Fjárhættuspil lífeyrisforstjóra.

Voru gjaldeyrisskiptasamningar lífeyrissjóðanna óskiljanleg áhættusækni, lögbrot eða varnir?

Fyrir 30 árum var krónunni skipt út fyrir nýja. Þá kostaði dönsk króna eina íslenska og amerískur dollar rúmar sex krónur. Í dag kosta þessir sömu gjaldmiðlar 20 falt meira en þeir gerðu árið 1981 þrátt fyrir gjaldeyrishöft í landinu.

Þetta segir heilmikið um efnahagsstjórn landsins þó ekki sé ný saga að peningamálum þjóðarinnar hafi verið stýrt með óæðri endanum um áratugaskeið í þágu útvaldra vildarvina stjórnmálaelítunnar?

Það sem vekur mig til umhugsunar eru gjaldmiðlasamningar lífeyrissjóðanna rétt fryrir bankahrunið 2008. Sjálfur er ég sjóðfélagi í lífeyrissjóði Verslunarmanna (hér eftir LV) og hef gert fjölmargar athugasemdir við þessa samninga og mun rekja ástæður þess með ofansagt í huga.

Lífeyrissjóðirnir hafa nefnt þetta óskiljanlega gjaldeyrisbrask "gjaldeyrisvarnarsamninga" til að verjast gengissveiflum vegna skuldbindinga í íslenskum krónum. Gott og vel að skuldbindingar lífeyrissjóðanna eru í íslenskum krónum með verðtryggðu loforði langt inn í framtíðina. En kjarni málsins er einkar athyglisverður.

Erlendar eignir LV voru í árslok 2007 84,4 milljarðar og heildareignir sjóðsins 266,5 milljarðar. Iðgjöld í sjóðinn voru 16,3 milljarðar 2008 og útgreiðlur aðeins 4,8 milljarðar vegna mikillar söfnunar sem nú á sér stað innan kerfisins. Í því samhengi eru um 83% sjóðfélaga 49 ára og yngri sem þýðir að sjóðurinn þarf ekki að selja eignir til að standa undir skuldbindingum sínum næstu 18-20 árin eða á meðan iðgjöldin standa undir útgreiðslum.

Erlendar eignir LV voru á þessum tíma 32% af heildareignum og má því ætla að sjóðurinn þurfi ekki að losa erlendar eignir sínar næstu 30 árin að minnsta kosti eða yfir sama tímabil og erlendir gjaldmiðlar hafa 20 faldast í verði gagnvart íslensku krónunni þrátt fyrir gjaldeyrishöft.  

Lífeyrissjóðir eru langtíma fjárfestar og gengis sveiflur jafna sig út á mun skemmri tíma en skuldbindingar sjóðsins gefa nokkurn tíma til kynna. Eru því erlendar eignir sjóðanna í raun verðtryggðar þar sem gengisþróun skilar sér á endanum út í verðlagið. Einnig er nauðsynlegt að dreifa áhættu með erlendum fjárfestingum til að geyma ekki öll eggin í sömu körfunni. 

Lífeyrissjóðir hafa gott tryggingafræðilegt svigrúm til að mæta skammtímasveiflum á mörkuðum. Þ.e. að sjóðirnir hafa heimild til að reka sig með 10-15% halla/afgang í ákveðin tíma til að mæta sveiflum eða 5% vikmörk í 5 ár.

Þá kemur stóra spurningin.

Af hverju í ósköpunum gerði LV gjalmiðlasamninga rétt fyrir hrun upp á 93,2 milljarða króna eða mun hærri upphæð en erlendar eignir sjóðsins gáfu tilefni til?

Hvað og hverja var raunverulega verið að verja?

Braut forstjóri sjóðsins lög og samþykktir sjóðsins?

Tap sjóðsins vegna samninganna hleypur á tugum milljarða króna en hluta tapsins var skuldajafnað á móti kröfum sjóðsins í skuldabréfum bankanna en eftirstöðvar eru að mestu óuppgerðar í bókum sjóðsins og ríkir töluverð óvissa um endanlegt tap.

Samþykktir sjóðsins kveða á um að allar ráðstafanir á fjármunum sjóðfélaga sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar skuli gerðar með sérstakri heimild frá stjórn sem ekki var gert í þessu tilfelli samkvæmt svari þeirra stjórnarmanna sem ég hef rætt við. Einnig segir í lögum nr.36/10 um skyldutryggingar lífeyrisréttinda að lífeyrissjóðir megi eingöngu gera afleiðusamninga sem draga úr áhættu sjóðsins sem er erfitt að álykta að svo hafi verið að ofansögðu. Því til stuðnings kemur fram í 4.bindi rannsóknarskýrslu alþingis á bls. 131-134 að óskiljanleg áhættusækni LV við gerð slíkra samninga hljóti að skýrast á von stjórnenda um skjótfengin gróða sem aftur brýtur í bága við samþykktir sjóðsins og lög.

Í ljósi tengsla forstjórans fyrrverandi við þau fyrirtæki sem tóku stöðu gegn íslensku krónunni vakna upp fleiri spurningar en svör og ein þeirra spurninga er hvort forstjórinn fyrrverandi hafi vísvitandi ætlað að færa fjármuni frá sjóðnum til þeirra fyrirtækja sem gerðu samninga á móti í gegnum banka sem hafði sterk tengsl við sjóðinn og öfugt.

Enn eitt dæmið um dæmalausa stjórnsýslu á íslandi er að forstjórinn fyrrverandi Þorgeir Eyjólfsson sem tapaði milljarða tugum á mjög svo vafasömu gjaldeyrisbraski LV skuli hafa verið ráðin til seðlabanka íslands til að stýra afnámi gjaldeyrishafta.

Stjórnendur LV sem eru margir þeir sömu og voru í stjórn sjóðsins þegar umræddir samningar voru gerðir hafa neitað að skoða málið frekar. Þeir hafa einnig alfarið hafnað að veita sjóðfélögum aðgang að samningunum og forsendum þeirra.

Það er ekki ný bóla að kerfið þráast við að draga stjórnendur fyrirtækja eða sig sjálfa til ábyrgðar á gjörðum sínum. Þvert á móti keppast þeir við að byggja upp og verja sömu kerfisvilluna á sömu brauðfótum og hrundi, í skjóli trúnaðar, bankaleyndar og algjörrar þagnarskyldu.

Ragnar Þór Ingólfsson 

Stjórnarmaður í VR og sjóðfélagi í Lífeyrissjóði Verslunarmanna.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband