Aumingjaskapur eða ásetningur Alþýðusambandsins?

Skilyrðislaus stuðningur ASÍ við verðtryggingu fjárskuldbindinga hlýtur að gera sambandið vanhæft til að fjalla um hagsmuni launafólks.

Er það ekki ótrúlegt að stærstu hagsmunasamtök launafólks skuli verja fjármagnseigendur sem stjórna stöðugleikanum og hafa beinan hag af óstöðugleika í skjóli verðtryggingarinnar?

Hvernig væri ástandið ef að þeir sem stjórna stöðugleika hefðu allt undir með stöðugleika en ekki öfugt?

Sama Alþýðusamband og segir ógerning að afnema verðtryggingu taldi fullkomlega eðlilegt að allar innistæður án takmarkana væru tryggðar upp í topp þó svo að stór hluti þeirra innistæðna sem ríkið gekkst fyrir, án lagalegrar skildu, væri sama þýfið og almenningur þarf að standa skil á í formi skatta.

Hversu stór hluti af þessum "tryggðu" innistæðum voru arðgreiðslur og bónusar úr gjaldþrota eignarhalsfélögum sem ekkert eru í dag nema ábyrgðalausar skuldir sem bíða barna okkar og barnabarna?

Hvernig í ósköpunum má það vera að ALÞÝÐU sambandið skuli verja verðtrygginguna og styðja innistæðutryggingar umfram lögbundin viðmið sem tryggðu mestu mismunun íslandssögunnar, að innan við 5% þjóðarinnar sem eiga meira en helming allra innistæðna fengu allt sitt á meðan almenningur var gerður að öreigum. 

Stór hluti almennings, sem hafði bundið allt sitt sparifé í fasteign, er á góðri leið með að missa aleiguna og gott betur því líklegt er að flóðgáttir greiðsluþrota munu nú opnast upp á gátt.

Hvert er svar lífeyrissjóða og verkalýðshreyfingarinnar við þessari þróun? Svar þeirra er að búa til leigufélög "miðstýrðum leigumarkaði"  til að taka á móti fasteignum umbjóðenda sinna svo hægt verði að leigja þær á sem hæsta verði þ.e. að hámarka arðsemi lífeyrissjóðanna á slíku félagi.

Ekki er horft til þeirrar staðreyndar að ávöxtun lífeyrissjóða á verðtryggðum eignasöfnum sínum er sú lélegasta á eftir hlutabréfum, ef gríðarlegt tap vegna gjaldmiðlasamninga og verðbætur á fasteignalánum almennings væru ekki tekin með í reikninginn. Nauðsynlegt yrði að reikna raunverulegt virði skuldabréfa í þessu samhengi.

Þeir lífeyrisþegar sem standa best í dag fóru skuldlausir á lífeyri og höfðu þak yfir höfuðið sem árangur ævistarfsins í stað innihaldslausra loforða.

Kjarasamningar hafa verið lausir í 113 daga. Verkalýðshreyfingin hefur ekki haldið einn einasta samstöðufund frá hruni en samstaða launafólks hlýtur að vera beittasta vopn alþýðunnar.

Nú tala vopnlausir smákóngar verkalýðsins um ábyrgar kröfur og að lítið sé til skiptanna, að skammarlegir kjarasamningar séu bundnir því að ábyrgjast Icesave skuldir einkafyrirtækis því ekki sé hægt að mismuna innlendum innistæðueigendum og þeim erlendu. Allt annað er lýðskrum og populismi.

Ef ég tek augun af baksýnisspeglinum og horfi í gegnum sótsvarta framrúðuna er ekki mikið til að gleðjast yfir. Verðtrygging fjárskuldbindinga mun ganga af hverju heimilinu dauðu með hverju verðbólguskotinu á fætur öðru. Afnám gjaldeyrishafta, almenn verðbólga í hinum vestræna heimi með hækkandi erlendum framleiðslukostnaði, olíuverð, fasteignamarkaður sem er að taka við sér sem er stór hluti af neysluvísitölu grunni og margt fleira.

