10.11.2009 | 13:32
Opið bréf til Gylfa.
Sæll Gylfi þar sem þú reynir að svara spurningu minni varðandi það hver átti frumkvæðið að frestun launahækkana, ætla ég að biðja þig um að svara kjarna bloggfærslu minnar sem og nokkrum öðrum spurningum sem ég hef til forystu ASÍ.
Sjálfur tel ég skýringar þínar ótrúverðugar.
Þrátt fyrir að þú sért aðeins búinn að sitja í stól forseta ASÍ í eitt ár er þú væntanlega nú þegar orðinn óvinsælasti forseti sem setið hefur á þeim stalli í sögu Alþýðusambands Íslands. Sem er afrek útaf fyrir sig.
Rekstrarkostnaður verklýðshreyfingarinnar á Íslandi er líklega nálægt 2.000 milljónum á ári og veltan líklega nálægt 10.000 milljónum á ári.
Ég er með 35.000 kr. á mánuði fyrir að sinna stjórnarsetu í VR ásamt því að sinna fullri vinnu. Það er krafa mín og þeirra tæplega 60% félagsmanna sem kusu mig að Gylfi Arnbjörnsson geri grein fyrir þeirri vinnu sem hann þiggur ríflega milljón á mánuði í heildarlaun fyrir. Ég var kosinn í stjórn VR í fyrstu opnu kosningum félagsins þar sem hinn almenni félagsmaður fékk að kjósa sér forystu.
Hver er staðan ?
Kaupmáttur launa er í frjálsu falli og mun rýrna um 15% á næsta ári í það minnsta samkv. Spám.
Af hverju voru ekki sett skilyrði við gerð kjarasamnings og við gerð stöðugleikasáttmálans um stöðugleika heimilanna sem er grunnstoð samfélagsins ?
Verðbætur húsnæðislána eru að éta upp ævisparnað okkar og mun gera það áfram á næsta ári.
Af hverju beitir ASÍ sér ekki fyrir leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstól húsnæðislána eða í það minnsta að sett verði þak á verðbætur til að setja eitthvað öryggisnet fyrir heimilin?
Gengistryggð íbúðarlán og bílalán eru að ganga frá fjölskyldum félagsmanna okkar.
Af hverju í ósköpunum hefur ASÍ ,með alla sína lögfræðinga, ekki látið kanna lögmæti gengistryggðra lána sem virðast hafa verið kolólögleg?
Skuldajöfnunar úrræði stjórnvalda, sem samin voru í höfuðstöðvum ASÍ eru til háborinnar skammar og frestar skelfilegri stöðu heimilanna með því að tengja skuldastöðu, þeirra verst settu, við almenna launaþróun.
Hvernig dettur ASÍ í hug að samþykkja úrræði sem eru til þess fallin að etja saman launafólki þ.e. eiga þeir sem þurfa greiðslujöfnun að mótmæla launahækkunum þeirra sem ekki þurfa slík úrræði ?
Er eðlilegt að verðbætur á húsnæðislánum okkar séu færðar yfir á reikninga fjármagnseigenda?
Af hverju gerði ASÍ ekki athugasemdir við það þegar Ríkið mismunaði þegnum þessa lands gróflega með því að moka hundruðum milljarða í peningamarkaðssjóði fjármegneigenda, meðan sparnaður venjulegs fólks sem er bundin í fasteignum er að brenna upp?
Af hverju var stöðugleikasáttmálinn og kjarasamningurinn ekki settur í dóm hins almenna félagsmanns ?
Er eitthvað öryggisnet fyrir alþýðuna ?
Eina öryggisnetið sem sett var fyrir okkar hönd í stöðugleikasáttmála og kjarasamninga voru verðbólgumarkmið í LOK samningstíma. En þá eru samningar lausir hvort sem er.
Öryrkjar taka nú á sig skerðingu frá lífeyrissjóðum á sama tíma og sjóðirnir samþykkja að greiða 0,13% af öllum iðgjöldum í starfsendurhæfingarsjóð sem Gylfi verður í forsvari fyrir, en í þann sjóð greiða launþegar 0,13% og atvinnurekendur 0,13% samtals 0,39% af öllum launum. Þetta var ein af forsendum karasamnings og stöðugleika. Þurfum við enn einn sjóðinn sem rekin er sem fé án hirðis af elítu auðvaldsins.
ASÍ hafnaði ályktun til lífeyrissjóða um að fresta skerðingu lífeyris öryrkja.
Þurfum við enn einn sjóðinn þegar gengið er svo harkalega að kaupmætti okkar?
Hver er afstaða ASÍ til Verðtryggingar?
Með von um skjót svör.
Ragnar Þór Ingólfsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)