Færsluflokkur: Bloggar

Aumingjaskapur eða ásetningur Alþýðusambandsins?

Skilyrðislaus stuðningur ASÍ við verðtryggingu fjárskuldbindinga hlýtur að gera sambandið vanhæft til að fjalla um hagsmuni launafólks.

Er það ekki ótrúlegt að stærstu hagsmunasamtök launafólks skuli verja fjármagnseigendur sem stjórna stöðugleikanum og hafa beinan hag af óstöðugleika í skjóli verðtryggingarinnar?

Hvernig væri ástandið ef að þeir sem stjórna stöðugleika hefðu allt undir með stöðugleika en ekki öfugt?

Sama Alþýðusamband og segir ógerning að afnema verðtryggingu taldi fullkomlega eðlilegt að allar innistæður án takmarkana væru tryggðar upp í topp þó svo að stór hluti þeirra innistæðna sem ríkið gekkst fyrir, án lagalegrar skildu, væri sama þýfið og almenningur þarf að standa skil á í formi skatta.

Hversu stór hluti af þessum "tryggðu" innistæðum voru arðgreiðslur og bónusar úr gjaldþrota eignarhalsfélögum sem ekkert eru í dag nema ábyrgðalausar skuldir sem bíða barna okkar og barnabarna?

Hvernig í ósköpunum má það vera að ALÞÝÐU sambandið skuli verja verðtrygginguna og styðja innistæðutryggingar umfram lögbundin viðmið sem tryggðu mestu mismunun íslandssögunnar, að innan við 5% þjóðarinnar sem eiga meira en helming allra innistæðna fengu allt sitt á meðan almenningur var gerður að öreigum. 

Stór hluti almennings, sem hafði bundið allt sitt sparifé í fasteign, er á góðri leið með að missa aleiguna og gott betur því líklegt er að flóðgáttir greiðsluþrota munu nú opnast upp á gátt.

Hvert er svar lífeyrissjóða og verkalýðshreyfingarinnar við þessari þróun? Svar þeirra er að búa til leigufélög "miðstýrðum leigumarkaði"  til að taka á móti fasteignum umbjóðenda sinna svo hægt verði að leigja þær á sem hæsta verði þ.e. að hámarka arðsemi lífeyrissjóðanna á slíku félagi.

Ekki er horft til þeirrar staðreyndar að ávöxtun lífeyrissjóða á verðtryggðum eignasöfnum sínum er sú lélegasta á eftir hlutabréfum, ef gríðarlegt tap vegna gjaldmiðlasamninga og verðbætur á fasteignalánum almennings væru ekki tekin með í reikninginn. Nauðsynlegt yrði að reikna raunverulegt virði skuldabréfa í þessu samhengi.

Þeir lífeyrisþegar sem standa best í dag fóru skuldlausir á lífeyri og höfðu þak yfir höfuðið sem árangur ævistarfsins í stað innihaldslausra loforða.

Kjarasamningar hafa verið lausir í 113 daga. Verkalýðshreyfingin hefur ekki haldið einn einasta samstöðufund frá hruni en samstaða launafólks hlýtur að vera beittasta vopn alþýðunnar.

Nú tala vopnlausir smákóngar verkalýðsins um ábyrgar kröfur og að lítið sé til skiptanna, að skammarlegir kjarasamningar séu bundnir því að ábyrgjast Icesave skuldir einkafyrirtækis því ekki sé hægt að mismuna innlendum innistæðueigendum og þeim erlendu. Allt annað er lýðskrum og populismi.

Ef ég tek augun af baksýnisspeglinum og horfi í gegnum sótsvarta framrúðuna er ekki mikið til að gleðjast yfir. Verðtrygging fjárskuldbindinga mun ganga af hverju heimilinu dauðu með hverju verðbólguskotinu á fætur öðru. Afnám gjaldeyrishafta, almenn verðbólga í hinum vestræna heimi með hækkandi erlendum framleiðslukostnaði, olíuverð, fasteignamarkaður sem er að taka við sér sem er stór hluti af neysluvísitölu grunni og margt fleira.

Er aumingjaskapur Alþýðusambandsins gagnvart umbjóðendum sínum tilviljun eða vilji hinna útvöldu í að viðhalda sömu kerfisvillunni og hrundi á haustmánuðum 2008 á kostnað alþýðunnar? Er það tilviljun að þeir sem stýra viðbrögðum almúgans við gegndarlausu óréttlætinu eru hálaunamenn með gríðarleg ítök og völd í samfélaginu.

Aumingjaskapur eða ásetningur?

Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarmaður í VR.

 

 

 


Ég vona að fólk fari að rísa upp aftur.

Ég vona að fólk fari að rísa upp aftur. Breytingar koma ekki að sjálfu sér. Auðvaldinu hefur tekist að drepa niður baráttu vilja alþýðunnar með
hjálp verkalýðsforystunnar.

mbl.is Tillögu um málssókn vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málsókn gegn stjórnendum Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Bera stjórnendur einhverja ábyrgð yfir höfuð?

Það er auðvelt að blóta í hljóði og bölva ástandinu í eldhúsinu heima hjá sér.

Hér eru málin sem ég ætla að leggja fram á ársfundi Lífeyrissjóðs verslunarmanna þann 16.mars 2011.

Ég ætla að gera eitthvað í málunum og stefna stjórnendum sjóðsins og krefjast þess að sjóðsfélagar fái að vita hvernig farið er með fjármuni sjóðsins.

Stjórnendur sjóðsins hafa hingað til hafnað allri skoðun. Ég skora því á alla sjóðsfélaga sem vilja gera eitthvað í málunum að mæta á fundinn og styðja tillögu mína.

1)      Ársfundur Lífeyrissjóðs verslunarmanna 16. mars 2011 samþykkir að lagt skuli fyrir stjórn og framkvæmdastjóra sjóðsins, að upplýsa um alla fjármálagerninga sem gerðir hafa verið í nafni sjóðsins og nema hærri upphæð en kr.150.000.000,- á árunum 2004-2011.  Skal rækilegt yfirlit sett saman um þetta og gert sjóðsfélögum aðgengilegt á heimasíðu sjóðsins.  Jafnframt skal þeim sjóðsfélögum sem óska nánari upplýsinga um einstaka fjármálagerninga sem eru umfram framangreinda fjárhæð, veittar allar upplýsingar og gögn er að einstökum viðskiptum lúta.

2)       Fyrirhuguð er málssókn fyrir dómstólum þar sem leitast verður við að fá skorið úr um persónulega ábyrgð einstakra stjórnarmanna og stjórnenda lífeyrissjóðsins. Aðalfundur Lífeyrissjóðs verslunarmanna 16. mars 2011 samþykkir að kosta málsókn Ragnars Þórs Ingólfssonar sjóðsfélaga í Lífeyrissjóði verslunarmanna á málefnum er varða gjaldmiðlasamninga og lánveitingar lífeyrissjóðsins til tengdra aðila á árunum 2004-2011. Samþykkir ársfundurinn að sjóðurinn greiði málskostnað vegna málsóknar Ragnars Þórs Ingólfssonar, enda skili hann ítarlegu yfirliti um skiptingu kostnaðarins að málarekstri loknum. 

Ragnar Þór Ingólfsson

Sjóðsfélagi í Lífeyrissjóði verslunarmanna.

 

 


Geta stjórnendur fyrirtækja notað almannafé til að kaupa sér óflekkað mannorð?

Endurbirti hér grein um málið sem ég skrifaði í 27.September 2009 og varpar ljósi á afstöðu formanns VR til málsins á þeim tíma.

Eftir að við gerðum athugasemdir og kærðum til FME, skipun Brynju Halldórsdóttir í Stjórn Lífeyrissjóð Verslunarmanna, eftir að hún sat í stjórn gamla Kaupþings og bar þannig ábyrgð á einu stærsta gjaldþroti heimssögunnar, hefur hún í kjölfarið sagt sig úr stjórn LV..

Stjórnarformaður Lífeyrissjóðs Verslunarmanna.

Kristinn Örn formaður VR lagði mikla áherslu á að Ragnar Önundarson yrði skipaður stjórnarformaður LV. Við vorum nokkur í stjórninni sem töldum þessa skipan vera glórulausa enda vissum við ekkert um manninn né áherslur hans og afstöðu til bankaleyndar svo fatt eitt sé nefnt, í ljósi þess að krafa félagsmanna var gegnsæi í fjarfestingum sjóðsins.

Hver er Ragnar Önundarson?

Ragnar Önundarson var áður framkvæmdastjóri Kreditkort hf, sem varð svo Borgun hf.  Hann, ásamt Halldóri Guðbjarnasyni, voru höfuðpaurarnir í stærsta viðurkennda samkeppnislagabroti Íslandssögunnar og gæti verið vafasamt að maður með þennan afbrotaferil sé ráðinn eða skipaður sem formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna.  Auðvitað er batnandi mönnum best að lifa, en það er rétt rúmlega ár síðan hann var látinn víkja sem framkvæmdastjóri frá Borgun vegna samkeppnislagabrotana. 

Þar sem samkeppnislagabrotin voru viðurkennd lögbrot, setur það spurningarmerki við hæfi stjórnarformannsins.  Sáttin sem náðist við Samkeppniseftirlitið fólst í því að kortafélögin greiddu 735 mkr. sekt, m.a. gegn því að Samkeppniseftirlitið sendi málin ekki áfram til ríkissaksóknara, að öðrum kosti hefði ríkissaksóknari líklega ákært stjórnendur og ábyrgðarmenn, sem hefðu yfir höfði sér hugsanlega fangelsisvist.  Með því að viðurkenna brotin og greiða háar sektir, sem voru greiddar úr sjóðum fyrirtækjanna og eigenda þeirra (viðskiptabankanna), fengu einstaklingarnir aflausn synda sinna og geta nú komið sér fyrir á ný í ábyrgðarstöðum. 

Geta stjórnendur fyrirtækja notað almannafé til að kaupa sig frá persónulegum ákærum og dómum og fengið óflekkað mannorð í kaupbæti?

Það sem vekur upp spurningar, er að Kristinn Örn formaður VR treysti þessum manni 100% til að fara með eftirlaunasjóð okkar og gerir enn. Kristinn vissi af þessu máli þegar hann skipaði Ragnar Önundarson sem stjórnarformann LV en lét stjórn VR ekki vita af vafasömum bakgrunni hans.

Ragnar Önundarson hefur neitað sjóðsfélögum um sjálfsagðar upplýsingar um fjárfestingar sjóðsins og telur okkur vera að biðja sig um að fremja lögbrot, þrátt fyrir álit FME sem styður þessa upplýsingagjöf og telur hana þjóna hagsmunum sjóðsfélaga fyrst og fremst. 

Það er greinilega ekki sama hver biður Ragnar Önundarson um að brjóta lög! 

Upplýsingar um sáttina sem gerð var eftir samkeppnislagabrot Ragnars eru hér:

http://www.samkeppni.is/samkeppni/upload/files/samkeppniseftirlit/akvardanir/2008/akvordun4_2008_brot_greidslumidlunar_hf.-_kreditkorts_hf._og_fjolgreidslumidlunar_hf._a_bannakvaedum_samkeppnislaga.pdf

Önnur grein um sama mál eftir að formaður VR og Ragnar Önundarson svöruðu grein minni. Þeir vændu mig meðal annars um að vera vanheill á geði. Greinin birtist 27 október 2009.

 

Það voru ódýr svör hjá Ragnari Önundarsyni að hann hafi ekki verið aðili málsins.  En það sem hann gerir er athyglisvert, hann segir að samkeppnislagabrotin hafi verið á vegum og ábyrgð eigenda og stjórnarmanna.  Ef við skoðum það aðeins nánar, þá er hann með þessu að ásaka og beina ábyrgðinni á þessum viðurkenndu samkeppnislagabrotum að fyrrum stjórnarmönnum Borgunar hf. (áður Kreditkort hf.), sem voru m.a. þessir:
Birna Einarsdóttir  (núverandi bankastjóri Íslandsbanka), sat fyrir Glitnir árið 2007 og tók þ.a.l. þátt í samkomulaginu við Samkeppniseftirlitið
Finnur Sveinbjörnsson  (núverandi bankastjóri Nýja Kaupþings), sat fyrir Landsbanka Íslands á árinu 2008
Haukur Oddsson  (núverandi forstjóri Borgunar), var stjórnarformaður árið 2006, sat fyrir Glitnir.

Spurning hvort það væri tilefni fyrir Blaðamenn að skoða þessi svör aðeins nánar, hvort þessir aðilar eru á sama máli varðandi hver stóð á bakvið og beri ábyrgð á þessum viðkurkenndu samkeppnislagabrotum.  Það eitt að Ragnar Önundarson er að beina ábyrgðinni frá sér,og að þessum aðilum þarfnast nánari skoðun.  Ef Ragnar Önundarson hefur rétt fyrir sér, þá eru þessir aðilar vanhæfir í sínum núverandi störfum og það er í sjálfu sér stórmál.  Mér finnst þó líklegra að þessir aðilar verjist þessum ásökunum og beini ábyrgðinni aftur að Ragnari…, þar sem Ragnar Önundarson var gerandinn í þessu máli og hugsanlega án vitundar stjórnarmanna.

Málið endaði með sátt, eins og Ragnar Önundarson segir í grein sinni í Mogganum 29 sept., en hann nefndi ekki að sáttin fól í sér að félögin viðurkenndu samkeppnislagabrot, sem skv. Samkeppniseftirlitinu voru langvarandi og víðtæk ólögmæt samráð, eða mjög alvarleg brot á 10. og 11. gr. samkeppnislaga sem voru til þess fallin að valda verulegri röskun á samkeppni, brotin voru framin af ásetningi og höfðu það m.a. að markmiði að koma keppinauti út af markaði, brotin náðu yfir langt tímabil’. 

Eins og forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir var þetta mál fast á eftir olíufélagamálum í alvarleika.  Þá fól sáttin í sér að málið yrði ekki sent áfram til ríkissaksóknara, en þar hefði Ragnar Önundarson orðið formlegur málsaðili og fengið sinn andmælarétt (og væntanlega fengið sinn dóm fyrir).  Þetta er kannski það alvarlegasta í þessu máli, að kortafélögin og eigendur þeirra borguðu fyrir að málið yrði ekki sent áfram til ríkissaksóknara, en það er ótrúlegt að það sé hægt að semja um slíkt. 

Það mætti því segja að kortafélögin hafi greitt fyrir það að Ragnar Önundarson héldi sínu frelsi og yrði ekki persónulega refsað.  Það að Ragnar Önundarson teljist fyrir vikið ekki vera málsaðili, þrátt fyrir að hafa verið annar höfuðpaurinn og gerandinn í þessum lögbrotum, staðfestir það að fyrirtæki geti brotið af sér án þess að framkvæmdastjóri beri neina ábyrgð af því.  Þetta eru mjög hættuleg skilaboð og ég efast um að menn sætti sig við að hafa mann, ekki bara með slíkan bakgrunn, heldur sérstaklega með slíkt mat sem stjórnarformann lífeyrissjóðs Verslunarmanna.

Ragnar Þór Ingólfsson 

Stjórnarmaður í VR.

 

 


Konungur Lýðskrumsins!

Í stað þess að svara málefnalegum og gagnrýnum spurningum kjósa verkalýðskóngarnir (milljónaklúbburinn) að tala sig í kringum hlutina með slíkum hætti að umbjóðendur þeirra sitja ringlaðir eftir. Þeir kjósa að fela sig á bakvið þögnina sem umlikur handónýta verkalýðsforystuna og fílabeinsturninn sem þeir búa í. 

Guðmundur Gunnarsson formaður rafiðnaðarsambandsins og vara stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum Stöfum fer hamförum gegn þeim sem opna á sér munninn gagnvart lífeyrissjóðunum og leyfa sér að gagnrýna þá. Hann talar um heilindi og vönduð vinnubrögð hjá stjórnendum lífeyrissjóðanna þá sérstaklega hjá sínum lífeyrissjóði,Stöfum, þar sem hann er vara stjórnarmaður. Allir sem halda öðru fram eru lýðskrumarar af verstu sort.

Af því tilefni er ég með spurningu til Guðmundar sem hann hefur fengið í athugasemda færslur sínar en eyðir spurningunni jafnharðan út og ég set hana inn. Reyndar hefur Guðmundur og aðrir samkóngar hans fengið ráðleggingar PR-þræla sinna séð að spurningum frá mér verði alls ekki svarað með opinberum hætti, hverjar sem þær kunna að vera. Því hef ég ákveðið að spyrja hann aftur á heimasíðu minni og þannig með áberandi og opinberum hætti. 

Af hverju eru starfsmenn N1 skyldaðir til að borga í lífeyrissjóðinn Stafi? Er það vegna þess að stærsti einstaki skuldari Stafa er N1?

Samkvæmt samtali mínu við stjórnarmann Stafa sem einnig er starfsmaður N1, þá fóru þessar stærstu lánveitingar sjóðsins ekki fyrir stjórn. Eru þetta faglegu vinnubrögðin með sparifé launafólks sem þú, Guðmundur Gunnarsson, ert alltaf að tala um? Getur þú sem varastjórnarmaður í Stöfum lífeyrissjóði svarað mér hvort samþykktir og vinnureglur sjóðsins voru brotnar og eru þetta vinnubrögðin sem tíðkast hjá lífeyrissjóðum almennt? Hver er skuldastaða N1 og hverjar eru tryggingar, ef einhverjar eru, í skuldabréfalánum sjóðsins til N1? N1 er skuldsett langt umfram verðmæti og samkvæmt mínum heimildum eru skuldabréfalán Stafa, aftast í kröfuröðinni.

Hverjar verða raunverulegar heimtur þessara lána?

Í ársskýrslu Stafaá bls.15 kemur fram að N1 er langstærsti skuldari sjóðsins, síðan er farið yfir afskriftir á skuldabréfum frá hruni sem sýnir að Stafir voru í nákvæmlega sömu fjárfestingavitleysunni og aðrir sjóðir. 

Úr Samþyktum og vinnureglum Stafa lífeyrissjóðs. 

5.5 Stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans. Stjórnin skal fjalla um allar meiriháttar ákvarðanir varðandi stefnumótun og starfsemi sjóðsins. Hún skal annast um að nægjanlegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna sjóðsins. Stjórn sjóðsins ræður framkvæmdastjóra, ákveður laun hans og önnur starfskjör og setur honum starfsreglur. Stjórn sjóðsins ræður forstöðumann endurskoðunardeildar eða semur við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila til að annast skipulagningu innri endurskoðunar. Stjórn skal einnig móta innra eftirlit lífeyrissjóðsins og skjalfesta eftirlitsferla.

5.5.2 Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins í samræmi við mótaða stefnu og fyrirmæli sem stjórn hefur gefið. Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn til sjóðsins. Framkvæmdastjórinn er ekki kjörgengur sem stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum. Ákvarðanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar skal framkvæmdastjóri aðeins taka með sérstakri ákvörðun stjórnar eða samkvæmt áætlun sem samþykkt hefur verið af stjórninni. Sé ekki unnt að bera meiriháttar ákvarðanir undir stjórnarfund, skal haft samráð við formann stjórnar og aðra stjórnarmenn eftir föngum. Slíkar ákvarðanir skal síðan taka fyrir á næsta stjórnarfundi.

5.7 Stjórnarmaður lífeyrissjóðs eða framkvæmdastjóri má ekki taka þátt í meðferð máls ef hann hefur hagsmuna að gæta sem kynnu að fara í bága við hagsmuni sjóðsins. Sama gildir ef um er að ræða ákvarðanir sem tengjast fyrirtæki þar sem stjórnarmaður kann að eiga umtalsverðra hagsmuna að gæta sem eigandi, stjórnarmaður eða starfsmaður. Skylt er þeim, sem í hlut á, að upplýsa um aðstæður sem valda kunna vanhæfi samkvæmt framansögðu.  

5.7.1 Stjórn sjóðsins og framkvæmdastjóri mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna, umfram aðra eða á kostnað sjóðsins.

Í stað þess að stappa stálinu í launafólk og standa í lappirnar, tala verkalýðskóngarnir um ábyrgar kröfur og hversu lítið sé til skiptanna. Í stað þess að efla samstöðu ala þeir á meðvirkni,uppgjöf og hræðslu.

Þeir eru Konungar Lýðskrumsins?

Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarmaður í VR


Lágmarksframfærsla.

Ágæti, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.

Viss hluti samlanda okkar þarf að lifa á lágmarkskjörum frá einum mánaðamótum til þeirra næstu. Til þessa hóps teljast: öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir, félagsbótaþegar og starfsmenn á lágmarkslaunatöxtum. Flestallir sem koma að ákvörðun um hversu mikið einstaklingar í þessum hópum hafa úr að spila hafa margfalt hærri tekjur og eru sökum þess illa búnir til að meta aðstæður skjólstæðinga sinna rétt.

Heildartekjur upp á 160 þúsund krónur á mánuði er staðreynd fyrir stóran hóp Íslendinga. Bæði rannsóknir þinna eigin starfsmanna, sérfræðinga og hyggjuvit meðalmannsins benda ótvírætt til þess að nánast ómögulegt sé að ná endum saman með fyrrnefndri upphæð.

Eftir umfangsmikla vinnu á vegum velferðarráðuneytisins var nýlega lögð fram ákaflega gagnleg skýrsla um neysluviðmið (Sjá hér). Hún er vel unnin í alla staði og gefur góða vísbendingu um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.

Vegna þessarar skýrslu var sett upp reiknivél (Sjá hér) á vef ráðuneytisins. Samkvæmt henni þarf einstaklingur í leiguíbúð 300.966 krónur í ráðstöfunarfé til þess að eiga fyrir nauðþurftum og öðru sem telst til mannréttinda eins og húsnæði og virkri þátttöku í samfélaginu.

Í ljósi alls þessa leitum við til þín með eftirfarandi spurningu:

Hvernig myndir þú, ágæti Guðbjartur, ráðleggja fólki að ná endum saman með áðurnefndum hundrað og sextíuþúsund króna tekjum á mánuði?

Ráðleggingar þínar gætu orðið upphafið að bættri umræðu um núverandi vandamál þeirra einstaklinga sem glíma við þessa spurningu 12 sinnum á ári.

 

Virðingarfyllst og með ósk um svör.

Ásta Hafberg

Björk Sigurgeirsdóttir

Gunnar Skúli Ármannsson

Elías Pétursson

Jón Lárusson

Kristbjörg Þórisdóttir

Ragnar Þór Ingólfsson

Rakel Sigurgeirsdóttir

 

Bréf með sömu fyrirspurn sent á Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands.

Afrit sent á fjölmiðla.


Hóflegar og ábyrgar kröfur launafólks og bjartsýni.

Ég var á upplýsingafundi VR um stöðu kjarasamninga í gærkvöldi og get ekki orða bundist.

Dagskipun verkalýðshreyfingarinnar er að launafólk sýni ábyrgð og fari fram á hóflegar launahækkanir, sem tryggi kaupmátt og viðhaldi stöðugleika. 

Hugmyndafræði SAASÍ gengur út á að fylkja sér á bakvið verðbólguspá seðlabankans (sem hefur aldrei staðist frá því að mælingar hófust) og bæta lítilræði við til þess að sýna fram á jákvæða og ábyrga kaupmáttaraukningu. Hugmyndirnar ganga út á 2,5-3% hækkun á ári í 3 ár þannig að mismunur á launahækkunum og verðbólgu verði jákvæður um 1-3% yfir samningstímann.

Á fundinum í gær kom skilyrðislaus stuðningur Alþýðusambandsins við verðtryggingu fjárskuldbindinga sem eitt og sér hlýtur að gera ASÍ vanhæft til að fjalla um hagsmuni launafólks.

Er það ekki ótrúlegt að stærstu hagsmunasamtök launafólks skuli verja fjármagnseigendur, sem stjórna stöðugleikanum og hafa beinan hag af óstöðugleika í skjóli verðtryggingar?

Hvernig væri ástandið ef að þeir sem stjórna stöðugleika hefðu allt undir með stöðugleika en ekki öfugt?

Vissulega eru lífeyrissjóðir fjarmagnseigendur sem aftur erum við fólkið. En hver er okkar mikilvægasti lífeyrir? Eignaupptakan á okkar mikilvægasta lífeyri í gegnum verðbætur er notaður sem spilapeningur í fjárhættuspili viðskiptalífsins þar sem allt snýst um völd og aðgang hinna útvöldu að almannafé, sem tapast svo í kerfisbundnum markaðsáföllum.

Þeir lífeyrisþegar sem standa best í dag fóru skuldlausir á lífeyri og höfðu þak yfir höfuðið sem árangur ævistarfsins í stað innihaldslausra loforða.

Verkalýðshreyfingin hefur stungið hausnum í sandinn gagnvart launafólki hingað til og er mér spurn um hvers lags ábyrgð og hófsemi ég á að sýna eftir allt sem á undan er gengið.

Hvaða ábyrgð, hófsemi og aðhald hefur verkalýðshreyfingin sýnt?

Við höfum séð ábyrgar skattahækkanir sem engu hafa skilað nema hækkun á neysluvísitölu.

Við höfum séð hófsamar og ábyrgar innistæðutryggingar án takmarkana þar sem stór hluti þeirra upphæða sem tryggður var, eru sömu skuldirnar og almenningur verður skattpíndur næstu áratugi til að greiða.

Við höfum séð ábyrgð og hófsemi í gjaldskrárhækkunum orkuveitunnar og niðurskurði hjá leikskólum og grunnskólum. 

Við þekkjum ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar í að mótmæla því að ríkið innheimti skattstofn sinn í séreignasparnaði til að hlífa heimilum landsins við frekari álögum.

Með ábyrgum og hófsömum hætti stakk Verkalýðshreyfingin hausnum á bólakaf í sandinn á meðan almenningur leitaði réttar síns vegna stökkbreyttra húsnæðis og bílalána og tók svo á endanum ábyrga afstöðu með fjármálafyrirtækjunum.

Með ábyrgum hætti studdi verkalýðshreyfingin Icesave samninginn sem hefði verið síðasti naglinn í líkkistu velferðar á íslandi ef almenningur hefði ekki risið upp og hafnað honum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nú ætlar verkalýðshreyfingin að bjóða launafólki í kökuboð þar sem sýnt verður fram á hversu lítið sé til skiptanna.

Hvar var verkalýðshreyfingin þegar fjármagnseigendur voru að skera sínar sneiðar af sömu köku sem ekkert er eftir af? Hvar var verkalýðshreyfingin þegar milljarðahundruðum var eytt í að kaupa verðlaus skuldabréf út úr peningamarkaðssjóðum sem ekki voru ríkistryggðir en í eigu og stjórnað af útvöldum.

Hvar var verkalýðshreyfingin þegar kökusneiðunum var sólundað í sama svartholið og kom okkur á hliðina?

26 milljarða kr. vegna VBS, 12 milljarða kr. vegna Sjóvár, 20 milljarðar vegna Saga Capital, 6 milljarða vegna Aska Capital, 5 milljarða vegna Byrs, 14 milljarða vegna Sparisjóðs Keflavíkur og væntanlega 3,5 milljarða vegna Byggðastofnunar og 20 milljarðar í SpKef.

Launafólk þarf svo sárlega á sterkri forystu að halda sem hefur kjark í að berjast gegn grímulausu óréttlætinu, en hefur yfir sér stjórn þar sem ákvörðunarfælnin, meðvirknin og tepruskapurinn er slíkur að það hálfa væri nóg.

Eru forystumenn verkalýðshreyfingarinnar kanski að starfa fyrir fjármagnseigendur og atvinnurekendur? 

Vil enda þetta á orðum vinar míns Guðmundar Más Ragnarssonar:

Velferðastjórnin búin að lækka barnabætur fjölskyldunnar um helming. Á sama tíma kemur glaðningur frá leikskóla, systkinaafsláttur lækkaður og gjaldið hækkað í ofanálag. Nýtt „endurvinslusorpstöðvargjald“ lagt á heimilið. Gengdarlausar skattahækkanir kryddaðar með hækkun allra tilfallandi gjalda. Væri ekki bara hreinlegra að vísa manni úr landi?

Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarmaður í VR.


Kvótamál og Kjarasamningar.

Eftir að SA setti það sem forsendu fyrir kjarasamningum að allri “óvissu” varðandi sjávarútveginn yrði eytt eða með öðrum orðum að nýtingaréttur útvaldra á auðlindum þjóðar væri tryggður, fór ég að hugsa um hversu langt verkalýðshreyfingin er komin frá uppruna sínum. Það eitt að hreyfingin beiti sér ekki gegn verðtryggingu veðskuldbindinga sem heldur stórum hluta launafólks í gíslingu segir í raun margt um ástandið. ASÍ talar um ábyrgar kröfur launafólks og ver í leiðinni sjúklegustu kerfisvillu samtímans.

Í ljósi þessa tel ég glórulaust að lífeyrissjóður okkar verði notaður til fjárfestinga í atvinnulífinu vegna óvissu um framtíð launafólks og atvinnulífsins. ASÍ hefur kastað fram hugmyndum um 3% hækkun á ári í 3 ár og þar með viðurkennt gríðarlegar eignatilfærslur frá almenningi til fjármagnseigenda ásamt kaupmáttarrýrnun sem á sér vart hliðstæðu. Skattahækkanir og aðrar álögur virðast ósýnilegar í augum verkalýðsgæðinganna sem þurfa sjálfir ekki að kvarta yfir sínum kjörum. 

Sífellt er talað um að fjárfesta þurfi í atvinnulífinu til að skapa störf og kvarta SA menn sáran undan þeirri óvissu því fjárfestingar í stjarnfræðilega skuldsettum sjávarútvegi eru engar.

Ég lagði því fram tillögu á stjórnarfundi VR í gærkvöldi um að beina þeim tilmælum til stjórnarmanna okkar í Lífeyrissjóði Verslunarmanna að setja allar fjárfestingar er tengjast atvinnulífinu í biðstöðu þangað til framtíð atvinnulífsins og félagsmanna okkar verður tryggð.

Ég sé ekki að það sé ábyrgt að setja fjármuni út í atvinnulíf þar sem allir kjarasamningar eru lausir og verkföll yfirvofandi. 

Það er alveg ljóst að atvinnulífið þarf sárlega á peningum okkar að halda. Eins og atvinnulífið þurfti á fjármagni lífeyrissjóðanna að halda fyrir hrun. Ég held að flestir viti hvaða vel launuðu störf voru sköpuð í kringum þann ósóma. Okkur er sagt að fjárfestingar þurfi til að skapa störf á meðan fjárfestingar lífeyrissjóðanna fara allar í að kaupa upp brunarústir hrunsins. Helsta lífæð þeirra fyrirtækja sem sjóðirnir fjárfesta í reiða framtíð sína á aukin kaupmátt og þar af leiðandi neyslu til þess eins að lifa af. Ekki er framtíðin björt í því samhengi svo mikið er víst.

Það er auðvitað óþolandi að horfa á eftirlaunasjóði okkar notaða til að endurreisa allt það sem illa fór við hrunið. Fögur loforð um ný vinnubrögð og gegnsæi eru orðin tóm. Engin raunveruleg breyting eða siðbót hefur orðið í atvinnulífinu þar sem ógagnsæi og leyndarhyggja er alls ráðandi.

Það hlýtur að vera lágmarks krafa launafólks að framtíð okkar verði tryggð með einhverjum hætti áður en við brjótum síðasta sparibaukinn.


Hvað er lífeyrir?

"Á meðan venjulegu fólki er refsað fyrir aðhald og skynsemi eru skuldasóðar verðlaunaðir með afskriftum. Skilgreina þarf fasteignir sem lífeyri." Greinin birtist í morgunblaðinu 4.febrúar 2011.

 Lífeyrir er sá aur sem við fáum greiddan eftir að vinnuskyldu lýkur með því að safna í sjóði 12% af launum alls vinnandi fólks, óskattlögðum til ávöxtunar áratugi fram í tímann. Einnig fáum við lítilræði ef áföll dynja yfir á lífsleiðinni. Svo bjartsýn er þessi hugmynd, að heimtur okkar úr kerfinu skulu verðtryggðar með því að ávaxta inngreiðslur á raunvöxtum sem eru hærri en hagvöxtur þjóðar. Sá galli er á annars ágætri hugmynd að einhvers staðar þarf að fjármagna það sem upp á vantar. Sá munur fæst eingöngu með aukinni skuldsetningu þjóðarbúsins eða skerðingum lífeyrisréttinda.

Lífeyrissjóðirnir standa flestir með neikvæðum hætti þannig að ávöxtunarkrafa þeirra er í raun hærri en lög gera ráð fyrir til að vinna upp skekkjuna. Við þetta bætist svo mikil óvissa um raunverulegt verðmæti eigna í bland við óuppgerðar gjaldeyrisafleiður og stjarnfræðilegar væntingar á nauðasamningum við hrunverja.

Á meðan lífeyrissjóðir lánuðu útrásarfyrirtækjum út á kampavín og kavíar var sjóðfélögum lánað út á fasteignaveð með 65% hámarks veðhlutfall og sjálfskuldarábyrgð. Sjóðsfélagar horfa á eigið fé sitt tekið eignarnámi af lífeyrissjóðum sem aftur fjárfesta iðgjöld okkar og verðbætur í sama svartholinu og kom þjóðarbúinu og samfélaginu á hliðina.

Geta skuldarviðurkenningar, merktar einhverri snilldar „group“ hugmyndinni, staðið undir framtíðarlífeyri okkar þar sem einu haldbæru veðin eru pappírinn og blekið sem tölurnar eru skrifaðar á?

Það sem raunverulega lagaði eignastöðu lífeyrissjóðanna eftir hrun eru rúmlega 126 milljarða verðbætur á fasteignalánum almennings. Þessi gríðarlega eignatilfærsla á okkar mikilvægasta lífeyri er vegna verðtryggingar fjárskuldbindinga og óráðsíu sjóðanna í fjárfestingum. Hér þurfum við að staldra aðeins við.

Á meðan venjulegu fólki er refsað fyrir aðhald og skynsemi eru skuldasóðar verðlaunaðir með afskriftum. Með því að frysta og endurfrysta afborganir og afskrifa, hafa einstaklingar jafnvel notið góðs af innistæðulausum skuldsetningum sínum, án endurgjalds, svo árum skiptir. Stjórnvöldum hefur tekist að viðhalda innistæðulausri neyslubólu í stað þess að leysa vandann strax. Skilaboð stjórnvalda eru skýr, að nægjusemi, aðhald og skynsemi borgar sig ekki og greidd skuld er tapað fé.

Með innistæðutryggingum, án takmarkana, tóku stjórnvöld afstöðu með þröngum hópi fjármagnseigenda á kostnað almennings. Virtist engu skipta þó stór hluti tryggðra innistæðna hafi skilið eftir sig sömu skuldir og venjulegt fólk á að þræla fyrir næstu áratugina.

Við vitum öll hvað þarf að gera en það bara gerist ekkert. Rétt eins og uppgjörið við fortíðina sem allir bíða eftir predika sömu bullandi meðvirku jakkafata-munnræpurnar yfir lýðnum og biðja um bjartsýni eftir að hafa stýrt öllu í strand. Sömu sérhagsmunaáherslurnar.

Ekki má eiga við kvótakerfið, annars verða engar fjárfestingar í yfirveðsettum og stjarnfræðilega skuldsettum sjávarútvegi. Ekki má eiga við verðtryggingu, ekki má leiðrétta skuldir heimilanna, ekki má skattleggja séreignasparnað o.s.frv.

Hvítflibbinn fór eftir lögum og við verðum að vera bjartsýn, það er jú 2% barbabrellu-hagvöxtur.

Skilgreina þarf eignahlut almennings í fasteignum sem lífeyri.

Með því að skilgreina fasteignir okkar sem lífeyri gefst lífeyrissjóðum kostur á að lækka vexti til húsnæðislána með því að tengja áunnin lífeyrisréttindi eignamyndun í fasteign. Ef lánið rýrnar eykst eignarhlutur (lífeyrir) en áunnin réttindi skerðast á móti og öfugt. Þetta gerir lífeyrissjóðum skylt að taka tillit til gríðarlegra hagsmuna sem almennir sjóðsfélagar eiga með eiginfjármyndun í fasteignum og hefði sjóðunum verið lagalega skylt að taka afstöðu með almennum skuldaleiðréttingum hefði þessi skilgreining verið til staðar. Í þessu samhengi þurfa lífeyrissjóðir ekki að berjast gegn afnámi verðtryggingar af sömu hörku og þeir hafa gert.

Aðrir kostir eins og að lífeyrissjóðir bindi frekar skuldbindingar sínar í eigin eignamyndun sjóðfélaga sinna hafa minni þensluáhrif á innlenda fjármálamarkaði og sjóðfélagar þurfa síður að eiga allt undir misgáfulegum ákvörðunum misviturra forstjóra. Lífeyrir er óaðfararhæfur og væri því ómögulegt að hirða þennan mikilvæga eignahlut okkar ef ófyrirsjáanleg áföll dynja yfir.

Heimtur sjóðsfélaga, sem hafa greitt í kerfið í 40 ár eða meira, eru sláandi litlar þrátt fyrir Ólafslögin 1979 hafi lífeyrissjóðir í stórauknum mæli fjárfest með verðtryggðum hætti. Nær allt launafólk sem greitt hefur í kerfið í 40 ár eða meira þarf viðbótargreiðslur frá ríkinu í gegnum Tryggingastofnun til að ná upp í lágmarksviðmið. Ríkið greiðir yfir 41.000 einstaklingum rúmlega 53,5 milljarða á ári í lífeyri eða helmingi meira en lífeyrissjóðirnir greiða út þrátt fyrir 60 ára tilvist. Nokkrir voru stofnaðir upp úr 1950, kerfinu komið á í núverandi mynd árið 1969 og lögbundið 1997. Þessar tölur eru fyrir utan opinbera kerfið.

Þeir lífeyrisþegar sem standa best í dag fóru skuldlausir á lífeyri og höfðu þak yfir höfuðið sem árangur ævistarfsins í stað innihaldslausra loforða.

Höfundur er sölustjóri og stjórnarmaður í VR.


Einstakt tækifæri fyrir VR félaga.

Nú er einstakt tækifæri fyrir félagsmenn VR að hafa áhrif í félaginu.

Aðalfundur er æðsta vald félagsins og er stjórninni skylt að fara eftir samþykktum hans.

Nú er Auka aðalfundur VR í kvöld þriðjudag 11.Janúar á Hilton kl.19:30 þar sem félagsmenn geta kosið um nokkrar tillögur sem stjórninni er skylt að vinna eftir.

 

  1. Kosið verður um beinan kosningarétt félagsmanna við stjórnar og formannskjör á móti sama fyrirkomulagi og varið hefur völd þröngs hóps, sem stjórnað hefur félaginu eins og einkahlutafélag, í áratugi.
  2. Kosið verður um hæfi stjórnenda í lífeyrissjóðnum. En meirihluti stjórnar VR hefur hafnað því að stjórnarmenn okkar í lífeyrissjóðnum gangist undir nýjar og hertar hæfniskröfur FME.

Önnur mál:

1.Fundurinn ályktar gegn verðtryggingu.

Fundurinn beinir þeim tilmælum til stjórnar og samninganefndar félagsins að beita sér fyrir afnámi verðtryggingar.

2.

Í ljósi alvarlegra athugasemda í rannsóknarskýrslu alþingis samþykkir aðalfundur VR að stjórn VR beiti sér af fullum þunga að fram fari opinber og óháð rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðs verslunarmanna í aðdraganda og kjölfar hruns fjármálamarkaða haustið 2008. Einnig að lánveitingar sjóðsins til tengdra aðila og gjaldmiðlasamningar sjóðsins verði skoðaðir sérstaklega.

Aðalfundur felur Stjórn VR að beita sér fyrir því að upplýsingar um lánveitingar lífeyrissjóðs verslunarmanna til fyrirtækja og fjármálastofnana verði gerðar aðgengilegar sjóðsfélögum.

3.

Að félagið beiti sér fyrir lýðræðisumbótum við kjör í stjórnir lífeyrissjóða og aðkoma atvinnurekenda að Stjórn eftirlaunasjóðs félagsmanna (lífeyrissjóðs verslunarmanna) verði takmörkuð.

Mætum öll og látum í okkur heyra.

 

Virðingafyllst

Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarmaður í VR.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband