Guð hjálpi launafólki ! Svör Gylfa.

Gylfi svarar nokkrum svörtum spurningum mínum með rauðu og ég svara honum svo aftur með bláu.

 

Hver er staðan ? Kaupmáttur launa er í frjálsu falli og mun rýrna um 15% á næsta ári í það minnsta samkv. Spám.

Þetta er ekki allskostar rétt. Kaupmáttur kauptaxta okkar aðildarfélaga mun aukast á samningstímabilinu (2008/2-2010/10) eftir að tryggt var að kjarasamningar halda gildi sínu. Hins vegar mun kaupmáttur almennra launa (markaðslauna) trúlega lækka um 8% á næsta ári og færa okkur aftur til ársins 2004 í kaupmætti.

Vil nota orð Gunnars Tómassonar, einn áhugaverðasti og reyndasti hagfræðingur okkar Íslendinga, sem sagði svo eftirminnilega.  Íslenskir Hagfræðingar eru aldir upp á tómu bulli!

Það er hægt að orða hlutina á marga vegu Gylfi. Hvernig getur þú horft framan í hinn almenna launamann og sagt honum að kaupmáttur hans muni aukast á næsta ári. Sú alvarlega staða sem blasir við launafólki er hafin yfir hugtakabullið og reikningsæfingar.

Varstu ekki annars að meina, kaupmáttur mun skerðast minna sem nemur smánarlegum taxtahækkunum. Kaupmáttur mun trúlega lækka um 15% jafnvel meira ef skattahækkanir verða miklar. Hagspár eru einskis virði á þessum ólgu tímum og ef ég man rétt hafa verðbólguspár Seðlabankans einu sinni verið innan við 15% skekkjumörk. Það var árið 2002.

Af hverju voru ekki sett skilyrði við gerð kjarasamnings og við gerð stöðugleikasáttmálans um stöðugleika heimilanna sem er grunnstoð samfélagsins ?

Stöðugleiki heimilanna verður ekki greindur frá stöðugleika kaupmáttar og atvinnu. Með stöðugleikasáttmálanum var komið í veg fyrir hrun kaupmáttar og meira atvinnuleysi en ella stefndi í og þess freistað að tryggja framgang umsaminna launahækkana. Með því voru grunnstoðir samfélagsins varðar í hruninu, en verkefninu er ekki lokið ennþá og því mikilvægt að beina kröftum okkar að áformum stjórnvalda í atvinnu- og skattamálum.

 

Einu grunnstoðirnar í samfélaginu sem voru varðar voru grunnstoðir fjármagnseigenda,banka og lífeyrissjóða.

Hvernig eigum við að treysta þér Gylfi? Að beina kröftum okkar að áformum stjórnvalda í skatta- og atvinnumálum!! Ekki heyrðist hóst né stuna úr kraftlausum kroppi ASÍ þegar settir voru á sykurskattar, bensínálögur og áfengisskattur sem engu skilaði, nema hærri verðbólgu og verðbótum á húsnæðislánin. Það er nú ljóti stöðugleiki kaupmáttar, heimila og atvinnu sem þú lýsir og verður fróðlegt að sjá hver afstaða ykkar verður til þeirra skattahækkana sem framundan eru eftir að þið hafið hafnað skattlagningu á stóriðju og hafnað skattlagningu á lífeyrissjóði. Hvað er þá eftir annað en fyrirtækin og heimilin?

Menn eiga að fara varlega með stór orð, þér hefur tekist að eiðileggja hugtakið stöðugleiki. Ég hef aldrei skilið hvernig menn geta gert stöðugleika sáttmála þegar þeir valdameiri í samfélaginu hafa beinan hag af óstöðugleika. 

Verðbætur húsnæðislána eru að éta upp ævisparnað okkar og mun gera það áfram á næsta ári. Af hverju beitir ASÍ sér ekki fyrir leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstól húsnæðislána eða í það minnsta að sett verði þak á verðbætur til að setja eitthvað öryggisnet fyrir heimilin?

Ekki hefur verið sýnt fram á hvaðan á að taka fjármagn til að fara í svo almenna lækkun skulda, og mikil hætta á því að það séu einmitt félagsmenn okkar (einkum millistéttin) sem yrði að borga þetta með sköttum eða minni lífeyri. Því hefur afstaða ASÍ verið að tryggja réttarstöðu heimila gagnvart bankakerfinu þannig að það þurfi að axla ábyrgð á eigin útlánastefnu út frá þeirri grundvallar hugmynd að miðað verði við greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi. Annað verði einfaldlega fært niður.

Það getur verið að peningarnir séu ekki til, en þeir voru til svo mikið er víst. Það hefði ekki þurft meira fjármagn en c.a. helming af því sem búið er að dæla inn í peningamarkaðssjóðina. Ef þú hefðir unnið vinnuna þína þá væri kanski búið að leysa þennan hluta vandans.

Bankarnir tóku húsnæðislánin yfir með 44% afföllum. Þarf einhverja peninga? Á að rukka heimilin með 100% álagningu á húsnæðislánin svo hægt sé að réttlæta afskriftir óreiðumanna?

Að þú segir ASÍ vera að tryggja réttarstöðu heimila gagnvart bankakerfinu! Skammastu þín Gylfi. Fólk er að leita réttar síns SJÁLFT ! Gagnvart bankakerfinu sem valtar yfir félagsmenn okkar. Venjulegt fólk er að ráða sér lögfræðinga eða fara í greiðsluverkfall með Hagsmunasamtökum Heimilana sem starfa af mikilli hugsjón án þess að þiggja krónu af umbjóðendum sínum.  

Gengistryggð íbúðarlán og bílalán eru að ganga frá fjölskyldum félagsmanna okkar. Af hverju í ósköpunum hefur ASÍ ,með alla sína lögfræðinga, ekki látið kanna lögmæti gengistryggðra lána sem virðast hafa verið kolólögleg?Hjá ASÍ starfa tveir

lögfræðingar sem sinna verkefnum á sviði vinnuréttar og þjónustu við aðildarsamtökin á því sama sviði. Grannt er fylgst með þeim könnunum sem þegar hafa verið gerðar á lögmæti gengistryggðra lána af til þess hæfum lögfræðingum.

Ætla þeir bara að fylgjast með eða eigum við von á því að heyra eitthvað frá þeim? Þ.e. áður en fleiri fara í þrot eða flytja af landi brott. Bankarnir og fjármögnunarfyrirtækin hafa valtað yfir fólk með gengistryggðar skuldbindingar sem eru að öllum líkindum kolólöglegar. Þlílíkir varðhundar! 

Skuldajöfnunar úrræði stjórnvalda, sem samin voru í höfuðstöðvum ASÍ eru til háborinnar skammar og frestar skelfilegri stöðu heimilanna með því að tengja skuldastöðu, þeirra verst settu, við almenna launaþróun. Hvernig dettur ASÍ í hug að samþykkja úrræði sem eru til þess fallin að etja saman launafólki þ.e. eiga þeir sem þurfa greiðslujöfnun að mótmæla launahækkunum þeirra sem ekki þurfa slík úrræði ? 

Þeir sem þurfa greiðslujöfnun þurfa ekki að mótmæla launahækkunum vegna þess að greiðslujöfnunarhlutinn endurgreiðist í takt við greiðslujöfnunarvísistölu sem vegur saman kauphækkanir og atvinnustig. Úrræðið etur því ekki launafólki saman en bindur þvert á móti saman hagsmuni af því að draga úr atvinnuleysi samhliða launahækkunum.

Hvernig er hægt að að taka þá verst settu, afskrifa niður í greiðsluþol viðkomandi, og setja eftirstöðvar á hliðarreikning sem greiðist svo eftir því hvort að laun í landinu hækki eða hvernig atvinnustig þróast.

Það er ekki nóg með að ASÍ verji verðtrygginguna, heldur býr til nýjar.

Hvernig væri að setja allar skuldir Haga á greiðslujöfnunarreikning sem bundin er veðurfari á vesturlandi. Það sem fæst upp í þær að lokum verður notað til að greiða upp greiðslujöfnunarreikninga heimilana. Þetta gætum við gert við fleiri fyrirtæki útrásarkóngana.

Ef að kennarar fá 20% launahækkun og hafa ekki nýtt sér úrræðaleysuna. Þá geta skuldir hækkað hjá verkamannafjölskyldu sem þurfti á greiðslujöfnun að halda. Vonandi fylgist þið grannt með þessari þróun.

Er eðlilegt að verðbætur á húsnæðislánum okkar séu færðar yfir á reikninga fjármagnseigenda?  Af hverju gerði ASÍ ekki athugasemdir við það þegar Ríkið mismunaði þegnum þessa lands gróflega með því að moka hundruðum milljarða í peningamarkaðssjóði fjármegneigenda, meðan sparnaður venjulegs fólks sem er bundin í fasteignum er að brenna upp?

Til þessara aðgerða var gripið án nokkurs samráðs við ASÍ. Launafólk eru mikilvægustu eigendur sparifjár í þessu landi og þúsundir þess áttu innistæður í bönkum sem varðar voru að fullu og í peningamarkaðssjóðum sem varðir voru að hluta. Engin ein aðgerð mun hjálpa meira við að vernda sparnað í fasteigum önnur en sú að hemja verðbólgu, skapa atvinnu, auka kaupmátt og skapa um leið markað fyrir fasteignir. ASÍ hefur ætíð litið á íbúðarhúsnæði sem öruggt athvarf fjölskyldunnar samhliða því að geyma sparnað. Hvorutveggja þarf að verja en fjölskylduna fyrst. Þess vegna hefur ASÍ beitt sér fyrir aðgerðum til þess að ná niður greiðslubyrði og aðgerðum sem tryggja niðurfellingu skulda umfram greiðslu- og veðþol.

 

bla,bla,bla,bla....

 

Það er alrangt hjá þér Gylfi að greiðslujöfnun og það úrræðaleysi sem þið standið fyrir TRYGGI niðurfellingu skulda. Niðurfelling skulda er bundin við ákveðna þróun sem engin getur sagt til um hvernig verður. 

 

Þessar klisjur duga skammt þessa dagana. Aðgerðarleysi verkalýðsfhreyfingarinnar undir þinni forystu hefur valdið heimilunum meiri skaða en nauðsynlega þurfti svo mikið er víst.

Af hverju var stöðugleikasáttmálinn og kjarasamningurinn ekki settur í dóm hins almenna félagsmanns ?

Vegna þess að stöðugleikasáttmálinn er ekki „kjarasamningur“ heldur sameiginlega yfirlýsing ríkisstjórnarinnar, SA og ASÍ. Umboð ASÍ við gerð sáttmálans var sótt til aðildarsamtakanna. ASÍ fer ekki með sjálfstætt kjarasamningsumboð, en hvert aðildarfélag hafði val um það í febrúar að leita eftir afstöðu sinna félagsmanna með allsherjar atkvæðagreiðslu.

Það var gríðarleg pressa frá miðstjórn ASÍ um að setja samningin ekki í atkvæðagreiðslu. Vinsælustu rökin voru þau að ef við felldum þetta, hefði miðstjórn ASÍ hvort sem er umboð til að fresta þessu sem yrði svo kjánalegt fyrir hreyfinguna.... Önnur var sú að félagsmenn væru svo vitlausir að þeir héldu að þeir væru að kjósa um Icesave... Svo þriðja að það væri ekki tími til að framkvæma atkvæðagreiðsluna sem trúnaðarráð var búið að samþykkja að fara í. Þessu var þröngvað úr höndum félagsmanna með ömurlegum hætti. 

Er eitthvað öryggisnet fyrir alþýðuna ? Eina öryggisnetið sem sett var fyrir okkar hönd í stöðugleikasáttmála og kjarasamninga voru verðbólgumarkmið í LOK samningstíma. En þá eru samningar lausir hvort sem er.

Það er rangt að eina öryggisnetið felist í verðbólgumarkmiði eins kjarasamnings. Öryggisnet launafólks byggir á áratuga þrotlausri baráttu. Grundvöllur þess felst m.a. í almannatryggingum sem rót eiga í kröfum verkalýðshreyfingarinnar, örorku og eftirlaunalífeyriskerfi sem samið var um á sjöunda áratugnum, öflugu og víðtæku neti sjúkratrygginga í kjarasamningum, sjúkrasjóðum og lífeyrissjóðum. Hreyfingin byggði jafnframt upp verkamannabústaðakerfi sem stjórnvöld rústuðu í lok tíunda áratugarins gegn öflugum mótmælum ASÍ og af þeirri ráðstöfun súpum við seyðið nú. 86% aðild að verkalýðsfélögum gefur hreyfingunni þann styrk sem til þessa hefur þurft.

Á íslensku: Verkalýðskerfið er yfirfullt af allskyns sjóðum sem ekki má snerta eða nota í neitt nema það sem þóknast þröngri valdaklíkunni sem öllu stjórnar. Hvað er Ásmundur Stefánsson að gera í dag?

 

Hver var afstaða ASÍ um skattlagningu lífeyrissjóða?

Í stað þess að bæta hag launafólks var enn einn sjóðurinn stofnaður. Til að fækka öryrkjum á kostnað öryrkja. 

 

Eru einhverjir raunvörulegir fyrirvarar, öryggisnet, fyrir launafólk í stöðugleikasáttmálanum eða kjarasamningunum, mér reynist lífsins ómögulegt að finna þá ?

 

Öryrkjar taka nú á sig skerðingu frá lífeyrissjóðum á sama tíma og sjóðirnir samþykkja að greiða 0,13% af öllum iðgjöldum í “starfsendurhæfingarsjóð” sem Gylfi verður í forsvari fyrir, en í þann sjóð greiða launþegar 0,13% og atvinnurekendur 0,13% samtals 0,39% af öllum launum. Þetta var ein af forsendum karasamnings og stöðugleika. Þurfum við enn einn sjóðinn sem rekin er sem fé án hirðis af elítu auðvaldsins. ASÍ hafnaði ályktun til lífeyrissjóða um að fresta skerðingu lífeyris öryrkja. Þurfum við enn einn sjóðinn þegar gengið er svo harkalega að kaupmætti okkar?

 

Hlutverk starfsendurhæfingarsjóðs er að endurhæfa launafólk sem lendir í áföllum og er ætlað að tryggja því endurkomu og áframhaldandi atvinnuþátttöku í stað þess að lenda á örorkubótum eða í langtímaatvinnuleysi. ASÍ hafði í samstarfi við atvinnurekendur, Öryrkjabandalagið o.fl. aðila reynt að fá stjórnvöld til að sinna þessu verkefni án árangurs og því tóku ASÍ og SA frumkvæði að því að leysa þetta mikilvæga verkefni. Sjóðurinn er aldrei mikilvægari en einmitt nú og öll aðildarsamtök ASÍ sömdu um greiðslur til hans við viðsemjendur sína og stjórn hans er skipuð fulltrúum verkalýðsfélaga innan ASÍ, BSRB, BHM og KÍ ásamt fulltrúum SA, ríkisins og sveitarfélaganna.

Hver stýrir þessum sjóð ? Svar Gylfi Arnbjörnsson.

Ef þú hefur svona miklar áhyggjur af öryrkjum af hverju hafnaðir þú tillögu okkar um að beina því til lífeyrissjóðanna að fresta fyrirvaralausum skerðingum á örorkubótum?

Hver er afstaða ASÍ til Verðtryggingar?

ASÍ hefur lagt áherslu á að tryggja hér trúverðugan og varanlegan stöðugleika í verðlagi með þeirri einu færu leið sem við sjáum, og það er að sækja um aðild að ESB og taka upp evru sem gjaldmiðil. Launafólk hefur nú á 25 árum í tvígang mátt upplifa hrun okkar gjaldmiðils, í upphafi níunda áratugarins og aftur nú. Í bæði skiptin glötuðum við fjórðungi eigna okkar og rauntekna sem er algerlega óviðunandi. Á meðan við búum við ótraustan gjaldmiðil og sveiflukennt verðlag hefur verðtrygging tryggt launafólki bæði lægri vexti og jafnari greiðslubyrði þegar upp er staðið, en vandamálið er og mun vera verðbólgan, því hún mun alltaf birtast okkur í lántökukostnaði á endanum.  

Hvernig mun Evran breyta vonlausri skuldastöðu heimila, Ríkis, Sveitafélaga og Fyrirtækja? Hvernig leysir Evran og Evrópusambandið jöklabréfavandann?

Hvert er varaplanið Gylfi ef að fólk hafnar evru og evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðsu? Er ekki algerlega óábyrgt af þér að mynda hreyfingunni svo sterka skoðun í Evrópumálum þegar samningaviðræður eru ekki hafnar og ekkert sem liggur á borðinu um sérmeðferð á auðlindanýtingu landsins?

Veistu eitthvað meira en við hin? 

Er eitthvað Plan-B?

ASÍ fagnar aðkomu AGS og Icesave sem hafa sett þjóðina í skuldaklafa sem ekki á sér hliðstæðu í mannkynssögunni. Svo þegar að ræða á um skattlagningu lífeyrissjóða til að nauðverja heimilin, þá hefur Gylfi allt í einu áhyggjur af skuldabirgði barna okkar.

Hver verður birgðin á samfélaginu þegar stórskuldugir árgangar fara á lífeyri?

Verkalyðshreyfingin veltir yfir 10 milljörðum á ári og rekstrarkostnaður er um 2 milljarðar á ári.

Eg vona að þú erfir það ekki við mig Gylfi en mér finnst uppskeran heldur rýr.

Guð hjálpi íslensku launafólki.

Ragnar Þór.


Bloggfærslur 13. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband