9.11.2009 | 10:55
Kistulagning ASÍ.
Er það rétt að ASÍ hafi átt frumkvæðið að frestun launahækkana? Hér má sjá minnisblað sem staðfestir að upprunalega hugmyndin kom frá forystu ASÍ.
"Í janúar sl. Fóru SA fram á það við ASÍ að fyrirtækin fengju möguleika á sveigjanleika við að efna samningana, þannig að endursamið yrði um tímasetningu hækkana og áfangaskiptingar. Miðað var við að samningarnir yrðu þó komnir að fullu til framkvæmda í lok samningstímans. Settu SA fram hugmyndir í þessum efnum. Þessu svaraði ASÍ með því að setja fram þá hugmynd að öllum launabreytingum 1. mars yrði frestað til 1. júlí og að í júnímánuði yrðu teknar ákvarðanir um framhaldið. Viðræður aðila hafa byggst á þessari hugmynd."
Þetta staðfestir að hin gríðarlega spenna sem var á milli SA og ASÍ var ekkert nema leikrit þar sem félagarnir Gylfi og Vilhjálmur voru í aðalhlutverkum. Menn stóðu með kaffibolla í hönd og þrömmuðu framhjá upplýstum gluggum, svo sjónvarpsvélarnar myndu örugglega ná að mynda skrípaleikinn, því það stóð alltaf til að hækka launin
Það eitt að ASÍ hafi svo átt frumkvæðið að frestun launahækkana er í sjálfu sér kistulagning alþýðusambandsins.
En hver er staðan ?
Kaupmáttur launa er í frjálsu falli.
Verðbætur húsnæðislána eru að éta upp ævisparnað okkar.
Skuldajöfnunar úrræði stjórnvalda, sem samin voru í höfuðstöðvum ASÍ eru til háborinnar skammar og frestar skelfilegri stöðu heimila með því að tengja skuldastöðu, þeirra verst settu, við launaþróun landsmanna.
Hvað er framundan?
Kaupmáttur launa skerðist að lágmarki um 15% á næsta ári.
Húsnæðisverð lækkar um þriðjung.
Verðbólgan verður ????
Skattar munu hækka.
Er eitthvað öryggisnet fyrir alþýðuna ?
Eina öryggisnetið sem sett var fyrir okkar hönd í stöðugleikasáttmála og kjarasamninga voru verðbólgumarkmið í LOK samningstíma. En þá eru samningar lausir hvort sem er.
Öryrkjar taka nú á sig skerðingu frá lífeyrissjóðum á sama tíma og sjóðirnir samþykkja að greiða 0,13% af öllum iðgjöldum í starfsendurhæfingarsjóð sem Gylfi verður í forsvari fyrir, en í þann sjóð greiða launþegar 0,13% og atvinnurekendur 0,13% samtals 0,39% af öllum launum. Þetta var ein af forsendum karasamnings og stöðugleika. Þurfum við enn einn sjóðinn sem rekin er sem fé án hirðis af elítu auðvaldsins.
Hér með lýsi ég yfir vantrausti á Gylfa Arnbjörnsson og skora á hann að segja af sér án tafar.
Ragnar Þór Ingólfsson
Stjórnarmaður í VR.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)