Er aumingjaskapur Alþýðusambandsins gagnvart umbjóðendum sínum tilviljun eða vilji hinna útvöldu í að viðhalda sömu kerfisvillunni og hrundi á haustmánuðum 2008 á kostnað alþýðunnar? Er það tilviljun að þeir sem stýra viðbrögðum almúgans við gegndarlausu óréttlætinu eru hálaunamenn með gríðarleg ítök og völd í samfélaginu.

Aumingjaskapur eða ásetningur?

Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarmaður í VR.

 

 

 


Ég vona að fólk fari að rísa upp aftur.

Ég vona að fólk fari að rísa upp aftur. Breytingar koma ekki að sjálfu sér. Auðvaldinu hefur tekist að drepa niður baráttu vilja alþýðunnar með
hjálp verkalýðsforystunnar.

mbl.is Tillögu um málssókn vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málsókn gegn stjórnendum Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Bera stjórnendur einhverja ábyrgð yfir höfuð?

Það er auðvelt að blóta í hljóði og bölva ástandinu í eldhúsinu heima hjá sér.

Hér eru málin sem ég ætla að leggja fram á ársfundi Lífeyrissjóðs verslunarmanna þann 16.mars 2011.

Ég ætla að gera eitthvað í málunum og stefna stjórnendum sjóðsins og krefjast þess að sjóðsfélagar fái að vita hvernig farið er með fjármuni sjóðsins.

Stjórnendur sjóðsins hafa hingað til hafnað allri skoðun. Ég skora því á alla sjóðsfélaga sem vilja gera eitthvað í málunum að mæta á fundinn og styðja tillögu mína.

1)      Ársfundur Lífeyrissjóðs verslunarmanna 16. mars 2011 samþykkir að lagt skuli fyrir stjórn og framkvæmdastjóra sjóðsins, að upplýsa um alla fjármálagerninga sem gerðir hafa verið í nafni sjóðsins og nema hærri upphæð en kr.150.000.000,- á árunum 2004-2011.  Skal rækilegt yfirlit sett saman um þetta og gert sjóðsfélögum aðgengilegt á heimasíðu sjóðsins.  Jafnframt skal þeim sjóðsfélögum sem óska nánari upplýsinga um einstaka fjármálagerninga sem eru umfram framangreinda fjárhæð, veittar allar upplýsingar og gögn er að einstökum viðskiptum lúta.

2)       Fyrirhuguð er málssókn fyrir dómstólum þar sem leitast verður við að fá skorið úr um persónulega ábyrgð einstakra stjórnarmanna og stjórnenda lífeyrissjóðsins. Aðalfundur Lífeyrissjóðs verslunarmanna 16. mars 2011 samþykkir að kosta málsókn Ragnars Þórs Ingólfssonar sjóðsfélaga í Lífeyrissjóði verslunarmanna á málefnum er varða gjaldmiðlasamninga og lánveitingar lífeyrissjóðsins til tengdra aðila á árunum 2004-2011. Samþykkir ársfundurinn að sjóðurinn greiði málskostnað vegna málsóknar Ragnars Þórs Ingólfssonar, enda skili hann ítarlegu yfirliti um skiptingu kostnaðarins að málarekstri loknum. 

Ragnar Þór Ingólfsson

Sjóðsfélagi í Lífeyrissjóði verslunarmanna.

 

 


Geta stjórnendur fyrirtækja notað almannafé til að kaupa sér óflekkað mannorð?

Endurbirti hér grein um málið sem ég skrifaði í 27.September 2009 og varpar ljósi á afstöðu formanns VR til málsins á þeim tíma.

Eftir að við gerðum athugasemdir og kærðum til FME, skipun Brynju Halldórsdóttir í Stjórn Lífeyrissjóð Verslunarmanna, eftir að hún sat í stjórn gamla Kaupþings og bar þannig ábyrgð á einu stærsta gjaldþroti heimssögunnar, hefur hún í kjölfarið sagt sig úr stjórn LV..

Stjórnarformaður Lífeyrissjóðs Verslunarmanna.

Kristinn Örn formaður VR lagði mikla áherslu á að Ragnar Önundarson yrði skipaður stjórnarformaður LV. Við vorum nokkur í stjórninni sem töldum þessa skipan vera glórulausa enda vissum við ekkert um manninn né áherslur hans og afstöðu til bankaleyndar svo fatt eitt sé nefnt, í ljósi þess að krafa félagsmanna var gegnsæi í fjarfestingum sjóðsins.

Hver er Ragnar Önundarson?

Ragnar Önundarson var áður framkvæmdastjóri Kreditkort hf, sem varð svo Borgun hf.  Hann, ásamt Halldóri Guðbjarnasyni, voru höfuðpaurarnir í stærsta viðurkennda samkeppnislagabroti Íslandssögunnar og gæti verið vafasamt að maður með þennan afbrotaferil sé ráðinn eða skipaður sem formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna.  Auðvitað er batnandi mönnum best að lifa, en það er rétt rúmlega ár síðan hann var látinn víkja sem framkvæmdastjóri frá Borgun vegna samkeppnislagabrotana. 

Þar sem samkeppnislagabrotin voru viðurkennd lögbrot, setur það spurningarmerki við hæfi stjórnarformannsins.  Sáttin sem náðist við Samkeppniseftirlitið fólst í því að kortafélögin greiddu 735 mkr. sekt, m.a. gegn því að Samkeppniseftirlitið sendi málin ekki áfram til ríkissaksóknara, að öðrum kosti hefði ríkissaksóknari líklega ákært stjórnendur og ábyrgðarmenn, sem hefðu yfir höfði sér hugsanlega fangelsisvist.  Með því að viðurkenna brotin og greiða háar sektir, sem voru greiddar úr sjóðum fyrirtækjanna og eigenda þeirra (viðskiptabankanna), fengu einstaklingarnir aflausn synda sinna og geta nú komið sér fyrir á ný í ábyrgðarstöðum. 

Geta stjórnendur fyrirtækja notað almannafé til að kaupa sig frá persónulegum ákærum og dómum og fengið óflekkað mannorð í kaupbæti?

Það sem vekur upp spurningar, er að Kristinn Örn formaður VR treysti þessum manni 100% til að fara með eftirlaunasjóð okkar og gerir enn. Kristinn vissi af þessu máli þegar hann skipaði Ragnar Önundarson sem stjórnarformann LV en lét stjórn VR ekki vita af vafasömum bakgrunni hans.

Ragnar Önundarson hefur neitað sjóðsfélögum um sjálfsagðar upplýsingar um fjárfestingar sjóðsins og telur okkur vera að biðja sig um að fremja lögbrot, þrátt fyrir álit FME sem styður þessa upplýsingagjöf og telur hana þjóna hagsmunum sjóðsfélaga fyrst og fremst. 

Það er greinilega ekki sama hver biður Ragnar Önundarson um að brjóta lög! 

Upplýsingar um sáttina sem gerð var eftir samkeppnislagabrot Ragnars eru hér:

http://www.samkeppni.is/samkeppni/upload/files/samkeppniseftirlit/akvardanir/2008/akvordun4_2008_brot_greidslumidlunar_hf.-_kreditkorts_hf._og_fjolgreidslumidlunar_hf._a_bannakvaedum_samkeppnislaga.pdf

Önnur grein um sama mál eftir að formaður VR og Ragnar Önundarson svöruðu grein minni. Þeir vændu mig meðal annars um að vera vanheill á geði. Greinin birtist 27 október 2009.

 

Það voru ódýr svör hjá Ragnari Önundarsyni að hann hafi ekki verið aðili málsins.  En það sem hann gerir er athyglisvert, hann segir að samkeppnislagabrotin hafi verið á vegum og ábyrgð eigenda og stjórnarmanna.  Ef við skoðum það aðeins nánar, þá er hann með þessu að ásaka og beina ábyrgðinni á þessum viðurkenndu samkeppnislagabrotum að fyrrum stjórnarmönnum Borgunar hf. (áður Kreditkort hf.), sem voru m.a. þessir:
Birna Einarsdóttir  (núverandi bankastjóri Íslandsbanka), sat fyrir Glitnir árið 2007 og tók þ.a.l. þátt í samkomulaginu við Samkeppniseftirlitið
Finnur Sveinbjörnsson  (núverandi bankastjóri Nýja Kaupþings), sat fyrir Landsbanka Íslands á árinu 2008
Haukur Oddsson  (núverandi forstjóri Borgunar), var stjórnarformaður árið 2006, sat fyrir Glitnir.

Spurning hvort það væri tilefni fyrir Blaðamenn að skoða þessi svör aðeins nánar, hvort þessir aðilar eru á sama máli varðandi hver stóð á bakvið og beri ábyrgð á þessum viðkurkenndu samkeppnislagabrotum.  Það eitt að Ragnar Önundarson er að beina ábyrgðinni frá sér,og að þessum aðilum þarfnast nánari skoðun.  Ef Ragnar Önundarson hefur rétt fyrir sér, þá eru þessir aðilar vanhæfir í sínum núverandi störfum og það er í sjálfu sér stórmál.  Mér finnst þó líklegra að þessir aðilar verjist þessum ásökunum og beini ábyrgðinni aftur að Ragnari…, þar sem Ragnar Önundarson var gerandinn í þessu máli og hugsanlega án vitundar stjórnarmanna.

Málið endaði með sátt, eins og Ragnar Önundarson segir í grein sinni í Mogganum 29 sept., en hann nefndi ekki að sáttin fól í sér að félögin viðurkenndu samkeppnislagabrot, sem skv. Samkeppniseftirlitinu voru langvarandi og víðtæk ólögmæt samráð, eða mjög alvarleg brot á 10. og 11. gr. samkeppnislaga sem voru til þess fallin að valda verulegri röskun á samkeppni, brotin voru framin af ásetningi og höfðu það m.a. að markmiði að koma keppinauti út af markaði, brotin náðu yfir langt tímabil’. 

Eins og forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir var þetta mál fast á eftir olíufélagamálum í alvarleika.  Þá fól sáttin í sér að málið yrði ekki sent áfram til ríkissaksóknara, en þar hefði Ragnar Önundarson orðið formlegur málsaðili og fengið sinn andmælarétt (og væntanlega fengið sinn dóm fyrir).  Þetta er kannski það alvarlegasta í þessu máli, að kortafélögin og eigendur þeirra borguðu fyrir að málið yrði ekki sent áfram til ríkissaksóknara, en það er ótrúlegt að það sé hægt að semja um slíkt. 

Það mætti því segja að kortafélögin hafi greitt fyrir það að Ragnar Önundarson héldi sínu frelsi og yrði ekki persónulega refsað.  Það að Ragnar Önundarson teljist fyrir vikið ekki vera málsaðili, þrátt fyrir að hafa verið annar höfuðpaurinn og gerandinn í þessum lögbrotum, staðfestir það að fyrirtæki geti brotið af sér án þess að framkvæmdastjóri beri neina ábyrgð af því.  Þetta eru mjög hættuleg skilaboð og ég efast um að menn sætti sig við að hafa mann, ekki bara með slíkan bakgrunn, heldur sérstaklega með slíkt mat sem stjórnarformann lífeyrissjóðs Verslunarmanna.

Ragnar Þór Ingólfsson 

Stjórnarmaður í VR.

 

 


Konungur Lýðskrumsins!

Í stað þess að svara málefnalegum og gagnrýnum spurningum kjósa verkalýðskóngarnir (milljónaklúbburinn) að tala sig í kringum hlutina með slíkum hætti að umbjóðendur þeirra sitja ringlaðir eftir. Þeir kjósa að fela sig á bakvið þögnina sem umlikur handónýta verkalýðsforystuna og fílabeinsturninn sem þeir búa í. 

Guðmundur Gunnarsson formaður rafiðnaðarsambandsins og vara stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum Stöfum fer hamförum gegn þeim sem opna á sér munninn gagnvart lífeyrissjóðunum og leyfa sér að gagnrýna þá. Hann talar um heilindi og vönduð vinnubrögð hjá stjórnendum lífeyrissjóðanna þá sérstaklega hjá sínum lífeyrissjóði,Stöfum, þar sem hann er vara stjórnarmaður. Allir sem halda öðru fram eru lýðskrumarar af verstu sort.

Af því tilefni er ég með spurningu til Guðmundar sem hann hefur fengið í athugasemda færslur sínar en eyðir spurningunni jafnharðan út og ég set hana inn. Reyndar hefur Guðmundur og aðrir samkóngar hans fengið ráðleggingar PR-þræla sinna séð að spurningum frá mér verði alls ekki svarað með opinberum hætti, hverjar sem þær kunna að vera. Því hef ég ákveðið að spyrja hann aftur á heimasíðu minni og þannig með áberandi og opinberum hætti. 

Af hverju eru starfsmenn N1 skyldaðir til að borga í lífeyrissjóðinn Stafi? Er það vegna þess að stærsti einstaki skuldari Stafa er N1?

Samkvæmt samtali mínu við stjórnarmann Stafa sem einnig er starfsmaður N1, þá fóru þessar stærstu lánveitingar sjóðsins ekki fyrir stjórn. Eru þetta faglegu vinnubrögðin með sparifé launafólks sem þú, Guðmundur Gunnarsson, ert alltaf að tala um? Getur þú sem varastjórnarmaður í Stöfum lífeyrissjóði svarað mér hvort samþykktir og vinnureglur sjóðsins voru brotnar og eru þetta vinnubrögðin sem tíðkast hjá lífeyrissjóðum almennt? Hver er skuldastaða N1 og hverjar eru tryggingar, ef einhverjar eru, í skuldabréfalánum sjóðsins til N1? N1 er skuldsett langt umfram verðmæti og samkvæmt mínum heimildum eru skuldabréfalán Stafa, aftast í kröfuröðinni.

Hverjar verða raunverulegar heimtur þessara lána?

Í ársskýrslu Stafaá bls.15 kemur fram að N1 er langstærsti skuldari sjóðsins, síðan er farið yfir afskriftir á skuldabréfum frá hruni sem sýnir að Stafir voru í nákvæmlega sömu fjárfestingavitleysunni og aðrir sjóðir. 

Úr Samþyktum og vinnureglum Stafa lífeyrissjóðs. 

5.5 Stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans. Stjórnin skal fjalla um allar meiriháttar ákvarðanir varðandi stefnumótun og starfsemi sjóðsins. Hún skal annast um að nægjanlegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna sjóðsins. Stjórn sjóðsins ræður framkvæmdastjóra, ákveður laun hans og önnur starfskjör og setur honum starfsreglur. Stjórn sjóðsins ræður forstöðumann endurskoðunardeildar eða semur við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila til að annast skipulagningu innri endurskoðunar. Stjórn skal einnig móta innra eftirlit lífeyrissjóðsins og skjalfesta eftirlitsferla.

5.5.2 Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins í samræmi við mótaða stefnu og fyrirmæli sem stjórn hefur gefið. Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn til sjóðsins. Framkvæmdastjórinn er ekki kjörgengur sem stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum. Ákvarðanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar skal framkvæmdastjóri aðeins taka með sérstakri ákvörðun stjórnar eða samkvæmt áætlun sem samþykkt hefur verið af stjórninni. Sé ekki unnt að bera meiriháttar ákvarðanir undir stjórnarfund, skal haft samráð við formann stjórnar og aðra stjórnarmenn eftir föngum. Slíkar ákvarðanir skal síðan taka fyrir á næsta stjórnarfundi.

5.7 Stjórnarmaður lífeyrissjóðs eða framkvæmdastjóri má ekki taka þátt í meðferð máls ef hann hefur hagsmuna að gæta sem kynnu að fara í bága við hagsmuni sjóðsins. Sama gildir ef um er að ræða ákvarðanir sem tengjast fyrirtæki þar sem stjórnarmaður kann að eiga umtalsverðra hagsmuna að gæta sem eigandi, stjórnarmaður eða starfsmaður. Skylt er þeim, sem í hlut á, að upplýsa um aðstæður sem valda kunna vanhæfi samkvæmt framansögðu.  

5.7.1 Stjórn sjóðsins og framkvæmdastjóri mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna, umfram aðra eða á kostnað sjóðsins.

Í stað þess að stappa stálinu í launafólk og standa í lappirnar, tala verkalýðskóngarnir um ábyrgar kröfur og hversu lítið sé til skiptanna. Í stað þess að efla samstöðu ala þeir á meðvirkni,uppgjöf og hræðslu.

Þeir eru Konungar Lýðskrumsins?

Ragnar Þór Ingólfsson

Stjórnarmaður í VR


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband