjald færist frá Ríkinu yfir til aðila vinnumarkaðarins. Þetta hefur ekkert að gera með hag atvinnulausra heldur völd yfir stærri sneið af kökunni.
Er ekki komin tími til að vinna fyrir okkur? Okkur sem borgum laun þessara verkalýðsgæðinga.
Ekki var neyslusköttunum mótmælt sem engu skiluðu nema hækkun húsnæðislána !
Ekki kom til greina að skoða skattlagningu lífeyris sem er líklega eina raunhæfa leiðin til að hlífa heimilunum.
Forystusauðir ASÍ styðja verðtryggingu,fagna aðkomu AGS og ríkisábyrgð á Icesave sem verður líklega síðasti naglinn í líkistu velferðar á íslandi eins og við þekkjum hana í dag.
Fyrir hverja er þetta fólk að vinna?
Ég segi NEI við AGS
Ég vil frekar lifa á fiski, en sem máltíð á diski, hjá þessu hyski.
Hér er rekið samfélag útvaldra sem græða á kostnað almennings í landinu. Gróðin er engin snilld og hinir útvöldu eru engir snillingar.
Gróðinn er þýfi. Gróðinn er lögvarinn blóðpeningur.
Hinir útvöldu eru nútímavæddir þjófar og þjófnaðurinn fer fram í skjóli bankaleyndar og þagnarskyldu. Þjófnaðurinn fer fram um hábjartan dag beint fyrir framan nefið á okkur undir verndarvæng ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins.
Verkalýðshreyfingin er að velta yfir 10 milljörðum á ári, rekstrarkostnaður er um 2 milljarðar.
Lífeyrissjóðirnir eru að velta um 300 milljörðum á ári og rekstrarkostnaður um 4 milljarðar.
Það fer um 60% af heildar launum okkar í skatta og önnur launatengd vel falin gjöld.
Gleymum því ekki að VIÐ almenningur erum ríkið og VIÐ eigum lífeyrissjóðina, og það erum VIÐ sem greiðum í stéttarfélögin.
Það erum Við sem getum breytt þessu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)