16.12.2009 | 16:26
Verð ég líka rekin?
Stjórn VR samþykkti í dag vantraust á Bjarka Steingrímsson Varaformann VR.
Ástæða þess má rekja til ræðu sem hann flutti á austurvelli þar sem hann vann sér það til saka að gagnrýna verkalýðsforystuna og gera nákvæmlega það sem hann sagðist ætla að gera þegar hann bauð sig fram, og vann yfirburðar sigur, í síðustu VR kosningum.
Ég og Bjarki höfum gagnrýnt verkalýðsforystuna harðlega fyrir að taka ekki afstöðu í mikilvægum hagsmunamálum launþega svo sem verðtryggingu,myntkörfulánum,bílalánum og fáránlegum skattaálögum sem engu skiluðu nema aukinni kaupmáttarrýrnun og hækkun húsnæðlána.
Þessi lögvarði þjófnaður á eignum almennings í skjóli verkalýðshreyfingarinnar verður ekki liðinn mikið lengur.
Það hlakkar sjálfsagt í verkalýðskóngunum sem náðu góðu höggi á góðan mann í dag.
Verði þeim að góðu!
Þetta sýnir okkur að við erum á hárréttri braut.
Dapurleg framkoma við Bjarka sem hefur sýnt mikin kjark,þor og frumkvæði.
Vil um leið óska varaþingmanni framsóknarflokksins og tækifæris sinnanum Ástu Rut Jónasdóttur, velfarnaðar í nýju embætti varaformannns. Vonandi heyrum við eitthvað frá henni á næstuni, svona til tilbreytingar.
Ræðan mín á Austurvelli, sjá hér en þetta er það sem ASÍ klíkan þolir ekki að heyra né sjá en er að okkar mati sjálfsögð krafa.
Ætli ég sé næstur?
Kveðja
Ragnar Þór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
15.12.2009 | 10:26
Ræðan mín á Austurvelli 12/12.
Virðing og Réttlæti? Þetta eru stór orð. Hvernig náum við fram réttlæti ? Hvernig fáum við þá virðingu sem við eigum skilið.
Virðing og réttlæti fæst ekki fyrir flugpunkta eða heima í stofu.
Það er fullreynt að stóla á þá sem þiggja dágóðan hlut af launum okkar til að sinna hagsmunagæslu fyrir okkar hönd.
Við fáum ekkert upp í hendurnar gott fólk.
Við verðum að gera þetta sjálf.
Það hjálpar okkur engin.
Við horfum upp á stórfelldan þjófnað í fasteignum landsmanna í formi verðbóta og myntkörfulána.
Hverjir hirða þýfið?
Bankar og Lífeyrissjóðir hafa stórlagað eignastöðu sína með því að nota verðbætur húsnæðislána og stökkbreytt myntkörfulán til að breiða yfir tapið á útrásarbullinu.
Lífeyrissjóðirnir eiga að tryggja okkur lífeyri. En ekki með því að stela af okkur milljónum með vinstri til að borga okkur nokkrar krónur með þeirri hægri.
Heimilin eru okkar mikilvægasti lífeyrir og öryggisnet. Ef sjóðirnir tapa á braski sínu þá eiga fasteignir okkar að vera öryggisnetið sem grípur okkur. OKKUR en ekki banka og lífeyrissjóði.
Við þurfum að afnema Verðtryggingu tafarlaust og setja þak á vexti.
Þetta er eina leiðin til að þrýsta á að peningamálum verði stýrt hér af skynsemi með almanna hag að leiðarljósi í stað þess að gera það með rassgatinu. Með rassgatinu í þágu útvaldra á kostnað almennings eins og gert hefur verið síðastliðna áratugi.
Verkalýðsforystan skuldar launafólki að berjast fyrir afnámi verðtryggingar. Þetta er óuppgert loforð síðan vísitölutrygging launa var afnumin fyrir rúmlega 25 árum síðan, með einu pennastriki.
Er ekki komin tími til að standa við það loforð?
Stöðugleiki þarf að vera allra hagur ekki bara hins almenna.
Verðtrygging er mannanna verk og það eru engir aðrir sem geta tekið hana af.
Hagfræðingar ASÍ sem styðja þetta krabbamein sem er að éta upp heimilin innan frá spyrja, hvað á að koma í staðinn.
Ég segi: EKKI NEITT ! það er komin tími á að fjármagnseigendur taki ábyrgð á gjörðum sínum.
Það eru þeir sem hafa skapað þann óstöðugleika og það ástand sem við okkur blasir í dag og það eru þeir sem eru varðir á kostnað almennings. Við höfum borgað brúsann alltof lengi.Við höfum borgað brúsann í 25 ár.
Það eru yfir 30 lífeyrissjóðir sem taka við lögbundnu 12% iðgjaldi af launum alls vinnandi fólks.
Af hverju alla þessa sjóði?
Ekki þurfa norðmenn marga olíusjóði svo mikið er víst.
Við borgum 37,2% í skatt.Við borgum 12% í lífeyrissjóð 7% í Tryggingagjald
Við borgum í Stéttarfélagög, Sjúkrasjóð, Orlofssjóði,Starfsmenntunarsjóði,endurmenntunar,símenntunar- og endurhæfingasjóði til SA/ASÍ.
Hvaða nöfnum sem þetta nú allt saman heitir borga launafólk og atvinnurekendur nálægt 60% af heildarlaunum sínum í einhvers konar skatt ef launatengd gjöld eru tekin með í reikningin.
Í síðustu kjarasamningum var samið um enn einn sjóðinn sem heitir endurhæfingarsjóður sem hefur þann tilgang að fækka öryrkjum á kostnað öryrkja.
Þessi sjóður kemur til með að hafa um 3000 milljónir til ráðstöfunar. Hver ætli stjórni þessum sjóð? Gylfi Arnbjörnsson, Vilhjálmur Egilsson og co.
Þetta er enn eitt skrefið í átt að einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar.
Þetta er enn eitt skrefið í átt að því að þeir sem greiða ekki til stéttarfélaga verður gróflega mismunað.
Er ekki komið nóg af sjóðum?
Aðilar vinnumarkaðarinns og lífeyrissjóðirnir eru orðnir Ríki í Ríki sem keppast um stærri og stærri hlut af launum almennings.
Hverjar eru kröfur aðila vinnumarkaðarins í dag, á meðan heimilin standa í ljósum logum?
Kröfurnar eru yfirráð yfir atvinnuleysistryggingasjóði. Sem þýðir að 7% tryggingagjald færist frá Ríkinu yfir til aðila vinnumarkaðarins. Þetta hefur ekkert að gera með hag atvinnulausra heldur völd yfir stærri sneið af kökunni.
Er ekki komin tími til að vinna fyrir okkur? Okkur sem borgum laun þessara verkalýðsgæðinga.
Ekki var neyslusköttunum mótmælt sem engu skiluðu nema hækkun húsnæðislána !
Ekki kom til greina að skoða skattlagningu lífeyris sem er líklega eina raunhæfa leiðin til að hlífa heimilunum.
Forystusauðir ASÍ styðja verðtryggingu,fagna aðkomu AGS og ríkisábyrgð á Icesave sem verður líklega síðasti naglinn í líkistu velferðar á íslandi eins og við þekkjum hana í dag.
Fyrir hverja er þetta fólk að vinna?
Ég segi NEI við AGS
Ég vil frekar lifa á fiski, en sem máltíð á diski, hjá þessu hyski.
Hér er rekið samfélag útvaldra sem græða á kostnað almennings í landinu. Gróðin er engin snilld og hinir útvöldu eru engir snillingar.
Gróðinn er þýfi. Gróðinn er lögvarinn blóðpeningur.
Hinir útvöldu eru nútímavæddir þjófar og þjófnaðurinn fer fram í skjóli bankaleyndar og þagnarskyldu. Þjófnaðurinn fer fram um hábjartan dag beint fyrir framan nefið á okkur undir verndarvæng ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins.
Verkalýðshreyfingin er að velta yfir 10 milljörðum á ári, rekstrarkostnaður er um 2 milljarðar.
Lífeyrissjóðirnir eru að velta um 300 milljörðum á ári og rekstrarkostnaður um 4 milljarðar.
Það fer um 60% af heildar launum okkar í skatta og önnur launatengd vel falin gjöld.
Gleymum því ekki að VIÐ almenningur erum ríkið og VIÐ eigum lífeyrissjóðina, og það erum VIÐ sem greiðum í stéttarfélögin.
Það erum Við sem getum breytt þessu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
9.12.2009 | 12:20
Framtakssjóður Íslands.
Gott framtak eða sama bullið?
Fulltrúar sextán lífeyrissjóða innan vébanda Landssamtaka lífeyrissjóða hafa stofnað formlega, Framtakssjóð Íslands, nýtt fjárfestingarfélag sem ætlað er að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs í kjölfar falls fjármálakerfisins.
Lífeyrissjóðir landsmanna voru notaðir sem opnar pyngjur útrásar ofurhuga og ekki verður betur séð en að sami hákarla hópurinn og stjórnaði gengdarlausum fjárfestingum lífeyrissjóðanna í útrásarvitleysunni standi á bakvið þennan sama sjóð.
Fyrir mig sem hef gagnrýnt þessa menn,þetta kerfi og þessar fjárfestingar eru þetta ekkert annað en Úlfar í sauðagæru.
Af hverju gerðu lífeyrissjóðirnir ekki tilboð í öll húsnæðislán bankanna, sem þeir hefðu eflaust getað fengið með töluverðum affölum til hagsbóta fyrir sjóðina og almenning í landinu svo fátt eitt sé nefnt.
Það fylgja því ekki mikil völd í viðskiptalífinu að byggja þjónustu íbúðir fyrir aldraða sjóðsfélaga eða fjárfesta í húsnæðislánum sem teljast með öruggari verðtryggðum fjárfestingum að ríkisskuldabréfum frátöldum.
Völdin sem felast í því að stjórna svona sjóð, þar sem fjarmagn á markaði er af skornum skammti, eru gríðarleg.
En hverjir eru í stjórn þessa sjóðs?
Dæmi: Ragnar Önundarson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs Verslunarmanna.
Kristinn Örn formaður VR lagði mikla áherslu á að Ragnar Önundarson yrði skipaður stjórnarformaður LV. Við vorum nokkur í stjórninni sem töldum þessa skipan vera glórulausa enda vissum við ekkert um manninn né áherslur hans og afstöðu til bankaleyndar svo fatt eitt sé nefnt, í ljósi þess að krafa félagsmanna var gegnsæi í fjarfestingum sjóðsins. Það kom svo á daginn að Ragnar hefur barist harkalega gegn sjálfsögðu gegnsæi og séð til þess að sjóðurinn er lokaðri sjóðsfélögum en áður. Þrátt fyrir álit FME sem styður kröfur okkar sjóðsfélaga.
Hver er Ragnar Önundarson?
Ragnar Önundarson var áður framkvæmdastjóri Kreditkort hf, sem varð svo Borgun hf. Hann, ásamt Halldóri Guðbjarnasyni, voru höfuðpaurarnir í stærsta viðurkennda samkeppnislagabroti Íslandssögunnar og gæti verið vafasamt að maður með þennan afbrotaferil sé ráðinn eða skipaður sem formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Auðvitað er batnandi mönnum best að lifa, en það er rétt rúmlega ár síðan hann var látinn víkja sem framkvæmdastjóri frá Borgun vegna samkeppnislagabrotana.
Það eru því ódýr svör hjá Ragnari Önundarsyni að hann hafi ekki verið aðili málsins. En það sem hann gerir er athyglisvert, hann segir að samkeppnislagabrotin hafi verið á vegum og ábyrgð eigenda og stjórnarmanna. Ef við skoðum það aðeins nánar, þá er hann með þessu að ásaka og beina ábyrgðinni á þessum viðurkenndu samkeppnislagabrotum að fyrrum stjórnarmönnum Borgunar hf. (áður Kreditkort hf.), sem voru m.a. þessir:
Birna Einarsdóttir (núverandi bankastjóri Íslandsbanka), sat fyrir Glitnir árið 2007 og tók þ.a.l. þátt í samkomulaginu við Samkeppniseftirlitið
Finnur Sveinbjörnsson (núverandi bankastjóri Nýja Kaupþings), sat fyrir Landsbanka Íslands á árinu 2008
Haukur Oddsson (núverandi forstjóri Borgunar), var stjórnarformaður árið 2006, sat fyrir Glitnir.
Spurning hvort það væri tilefni fyrir Blaðamenn að skoða þessi svör aðeins nánar, hvort þessir aðilar eru á sama máli varðandi hver stóð á bakvið og beri ábyrgð á þessum viðkurkenndu samkeppnislagabrotum. Það eitt að Ragnar Önundarson er að beina ábyrgðinni frá sér,og að þessum aðilum þarfnast nánari skoðun.
Málið endaði með sátt, eins og Ragnar Önundarson segir í grein sinni í Mogganum 29 sept., en hann nefndi ekki að sáttin fól í sér að félögin viðurkenndu samkeppnislagabrot, sem skv. Samkeppniseftirlitinu voru langvarandi og víðtæk ólögmæt samráð, eða mjög alvarleg brot á 10. og 11. gr. samkeppnislaga sem voru til þess fallin að valda verulegri röskun á samkeppni, brotin voru framin af ásetningi og höfðu það m.a. að markmiði að koma keppinauti út af markaði, brotin náðu yfir langt tímabil.
Eins og forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir var þetta mál fast á eftir olíufélagamálum í alvarleika. Þá fól sáttin í sér að málið yrði ekki sent áfram til ríkissaksóknara, en þar hefði Ragnar Önundarson orðið formlegur málsaðili og fengið sinn andmælarétt (og væntanlega fengið sinn dóm fyrir). Þetta er kannski það alvarlegasta í þessu máli, að kortafélögin og eigendur þeirra borguðu fyrir að málið yrði ekki sent áfram til ríkissaksóknara, en það er ótrúlegt að það sé hægt að semja um slíkt.
Það mætti því segja að kortafélögin hafi greitt fyrir það að Ragnar Önundarson héldi sínu frelsi og yrði ekki persónulega refsað. Það að Ragnar Önundarson teljist fyrir vikið ekki vera málsaðili, þrátt fyrir að hafa verið annar höfuðpaurinn og gerandinn í þessum lögbrotum, staðfestir það að fyrirtæki geti brotið af sér án þess að framkvæmdastjóri beri neina ábyrgð af því. Þetta eru mjög hættuleg skilaboð og ég efast um að menn sætti sig við að hafa mann, ekki bara með slíkan bakgrunn, heldur sérstaklega með slíkt mat sem stjórnarformann lífeyrissjóðs Verslunarmanna. Og stjórnarmann í hinum nýja Framtakssjóð Íslands.
Hvað ætli samkeppnislagabrotin hafi kostað almenning í landinu fyrir utan þær 735 milljónir sem voru greiddar í sektir úr almennings hlutafélögunum til að kaupa stjórnendur frá dómi?
Getum við treyst Ragnari Önundarsyni fyrir framtíðar lífeyri okkar?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)