Stöðugleikasáttmáli fyrir hverja ?

Gerð stöðugleikasáttmála ASÍ og SA eru líklega ein mestu umboðssvik verkalýðsforystunnar gagnvart launafólki eftir afnám vísitölutryggingar launa árið 1983 og verðtrygging lána var látin halda sér.

Fyrir hverja er stöðugleikinn?

Með þessu glórulausa og algerlega innihaldslausa væntingaplaggi um betri heim og sól í haga, afsalaði verkalýðsforystan sér réttinum til að segja samningum upp einhliða og byrja upp á nýtt. Þess í stað var farið í að verja samninga frá árinu 2007 sem eiga ekkert sameiginlegt við það ástand sem við stöndum frami fyrir í dag.

Launahækkunin sem fékkst í kjölfar samkomulagsins voru skitnar 6.500 krónur á mánuði sem fyrirtækin hafa tæplega efni á að borga nema skera frekar niður, jafnvel með uppsögnum. Þessi hækkun var farin út um gluggan áður en blekið var þornað í formi verðbóta húsnæðislána,hækkandi vöruverðs í bland við skattahækkanir og aðrar álögur frá ríki og sveitarfélögum sem hafa svo enn meiri hækkunar áhrif á neysluvísitölu svo fátt eitt sé nefnt. ASÍ lýtur undan.

Það er með öllu óskiljanlegt hvernig þessu var þröngvað í gegn án þess að leyfa félagsmönnum að kjósa um þennan vafasama sáttmála sem að mínu mati ætti að vera í ruslinu þar sem hann á heima.

Mér er enn í fersku minni þegar varaforseti ASÍ lagði mikla áherslu á að félagsmenn ættu síðasta orðið á trúnaðarráðsfundi VR. Það voru orðin tóm því á öðrum fundi með landsambandi verslunarfélaga kom fram að það þýddi ekkert að fara með þetta í atkvæðagreiðslu ef hin ASÍ félögin myndu ganga að þessari vitleysu. Einn talsmaður samkomulagsins sagði félagsmenn svo vitlausa að þeim væri ekki treystandi til að kjósa um þetta mál, þeir héldu að það væri verið að kjósa um Icesave.

Hvernig er hægt að gera stöðugleikasáttmála þegar þeir valdameiri hafa hag af óstöðugleika.

Á meðan ríkið dælir fjármagni í peningamarkaðssjóðina svo að fjármagnseigendur tapi sem minnstu, brenna fasteignir almennings upp á verðbólgubálinu sem aftur lagar eignastöðu banka og lífeyrissjóða til mikilla muna eftir útrásarfylleríið. Hér er um grófa mismunun á ferð. ASÍ lýtur undan sem fyrr.

Í stað þess að fara tafarlaust í vinnu við að bjarga heimilum þessa lands, nýta krafta okkar til afnáms verðtryggingar eða setja tafarlaust þak á verðbætur, finna raunhæfa lausn á vanda einstaklinga og heimila vegna myntkörfulána þar sem fjármögnunarfyrirtæki og bankar ganga mjög harkalega fram, lýtur ASÍ undan. 

Þetta er skammarlegt fyrir hreyfinguna sem ætti að taka hagsmunasamtök heimilanna sér til fyrirmyndar enda eru þau samtök að gera meira fyrir fólkið í landinu en félögin sem raka inn félagsgjöld til að leigja okkur niðurgreidda sumarbústaði og aðra þjónustu.

Ég sat einn af mörgum fundum sem stjórnarmaður í VR og hlustaði á plön og væntingar ASÍ til ársins 2013. Þar möluðu hagfræðingur ASÍ ásamt forystumönnum sambandsins um horfur á íslenskum vinnumarkaði og efnahagslífi ásamt leiðum út úr vandanum. Það er ekkert í þeirra plönum næstu árin sem tekur á helstu vandamálum launafólks nema innganga í Evrópusambandið.

Er friðurinn á vinnumarkaði og umboðssvikin til að stjórnvöld þurfi ekki að hafa verkföll eða lausa kjarasamninga hangandi yfir sér meðan okkur verður þvingað inn í evrópusambandið. Verður launafólk og fjölskyldur þeirra komnar hálfa leið fram af klettabrúninni þegar evrópusamningnum verður veifað framan í okkur sem töfralausn frá eymd og volæði?

Verður afnám verðtryggingar notuð sem skiptimynt fyrir atkvæði inn í evrópusambandið?

Sú framtíð sem blasir við ungum fjölskyldum þessa lands er að lífeyrissjóðir og bankar eru smá saman að taka eignarnámi í gegnum verðbætur húsnæðislána, aleigu fólks.

Er þjóðhagslega hagkvæmt að leggja slíkar birgðir á launafólk, að sjá meirihluta launamanna undir fertugu þurfa að byrja upp á nýtt eða stefna í þrot. Hvað gerist þegar stórskuldugir árgangar fara á lífeyri? Hvað kostar það samfélagið að halda okkur uppi á lífeyri þegar við skuldum meirihluta í fasteignum okkar? Þeir sem eru með myntkörfulán verða kanski komnir með jákvæða eiginfjárstöðu um fimmtugt þ.e.skulda markaðsvirði fasteigna sinna.

ASÍ og SA stjórna sameiginlega lífeyrissjóðum okkar og hafa þvertekið fyrir að skattleggja lífeyrisgreiðslur fyrirfram sem gæti skilað ríkissjóði tekjum sem jafngilda um 5% hækkun á tekjuskattstofni frá fyrsta degi án þess að nokkur taki eftir því. Nema lífeyrissjóðirnir sem þyrftu að losa vonlausar bréfaeignir mun fyrr til að standa undir lífeyrisskuldbindingum. Þá fyrst kæmi raunverulegt eignaverðmæti sjóðanna í ljós enda stórlega ofmetnar.Lífeyrissjóðirnir voru ekki með neinar sólarvarnir fyrir útrásarsólinni sem skilið hefur eftir sig rjúkandi brunarústir allstaðar sem hún skein og hún skein glatt á sjóðina svo mikið er víst.

Ef almenningur er að bíða eftir töfralausnum frá félögum sem þiggja um 1% af launum okkar mánaðarlega í félagsgjöld þá er það óþarfa bið.

VR greiðir 28 milljónir á ári til Landssambands Ísl.Verslunarfélaga sem eru regnhlífasamtök VR sem Varaforseti ASÍ stýrir en hún á sæti í yfir 20 nefndum og stjórnum víðsvegar í stjórnkerfinu.

Svo greiðum við aðrar 75 milljónir til ASÍ fyrir yfirumsjón hagsmunagæslu launafólks en þar fer fremstur í flokki Evrópusinnin og Samfylkingarmaurinn Gylfi Arnbjörnsson. Hvernig væri ef VR myndi greiða Hagsmunasamtökum heimilanna nokkrar milljónir en þeim virðist vera meira umhugað um framtíð okkar en ASÍ sem gerir ekkert annað en að verja helstu kosningamál samfylkingarinnar sem eru Evrópusambandið, lánalengingar og annað úrræðaleysi. Skrifstofu og stjórnunarkostnaður VR var 404 milljónir á síðasta ári. Við hljótum að geta gert betur en frjáls hagsmunasamtök heimilanna sem starfa af hugsjóninni einni saman. Eða hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Þór Gunnarsson

Heyr! heyr!

Gunnar Þór Gunnarsson, 21.8.2009 kl. 11:04

2 identicon

Veistu ekki, að verkalýðsforystan hefur aðeins áhyggjur af stöðugleika í brúnni, ekki á dekkinu?

Pjetur Hafstein Lárusson (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 11:06

3 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Herbert

Það sem meira er,  við greiðum sérstaklega í gegnum launatengd gjöld í orlofssjóði sem kemur ofan á félagsgjöldin. Í gegnum launatengdu gjöldin sem engin launamaður fær að sjá á launaseðli sínum er búið að semju um greiðslur í hina og þessa sjóði í gegnum árin sem verkalýðselítan stýrir og fæstir vita um.

Er ekki komið nóg?

Pjetur.

Hittir beint í mark... Góður.

Ragnar Þór Ingólfsson, 21.8.2009 kl. 11:12

4 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Þegar lífeyrissjóðunum fór að vaxa fiskur um hrygg og þá fór verkalýðsforystan að beina sjónum sínum aðallega í þá áttina. Misstu dálítið fókus á umbjóðendunum í sínu daglega vafstri. Verðtryggingarákvæðin voru síðan algjör himnasending enda þurftu þeir þá ekki einusinni að hafa viðskiptavit því þeir voru ansi vel baktryggðir af lánþegum sínum til áratuga. Bestu veð yfirleitt aðeins tekin gild.

Það skýtur kannski skökku við að verðtryggingabólan skuli vera að springa núna framan í okkur en það gerist með verðfalli krónunnar og minnkandi greiðslugetu lántakenda.

Verkalýðsforystan ASÍ amk vill að sótt verði um aðild að ESB og Evru í framhaldinu. ar er líka verið að sækja 'stöðugleika'.

Ég er hinsvegar efasemdamaður um að íslendingar geti farið í skuldbindandi samstarf við aðrar þjóðir, jafnvel þó að við getum sótt um á þeirri forsendu að við séum hæf vegna auðlinda (sem við munum hvort eð er klúðra útúr höndunum á okkur utan sem innan bandalaga) eða hernaðar og pólitísks mikilvægis vegna legu landsins gagnvart heimskautunum.

ESB er ekki óvinurinn það erum við sjálf og getuleysi okkar til að vera heiðarleg gagnvart sjálfum okkur og öðrum.

Gísli Ingvarsson, 21.8.2009 kl. 11:26

5 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Gísli

Ég hef ekki tekið endanlega ákvörðun um hvort ég telji okkur betur eða verr borgið inan ESB. Hinsvegar tel ég glórulaust að setja allt okka undir hvort sem það verður niðurstaðan eða ekki. 

Úrræðaleysið og þögnin fer hvað mest í mínar taugar.

Annars er ég sammála þér í flestum dráttum. Við höfum álika mikla trú á því að núverandi stjórn eða stjórnkerfi sem er í raun gömul tugga, stýri okkur út úr þessu skipbroti án þess að spila rassinn úr buxunum.

En það erum við sem borgum brúsan nú sem fyrr. 

Ragnar Þór Ingólfsson, 21.8.2009 kl. 11:41

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Ragnar. Ert þú ekki einn af forystumönnum hinnar "svokölluðu verklýðshreyfingar" Það er gott að geta stokkið fram á ritvöllinn og talað digurbarkalega. Hefðir þú treyst þér til að leiða samningagerð við atvinnurekendur í landinu í sumar sem leið og náð fram kjarabótum. Verst að vita þetta ekki fyrr. Við sem komum að vinnu heima í félögunum töldum að stöðugleikasáttmálinn væri illskásti kosturinn í stöðunni og vorum ekki glöð að stiga þetta skerf. Heilbrigð skynsemi sagði okkur að gera þetta og við gerðum það. Þó ólga sé innan VR sem stendur, þá er það ekki mál allra félaga í landinu. Lagið til í eigin garði og komið svo og sópið fleiri.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 21.8.2009 kl. 11:59

7 Smámynd: Júlíus Björnsson

Langtímaverðtrygging fasteignaverðtrygð íbúðalán almennings á heimamarkaði er alstaðar utan Íslands látin fylja verðlagsþróun á heimaíbúðafasteignamarkaði og stuðst við samsvarandi fasteignavísitölu til verðtryggingar til að veðið haldi sér.

Skammtímaverðtrygging [fyrirtækja aðallega lán] eru verðtryggð miðað við vístölu alþjóðlegra fjárfesta eða neysluverðsvísitölu sem mælir hækkanir á því sem hækkar mest á neyslumörkuðum hverju sinni. Talið tryggja lámarks áhættuvaxta álag samsvarandi væntingu viðskiptanna.

Stöðuleiki í viðskiptalegu tilliti eða löglegu bókhaldi er varanlegt jafnvægi í til dæmis reikningsjöfnuði.

Þetta eru hinar alþjóðlegar forsendur sem eru grunnur sem ekki er hægt að semja um.

Hinsvegar er stöðuleikin í þágu alþjóðafjárfesta fyrst og fremst og þeirra lepp fyrirtækjum.

Um 1982 voru set einokunarlög um verðtryggingarforsendu á Íslandi [í þágu alþjóðaviðskipta] og sagt til einföldunar innleidd á Íslandi hin stígvaxandi vísutöluviðmiðun alþjóðafjárfesta: neysluverðvísitala á mörkuðum.

Síðan var þetta ólöglega notað til að meta veðandlagið sem veldur í kjölfarið þessari ólöglegu eignaupptöku á almenning Íslands þegar kreppir að heimamarkaði.

Þetta eru nú skýring á hinsegin framsetningu á vöxtum íbúðafasteigna Íslendinga samborið við eðlilega og hefðbundna vaxtaframsetningu utan Íslands.

Íslenskur fræðinga almenningur sem telur að hér séu samsvarandi forsendur í gildi og erlendis er því svo miður svo lággreindur að hann skilur ekki röklegt eða löglegt samhengi hluta.  Þetta eru orðið opinbert hjá alþjóðasamfélaginu. Nýju fötin keisarans: illa grunnmenntaða fyrirfólkið. 

Júlíus Björnsson, 21.8.2009 kl. 11:59

8 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Verð að afsaka að ég er með ESB á heilanum af ýmsum ástæðum, ekki síst að þar mun virkilega takast á innri mótsetningar þjóðfélagsins og þá mun margt miður gott koma í ljós. Þess vegna tel ég þessa umsókn þarfa hvað sem hún á eftir að leiða af sér. Hitt er að 'stöðugleikinn' margumræddi er til umræðu hér og eitt aðal argúment ESB sinna t.d innan ASÍ.

(svo vildi ég að þú héldir samlíkingunni betur með tuggunni um skipbrotið: ættir frekar að segja t.d..... að sjórnin farist ekki á skerjum einkahagsmuna og klíkustjórnmála eða takist að sigla framhjá svo stórhættulegum blindskerjum) .)

Það er annars skynsamlegt að taka ekki 'endanlega' afstöðu í neinum málum en einhverntíman kemur að því að við verðum að gera upp við okkur þá ögurstund sem atkvæðið dettur oní kjörkassann (og sjá svo eftir öllu saman)

Gísli Ingvarsson, 21.8.2009 kl. 12:07

9 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Hjartanlega sammála félaga Herberti "Það er deginum ljósara að þessi svo kölluðu verkalýðsfélög eru ekki að starfa fyrir verkalýðin. Og eins og þú bendir á í upphafi pistilsins er orðið ansi langt síðan að þessi félög misstu sjónar af tilgangi sínum."  Rosalega sorglegt hversu ILLA verkalýðsforystan hefur farið með skjólstæðinga sýna síðustu 20 árin, það hefur í raun bara verið einhugur um að koma á STÖÐUGLEIKA FÁTÆKTAR, þar sem rangt skráð gengi er ávalt leiðrétt með því að fela það og rýrar þar með laun okkar um tugi prósenta.  Persónuafsláttur hefur ekki verið leiðréttur, verðtrygging ekki afnumin, í raun eru þessi ömurlegu verkalýðsfélög ítrekað að bregðast í störfum sínum.  Svo eru stjórnendur lífeyrissjóðanna okkar búnir að komast upp með það að veita "siðblindum viðskiptamönnum" milljarða lán með veði í skuldabréfunum sjálfum.  Okkar sparnaður nær ekki að ávaxta sig, hann er í raun bara afhentur "útvöldum útrásar skúrkum" sem eru innmúraðir í spillinguna!  Já þetta er því miður frekar ljót & siðblint samfélag sem við búum í, vægast sagt.

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 21.8.2009 kl. 13:09

10 identicon

Heill og sæll; Ragnar Þór; sem og, þið önnur, hér á síðu !

Í upphafi; er rétt, að minna Gísla Ingvarsson á, að AGS/ESB/NATÓ eru öll, fjandafylkingar Íslands, og íslenzkra hagsmuna.

Frú Hólmfríður Norðan kona athugi; nú er mjög brýnt, að ein 7-8 til 10% lánagreiðenda, af húsnæðislánum, þjappi sér saman um, strax; í September byrjun - og HÆTTI að greiða afborganir sínar.

Tækist það; myndi klíka þeirra Jóhönnu og Steingríms - sem valda stéttin öll, hrynja til grunna, og hægt yrði, að reisa heilbrigt samfélag hér, á ný, með forystu Byltingarráðs þjóðernissinnaðrar Alþýðu, hvert myndi hefjast handa á, að stökkva öllum svikurum; íslenzkum að uppruna, til Brussel - Í ÆFILANGA ÚTLEGÐ, gott fólk.

Segi enn, Ragnar minn. Lífeyrissjóðunum, á að lóga (ekki starfsfólkinu, samt), og sjálftöku stjórum þeirra, fleygt til Brussel, með hinum ESB gæðingunum !

Punktur !!!

Með beztu kveðjum, sem öðrum fyrri, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 14:29

11 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Að kalla þessa samningsnefnu stöðugleikasáttmála er bara klisja til að dreifa athyglinni frá ójöfnuðinum og óréttlætinu sem samkomulagið snýst í reynd um

Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.8.2009 kl. 22:17

12 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þegar valdhafarnir geta ekki útskýrt markmið sín búa þeir til nýyrð.

Stöugleikasáttmáli hljómar eins og eitthvað sem er runnið undan rifjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 22.8.2009 kl. 00:42

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þakka góð orð í okkar garð, Ragnar.  Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna erum að vonast til þess að barátta okkar verði til þess að dropinn holi steininn, en vissulega væri gott að hafa stóran bandamann eins og VR, að maður tali nú ekki um ASÍ, í þeim slag.

Marinó G. Njálsson, 22.8.2009 kl. 11:13

14 Smámynd: Jón Þór Ólafsson

Góður sem fyrr!

Jón Þór Ólafsson, 22.8.2009 kl. 11:36

15 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ragnar Þór, góð grein og gaman að sjá hana líka í sunnudagsmogganum þar sem fleiri lesa hana en hér á moggablogginu.

ASÍ yrði ögn snautlegra ef VR hefði vit á að koma sér þaðan út og hætta að styrkja ESB lið og aðra þá sem hafa komið sér fyrir í hægindum launþegahreyfingarinnar.  Á meðan einhverjir hafa atvinnu á Íslandi þarf þetta fólk ekki að hafa neinar atvinnuöryggisáhyggjur og hinn almenni launþegi.  Varaforseti ASÍ má alveg missa sitt og öll nefndarstörfin, enda yrði henni bara heilsusamlegt að kynnast grasrótinni aftur.  Í þessu samhengi dettur mér í hug bókartitill W.S.Maugham: "In The Catbird Seat".

Tek svo undir með þér að óháð VR, sem eru fjölmennustu launþegasamtökin innan ASÍ, þurfa ekki á ASÍ að halda hvort sem er.  Félagið gæti þannig ráðstafað sínum tugmilljóna aðildargjöldum í þágu félagsmanna en ekki toppstykkja ASÍ.  Í þágu félagsmanna yrði einnig rausnarlegt framlag til Hagsmunasamtaka heimilanna sem virðast starfa miklu nær hagsmunum félagsmanna en hin staðnaða stofnun ASÍ.

Kolbrún Hilmars, 23.8.2009 kl. 16:04

16 Smámynd: Kolbrún Hilmars

PS:  leiðrétti hér með "neinar atvinnuöryggisáhyggjur" sem átti að vera "sömu atvinnuöryggisáhyggjur".   Vek að auki athygli á því að ég nefndi ekki einu orði launamismuninn....

Kolbrún Hilmars, 23.8.2009 kl. 16:09

17 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Hólmfríður

Ég fylgdist vel með öllu þessu ferli og barðist á móti því að þetta yrði samþykkt frá fyrsta degi, þó ég hafi ekki skrifað um þetta fyrr en nú. Andstaða mín við þennan ömurlega gjörning er til í bókum VR frá því að umræður um málið hófust. Kaupmáttarrýrnun hefur ekki verið meiri í tuttugu ár svo þú hlýtur að vera afar stolt af árangrinum sem náðist. "Illskásti kosturinn" er einmitt nákvæmlega hugtakið sem ASÍ sauðhjörðin var mötuð á. Þ.e. að ekkert annað væri í stöðunni.

Eitt er víst kæra Hólmfríður að það eina sem þarf, er að hugsa út fyrir ramman og JÁ ég hefði treyst mér í að leiða þessar viðræður sem ég hefði stöðvað í fæðingu en ekki eitt mörgum mánuðum í svona umboðssvik. það eru til fleiri leiðir heldur en hækkun launa til að leiðrétta hlut launafólks eins og ég hef margbent á og skrifað um. Margar af þeim hugmynum fela ekki í sér frekari byrgðar á atvinnurekendur.

Skilaðu kveðju til hjarðarinnar og passaðu þig á því að villast ekki of langt frá henni.

Ragnar Þór Ingólfsson, 23.8.2009 kl. 20:18

18 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Júlíus

Gott að fá þessa vinkla hjá þér enda óþolandi þegar þessir gæðingar eru alltaf að líkja okkur við nágrannalöndin í þessum efnum.

Gísli

Hef kynnt mér marga kosti og galla við ESB. Það eru hinsvegar mjög mörgum spurningum óvarað og þá á ég ekki við fiskinn, sé ekki muninn á því hvort að kvótagæðingar maki krókin á þessu eða einhverjir aðrir úr því sem komið er:) en svona í alvöru talað þá er ég fyrst og fremst að hugsa um þau vandamál sem við stöndum frami fyrir í dag því ef að ekkert verður úr evrópusmbandsaðild þá eru engin backup plön. Stjórninn er að renna á rassgatið með að leysa vandamálin gagnvart myntkörfulánunum vegna þess að kröfueigendur eru farnir að ganga mjög harkalega á skuldarana með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og svo er ekkert í pípunum með verðtrygginguna.

Ragnar Þór Ingólfsson, 23.8.2009 kl. 20:33

19 Smámynd: Júlíus Björnsson

Verðtrygging er stytting á verðtrygging lámarksskammtímaáhættuvaxtaálags

eðlilegt að almenningur á Íslandi kalli þetta áhættuvaxtaundirlag[álag] eins og það er framsett hér á landi á áhættulausum langtíma íbúðalánum. Verðtrygging ein sér veldur tilætluðum misskilningi hér en tryggir nafnvexti [afkomu] verðbréfamiðla og braskara.   Stöðuleiki á heimamarkaði tekur mið að lágum heildarársgreiðslum 80-100% lána almennings það er íbúðafasteigna lánunum [miðað við fasteignverðsvísitölu sem fylgir innlands grunnlífskjörum] því lægri því varanlegra jafnvægi og stöðugleiki.  

Júlíus Björnsson, 23.8.2009 kl. 22:56

20 identicon

Æi,

Enn er Ragnar að fara með tóma steypu.  Veit stjórnarmaður VR ekki að félagsgjöld VR eru 0,7%?  Hvað ert þú að bjóða þínu fólki?  Fáfræði af þinni hálfu held ég.  Svo skalt þú skoð þín skrif um Lífeyrissjóð verzlunarmanna og rifja upp þína grunnskóla kunnáttu í stærðfræði (fer ekki fram á meira).  Hvert var "tap" LIVE á hruninu og hvar voru þeir í "röðinni"?  Veistu það - held ekki.

Þú ættir að skoða þína stöðu og vanda þína gagnrýni á verkalýðsforystu landsins - þú virðist þrífast á rakalausum fullyrðingum og rangfærslum.  Og því miður virðist hafa stuðningsmenn í því.

Ólán VR í að þú komst í stjórn VR voru þessi "Drottningarviðtöl" sem þú fékkst hjá Agli í Silfri Egils - hann má skammast sín.  Með þitt væl og rangfærslur og ata mann og annan auri án þess að menn gætu borið blak að höfði.

Reyndu nú að hafa vit á því að fara varlega í að gagnrýna verkalýðsforystu - reyndu að kynna þér málin (efast um að þú náir því).

H

Hlöðver Örn Ólason (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 20:47

21 Smámynd: Magnús Vignir Árnason

Sæll Ragnar og takk fyrir góða grein í Mogganum um helgina.

Góður maður benti mér á að greinin væri skyldulesning og tek ég heilshugar undir það.

En segið mér, mér fróðari menn, hvaða undanrennubangsi er þessi Hlöðver sem virðist svo uppsigað við þig, svo ekki sé nú talað um hvað honum er illa við að þú sért að grugga upp þykku og fúlu botnfallinu sem veitir honum greinilega einhverja öryggistilfinningu?   

Magnús Vignir Árnason, 24.8.2009 kl. 23:10

22 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Frábær grein hjá þér í mogganum

Jón Aðalsteinn Jónsson, 24.8.2009 kl. 23:33

23 identicon

Áríðandi tilkynning! Loksins finnst Íslendingur með bein í nefinu. 

Hér fyrir neðan má lesa frumvarp að lögum sem að mínu viti er eitt sterkasta útspil sem komið hefur fram eftir bankahrun. Nú þarf að skerpa samstöðuna hver í sínum flokki og setja þrýsting á að þetta frumvarp sofni ekki í allsherjarnefnd heldur verði að lögum. Þetta er þakkarvert framtak þessara þingmanna og gaman til að vita þegar lög um persónukjör fyrir næstu alþingiskosningar getur maður raðað þessum nöfnum ,þessum þingmönnum beint inn á atkvæðalistann.

Með bestu kveðju,

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill málsins.

137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 39 — 39. mál.

Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um samningsveð, nr. 75/1997.

Flm.: Lilja Mósesdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Björn Valur Gíslason,

Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir.

1. gr.
Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Lánveitanda sem veitir lántaka lán gegn veði í fasteign sem er ætluð til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda er ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum verðmætum lántaka en veðinu nema krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota lántaka á lánareglum. Krafa lánveitanda á lántaka skal falla niður ef andvirði veðsins sem fæst við nauðungarsölu nægir ekki til greiðslu hennar. Með lántaka er átt við einstakling. Með lánveitanda er átt við einstakling, lögaðila eða aðra aðila sem veita fasteignaveðlán í atvinnuskyni.

2. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Lögin taka til fasteignaveðlána sem stofnað hefur verið til fyrir og eftir gildistöku laga þessara.

Greinargerð.

Frumvarp þetta er samið í samræmi við samþykkt síðasta landsfundar Vinstri hreyfingarinnar ? græns framboðs. Er lagt til að fasteignaveðlán geti ekki orðið grundvöllur aðfarar í öðrum eignum lántaka en þeim sem veðréttindin taka til en í því felst frávik frá þeirri meginreglu íslensks kröfuréttar að skuldari ábyrgist efndir fjárkröfu með öllum sínum eignum. Jafnframt á lántaki að vera laus undan persónulegri ábyrgð á greiðslu lánsins ef veðið hrekkur ekki til greiðslu þess. Ekki skiptir máli hvort veðsali er lántaki eða þriðji maður.

Lánveitendur geta verið viðskiptabankar, sparisjóðir, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og aðrir aðilar sem veita fasteignalán í atvinnuskyni, þ.m.t. byggingaraðilar. Með fasteignaveðláni er átt við veðlán sem veitt er með veði í fasteign sem ætluð er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Það skilyrði er sett að lántaki sé einstaklingur.

Staða margra íslenskra heimila hefur versnað til muna í kjölfar bankahrunsins sem haft hefur í för með sér hækkun skulda, rýrnun eigna, minni tekjur og skertan lánsfjáraðgang. Fasteignaveðlán vega almennt þyngst í skuldum heimilanna. Við núverandi aðstæður er hætta á að kröfuhafar sækist eftir auknum tryggingum eða geri fjárnám í óveðsettum eignum sem ekki getur talist sanngjarnt þar sem mörg heimili hefðu efnt skuldbindingar sínar undir eðlilegri kringumstæðum. Minna má á að ýmis úrræði hafa verið lögfest sem veita skuldurum færi á að leysa úr greiðsluvanda sínum án þess að til gjaldþrotaskipta þurfi að koma.

Frumvarpinu er ætlað að gilda um fasteignaveðlánasamninga sem þegar hafa verið gerðir og óháð því hvort lánastofnun lýtur eignarhaldi hins opinbera eða einkaaðila.

Með hliðsjón af lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið sé í andstöðu við eignarréttarákvæði stjórnarskrár þar sem stærstu lánastofnanirnar eru nú í eigu ríkisins auk þess sem lögin heimila Íbúðalánasjóði að yfirtaka skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði.

Í lánaframkvæmd Íbúðalánasjóðs er ekki aðhafst frekar við innheimtu kröfu sem glatað hefur veðtryggingu nema sjóðurinn telji að krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota á lánareglu, sbr. 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 119/2003, um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Skuldarar fá þó ekki fyrirgreiðslu á nýju láni frá sjóðnum fyrr en kröfur sjóðsins á hendur þeim hafa verið greiddar eða þær afskrifaðar, sbr. 4. gr. Frumvarpið gerir eins og áður segir ráð fyrir að krafa lánveitanda sem glatað hefur veðtryggingunni við nauðungarsölu falli niður.

Til lengri tíma litið á frumvarpið að stuðla að vandaðri lánastarfsemi og hvetja til þess að lánveitingar taki mið af greiðslugetu lántaka.

B.N (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 23:37

24 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Þakka öllum innlit og athugasemdir.

Magnús

Hann Hlöðver vinur minn hefur verið fastagestur á blogginu hjá mér lengi og endurspeglar fólkið sem ég er að gagnrýna. Hann bendir réttilega á að iðgjöldin í VR eru 0,7% en þau voru lækkuð úr 1% í fyrra. Í greininni bendi ég á verkalýðsfélögin sem taka um 1% í félagsgjöld og tala um stéttarfélögin almennt. Ef hann hefði lesið greinina betur hefði hann tekið eftir þessu.

Ég mintist hinsvegar ekki einu orði á alla starfsmenntunarsjóðina sem við greiðum í , sjúkrasjóði, orlofssjóð ofl. greiðslur í alla þessa endalausu sjóði bætast ofan á félagsgjöldin í formi launatengdra gjalda sem fæstir vita af.

Við gerð stöðugleikasáttmálans var enn einum sarfmenntunarsjóðnum bætt við á kostnað almennra launahækkana.

Jón

Takk kærlega fyrir það.

Ragnar Þór Ingólfsson, 24.8.2009 kl. 23:47

25 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þessi stöðugleikasáttmáli nær greinilega ekki til afborgana af lífeyrissjóðslánum.  Þar hefur mesta hækkunin orðið á mínum lánum, þ.e.a.s afborgunin af mínu lífeyrissjóðsláni hefur hækkað miklu meira en afborgunin af húsnæðismálastjórnarlánunum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.8.2009 kl. 01:00

26 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

BN

Loksins kemur fram frumvarp sem jafnar stöðu og ábyrgð skuldara gagnvart lánveitendum.

Jóna

Þetta er einmitt það sem ég hef verið að benda á í nokkrum greinum. þ.e. Lífeyrissjóðirnir voru og eru stærstu eigendur íbúðabréfa þ.e. bréfa íbúðarlánasjóðs,íbúðabréf bankanna og síðast en ekki síst sóðsfélagalánin sem eru líklega ein öruggasta fjárfestingin á jarðkringlunni.

Lífeyrissjóðirnir hafa notað mismun á eignastöðu á milli ára sem framsetningu á uppgjöri til sjóðsfélaga. það sem fólk áttar sig almennt ekki á að inn í þessum tölum eru verðbætur. Verðbætur þessara lána sem rýrir eignahlut okkar í eigin fasteignum í bland við lækkandi fasteignaverð gerir það að verkum að sjóðirnir stórbæta stöðu sína með því að hirða einn miklvægasta lífeyrin okkar sem er þak yfir höfuðið.

Það er ömurlegt til þess að vita að sjóðirnir sjálfir áttu stóran þátt í þessu ástandi, sjóðirnir okkar.

Ragnar Þór Ingólfsson, 25.8.2009 kl. 07:02

27 identicon

Bara örstutt:  Lækkun félagsgjalda VR var samþykkt á aðalfundi 26.03. 2007 og tók þá gildi með það sama, að því er ég best veit - ekki í fyrra (2008).  Svo það sé á hreinu.  Mörg stéttarfélög komu í kjölfarið - veit ekki hver enn halda 1% en þau eru varla mörg.

Hlöðver Örn Ólason (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 19:36

28 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Takk fyrir það Hlöðver

Kveðja

Ragnar

Ragnar Þór Ingólfsson, 25.8.2009 kl. 21:30

29 identicon

Sæll nafni, er ekki komið að Indverjamyndbandi?

S.Ragnar (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband