7.1.2009 | 11:51
Viðtal við formann VR.
Það kom á óvart í viðtali við Gunnar Pál á Bylgjunni í morgun hversu snjall pólitíkus hann er. Hann náði að stýra umræðunni sér í vil og sneiddi afar nett framhjá vandræðalegum og óafsakanlegum afglöpum sínum í starfi.
Það lá við að tárvot hvolpa augun sæust í gegnum útvarpið.
Hvar í fjandanum hefur verkalýðsforystan verið síðustu þrjá mánuði þegar hvað harðast hefur verið sótt að launafólki að það á sér vart hliðstæðu?
Launalækkanir, uppsagnir, atvinnuleysi, verðhækkanir, verðbólgan, Vaxtastigið, Ríkisstjórnin.
Ekki hefur heyrst hóst né stuna frá formanni VR.
Þessum tíma hefur Gunnar Páll varið í baklandskönnun fyrir áframhaldandi formannssetu með köku- og matarboðum trúnaðarmanna eftir að upp komst um glórulausa gjörnunga hans sem stjórnamanns í Kaupþingi.
Viðtalið á Bylgjunni í morgun:
Hann telur að tap VR vegna bankahrunsins sé ekki nema 5% af heildareignum En það er það sem bankarnir segja mér sagði hann. Bankarnir sjá um fjárfestingar sjóðsins bætir hann við.
Gunnar er viðskiptafræðingur að mennt ,formaður VR, stjórnarformaður LV og stjórnarmaður gamla Kaupþings.
Veit hann ekki hvernig bankarnir fjárfestu peningum VR? Veit hann ekki í hvaða hlutabréfasjóðum var fjárfest í fyrir 550 milljónir? Veit hann ekki í hvaða bönkum, fjármálastofnunum og fyrirtækjum VR átti 3,3 milljarða skuldabréfaeign? Hvað með tap á erlendu skulda- og hlutabréfasafni?
Gunnar segir tapið 5% og verið sé að bíða eftir hugsanlegri skuldajöfnun á skuldabréfaeign félagsins.
Það er líklegra að gamla knattspyrnu félagið mitt Leiknir Reykjavík vinni meistaradeildina í fótbolta en að tap VR sé einungis 5%.
Skuldajöfnunin sem á aldrei eftir að koma, þýðir að bankarnir bæti tjón VR vegna tapaðra skuldabréfalána og færa tapið yfir á skattgreiðendur sem þurfa þar af leiðandi að taka á sig stærri skell vegna skuldbindinga gömlu bankanna með t.d. greiðslum á ríkistryggðum innlánum að viðbættum afkriftum skulda lykilstarfsmanna og vildarvina Kaupþings sem Gunnar sjálfur kvittaði undir sem stjórnarmaður gamla kaupþings.
Gunnar Páll er að segja okkur að bankarnir séu að skoða tapflutning VR yfir á skattgreiðendur.
Tapið er staðreynd, Hver á að borga?
Þegar Gunnar tekur við sem formaður VR breytist verkalýðsfélagið í þjónustumiðstöð fyrir VR félaga, þá sem vilja sumarbústað á leigu, niðurgreidd líkamsræktarkort osfrv.
Félagsmenn skulu sjá um að semja um sín laun sjálfir enda ekki í verkahring Gunnars Páls?? Halló !!!
Vitanlega eru markaðslaun hærri hjá stórum hópi félagsmanna sem skýrist af framboði og eftirspurn eftir vinnuafli en ekki af einka afrekum formanns VR.
Gunnar skilur ekki að stór hópur félagsmanna er ekki í aðstöðu til né hefur bein í nefinu til að semja um sín laun sjálfir enda hafa margir félagsmenn setið eftir með sárt ennið í launaskriði undanfarinna góðæris ára.
Hvað með þetta fólk.
Hvar í fjandanum hefur Gunnar Páll verið eftir að kreppan skall á, þegar hvað harðast er sótt að launa og fjölskyldufólki.
Gunnar Páll hefur verið að sýsla ýmislegt frá bankahruninu eins og að fá auknar heimildir fyrir lífeyrissjóðina til að fárfesta í hlutabréfum sem aldrei fyrr, fá í gegn eignaupptökulið til að geta leigt sjóðsfélögum íbúðir sínar þegar búið er að hirða þær upp í skuldir sem lífeyrissjóðirnir áttu stóran þátt í að stofna til og að lokum hefur hann reynt sem aldrei fyrr að þegja af sér Kaupþingsskandalinn og styrkja sína eigin stöðu innan félagsins.
Meðan félagsmönnum blæðir og er ýtt til hliðar hugsar Gunnar um eigin rass.
Ég held að flestir VR félagar, einstaklingar og fjölskyldufólk séu með sín mál nokkuð á hreinu t.d. séreignasparnað, líftryggingar og barnatryggingar, barnakaskó,brunatryggingar, brunakaskótryggingar,innbústryggingu og innbúskaskótryggingu og kaskó-kaskó tryggingar eða hvað þetta nú alltsaman heitir.
Ég er sjálfur tví líftryggður og með séreignasparnað því að Lífeyrissjóðurinn sem ég greiði 12% af launum mínum í alla ævi getur ekki séð mér fyrir mannsæmandi lífs viðurværi eftir að vinnuskyldu minni er lokið.
Ég held að ég vilji ekki borga í VR lengur þar sem tryggingar mínar dekka flest allt það sem Gunnar telur VR standa fyrir í dag. Það eru eflaust til nóg af lögfræðinum sem telja sig geta sótt mál á atvinnnurekendur fyrir mína hönd eins og að sækja slysabætur þar sem viðkomandi greiðir fyrir þjónustuna ef árangur næst með samkomulagi eða málssókn.
Er VR orðin enn einn milliliðurinn í velferðarkerfinu því ekki getum við flokkað VR sem verkalýðsfélag við núverandi aðstæður.
Ragnar Þór Ingólfsson
Bloggar | Breytt 8.1.2009 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)