28.10.2009 | 10:11
Varðhundar Verkalýðsins !
Það leikrit sem við höfum orðið vitni að undanfarna daga og vikur varðandi frið á vinnumarkaði,stöðugleikasáttmálann og kjarasamninginn er með hreint ólíkindum.
Ef við lítum heilstætt á málin er þolinmæði launafólks gjörsamlega á þrotum gagnvart ASÍ og Ríkisstjórninni.
Gylfi fagnar því að kjarasamningar halda ??
Kjarasamningar halda til nóvemberloka 2010 og engir fyrirvarar nema verðbólgumarkmið í LOK samningstímans??
3,5% launahækkun!!! Hvað verður kaupmáttur "sem er í frjálsu falli" búinn að lækka á næstu 12 mánuðum?
Af hverju tekur verkalýðsforystan ekki á eftirtöldum málum?
1.Verðtryggingin.
2.Kaupmáttarrýrnunin.
3.Skammarleg úrræði á höfuðstólshækkunum húsnæðislána og greiðsluvanda heimilana.
4.Sinnuleysi og umburðarlyndi verkalýðsforystunnar á peningamokstri og afskriftum til handa fjármagnseigendum og kúlulánabröskurum á kostnað skattgreiðenda.
5.Sinnuleysi og umburðarlyndi verkalýðsforystunnar á bensínskatti,sykurskatti og áfengisskatti,sem engu skilaði, sem fer beint í neysluvísitöluna.
6.Skammarleg úrræði stjórnvalda á skuldavanda heimila með greiðslujöfnun og enn einni vísitölunni. Er það hægt, að tengja greiðsluvandan við launavísitölu, ef laun hækka, hækka skuldir? ASÍ þegir þunnu hljóði!
ASÍ fagnar Icesave sem jafngildir skuldaklafa sem margir af okkar færustu hagfræðingum telja útilokað að greiða.
ASÍ fagnar aðkomu AGS sem er með öllu óskiljanlegt miðað við forsendur samkomulagsins.
ASÍ ætlar að reka okkur eins og lömb til slátrunar inn í Evrópusambandið!
Hvernig á fólk að geta tekið upplýstar ákvarðanir um ESB aðild þegar okkar aðal hagsmunagæsla er búinn að því fyrir okkar hönd, ásamt því að jarðsyngja heimilin og launafólk með því að verja úrhelta kjarasamninga sem gerðir voru árið 2007, fyrirvaralaust?
Það versta sem gat gerst í stöðunni var að samningar héldust og launafólk tekur á sig stórfellda kaupmáttarrýrnun næstu 12 mánuði,og þarf svo að semja upp á nýtt. Best væri að byrja STRAX!
Verkalýðshreyfingin er með allt niðrum sig og rúin trausti.
Við eru nokkur úr Stjórn VR sem ætlum að leggja til að kosið verði um aðild okkar að ASÍ í opinni kosningu félagsmanna VR.
Ég sat ársþing ASÍ og mér leið vægast sagt eins og sirkusapa með spiladós.
Þessu er greinilega stjórnað af þremur mönnum sem vísa öllum tillögum frá sem falla þeim ekki í geð, eða falla ekki að öllu ofangreindu.
Þessir varhundar heita Gylfi Arnbjörnsson, Guðmundur Gunnarsson og Sigurður Bessason.
Öllum þeim sem dirfist að vera ekki sömu skoðunar og þeir eða hafa svo mikið sem gagnrýnt aðferðir þeirra og leiðir, eru hálfvitar sem ekkert vita í sinn haus.
Guðmundur Gunnarsson hefur gengið hvað lengst í þeim efnum, kallað þingmenn illa gefna og þá sem dansa ekki með ASÍ elítunni,eins og sirkusapar í bandi, lýðskrumara sem allt þykjast vita.
Guð hjálpi launafólki, fjölskyldum þeirra og heimilum í höndum þessara manna.
Hér með dirfist mér að gagnrýna þessa kónga sem sitja með sína 800 og 900 þúsund kalla í laun plús fríðindi í hljýjunni efst í fílabeinsturninum,og jarðsungu launafólk með síðustu kjarasamningum og stöðugleikasáttmála.
Ég vona svo sannarlega að dagar VR innan st-ASÍ séu taldir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
27.10.2009 | 10:12
Geta stjórnendur fyrirtækja keypt sér óflekkað mannorð 2 hluti.
Það voru ódýr svör hjá Ragnari Önundarsyni að hann hafi ekki verið aðili málsins. En það sem hann gerir er athyglisvert, hann segir að samkeppnislagabrotin hafi verið á vegum og ábyrgð eigenda og stjórnarmanna. Ef við skoðum það aðeins nánar, þá er hann með þessu að ásaka og beina ábyrgðinni á þessum viðurkenndu samkeppnislagabrotum að fyrrum stjórnarmönnum Borgunar hf. (áður Kreditkort hf.), sem voru m.a. þessir:
Birna Einarsdóttir (núverandi bankastjóri Íslandsbanka), sat fyrir Glitnir árið 2007 og tók þ.a.l. þátt í samkomulaginu við Samkeppniseftirlitið
Finnur Sveinbjörnsson (núverandi bankastjóri Nýja Kaupþings), sat fyrir Landsbanka Íslands á árinu 2008
Haukur Oddsson (núverandi forstjóri Borgunar), var stjórnarformaður árið 2006, sat fyrir Glitnir.
Spurning hvort það væri tilefni fyrir Blaðamenn að skoða þessi svör aðeins nánar, hvort þessir aðilar eru á sama máli varðandi hver stóð á bakvið og beri ábyrgð á þessum viðkurkenndu samkeppnislagabrotum. Það eitt að Ragnar Önundarson er að beina ábyrgðinni frá sér,og að þessum aðilum þarfnast nánari skoðun. Ef Ragnar Önundarson hefur rétt fyrir sér, þá eru þessir aðilar vanhæfir í sínum núverandi störfum og það er í sjálfu sér stórmál. Mér finnst þó líklegra að þessir aðilar verjist þessum ásökunum og beini ábyrgðinni aftur að Ragnari
, þar sem Ragnar Önundarson var gerandinn í þessu máli og hugsanlega án vitundar stjórnarmanna.
Málið endaði með sátt, eins og Ragnar Önundarson segir í grein sinni í Mogganum 29 sept., en hann nefndi ekki að sáttin fól í sér að félögin viðurkenndu samkeppnislagabrot, sem skv. Samkeppniseftirlitinu voru langvarandi og víðtæk ólögmæt samráð, eða mjög alvarleg brot á 10. og 11. gr. samkeppnislaga sem voru til þess fallin að valda verulegri röskun á samkeppni, brotin voru framin af ásetningi og höfðu það m.a. að markmiði að koma keppinauti út af markaði, brotin náðu yfir langt tímabil.
Eins og forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir var þetta mál fast á eftir olíufélagamálum í alvarleika. Þá fól sáttin í sér að málið yrði ekki sent áfram til ríkissaksóknara, en þar hefði Ragnar Önundarson orðið formlegur málsaðili og fengið sinn andmælarétt (og væntanlega fengið sinn dóm fyrir). Þetta er kannski það alvarlegasta í þessu máli, að kortafélögin og eigendur þeirra borguðu fyrir að málið yrði ekki sent áfram til ríkissaksóknara, en það er ótrúlegt að það sé hægt að semja um slíkt.
Það mætti því segja að kortafélögin hafi greitt fyrir það að Ragnar Önundarson héldi sínu frelsi og yrði ekki persónulega refsað. Það að Ragnar Önundarson teljist fyrir vikið ekki vera málsaðili, þrátt fyrir að hafa verið annar höfuðpaurinn og gerandinn í þessum lögbrotum, staðfestir það að fyrirtæki geti brotið af sér án þess að framkvæmdastjóri beri neina ábyrgð af því. Þetta eru mjög hættuleg skilaboð og ég efast um að menn sætti sig við að hafa mann, ekki bara með slíkan bakgrunn, heldur sérstaklega með slíkt mat sem stjórnarformann lífeyrissjóðs Verslunarmanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.10.2009 | 15:58
Ríki í Ríki !
Fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram á Alþingi gerir ráð fyrir 87,4 milljarða halla. Niðurskurður útgjalda verður 43 milljarðar og skattahækkanir 61 milljarður.Hvernig eiga skuldsettar fjölskyldur að þola frekari álögur á meðan kaupmáttur launa er í frjálsu falli?
Nýtum fármagnið sem er komið inn í hagkerfið með skattlagningu lífeyrisiðgjalda fyrirfram.
12% iðgjöld lífeyris og séreignasparnaður verði skattlagðir strax (ekki afturvirkt) sem skilar ríkissjóði tekjum sem jafngilda um 6% hækkun á tekjuskattstofni frá fyrsta degi, án þess að nokkur taki eftir því, tímabundið í 5 ár með stofnun lífeyrisdeildar um skattlausan sparnað.
Þessir peningar eru komnir inn í hagkerfið og gera engum gagn eins og sakir standa, því er algerlega glórulaust af ríkinu að lána lífeyrissjóðunum þessa peninga til áratuga, þegar svo illa árar. Vafalítið eiga sjóðirnir eftir að tapa þeim margfalt áður en þeim verður skilað aftur í hagkerfið. Ef þeim verður þá einhvern tíman skilað!
þetta er miklu betri leið en frekari álögur á samborgara okkar og heimilin sem eiga nóg með sitt. Kaupmáttur er í frjálsu falli og úrræði ríkisins á skuldavanda heimilanna er til háborinnar skammar. Ætlum við að þurka út margar kynslóðir af virkum neytendum? Hvað verður um fyrirtæki án viðskiptavina?
Einn þáttur hrunsins var allt of mikið fjármagn á alltof litlum markaði. Of mikið framboð á fjármagni virkaði þenslu hvetjandi á gengi hlutabréfa osfrv. í bland við glæpsamlega meðferð fárra á þessum alltof miklu fjármunum. Ef lífeyrissjóðir hefðu minna fjármagn er líklegt að ávöxtun þeirra yrði betri.
Hingað til hafa varðhundar núverandi kerfis barist gegn öllum breytingum, barist gegn gegnsæi, afnámi verðtryggingar og talið fyrirfram skattlagningu lífeyris breyta kerfinu í gegnumstreymiskerfi með gríðarlegri birgði á þá sem greiða framtíðar skatta. Þessir sömu varðhundar vilja leggja sama ríki til fé vegna framkvæmda og auka þannig skuldabyrgðina enn frekar í formi ríkisábyrgðar. Þegar uppi er staðið er um nákvæmlega sama hlutinn að ræða nema að þeir sem stjórna sjóðunum vilja stjórna framtíðartekjum ríkisins líka.
Ekki voru þeir fáanlegir til að byggja íbúðir fyrir aldraða sjóðsfélaga sem hefði komið sér vel í dag. Þeir hefðu betur hlustað á menn eins og Helga í Góu og Sigurð Oddsson verkfræðing sem skrifaði um Líf-bygg og sýndi fram á arðsemi þess að fjárfesta í húsnæði fyrir sjóðsfélaga sem lokið hafa vinnuskyldu.
Hver verður tekjuskattur eftir 30 ár? Við höfum nú þegar fengið stóran hluta af framtíðar skatttekjum ríkissjóðs lánaðar sem hafa tapast að stórum hluta.
Ávöxtun lífeyrissjóða er lögbundin 3,5% raunávöxtun samkv. lögum um skyldutryggingu frá 1998. Síðan þá hafa sjóðirnir verið ávaxtaðir með tæplega 3% raunávöxtun miðað við þeirra útgáfu af tapinu sem er ótrúverðug í meira lagi. Ávöxtun verðtryggðra innláns reikninga með binditíma hjá stærstu bönkunum þremur var að meðaltali 5,96% síðustu 10 árin. Þetta þýðir að venjulegir innlánsreikningar gáfu 100% betri ávöxtun en lífeyrissjóðirnir, með alla ofurlaunaforstjórana sem keppast nú við að fela tapið og fegra bækur í skjóli ASÍ og SA.
Lífeyrissjóðirnir,SA og ASÍ (Almannavarnir Samfylkingarinnar á Íslandi) Hafa þvertekið fyrir þessar hugmyndir.Eina rökrétta skýringin á því eru völd á kostnað almennings. Hin skýringin er sú að lífeyriskerfið stendur á það miklum brauðfótum að ef þessi leið verður farin þurfa sjóðirnir að losa verðlausar "eignir" sínar mun fyrr en ella. Í dag geta þeir notað iðgjöldin til þess að greiða fólki lífeyri í stað þess að losa eignirog geta það næstu 10-15 árin. Sem gerir þeim kleyft að afskrifa tapið á útrásarsukkinu yfir jafnlangan tíma.
Lífeyrissjóðirnir hafa gagnrýnt gegnumstreymiskerfið harðlega og talið það kerfi leiða af sér stórkostleg vandræði þegar fram í sækir.
Þessir sömu lífeyrissjóðir eru nú að undirbúa stórfelldar lánveitingar með því að fjármagna verkefni á vegum ríkisins.
Með þessu erum við að lána sjálfum okkur peninga sem við þurfum að borga í formi skatta þegar fram í sækir. Þessar framkvæmdir verða gerðar með bakábyrgð ríkisins og eru í raun fáránlegur feluleikur við raunveruleikan. Lífeyrissjóðirnir geta alveg eins lánað ríkinu peninga og ríkið framkvæmt.
ASÍ vill ekki réttláta leiðréttingu höfuðstóls húsnæðislána nema setja á afskriftareikninga í nafni þeirra sem skulda. Þetta er gert svo að samfylkingin geti haldið sínum plönum við AGS í þeirri trú að við fáum flýtimeðferð inn í Evrópusambandið. Ekki hefur ASÍ gagnrýnt hundruð milljarða greiðslur ríkisins í peningamarkaðssjóðina og enn síður skattaálögur sem hækka höfuðstól húsnæðislána.Afskriftir skulda skekkja blekkingarmyndina sem stjórnvöld hafa málað fyrir AGS og ESB.
ASÍ treystir því að lífeyrissjóðirnir nái góðri ávöxtun næstu 40 árin og leggja allt undir með töfralausnum evópusambandsins án þess að útskýra sérstaklega hvernig þær töfralausnir töfra okkur frá skuldavandanum. Geta evran og ESB látið erlendar skuldir okkar og jöklabréfavandan hverfa? Ríkið greiðir 5,5% vexti af Icesave en lánar lífeyrissjóðunum framtíðar skatttekjur á innan við 3%.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)